Sarpur fyrir ágúst, 2012

Trouvailles IV

Í sumarfríinu lenti ég á einum besta flóamarkaði sem ég hef nokkurn tímann komist á, í Argentat í Corrèze-héraðinu. Hann var mátulegur á allan hátt, mátuleg blanda af antíksölum, söfnurum og svo einstaklingum að selja úr kompunni sinni. Mátulega stór. Mátulega mikið af fólki. Ég í mátulega góðu skapi og keypti því nokkra góða hluti.

Ég er búin að gorta af aflanum á feisbúkk, þetta er í raun bara fyrir hana Ellu og svona ef ske kynni að einhver með dótablæti villtist hingað inn. Reyndar keypti ég ekki allt á sama markaði, salatskálin og mylsnuburstinn koma af örsmáum markaði í litlu þorpi í Périgord, og flögubergið og valhnetuvínið var keypti í flögubergsnámunni.

Allur aflinn

Allur aflinn

Aflinn úr hinni áttinni

Aflinn úr hinni áttinni

Gullskreytt salatskál, töfra-sósukanna, blómvöndur, ávaxtaskál á fæti, mylsnusópur með skúffu, diskar, valhnetuvín og tilskorið flöguberg til að leggja kámuga hnífa á.

Diskar

Diskar

Ég er búin að leita að matardiskum í eldhúsið lengi. Þessir biðu mín þegar ég var á leiðinni út af stóra markaðnum með fangið fullt af alls konar. Þetta eru leirdiskar og afskaplega þungir, ég hélt að handleggurinn myndi rifna af mér áður en ég kæmist að bílnum. Ég ætlaði að skipta þeim út fyrir gömlu diskana sem eru af ýmsum sortum og flestir orðnir krambúleraðir eftir massífa notkun. Enn hef ég þó ekki fengið af mér að taka gamla staflann burt. Sjáum hvenær ég finn kjarkinn. Á meðan bíða þessir rólegir frammi í stofuskápnum.

Sósukanna

Sósukanna

Sósukanna - 2 stútar

Sósukanna – 2 stútar

Það voru tengdamóðir mín og ástkona hennar sem keyptu þessa forláta sósukönnu handa mér. Hún er þeim hæfileikum gædd að geta gefið manni annað hvort fituna sem flýtur ofan á, eða tæran kjötsafann sem liggur undir. Allt eftir því hvorn stútinn þú velur að nota. Er þetta ekki dásamleg kanna?

Skál á fæti

Skál á fæti

Allir innflytjendur með sjálfsvirðingu leggja kapp á að aðlagast. Ég hef lengi vitað að ég yrði ekki almennilega aðlöguð fyrr en ég eignaðist skál á fæti fyrir apríkósur, hnetur eða jafnvel kökur barasta. Hún á helst að tróna á skenknum og sumir svindla og hafa ávexti úr marmara (eða fílabeini, en þá verður það að vera antík) í skálinni. Ég fann spegilinn eftir áralanga leit fyrir nokkrum árum, nú er ég komin með skál á fæti. Bráðum verð ég kannski bara frönsk? (Spegillinn lítur enn svona út.)

Salatskál

Salatskál

Þessi salatskál kallaði mig til sín á örsmáa markaðnum í litla þorpinu. Parið sem dansar í miðjunni gerði útslagið, ég bara varð að eignast hana. Mér brá svo þegar drengurinn nefndi verðið, 12 evrur, að ég veit ekki alveg hvernig ég hef litið út. Ég bjóst við að hún væri miklu dýrari. Þessi skál passar ekki við neitt sem ég á, en mér er alveg sama.

Blóm

Blóm

Á markaðnum var karl með troðfullan flutningabíl af þurrkuðum blómum. Hann seldi grimmt, allar  konurnar í sveitinni koma gagngert á markaðinn til að kaupa af honum blóm til að hafa inni hjá sér um veturinn. Í Corrèze verður oft mjög kalt og dimmt og nauðsynlegt að lífga upp á stofurnar með minningu um sumarið sem leið. Parísardömur þurfa vitanlega ekki á þurrkuðum blómum að halda, hér er hægt að kaupa afskorin blóm allan ársins hring. Sólrún varð hins vegar hugstola og varð að eignast þessar bleiku margarítur (eru þetta annars margarítur?).

Við það að setja þessar myndir inn, sé ég tvennt: Ég verð að gera eitthvað í þessu buffeti, á ég að mála skúffur og hurðir í öðrum lit, eða sama lit og restin? Og svo verð ég að finna tíma og pening til að mála íbúðina, það er gersamlega kominn tími á það. En það verður samt ekki á þessu ári … ég heiti því hér með að gera ekkert slíkt fyrr en ég er búin með ritgerðina. Sagði einhver ritgerð?

Lifið í friði.

Ferðasaga frá París

Nú geta allir lesið ferðasögu Hildigunnar frá París, inn eru komnir dagur eitt og tvö. Ég get hiklaust mælt með íbúðaskiptum og langsniðugast er að vera tiltölulega snemma á ferðinni til að geta spáð í tilboð og fengið miða á góðu verði með hinum ýmsu flugfélögum sem bjóða ferðir til Parísar. Um að gera að senda mér auglýsingar, ég kem þeim ókeypis á framfæri. Einnig eru til góðar síður eins og t.d. Airbnb.com og fleiri sem bjóða upp á íbúðaskiptaauglýsingar og ná líklega til fleiri útlendinga en mín síða gerir.

Það er segin saga að áður en maður skilur íbúð sína eftir fyrir ókunnuga, tekur maður alveg rosalega vel til, þrífur alls konar skúmaskot sem maður hefur lengi litið hornauga og lagar hluti sem mann hefur lengi langað til að nenna að laga. Dálítið eins og að halda góða veislu, ágætis hreinsun sem felst í þessu ferli.

Ég dáist að Hildigunni fyrir að vera svona dugleg að skrifa ferðasögur, sjálf hef ég alltaf uppi háar hugmyndir um að halda dagbók um það skemmtilega sem maður gerir í fríum svo aðrir geti þá nýtt sér upplýsingar, en ég held ég verði að horfast í augu við að ég er bara ekki þessi týpa. Ferðalagið okkar um Suður-Frakkland var býsna vel heppnuð, ég lofa að setja inn nokkrar myndir og nöfn á þorpum, söfnum og veitingahúsum sem vert er að heimsækja. Eða bara til að þið getið öfundað mig. Eða samglaðst. Eða eitthvað.

Til hamingju með regnbogalitu gönguna í dag, mér sýnist á öllu að borgarstjórinn sé hetja dagsins. Hið besta mál!

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha