Sarpur fyrir febrúar, 2012

Vorið sem er að koma – vígvöllur sem þarf knúz

Það er alveg að koma vor hér í París. Í Jardin des Plantes voru það reyndar ekki blóm sem mynduðu bleika litinn á gamla kirsuberjatrénu úr fjarlægð, heldur glænýir sprotar sem höfðu yfir sér bleika slikju. En við sáum að ekki væri langt í að brumið færi að springa út. Og á feisbúkk sé ég að ég talaði um bleiku blómin í götunni minni 11. mars í fyrra, en þá höfðu þau gulu forsythiurnar glatt mig í u.þ.b. viku. Þetta hlýtur allt að fara að koma. Alla vega er orðið mjög hlýtt og það angar allt af vori.

Ég skrapp út í garðinn minn, skoðaði og spekúleraði og ætla að hefja spírun fræja vonandi í þessari viku. Það verður gert hér heima, enda með afbrigðum heitt í sólríkri íbúðinni. Þar sem við förum ekki til Íslands í sumar, stefni ég á hörkuræktun þetta árið. Ég ætla að reyna að koma upp rabbabarabeði, en ég er ekki viss hvernig það er gert. Get ég farið og sníkt afleggjara hjá öðrum eða þarf ég að sá? Kemur í ljós…

Ég hef ekkert komist að ráði áfram í ritgerð. Er byrjuð að þýða aðra skáldsögu, ritstjórnarstarfið á knúz.is tekur slatta tíma ásamt því að nú er skólafrí (2 vikur) og mér finnst ég verða að sinna krökkunum og gera alls konar með þeim, milli þess sem ég leiði ferðalanga um torg og garða. Ritgerðin mallar samt þarna inni í mér og bíður þess að fá að brjótast út. Ég sver. Ég lofa. Og ég treysti því að um leið og það gerist, hverfi hálsbólgan sem hefur mallað í mér undanfarið. Komið og farið. Með slími eða án. Með verkjum eða án.

Annars má segja internetið hafi breyst í vígvöll í gær. Ég nenni ekki að skrifa um það, annað en að ég dáist að þoli þeirra sem leggja til atlögu gegn kvenhatri, sem mörgum virðist þykja algerlega réttmætt og jafnvel bara hið besta mál. Af hverju má almennt níða konur niður? Af hverju þykir brandari eins og þessi fyndinn: „Hvað þarf marga svertingja til að skúra fótboltavöll? Engan, konan getur bara gert það!“ Hvað er að? Af hverju virðast jafnvel ungir karlmenn vera algerar karlrembur (ég nenni ekki að fjalla um fauskana, þeir geta átt sig)?

Lifið í friði.

út fyrir boxið

Fangelsi eru eitt af því bjánalegasta sem ég veit. Ég gleðst aldrei þegar ég les um fangelsisdóma, ekki einu sinni þegar verstu fjársvikarar eru dæmdir. Manni léttir vissulega þegar raðnauðgari er tekinn úr umferð eða byssumaður er yfirbugaður, en þetta dæmi með réttarhöld og fangelsun er einhvern veginn gersamlega afdankaður og úreldur máti til að takast á við vandamálin. Enda virðist vandamálum bara fjölga á sama tíma og fangelsin eru sífellt að stækka. [röng klisja, burt með hana! En það er eitthvað alls ekki að virka samt.] Hvað þarf að gera til að fólkið með völdin sjái þetta og byrji að hugsa út fyrir boxið?

Á feisbúkk las ég í gær að Ragna Árnadóttir þáverandi dómsmálaráðherra hafi verið spurð að því í fréttum RÚV fyrir tveimur árum síðan, hvort hún hefði ekki áhuga á að fá að kíkja í skýrsluna sem nefnd á vegum norska ríkisins vann um stefnuna sem Portúgal hefur tekið í baráttunni við eiturlyfjamarkaðinn og kanna hvort við gætum ekki lært eitthvað af Portúgölum. Hennar svar var víst stutt: „Nei, ekki að ræða það!“

Í Portúgal var ákveðið fyrir tíu árum síðan að leggja af refsingar fyrir eiturlyfjaneyslu, ekki bara kannabis, heldur öll eiturlyf. Upphæðin sem fór í að reka fíknó var tekin og notuð í að efla til muna aðstoð við fíkla og hjálpa þeim út úr vítahringnum. Í staðinn fyrir að henda þeim í fangelsi, þar sem þeir halda áfram að nota eiturlyf, fara þeir í meðferð.
Samkvæmt frétt á forbes.com hefur fíklum fækkað um helming, þ.e.a.s þessum „alvöru“ fíklum, fókið sem sprautar sig og getur verið hættulegt sjálfu sér og umhverfi sínu. Þið getið lesið nánar um þetta hér.

Svo minni ég á knúz.is, en þar birtist einmitt í gær frásögn af konum sem fara mjúku leiðina í því að byggja upp frið milli múslima og gyðinga á sinn hátt. Njótið heil.

Lifið í friði.

Ferð til Normandí

Ég hef ákveðið að taka að mér hópferð til Normandí í ágúst. Hún er til sölu hjá Guðmundi Jónassyni ehf.

Ég get lofað því að þetta verður skemmtileg ferð, söguleg, menningarleg og alltaf er sérlega vel tekið á móti Íslendingum hér í Frakklandi, sérstaklega þegar fyrir hópnum fer frönskumælandi manneskja sem þekkir vel til.

Bókið tímanlega!

Lifið í friði.

Fuck Paris

Rakst á þessa gömlu mynd í smá grúski áðan.

Krot á kassa bóksalans við Signu

Krot á kassa bóksalans við Signu

Lifið í friði.

úthverfamyndir og -pælingar

Um daginn fór ég í smá gönguferð í frosti og stillu. Það hafði snjóað örlítið um nóttina og þökin voru hvít. Ég komst ekki út fyrr en síðla eftirmiðdags og sólin og vegfarendur höfðu því brætt burt fölið af gangstéttunum.
Leið mín lá niður að skipaskurðinum Canal de l’Ourc, sem liggur inn til Parísar, undir hina ógurlegu hraðbraut sem umvefur borgina eins og kyrkislanga. Þegar maður kemur undan hraðbrautinni er maður kominn inn í Villette-garðinn sem er eitt af skemmtilegri útivistarsvæðum Parísar. Þar er litríkt mannlíf, því í útjaðri borgarinnar býr minna fínt fólk, sem oft er alls konar á litinn.

Þið sjáið hvernig bakkarnir breytast frá því að vera iðnaðarsvæði í notkun í að vera yfirgefið (stóra byggingin hefur verið yfirgefin síðan ég flutti til Pantin, árið 2000) og svo yfir í að vera íbúðabyggð. Í glænýja húsinu er m.a.s. veitingahús með terrössu út að skipaskurðinum, svo þetta er nú allt að koma. Hægt og rólega. Það er nú einu sinni kreppa.

Við köllum úthverfi þau bæjarfélög sem liggja umhverfis París sjálfa. Ef sama hefð ríkti á Íslandi, væru Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Seltjarnarnes og Mosfellsbær kölluð úthverfi Reykjavíkur. Mín reynsla er sú að íbúarnir verða sármóðgaðir ef maður vogar sér slíkt. Hér er oft talað um sameiningu, og byrjað er að spá í það sem kallast Grand Paris, Stóra París. Unnið er hörðum höndum að því að bæta samgöngur milli bæjarfélaganna og tengingar við París og eitt fyrirtæki stendur að samgöngunum, RATP.

Þegar ég flutti frá París sjálfri, í úthverfið Pantin, var það vegna þess að við höfðum ekki efni á að leigja inni í borginni. Okkur fannst þetta hræðilegt, höfðum bæði alltaf búið miðsvæðis. Það voru vonbrigði að finna ekkert sem okkur hæfði innan borgarmúranna.
Nú erum við komin til Romainville, einum bæ fjær en Pantin, og erum alsæl hérna. Auðvitað er gott að vera í hringiðunni, en hér heyrist varla í bílaumferð, nágrannarnir eru svo yndislegir að það er nánast vonlaust að flýta sér, maður verður að spjalla um veðrið við gamla fólkið eða dást að því hvað börnin stækka hratt í hvert skipti sem maður hittir einhvern.
Ég held svei mér þá að ef ég yrði skyndilega forrík og gæti keypt (eða leigt) inni í París, myndi ég heldur bara fá mér eitthvað stærra og betra hér. Ég er náttúrulega úthverfabarn sjálf, alin upp í Breiðholtinu. Samt játa ég hreinskilnislega að ég trúi ekkert endilega fólki sem segist ánægt í Grafarvoginum. Í mér býr lítill púki sem þykist vera miðbæjarrotta.

Njótið myndanna.

Lifið í friði.

Sigríður Guðmarsdóttir

Mér finnst með ólíkindum hve margir sækjast eftir kjöri í biskupsembættið, hefði eiginlega haldið að miðað við hvað gustað hefur um það embætti undanfarið, þætti fólki fýsilegri kostur að halda sér við sitt brauð. En nú eru frambjóðendur orðnir sjö og svo sem allt í lagi með það. Alla vega ekki hægt að kvarta yfir úrvalinu.

Eins og sjá má í könnun sem DV er að gera þessa dagana hefur Sigríður Guðmarsdóttir yfirburði yfir hina kandídatana, hún er komin með yfir 200 atkvæði eða „læk“, þegar þetta er ritað. Sá næsti á eftir er með 170.
Velgengni hennar kemur mér ekki á óvart. Hún hefur verið áberandi undanfarið sem málsvari þeirra sem krefjast skýrra svara og úrlausna í ýmsum hitamálum. Bæði kynferðisafbrotamálum innan kirkjunnar, réttindi samkynhneigðra og ýmislegt fleira. Hún skrifar góða pistla á síðuna sína: sigridur.org, sá síðasti fjallar um það að hún lítur á sig sem efni í góðan leiðtoga. Þar sést vel hversu mikill töffari hún er.

Ég hef í raun engan sérstakan áhuga á biskupskjöri eða starfi kirkjunnar þannig lagað séð. En mér finnst samt, meðan kirkjan hefur þó þau völd sem hún hefur, mikilvægt að leiðtoginn sé hæf og vönduð manneskja. Fyrir mér er Sigríður einmitt þannig manneskja.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha