Sarpur fyrir desember, 2012

Áramót

Mér finnst ég þurfa að koma með nokkra áramótapunkta – ég er enn skuldbundin þessu bloggi þó það sé í andaslitrunum.

Ég held ég hafi þroskast dálítið, þetta ár hefur verið viðburðaríkt og ég hef tekist á við hluti sem ég hefði þurft að gera mun fyrr. Ég hef leyft mér að vera sorgmædd og jafnvel reið, hef áttað mig á hvernig hlutir úr fortíðinni geta haft áhrif án þess að maður sé endilega meðvitaður um það og hef náð að sleppa taki af óþarfa böggum sem ég bar með mér. Já, sorrí, ég veit að þetta gagnast engum nema sjálfri mér, ég get ekki verið opinskárri en þetta.

Hápunktur ársins er líklega ferðin til Tógó, og fá að kynnast þar alvöru fátækt og sjá með eigin augum að hægt er að takast á við fátækt með stolti. Þetta hefur legið á mér síðan og ég á enn erfiðara með að hlusta á væl um blankheit og kreppu en áður. Samt væli ég sjálf um blankheit og vorkenni mér stundum, svona er maður nú klikkaður og ófullkominn. En kannski næ ég að vinna úr þessu líka og verða eitthvað betri. Ég þarf samt meira en hálft ár til þess. Maður er svo flæktur í þetta neysluhyggju-gerviþarfanet að þó maður viti að það sé rangt getur maður ekki losað sig svo auðveldlega. Nú finnst mér ég vera komin á hála braut slepjunnar. Bið forláts.

Ég man ekki hvort það var um síðustu eða þarsíðustu áramót sem ég lofaði sjálfri mér því að dansa meira og syngja. Mér hefur gengið alveg ágætlega að standa við það, en ég fór samt ekki nógu oft á karókístaði þetta árið. Það þarf að laga 2013. En nýlega fór ég í partý þar sem húsráðandi var kominn með plötuspilara og allar gömlu plöturnar. Við dönsuðum og sungum til sex um morguninn. Þá kom vesalings nágranninn upp og bað okkur um að gefa sér tveggja tíma svefn áður en hann þyrfti í vinnuna. Við vorum hálf lúpuleg og flissuðum skömmustulega þegar við kvöddumst, en ég var í góðu skapi í marga daga eftir þessa nótt. Það er pottþétt fátt hollara en að dansa og syngja með góðum vinum.
Verst að ég er sjálf sjúklega hrædd við nágrannana mína. Þau eru bestu skinn, herra og frú Sinnep hér fyrir neðan, en þau myndu nú samt ekki leyfa okkur að dansa óáreitt til sex að morgni. Líklega ekki mínútu fram yfir miðnætti. Sjálf hef ég held ég aldrei stoppað partý, mér finnst m.a.s. bara pínu gaman að sofa hálfilla þegar ég heyri í fólki skemmta sér og dansa einhvers staðar nálægt. Ég held að heimurinn geti orðið betri ef fólk sleppir aðeins af sér þessum hömlum með að hafa ekki of hátt og hristir sig dálítið meira. Og þá verð ég aftur næstum slepjuleg, en held samt ég hafi náð að stoppa í tæka tíð.

Ég náði að halda mér í svipaðri þyngd og áður. Ég borða frekar mikið og oft alveg hrikalega fitandi mat. Ég drekk líka áreiðanlega meira áfengi en margir aðrir. En ég passa mig á að fara reglulega í leikfimi og út að hlaupa þegar ég nenni og get, ég hjóla dálítið og leik mér að því að sleppa rúllustigum og slíku þegar sá gállinn er á mér. Engar öfgar, en sukkjöfnun er höfð að leiðarljósi. Eitt af því sem ég hef þó náð að laga heilmikið hjá mér, er að hætta að hafa áhyggjur af mýkt bumbunnar minnar. Jólakjóllinn minn felur hana til dæmis bara ekki neitt og mér er slétt sama. Þessi kjóll hefur vakið mikla hrifningu, ég þarf að athuga hvort það sé nokkuð til mynd af mér í honum og sýna ykkur, hann er ekkert smá fallegur.

Börnin mín eru frábært fólk. Þau eru til fyrirmyndar í skólanum, vinmörg, skemmtileg og fá góðar einkunnir. Þau eru fordekruð, fengu slíka ofgnótt jólagjafa að ég hef verið með nettan brjóstsviða. En ég hef ákveðnar hugmyndir um að reyna að stöðva þetta á næsta ári og fá að ráða því að peningurinn fari í eitthvað annað og gagnlegra en meira dót.

Á þessu ári urðu nokkur svipleg dauðsföll í kringum mig. Ég man að í lok 2011 tilkynnti ég vinkonu að ég myndi ekki þola meira af dauðsföllum og að þetta yrði betra 2012. Ég er hreinlega ekki alveg viss hvort það hafi gengið eftir. Að vísu missti ég ekki jafn nána vini og þá, en samt hefur þetta verið ógurlega erfitt á köflum. Líklega er þetta bara hluti af því að vera að verða miðaldra … Það var einmitt hluti af þroskaferlinu að leyfa mér að vera virkilega sorgmædd og ósátt við dauðann um tíma. Ég er komin á þá skoðun að maður bara megi alveg vera það og mér líður mun betur en þegar ég þykist vera sterk. Um leið finnst mér það styrkja mig að líða betur.

Jæja, nú er ég búin að sitja hér við í tja, klukkutíma eða því sem næst. Ýmislegt var ritað en strikað út. Ég nenni ekki að lesa yfir þetta aftur og veit hreinlega ekki enn hvort ég birti þetta. Ef svo fer, þá óska ég mínum fáu lesendum innilega gleðilegs árs 2013, megi það verða ár dans og söngs, kátínu og súkkulaðis.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha