Tógóferð

Hér er ekki mikið lífsmark, enda er ég í miklu kappi við tímann þar sem ég á nokkur verkefni ókláruð áður en ég flýg á brott frá honum og öllu öðru þann 22. maí.

Ég ætlaði mér að skila fullgerðri MA-greinargerð áður en ég færi og vera komin með góða hráþýðingu á skáldsögu. Mér gengur ekki alveg eins vel að komast áfram eins og ég myndi vilja. Íslendingar virðast farnir að ferðast meira og ég hef haft töluvert að gera í snúningum og gönguferðum, krakkarnir þurfa sína athygli og umönnun enda ekkert nema endalaus frí og langar helgar hér um þessar mundir. Félagslíf hefur dálítið setið á hakanum, fyrir utan náttúrulega að hafa haft góða vinkonu hjá mér í tíu daga. Hún flaug til Tógó fyrir nokkrum dögum síðan og er búin að hitta litla drenginn sem hún er að ættleiða. Ég fer til þeirra 22. maí og ætla að vera með þeim í rúmar þrjár vikur. Ég hlakka mikið til að fá loksins að koma til Afríku, hef aldrei farið svona langt niður eftir en hins vegar alltaf fundið fyrir Afríkuþrá. Ég hitti mann á föstudaginn, sem fór til Tógó fyrir tveimur árum, hann sagði mér að ég yrði væntanlega svo heilluð að ég myndi eiga erfitt með að koma til baka. Ég hef einmitt verið að spá í að setja börnin og manninn í sprautumeðferðina svona ef ég skyldi hringja og segja þeim að koma frekar til mín en ég til þeirra …

En já. Ég er að skrifa þessa greinargerð. Ég er nánast komin með allt sem ég þarf að segja og vísa í og ræða. Ég veit að ég get þetta. Mig bara skortir tilfinnalega það fullkomna næði sem ég þarf til að setjast niður og ljúka þessu. Ég hef verið að spá í að slökkva á feisbúkk og tölvupósti og öllu í tvo, þrjá daga. En svo er ég einhvern veginn svo sjúklega samviskusöm (gráðug?) að ég get ekki einu sinni sagt nei við nokkrum hlut. Tók m.a.s. eitt stykki lagaþýðingu um daginn, þvert á allar fyrirætlanir um að segja nei við öllum þýðingum. En þetta er að vissu leyti fangelsi free-lance vinnunnar. Að segja nei, getur þýtt að missa kúnnann. Sama með túristana, ef ég segi nei við einni Versalaferð, gæti ég verið að missa tíu aðrar ferðir, þar sem ég byggi á orðspori og nánast engu öðru. Já, það er vandlifað. En samt fáránlega gaman.

Ég veit að nettenging er afar ótrygg í Tógó, en ég vona innilega að ég nái að senda ykkur fréttir af mér hér. Ég verð í Aneho, og mun kynnast starfsemi heimilisins sem Sól í Tógó rekur þar. Við þurfum á einhverjum tímapunkti að fara yfir landamærin til Benin, upp á vegabréfsáritun fyrir hann Tý Theophile og svo verðum við eitthvað í Lomé líka.

Ég sagðist ætla að fljúga í burt frá tímanum. Eitt af því sem heillar mig hvað mest við Afríku, er slökun þeirra gagnvart tímanum. Eins og ég sá einhvern tímann sagt á afrískri sjónvarpsstöð: „Hvíti maðurinn er alltaf með úr, en hefur aldrei neinn tíma.“

Lifið í friði.

Viðbót – auglýsing – Í KVÖLD:

Stefnumótakaffi í Gerðubergi 

Miðvikudagskvöldið 9. maí kl. 20-22, segir Alda Lóa Leifsdóttir frá Tógó í Vestur-Afríku á Stefnumótakaffi í Gerðubergi.
Alda Lóa segir frá kynnum sínum af landi og þjóð og þá sérstaklega tógósku kaupsýslukonunni Mireille (Mírey). Frásögnina styður Alda Lóa með fjölda ljósmynda auk þess sem hún býður gestum upp á heilsudrykkinn Bissap sem bruggaður er úr Hisbiscus blómum. Nánari upplýsingar um dagskrána má nálgast hér.

Á Stefnumótakaffi eiga gestir stefnumót við fólk sem hefur áhugaverða sögu að segja, gjarnan af framandi menningarsvæðum. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

7 Responses to “Tógóferð”


 1. 1 hildigunnur 9 Maí, 2012 kl. 8:51 f.h.

  góða ferð mín kæra 🙂

 2. 3 Nafnlaust 9 Maí, 2012 kl. 9:05 f.h.

  Hlakka til að heyra hvað þér finnst um dvölina. Hef verið þarna nokkurn sinnum.

 3. 4 Guðrún C. Emilsdóttir 9 Maí, 2012 kl. 11:38 f.h.

  Ó, spennandi tímar framundan hjá þér!
  Ég sit einmitt við tölvuna og er að rembast við að laga ritgerðina og bæta við textann eftir ábendingum frá leiðbeinanda (sem ég fékk fyrst í morgun!) og dedlænið á morgun…en ég er ekki með heila skáldsögu á bakinu, og ekki með ung börn og ekki vinnu….svo það er ekki alveg sambærilegt – það liggur við að ég skammist mín…

  • 5 parisardaman 9 Maí, 2012 kl. 3:09 e.h.

   Gvuð mín góð, ég vil nú ekki gera lítið úr því sem aðrir hafa að gera, síður en svo! Gangi þér rosalega vel:)

 4. 6 Arna A. Antonsdóttir 9 Maí, 2012 kl. 9:14 e.h.

  Já Kristín mín, þú getur sko skrifað. Ein af fáum sem ég hef gaman af að lesa. Hlakka til að fylgjast með ykkur áfram.

 5. 7 Linda 10 Maí, 2012 kl. 1:25 e.h.

  Vona að þú njótir dvalarinnar með Guðnýju í Tógó Kristín og að þið komið tilbaka með Tý og fullt af myndum. Og ef landið heillar þig svo að þú flytur þangað í framtíðinni þá er það kannski bara fullkomin ástæða fyrir saumaklúbbinn Einar til að mæta í heimsókn 🙂


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: