Lomé, Tógó

Ég er komin heim frá Tógó. Og Týr Théophile fór með mömmu sinni beint til Íslands, ég hef ekkert frétt, vildi ekki vera að trufla þau í gær, en þau voru nánast sólarhring á ferðalagi. Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig litli afríski drengurinn plumar sig í íslenska hryssingnum (já, ég veit að það er sumar og búið að vera rosa gott veður og allt það, jájá, en íslenskt veðurfar er samt hörkulegt fyrir fólk sem elst upp nærri miðbaug).

Þessi dvöl í Tógó var dálítið sérstök vegna þess hve bundin ég var yfir einu ákveðnu krefjandi verkefni. En ég er gersamlega heilluð af landi og þjóð, fólk er svo brosmilt og hlýlegt, engin óþægileg ágengni, oft hlegið að okkur í okkar hvíta skinni en frekar af einhvers konar gleði en að það væri hæðnislegt.

Það er mikil fátækt, en greinilega uppgangur líka. Nokkuð ljóst af mýmörgum byggingaframkvæmdum sem standa yfir, að höfuðborgin Lomé á eftir að gerbreytast á næstu árum eða áratugum (tíminn og Afríka, þið munið…). Strandlengjan er mjög falleg, frekar breið, pálmatré nær götunni, sem er ein af fáum malbikuðum götum borgarinnar, breið og fjölfarin aðalbraut, og svo bara nokkuð breið sandrönd út að sjó. Ég náði aldrei að fara og mynda almennilega ströndina, við höfðum heyrt sögur af því að þar væri hættulegt að vera, bandíttar á ferð, og lögðum því ekki í að vera þar með barnið. Við fréttum í lok ferðar að ströndin þarna okkar megin væri ekkert hættuleg, bandíttarnir væru ekki á sama stað og veiðimennirnir, sem við sáum handdraga inn netin á hverjum morgni.

Göturnar í Lomé eru langflestar bara sandur með tilheyrandi holum og hæðum, alltaf eins og að aka íslenska sveitavegi. Það er mikil umferð bæði bíla, sem eru langflestir gamlir bílar innfluttir notaðir frá Evrópu, skellinaðra sem mörg hver eru svokallaðir taxi-moto, bjóða manni far gegn vægu gjaldi, og svo gangandi vegfarendum sem eiga í raun sífellt fótum sínum fjör að launa, enda sjaldan skýr mörk gangstéttar og götu.

Image

Ég á í smá vandræðum með að finna út úr myndunum sem ég tók, ýmislegt virðist hafa horfið af minniskortinu, en þetta er mynd af fasteignasölu sem heitir Le bon berger, eða Góði hirðirinn. Óvanalega fínt og flott, ber líklega uppsveiflunni vott.
Verslun og viðskipti fara að mestu leyti fram í smásölu við göturnar. Ýmist í einhvers konar skýlum/kofum þar sem sölufólkið situr með vöru sína í skjóli fyrir sólinni á þessum skemmtilegu trébekkjum eða kollum sem maður sér út um allt, eða sölufólk sem stendur við veginn með vöru sína á höfðinu eða hangandi utan á sér, og maður spurði sig oft hvort þetta væri algerlega tilviljanakennt hver væri að selja hvað, sumir voru með túristadót, fána og skartgripi, aðrir með afar nýtilega hversdagshluti eins og sápur, tuskur, eyrnapinna eða sópa. Ég fór einu sinni í svona alvöru stórmarkað þar sem fékkst innfluttur matur, borðbúnaður og fleira fínerí og fannst ég þá komin til Frakklands. Þar voru eingöngu hvítir að versla og búðin var vöktuð vopnuðum vörðum.

Eins og fyrr sagði, er mikið af byggingaframkvæmdum í Lomé. Það er komið eitt stórt og fínt hótel með sundlaug og stórum garði á sjálfri ströndinni og búið að girða af svæði við hliðina á því, þar sem annað risahótel mun rísa. Ég vona innilega að borgaryfirvöldum beri gæfa til að passa upp á að ekki verði byggt eftir allri strandlengjunni, það yrði alveg ömurlegt fyrir heildarmynd og lífsgæði í borginni.

Þar sem við bjuggum, á hóteli hinum megin við stóra veginn, með útsýni niður á strönd, var svæðið við hliðina á okkur einhvers konar samansafn af því sem við myndum kalla kumbalda, þar sem fólk bjó við afar frumstæðar aðstæður. Við horfðum á konurnar þvo þvotta í bölum á morgnana úti í portinu, krakkana þvo sér þar og svo var eldað á hlóðum úti. Þið fáið að sjá myndir af svipuðum aðstæðum kvenna að störfum þegar ég skrifa um lítið leyniveitingahús sem bílstjórinn fór með okkur á. Svona kumbaldahverfi eiga alveg pottþétt eftir að hverfa smátt og smátt fyrir nýjum byggingum, fátækara fólkið verður hrakið utar, burt úr miðbænum og þar munu rísa hótel og íbúðarhús fyrir betur megandi, eins og hefur þegar gerst í vestrænum borgum.

Ég er staðráðin í að fara aftur til Tógó. Helst fljótlega, áður en góðærisgleðin tekur völdin.

Lifið í friði.

10 Responses to “Lomé, Tógó”


 1. 1 Harpa Jónsdóttir 31 Maí, 2012 kl. 9:53 f.h.

  Það er gaman að heyra frá Tógó og ég bíð spennt eftir fleiri myndum.

 2. 2 hildigunnur 31 Maí, 2012 kl. 10:26 f.h.

  Vonandi að hótelunum fylgi samt aukin vinna þannig að færri verði fátækir.

 3. 3 Einar 31 Maí, 2012 kl. 10:51 f.h.

  Góði hirðirinn – ég væri til í að sjá fasteignasölu með því nafni í Reykjavík.
  Einar

 4. 5 Svala 31 Maí, 2012 kl. 11:00 f.h.

  Gaman að heyra um lífsreynslu ykkar í Tógó og ekki síður að sjá myndirnar. Ég skal koma með þér næst, ef ég vinn í lottóinu. 😉

 5. 6 ella 31 Maí, 2012 kl. 9:10 e.h.

  Er barnið kornungt eða komið svolítið á legg? Ég á við hvort hann var búinn að venjast sínu veðurfari.

 6. 8 Guðlaug Hestnes 1 Jún, 2012 kl. 11:18 e.h.

  Gaman að lesa, takk fyrir það. Ég er viss um að litli drengurinn plumar sig vel í faðmi það yndislegrar fjölskyldu að hún lagði allt þetta á sig fyrir lítinn dreng. Kveðja frá Hornafirði.

 7. 9 Linda 7 Jún, 2012 kl. 3:29 e.h.

  Alltaf jafn gaman að heyra nýjar fréttir frá þér Kristín. Ég efast ekki um að Týr Téophile plumi sig hér eftir nokkra daga. En annars held ég að það sé ekkert endilega þeirra hagur að uppgangur verði hægur. Við Vesturlandabúar getum verið svo öfugsnúnir með þetta, við viljum að hlutir gangi hratt og vel fyrir sig hjá okkur og allt sé spikk og span en svo sjáum við rómantíkina við einfaldleikann hjá t.d. sumum Afríkuþjóðunum þar sem ríkir fátækt og okkur óar við merkjum sem geta breytt þessari sýn okkar á þeirra aðstæður. Fyndnar andstæður sem togast á í manni.

 8. 10 Kristín í París 7 Jún, 2012 kl. 10:01 e.h.

  Já Týr Theóphile spjarar sig víst ágætlega takk 🙂
  Ég er ekkert að óska eftir hægum uppgangi eða rómantísera fátæktina, síður en svo. Það eina sem ég óska þeim, er að þeir láti ekki frá sér það dýrmæta svæði sem sjálf ströndin er og að hún verði eingöngu aðgengileg fólki sem borgar sig inn á dýr hótel.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: