Lifið í friði.
“J’ai envie de vous écrire, mais je n’ai rien à vous dire” [Voltaire]
Grænt og bækur
Stundum líður mér eins og að þegar ég komi að tjá mig á blogginu, sé það svona eins og þegar ég fer út í garðinn minn. Bloggið, sem einhvern tímann áður var vettvangur fyrir öskur og óp um allt sem miður fór og átti að laga er núna bara svona kósí horn fyrir mig til að prjóna hugleiðingar eða bara ekki neitt. Bara vera.
Garðurinn minn lofar hvílíkt góðu. Moltan frá því í fyrra lítur vel út, Jósep (á ég ekki eftir að segja frá Jósep sem ég lánaði helminginn af garðinum?) gerði svaka fínan kassa sem ég ætla að nota fyrir jarðarberjaplöntur, búin að koma honum fyrir og blanda moldu í hann. Ég ætla að reyna að finna rabbarbara (hef hvergi séð í búðunum) og er búin að sá fyrir fullt af tómatplöntum, gúrkum, baunum og kryddi og alls konar. Ég er með þetta hér um alla íbúð og læt oggulitlar plönturnar dilla sér samkvæmt ráðum Alnetsins með því að snúa pottunum svo plönturnar snúi sér í leit að birtu – þetta kallast spírunarbootcamp á heimilinu og krökkunum finnst þetta óborganlega skemmtilegt.
Mikið óskaplega sakna ég Gunnars Hrafns þegar ég skrifa Alnetið. Hann var sá eini sem skildi húmorinn, eða alla vega sá eini sem kommenteraði á þá orðanotkun. Hann efaðist fyrst, en fór svo að nota það sjálfur, enda er Alnetið eitthvað svo fullkomið orð yfir netið. Mikið óskaplega getur maður saknað. Og mikið ógurlega er það nú stundum eiginlega bara vont. Systir hans sagði mér að hún reyndi stundum að taka helluna sem hún bæri stöðugt í fanginu og setja hana á bakið, það létti burðinn. Ég reyni að hugsa eins. Og nú er ég búin að nota orðið Alnet aftur. Hef strikað það út hingað til, því það var bara of sárt. Kannski er ég búin að taka skref. En ég veit líka að þó ég taki skref, er söknuðurinn engu minni. Já, er ekki bloggið örugglega bara kósí og ég að tala við sjálfa mig og vini?
Lifið í friði.
Í gær var opnuð ljósmyndasýning Einars Jónssonar í bókasafni Seltjarnarness, á Eiðistorgi, fyrir ofan Hagkaup.
Einar Jónsson er „hirðljósmyndari“ Parísardömunnar og skrifaði ég litla hugleiðingu í sýningaskrána. Sýningin stendur yfir til 30. mars og er opin alla virka daga. Sýningin er með feisbúkksíðu.
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir