Þá hef ég eytt heilli viku í sólinni í Tógó. Var á endanum aðeins fjóra daga í Aneho, en náði að kynnast barnaheimilinu þar ágætlega. Það var yndislegt að vera þar og mjög gaman að fylgjast með því hve fagmannlega er staðið að afhendingu barns til nýrrar móður. Góður aðlögunartími, falleg kveðjuveisla með dansi og trumbuslætti og barnið látið gefa öllum kex í kveðjuskyni, bæði börnum og starfsfólki. Þó að tár væru á hvarmi alls fullorðna fólksins, ríkti samt gleði og hlýja. Reyndar hef ég ekki kynnst öðru hér en þægilegheitum. Fólk heilsar manni glaðlega hvar sem maður fer, óskar manni alls hins besta. Við erum búnar að vera um helgina hér í Lomé og eyðum dögunum við sundlaugarbakka á fínasta hótelinu,“ tákni hins nýja uppgangs Lýðveldisins Tógó“, eins og stendur á marmaraskildi í móttökunni. Við erum í biðstöðu, bíðum eftir undirritun félagsmálaráðherra og þurfum þá að fara yfir til Benín til að fá bráðabirgða vegabréf fyrir nýjan lítinn yndislegan Íslending, hann Tý Theophile. Allt gengur að óskum. Segi almennilega frá þessu öllu síðar, þegar ég kemst í franska nettengingu. Hver veit nema það verði fljótlega… Ég mun kveðja Tógó með söknuði og er harðákveðin í að koma hingað aftur, á mínu eigin forsendum og með fjölskylduna mína með. Vilt þú koma líka?
Lifið í friði.
Já takk! Og takk fyrir fallega frásögn.
Ég fylgist spennt með á FB, frábært að fá innsýn í þetta allt saman í gegnum þig. Takk fyrir það, gangi ykkur sem best og ég hlakka til að heyra meira!
Ef vilji er allt sem þarf?
spennandi að geta fylgst aðeins með ykkur hér líka… Kveðja frá Kristínu Hrund Balemaskonu… 🙂
Æði!
Fallegt! Gaman að fá að fylgjast með.
Jáhá! Það væri ég sko til í.
Þetta er sko ég.