Mér finnst bráðnauðsynlegt að tilkynna lesendum mínum (báðum) að ég er að skila af mér Meistararitgerðinni um helgina. Þetta er heljarinnar dútl á lokasprettinum, en ég held ég geti verið nokkuð örugg um að ég fái að útskrifast í vor.
Ég byrjaði í Þýðingafræðináminu árið 2008. Þegar ég innritaði mig í námið, var brjálað að gera hjá mér í ferðabransanum, en ég hafði frétt af þessu námi og ákvað að þetta hlyti að vera eitthvað sem ég ætti að gera. Ég var nefnilega með smá áhyggjur af því að vera í ferðabransanum án þess að hafa til þess nokkra menntun, en ég hef verið bögguð vegna þess, af Íslendingum. Vegna áreitis frá Félagi íslenskra leiðsögumanna tók ég orðið leiðsögn út af vefsíðunni minni. Íslenskir leiðsögumenn með próf í leiðsögn um Ísland þoldu ekki tilhugsunina um litla konu í París að þykjast vera leiðsögumaður. Ég skil að vissu leyti áhyggjur af lögverndun starfsheita en persónulega hef ég fulla trú á því að fólk geti alveg gert hluti mjög vel án þess að fara í gegnum nám. Og mér finnst meira spennandi að leyfa fólki að gera hlutina vel, en að vera að einblína á prófgráður.
En. Semsagt. Einhver sagði mér eitthvað um þýðingafræðin og mér fannst einboðið að skella mér í það nám, svo ég gæti þá alla vega sagst vera með próf þegar ég tæki að mér þýðingar. Ég var líka með það í huga að kynnast þýðendum á Íslandi, enda finn ég eiginlega best fyrir fjarlægð og einsemd þegar ég er að þýða.
Um haustið 2008 skráði ég mig sem sagt í kúrsa á BA-stigi í íslensku og þrælaði mér í gegnum hljóðfræði, beygingar og orðmyndun og fleira skemmtilegt. Vinum mínum fannst ég snarklikkuð, það væri sko alveg nóg að gera hjá mér þó ég færi ekki að bæta þessu ofan á allt hitt. Börnin voru þá 4 og 6 ára gömul og eins og ég sagði áðan var slatti að gera í ferðabransanum, enda allir í afneitun á að góðærið væri að springa í andlitið á sjálfu sér. Þar til í október. Ég gekk um Mýrina með fjóra Íslendinga þarna rétt í byrjun október. Þau voru í losti yfir verðinu sem vísa setti á bjórkollurnar og eftir að þau komust aftur heim fékk ég enga viðskiptavini í langan, langan tíma. Jú, reyndar kom Hamrahlíðarkórinn síðar í október, en það ferðalag hafði verið skipulagt löngu áður og dagskráin var svo mikil að það hefði verið ömurlegt fyrir þau að hætta við. Ég man hvað það var fríkað að sitja í rútunni og þau öll með nesti, flatkökur og kókómjólk. Ég hafði aldrei fengið viðskiptavini með nesti áður, held ég. Og ég gleymi ekki hvað það var tilfinningaþrungið móment að sjá þau í þjóðbúningum að syngja í Notre Dame. Fulltrúar lands sem var á hausnum, ónýtt. Og þau svo frábær og falleg. Vá, hvað maður var nú bljúgur þá.
Já. Semsagt. Ég hef alltaf sagt að það hafi verið verndarengillinn minn sem leiddi mig til þess að skrá mig í námið. Ég veit ekki hvað hefði orðið um mig þarna í nóvember og desember 2008, ef ég hefði ekki getað legið á kafi í hljóðfræðiverkefnum og fleiru skemmtilegu.
Og þessi örstutta tilkynning er orðin of löng, en nú er ég sem sagt búin. Eða þannig. Þið vitið. Næstum búin. Og í gegnum námið hef ég kannski ekki beint kynnst mörgum samnemendum, þar sem ég var bara með í anda. En þó hef ég komist í samband við nokkra þýðendur, fengið að kynnast frænku minni sem er doktor í íslensku þegar maðurinn hennar kenndi mér einmitt blessaða hljóðfræðina og síðast en ekki síst atti Gauti mér út í að prófa að þýða skáldverk. Og nú eru komnar tvær franskar skáldsögur út í minni þýðingu. Rannsóknin eftir Philippe Claudel þarna 2011 og nú um daginn kom út hin þrælskemmtilega og spennandi bók Í trúnaði eftir Hélène Crémillon. Ég er enn dálítið hissa. Ég hélt í alvöru talað að ég gæti þetta ekki. Þýtt bókmenntir. En mér finnst það meiriháttar gaman og ég vona að ég nái því að fá að þýða amk eina bók á ári héðan í frá.
Þegar maður klárar svona verkefni, verða kaflaskil. Nú þarf ég að taka aðeins til hjá mér og finna út úr því hvernig framhaldið verður. Eins og er, bögglast í mér hugmyndin um að halda áfram að vera Parísardaman því það er náttúrulega skemmtilegast af öllu. Þýða eina skáldsögu á ári og verða mér úti um aðeins fleiri nytjaþýðingar, en undanfarið hefur verið ógurlega lítið að gera í þeim. Ég veit samt ekki alveg hvernig ég á að snúa mér í því, allar ábendingar vel þegnar.
Nú ætla ég að halda út í vorið og svei mér ef ég kaupi mér ekki bara ís í dag!
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir