Sarpur fyrir maí, 2012

Lomé, Tógó

Ég er komin heim frá Tógó. Og Týr Théophile fór með mömmu sinni beint til Íslands, ég hef ekkert frétt, vildi ekki vera að trufla þau í gær, en þau voru nánast sólarhring á ferðalagi. Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig litli afríski drengurinn plumar sig í íslenska hryssingnum (já, ég veit að það er sumar og búið að vera rosa gott veður og allt það, jájá, en íslenskt veðurfar er samt hörkulegt fyrir fólk sem elst upp nærri miðbaug).

Þessi dvöl í Tógó var dálítið sérstök vegna þess hve bundin ég var yfir einu ákveðnu krefjandi verkefni. En ég er gersamlega heilluð af landi og þjóð, fólk er svo brosmilt og hlýlegt, engin óþægileg ágengni, oft hlegið að okkur í okkar hvíta skinni en frekar af einhvers konar gleði en að það væri hæðnislegt.

Það er mikil fátækt, en greinilega uppgangur líka. Nokkuð ljóst af mýmörgum byggingaframkvæmdum sem standa yfir, að höfuðborgin Lomé á eftir að gerbreytast á næstu árum eða áratugum (tíminn og Afríka, þið munið…). Strandlengjan er mjög falleg, frekar breið, pálmatré nær götunni, sem er ein af fáum malbikuðum götum borgarinnar, breið og fjölfarin aðalbraut, og svo bara nokkuð breið sandrönd út að sjó. Ég náði aldrei að fara og mynda almennilega ströndina, við höfðum heyrt sögur af því að þar væri hættulegt að vera, bandíttar á ferð, og lögðum því ekki í að vera þar með barnið. Við fréttum í lok ferðar að ströndin þarna okkar megin væri ekkert hættuleg, bandíttarnir væru ekki á sama stað og veiðimennirnir, sem við sáum handdraga inn netin á hverjum morgni.

Göturnar í Lomé eru langflestar bara sandur með tilheyrandi holum og hæðum, alltaf eins og að aka íslenska sveitavegi. Það er mikil umferð bæði bíla, sem eru langflestir gamlir bílar innfluttir notaðir frá Evrópu, skellinaðra sem mörg hver eru svokallaðir taxi-moto, bjóða manni far gegn vægu gjaldi, og svo gangandi vegfarendum sem eiga í raun sífellt fótum sínum fjör að launa, enda sjaldan skýr mörk gangstéttar og götu.

Image

Ég á í smá vandræðum með að finna út úr myndunum sem ég tók, ýmislegt virðist hafa horfið af minniskortinu, en þetta er mynd af fasteignasölu sem heitir Le bon berger, eða Góði hirðirinn. Óvanalega fínt og flott, ber líklega uppsveiflunni vott.
Verslun og viðskipti fara að mestu leyti fram í smásölu við göturnar. Ýmist í einhvers konar skýlum/kofum þar sem sölufólkið situr með vöru sína í skjóli fyrir sólinni á þessum skemmtilegu trébekkjum eða kollum sem maður sér út um allt, eða sölufólk sem stendur við veginn með vöru sína á höfðinu eða hangandi utan á sér, og maður spurði sig oft hvort þetta væri algerlega tilviljanakennt hver væri að selja hvað, sumir voru með túristadót, fána og skartgripi, aðrir með afar nýtilega hversdagshluti eins og sápur, tuskur, eyrnapinna eða sópa. Ég fór einu sinni í svona alvöru stórmarkað þar sem fékkst innfluttur matur, borðbúnaður og fleira fínerí og fannst ég þá komin til Frakklands. Þar voru eingöngu hvítir að versla og búðin var vöktuð vopnuðum vörðum.

Eins og fyrr sagði, er mikið af byggingaframkvæmdum í Lomé. Það er komið eitt stórt og fínt hótel með sundlaug og stórum garði á sjálfri ströndinni og búið að girða af svæði við hliðina á því, þar sem annað risahótel mun rísa. Ég vona innilega að borgaryfirvöldum beri gæfa til að passa upp á að ekki verði byggt eftir allri strandlengjunni, það yrði alveg ömurlegt fyrir heildarmynd og lífsgæði í borginni.

Þar sem við bjuggum, á hóteli hinum megin við stóra veginn, með útsýni niður á strönd, var svæðið við hliðina á okkur einhvers konar samansafn af því sem við myndum kalla kumbalda, þar sem fólk bjó við afar frumstæðar aðstæður. Við horfðum á konurnar þvo þvotta í bölum á morgnana úti í portinu, krakkana þvo sér þar og svo var eldað á hlóðum úti. Þið fáið að sjá myndir af svipuðum aðstæðum kvenna að störfum þegar ég skrifa um lítið leyniveitingahús sem bílstjórinn fór með okkur á. Svona kumbaldahverfi eiga alveg pottþétt eftir að hverfa smátt og smátt fyrir nýjum byggingum, fátækara fólkið verður hrakið utar, burt úr miðbænum og þar munu rísa hótel og íbúðarhús fyrir betur megandi, eins og hefur þegar gerst í vestrænum borgum.

Ég er staðráðin í að fara aftur til Tógó. Helst fljótlega, áður en góðærisgleðin tekur völdin.

Lifið í friði.

Sól í Tógó

Þá hef ég eytt heilli viku í sólinni í Tógó. Var á endanum aðeins fjóra daga í Aneho, en náði að kynnast barnaheimilinu þar ágætlega. Það var yndislegt að vera þar og mjög gaman að fylgjast með því hve fagmannlega er staðið að afhendingu barns til nýrrar móður. Góður aðlögunartími, falleg kveðjuveisla með dansi og trumbuslætti og barnið látið gefa öllum kex í kveðjuskyni, bæði börnum og starfsfólki. Þó að tár væru á hvarmi alls fullorðna fólksins, ríkti samt gleði og hlýja. Reyndar hef ég ekki kynnst öðru hér en þægilegheitum. Fólk heilsar manni glaðlega hvar sem maður fer, óskar manni alls hins besta. Við erum búnar að vera um helgina hér í Lomé og eyðum dögunum við sundlaugarbakka á fínasta hótelinu,“ tákni hins nýja uppgangs Lýðveldisins Tógó“, eins og stendur á marmaraskildi í móttökunni. Við erum í biðstöðu, bíðum eftir undirritun félagsmálaráðherra og þurfum þá að fara yfir til Benín til að fá bráðabirgða vegabréf fyrir nýjan lítinn yndislegan Íslending, hann Tý Theophile. Allt gengur að óskum. Segi almennilega frá þessu öllu síðar, þegar ég kemst í franska nettengingu. Hver veit nema það verði fljótlega… Ég mun kveðja Tógó með söknuði og er harðákveðin í að koma hingað aftur, á mínu eigin forsendum og með fjölskylduna mína með. Vilt þú koma líka?

Lifið í friði.

Tíminn og Afríka

Það mætti eiginlega segja að ég hafi beðið um þetta sjálf, með einhverju rómó-nostalgísku tali um tímann og Afríku. Því nú er svo komið að ég sit hér á föstudagskvöldi með breyttan flugmiða, fer sumsé til Tógó á sunnudaginn. Núna á sunnudaginn.

Í raun er þetta mjög gott, ég fann alveg að ég var hálfvegis farin með vinkonu minni, það var erfitt að kveðja hana og vita af henni einni þarna niður frá. Það var einfaldlega ekki rétt. Þó að ég sé með óvanalega háværan són í eyranu og pínulítið stressuð yfir því að vegabréfsáritunin mín miðar við 22. maí, er ég fullkomlega sátt við að setja ritgerðarsmíðar á bið. Úrið verður sett upp þegar ég kem til baka. Hvenær sem það verður.

Fylgist spennt með frásögnum af ferðum mínum, sendið mér góða strauma, ég þarf á því að halda.

Lifið í friði.

Tógóferð

Hér er ekki mikið lífsmark, enda er ég í miklu kappi við tímann þar sem ég á nokkur verkefni ókláruð áður en ég flýg á brott frá honum og öllu öðru þann 22. maí.

Ég ætlaði mér að skila fullgerðri MA-greinargerð áður en ég færi og vera komin með góða hráþýðingu á skáldsögu. Mér gengur ekki alveg eins vel að komast áfram eins og ég myndi vilja. Íslendingar virðast farnir að ferðast meira og ég hef haft töluvert að gera í snúningum og gönguferðum, krakkarnir þurfa sína athygli og umönnun enda ekkert nema endalaus frí og langar helgar hér um þessar mundir. Félagslíf hefur dálítið setið á hakanum, fyrir utan náttúrulega að hafa haft góða vinkonu hjá mér í tíu daga. Hún flaug til Tógó fyrir nokkrum dögum síðan og er búin að hitta litla drenginn sem hún er að ættleiða. Ég fer til þeirra 22. maí og ætla að vera með þeim í rúmar þrjár vikur. Ég hlakka mikið til að fá loksins að koma til Afríku, hef aldrei farið svona langt niður eftir en hins vegar alltaf fundið fyrir Afríkuþrá. Ég hitti mann á föstudaginn, sem fór til Tógó fyrir tveimur árum, hann sagði mér að ég yrði væntanlega svo heilluð að ég myndi eiga erfitt með að koma til baka. Ég hef einmitt verið að spá í að setja börnin og manninn í sprautumeðferðina svona ef ég skyldi hringja og segja þeim að koma frekar til mín en ég til þeirra …

En já. Ég er að skrifa þessa greinargerð. Ég er nánast komin með allt sem ég þarf að segja og vísa í og ræða. Ég veit að ég get þetta. Mig bara skortir tilfinnalega það fullkomna næði sem ég þarf til að setjast niður og ljúka þessu. Ég hef verið að spá í að slökkva á feisbúkk og tölvupósti og öllu í tvo, þrjá daga. En svo er ég einhvern veginn svo sjúklega samviskusöm (gráðug?) að ég get ekki einu sinni sagt nei við nokkrum hlut. Tók m.a.s. eitt stykki lagaþýðingu um daginn, þvert á allar fyrirætlanir um að segja nei við öllum þýðingum. En þetta er að vissu leyti fangelsi free-lance vinnunnar. Að segja nei, getur þýtt að missa kúnnann. Sama með túristana, ef ég segi nei við einni Versalaferð, gæti ég verið að missa tíu aðrar ferðir, þar sem ég byggi á orðspori og nánast engu öðru. Já, það er vandlifað. En samt fáránlega gaman.

Ég veit að nettenging er afar ótrygg í Tógó, en ég vona innilega að ég nái að senda ykkur fréttir af mér hér. Ég verð í Aneho, og mun kynnast starfsemi heimilisins sem Sól í Tógó rekur þar. Við þurfum á einhverjum tímapunkti að fara yfir landamærin til Benin, upp á vegabréfsáritun fyrir hann Tý Theophile og svo verðum við eitthvað í Lomé líka.

Ég sagðist ætla að fljúga í burt frá tímanum. Eitt af því sem heillar mig hvað mest við Afríku, er slökun þeirra gagnvart tímanum. Eins og ég sá einhvern tímann sagt á afrískri sjónvarpsstöð: „Hvíti maðurinn er alltaf með úr, en hefur aldrei neinn tíma.“

Lifið í friði.

Viðbót – auglýsing – Í KVÖLD:

Stefnumótakaffi í Gerðubergi 

Miðvikudagskvöldið 9. maí kl. 20-22, segir Alda Lóa Leifsdóttir frá Tógó í Vestur-Afríku á Stefnumótakaffi í Gerðubergi.
Alda Lóa segir frá kynnum sínum af landi og þjóð og þá sérstaklega tógósku kaupsýslukonunni Mireille (Mírey). Frásögnina styður Alda Lóa með fjölda ljósmynda auk þess sem hún býður gestum upp á heilsudrykkinn Bissap sem bruggaður er úr Hisbiscus blómum. Nánari upplýsingar um dagskrána má nálgast hér.

Á Stefnumótakaffi eiga gestir stefnumót við fólk sem hefur áhugaverða sögu að segja, gjarnan af framandi menningarsvæðum. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha