Það er alveg að koma vor hér í París. Í Jardin des Plantes voru það reyndar ekki blóm sem mynduðu bleika litinn á gamla kirsuberjatrénu úr fjarlægð, heldur glænýir sprotar sem höfðu yfir sér bleika slikju. En við sáum að ekki væri langt í að brumið færi að springa út. Og á feisbúkk sé ég að ég talaði um bleiku blómin í götunni minni 11. mars í fyrra, en þá höfðu þau gulu forsythiurnar glatt mig í u.þ.b. viku. Þetta hlýtur allt að fara að koma. Alla vega er orðið mjög hlýtt og það angar allt af vori.
Ég skrapp út í garðinn minn, skoðaði og spekúleraði og ætla að hefja spírun fræja vonandi í þessari viku. Það verður gert hér heima, enda með afbrigðum heitt í sólríkri íbúðinni. Þar sem við förum ekki til Íslands í sumar, stefni ég á hörkuræktun þetta árið. Ég ætla að reyna að koma upp rabbabarabeði, en ég er ekki viss hvernig það er gert. Get ég farið og sníkt afleggjara hjá öðrum eða þarf ég að sá? Kemur í ljós…
Ég hef ekkert komist að ráði áfram í ritgerð. Er byrjuð að þýða aðra skáldsögu, ritstjórnarstarfið á knúz.is tekur slatta tíma ásamt því að nú er skólafrí (2 vikur) og mér finnst ég verða að sinna krökkunum og gera alls konar með þeim, milli þess sem ég leiði ferðalanga um torg og garða. Ritgerðin mallar samt þarna inni í mér og bíður þess að fá að brjótast út. Ég sver. Ég lofa. Og ég treysti því að um leið og það gerist, hverfi hálsbólgan sem hefur mallað í mér undanfarið. Komið og farið. Með slími eða án. Með verkjum eða án.
Annars má segja internetið hafi breyst í vígvöll í gær. Ég nenni ekki að skrifa um það, annað en að ég dáist að þoli þeirra sem leggja til atlögu gegn kvenhatri, sem mörgum virðist þykja algerlega réttmætt og jafnvel bara hið besta mál. Af hverju má almennt níða konur niður? Af hverju þykir brandari eins og þessi fyndinn: „Hvað þarf marga svertingja til að skúra fótboltavöll? Engan, konan getur bara gert það!“ Hvað er að? Af hverju virðast jafnvel ungir karlmenn vera algerar karlrembur (ég nenni ekki að fjalla um fauskana, þeir geta átt sig)?
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir