Tau frá Tógó er með facebook-síðu, tékkið á henni. Þar fást nú tveir kjólar í þessu sniði sem ég er í, og nokkrir í sniðinu sem Sólrún er í. Þeir heita eftir okkur mæðgum, „Tata Kristín“ og „Sólrún“.
Sarpur fyrir apríl, 2013
Yfir kaffisopanum í morgun mundi ég allt í einu eftir blogginu mínu. Ég ákvað að fara og tékka og jú, hér situr það enn líkt og það vilji sanna fyrir mér að sumt breytist aldrei. En það er náttúrulega rangt að segja að þetta blogg breytist ekki. Einu sinni var ég mjög dugleg að skrifa um alls konar. Nú skrifa ég aðallega um bloggið sjálft, eða leti mína við að halda því við öllu heldur.
En í morgun fylltist ég allt í einu blogglöngun sem ég varð að bæla niður því nú er ég orðin handboltamóðir ofan á allt hitt og ekki mátti drengurinn mæta of seint á mótið. Ég skal ekkert tala um það að þjálfarinn mætti þremur korterum of seint, og ekki í fyrsta skipti sem okkar lið stendur þjálfaralaust til hliðar meðan hin liðin hita sig upp og eru með alls konar pepp í gangi. Nei nei, ég er svo jákvæð og ánægð með að börnin skuli vilja stunda íþróttir að ég tek öllu svona óskipulagi og vanefndum með jafnaðargeði búddistans. Bara gaman að sitja þarna í óupphituðu íþróttahúsi á hörðum bekk með engu baki, krumpuð að innan og utan, of mikill hávaði til að njóta lesturs hvað þá að skilja hina foreldrana sem hafa aðeins reynt að tala við mig en ég bara get ekki heyrt mælt mál í þessum dæmigerða hljómburði íþróttahúsa.
En nú er ég búin með mömmuskyldurnar, íþróttir og tónlist og búin að ryksuga alla bévítans íbúðina í þokkabót svo ég hlýt að mega sitja hér í sófanum og prófa mig áfram með blogg.
Ungur maður sagði um daginn að bloggið væri dautt. Og bætti svo við að í því væri engin framtíð. Það hentar mér ágætlega, ég hef alltaf gert í því að vera pínu svona eftir á, lummó, það er nefnilega svo artí. Við Egill Helgason og Jónas og nokkur fleiri, við erum rosa svona retró smart. Gott ef ég þyrfti ekki að finna einhverja nýja mynd sem væri meira svona tákn þess hve retró artí ég er, veit samt ekki hversu langt aftur ég ætti að fara. Ef ég hef ritvél, er þá of að hafa hana eldri en ég er sjálf? Væri ekki einhvern veginn lógískara að hafa rafmagnsritvél eins og þá sem ég lærði að vélrita sjúklega hratt á á Pósti og síma? Hún er eflaust afar framandi í augum unga mannsins sem deyddi bloggið, en þegar ég notaði hana, fannst mér ég svakalega mikil nútímakona og mjög fullorðins líka (ég var 16 ára og í næsta herbergi við mig mátti yfirmaðurinn (sem var kona) nota tölvuna okkar, bara svo þið farið ekki að gera mig of gamla, nóg er nú samt). Hmmm, eða er kannski bara nóg að hafa mynd af ketti og lítilli stúlku? Lítilli stúlku sem situr nú hér í sömu stofu og ég, í bol og sokkum af mér (ég tók til í skápnum og gaf henni föt sem ég hef ekki notað lengi), með gleraugu á nefinu, stráhatt á höfðinu og fartölvu í fanginu? Kettir eru dálítið retró og artí, er það ekki?
Æ, nú datt ég úr blogggírnum því ég þurfti að hjálpa henni að finna wordið, stelpunni sem var lítil í gær en er stór í dag. Bara nokkrir molar, örstutt, svona til að þið vitið örugglega allt um mig:
Ég er ekki búin að skila, en þetta er þó eiginlega alveg komið. Það er samt eitthvað þarna sem virkar ekki alveg, það vantar samloðun, lím, ég fann eitthvað um daginn, en var þá auðvitað ekki við tölvu og gat ekki skrifað nema punkta og hef ekki síðan náð að setjast niður og vinna úr þeim. Ég er þó nokkuð ákveðin í að skila þessu á mánudagskvöld. Eða þriðjudagskvöld kannski, því vinkona mín sagðist ætla að lesa yfir þetta og skila mér á þriðjudag.
Ég hef verið að vinna töluvert sem Parísardaman, en það er samt ekki komið 2007 aftur. Það er alltaf fáránlega gaman, en mesta gleðiefnið er að ég hef fengið nokkra skólahópa og það er bara fullt af flottum unglingum að læra frönsku út um allt land. Og unglingar eru bara ekkert agalegir að vera í samskiptum við, síður en svo.
Ég hef fitnað. Ég nenni aldrei út að hlaupa, enda kaldasta vor í hálfa öld og ég hef orðið fyrir frostsskemmdum undanfarið. Ég borða líka óheyrilega mikið og súkkulaðiátið um páskana hefur aldrei verið jafn svaðalegt. Ég er orðin aðeins pirruð á þessu núna, þetta er aðeins of mikið af því góða. Verður tekið á þessu … á morgun, hehe.
Ég get ekki ákveðið mig með hvað ég á að kjósa. Mér er skapi næst að sleppa því en ég er svo illa (eða vel) upp alin að ég held ég hafi ekki taugar í það. Ekki heldur að skila auðu. Ég veit nákvæmlega hvaða flokka ég vil ekki kjósa, en hika alvarlega milli tveggja. Ég er eiginlega búin að ákveða að láta ekki uppi hvað ég kýs á endanum, þvert á venju mína. En ég ákveð oft að segja ekki frá einhverju og brýt það svo. Ég er svoddan blaðra.
Ég er með flösu. Mjög mikla flösu og henni fylgir kláði. Það er sama ástæða fyrir henni og að ég fitna. Ritgerðarstressið er að fara með mig. Ég er orðin nógu biluð til að halda að þegar ég skila ritgerðinni verði allt einhvern veginn öðruvísi. Gott ef ég held einmitt ekki að ég verði grennri og ekki með flösu og íbúðin alltaf tandurhrein og ég alltaf tilbúin með matinn þegar maðurinn minn kemur heim og svona.
Það verða framkvæmdir á íbúðinni í byrjun maí. Vinur okkar, arkitekt, gaf okkur teikningu og nú fer allt á fullt. Fyrsta skrefið verður svaka bókaherbergi/sjónvarp/sófi/skrifborðin okkar. Svo, kannski ekki fyrr en í haust, verður eldhúsið flutt hingað fram í fremri stofuna og við græðum eitt stykki herbergi svo börnin þurfa ekki lengur að vera saman. Þetta er bæði gaman og hrikalega stressandi. Ég er byrjuð að fara í gegnum dót og píni mig til að henda. 21. apríl verðum við með bás á flóamarkaði og ég er að reyna að sannfæra sjálfa mig um að selja alls konar húsgögn sem ég mun þó eiga mjög erfitt með að selja. Kannski ætti ég að taka myndasyrpu og spyrja ykkur álits. Bloggarar (sem eru eina fólkið sem les blogg, utan nokkra furðufugla í viðbót) eru oft svo góðir með að gefa ráð. Sé til hvort ég nenni því.
En nú ætla ég að hætta, þetta er orðið allt of langt. Hver nennir að lesa svona bull? Ekki nenni ég að renna yfir þetta aftur!
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir