Trouvailles IV

Í sumarfríinu lenti ég á einum besta flóamarkaði sem ég hef nokkurn tímann komist á, í Argentat í Corrèze-héraðinu. Hann var mátulegur á allan hátt, mátuleg blanda af antíksölum, söfnurum og svo einstaklingum að selja úr kompunni sinni. Mátulega stór. Mátulega mikið af fólki. Ég í mátulega góðu skapi og keypti því nokkra góða hluti.

Ég er búin að gorta af aflanum á feisbúkk, þetta er í raun bara fyrir hana Ellu og svona ef ske kynni að einhver með dótablæti villtist hingað inn. Reyndar keypti ég ekki allt á sama markaði, salatskálin og mylsnuburstinn koma af örsmáum markaði í litlu þorpi í Périgord, og flögubergið og valhnetuvínið var keypti í flögubergsnámunni.

Allur aflinn

Allur aflinn

Aflinn úr hinni áttinni

Aflinn úr hinni áttinni

Gullskreytt salatskál, töfra-sósukanna, blómvöndur, ávaxtaskál á fæti, mylsnusópur með skúffu, diskar, valhnetuvín og tilskorið flöguberg til að leggja kámuga hnífa á.

Diskar

Diskar

Ég er búin að leita að matardiskum í eldhúsið lengi. Þessir biðu mín þegar ég var á leiðinni út af stóra markaðnum með fangið fullt af alls konar. Þetta eru leirdiskar og afskaplega þungir, ég hélt að handleggurinn myndi rifna af mér áður en ég kæmist að bílnum. Ég ætlaði að skipta þeim út fyrir gömlu diskana sem eru af ýmsum sortum og flestir orðnir krambúleraðir eftir massífa notkun. Enn hef ég þó ekki fengið af mér að taka gamla staflann burt. Sjáum hvenær ég finn kjarkinn. Á meðan bíða þessir rólegir frammi í stofuskápnum.

Sósukanna

Sósukanna

Sósukanna - 2 stútar

Sósukanna – 2 stútar

Það voru tengdamóðir mín og ástkona hennar sem keyptu þessa forláta sósukönnu handa mér. Hún er þeim hæfileikum gædd að geta gefið manni annað hvort fituna sem flýtur ofan á, eða tæran kjötsafann sem liggur undir. Allt eftir því hvorn stútinn þú velur að nota. Er þetta ekki dásamleg kanna?

Skál á fæti

Skál á fæti

Allir innflytjendur með sjálfsvirðingu leggja kapp á að aðlagast. Ég hef lengi vitað að ég yrði ekki almennilega aðlöguð fyrr en ég eignaðist skál á fæti fyrir apríkósur, hnetur eða jafnvel kökur barasta. Hún á helst að tróna á skenknum og sumir svindla og hafa ávexti úr marmara (eða fílabeini, en þá verður það að vera antík) í skálinni. Ég fann spegilinn eftir áralanga leit fyrir nokkrum árum, nú er ég komin með skál á fæti. Bráðum verð ég kannski bara frönsk? (Spegillinn lítur enn svona út.)

Salatskál

Salatskál

Þessi salatskál kallaði mig til sín á örsmáa markaðnum í litla þorpinu. Parið sem dansar í miðjunni gerði útslagið, ég bara varð að eignast hana. Mér brá svo þegar drengurinn nefndi verðið, 12 evrur, að ég veit ekki alveg hvernig ég hef litið út. Ég bjóst við að hún væri miklu dýrari. Þessi skál passar ekki við neitt sem ég á, en mér er alveg sama.

Blóm

Blóm

Á markaðnum var karl með troðfullan flutningabíl af þurrkuðum blómum. Hann seldi grimmt, allar  konurnar í sveitinni koma gagngert á markaðinn til að kaupa af honum blóm til að hafa inni hjá sér um veturinn. Í Corrèze verður oft mjög kalt og dimmt og nauðsynlegt að lífga upp á stofurnar með minningu um sumarið sem leið. Parísardömur þurfa vitanlega ekki á þurrkuðum blómum að halda, hér er hægt að kaupa afskorin blóm allan ársins hring. Sólrún varð hins vegar hugstola og varð að eignast þessar bleiku margarítur (eru þetta annars margarítur?).

Við það að setja þessar myndir inn, sé ég tvennt: Ég verð að gera eitthvað í þessu buffeti, á ég að mála skúffur og hurðir í öðrum lit, eða sama lit og restin? Og svo verð ég að finna tíma og pening til að mála íbúðina, það er gersamlega kominn tími á það. En það verður samt ekki á þessu ári … ég heiti því hér með að gera ekkert slíkt fyrr en ég er búin með ritgerðina. Sagði einhver ritgerð?

Lifið í friði.

4 Responses to “Trouvailles IV”


 1. 1 Harpa Jónsdóttir 28 Ágú, 2012 kl. 10:06 f.h.

  Fín, fínt, fínt dót! Ég hef aldrei heyrt um svona töfra sósukönnu, mikið er hún sniðug.

 2. 2 hildigunnur 29 Ágú, 2012 kl. 12:33 f.h.

  Já vá, æðisleg kanna. Hitt líka. Svo væri hægt að borða andahjörtu af diskunum…

 3. 3 ella 5 Sep, 2012 kl. 10:50 e.h.

  Mér er sýndur mikill heiður, kærar þakkir. Fínt dót og óskaplega kannaðist ég vel við aðstæðurnar þegar spegillinn var keyptur og skafinn. Gera annað en maður „ætti“ að vera að gera.

 4. 4 Linda 7 Sep, 2012 kl. 2:36 e.h.

  Mér finnst skenkurinn æðislegur svona og finnst að þú ættir bara að halda honum óbreyttum. Er hægt að hella úr báðum stútunum á sósukönnunni? Segir maður þá við fólkið báðum megin við sig, komið nær með diskana og ég helli næstum því samtímis á þá?


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: