Ég er búin að fá einkunn fyrir mastersritgerð: 9.0. Ég er fullkomlega sátt við þá einkunn. Eiginlega er ég of sátt, mér finnst þau hljóti að hafa verið of góð við mig. Líklega er hún ekki svo góð. Eða hvað? Æ, við skulum ekki dvelja við það. Það er svo margt annað svo mikilvægara í þessum heimi heldur en ein lítil mastersritgerð einnar lítillar konu.
Ég dissa þetta blogg og kenni feisbúkk algerlega um. En stundum er feisbúkk bara ekki málið. Núna til dæmis er klukkan tvö að nóttu og ég ætlaði bara að setja inn lítinn status um hvað það hefði verið gaman og gott að borða góðan mat og skála við góðar vinkonur, en um leið þótti mér einhvern veginn eins og vegið væri að kvöldinu í gær. Af hverju kom enginn status um Leonard Cohen og hvað hann er meiriháttar?
Sem sagt.
Mér datt í hug að gera svona tilraun:
Setja inn status frá í gær, í dag. Setja sem sagt inn í kvöld: OMG LEONARD COHEN ER ENN HJARTABRJÓTUR! Eða þið vitið. Þið sem þekkið mig á feisbúkk vitið hvernig statusinn um tónleika með Leonard Cohen hefði getað litið út. Eða ekki.
Um leið og ég skrifaði eitthvað um að þrátt fyrir aldur væri karlhelvítið enn með allt sem þarf, fattaði ég að vinkona mín sem stóð í ströngu í allan dag við að undirbúa ó, svo velheppnað matarboð kvöldsins, yrði kannski pínu (og það væri alveg réttlætanlegt) svekkt yfir mínum status, hún sjálf rétt búin að taka allt til eftir matarboðið og setja síðustu glösin í uppþvottavélina og sæi svo bara eitthvað um Leonard Cohen?! Ég skil hana svo vel í þessari ímynduðu sitúasjón að ég set tilheyrandi spurningamerki ásamt upphrópunuarmerki, en þetta er hin besta leið til að tjá hneykslan, á eftir þartilgerðum „broskarla“táknum, en sumir broskarlar geta táknað annað en bros, til dæmis alls konar sárindi og sorg.
Sem sagt. Engin tilraun. Það stendur ekkert á feisbúkkveggnum mínum. Það síðasta sem ég setti inn var … eitthvað. Þú verður að fara þangað til að tékka, eins og ég sjálf. Og ef þú ert ekki á feisbúkk lofa ég þér að þú ert ekki að tapa neinu. Þar gerðist ekkert í kvöld. Nema ég lækaði eitt og annað, eins og gengur … þar.
Í kvöld átti ég yndiskvöld með vinkonum mínum. Það er eiginlega þúsund sinnum betra en allt annað. M.a.s. það að klára masterinn. Vinkonur eru bara eitthvað svo mikið … ahhh … (bara svona svo það sé á hreinu eigum við líka vini sem mega alveg vera memm stundum, þessir vinir bara eru ekki í sama landi akkúrat núna)
Lifið i friði.
Nýlegar athugasemdir