Sarpur fyrir desember, 2013

Un sachet de thé

Þetta er í raun áramótapistill, en ég get varla farið yfir árið því ég man ekki neitt stundinni lengur. Eina ástæðan fyrir því að ég ákvað að prófa að skrifa eitthvað er sú að ég var að fá ársuppgjör frá WordPress og þar kemur fram sú arma staðreynd að ég hef skrifað átta pistla á árinu. En kannski er það bara allt í lagi, kannski er tími bloggsins liðinn, þó einhverjir hamist við að halda öðru fram.
Ég þarf annars að fara að skrifa niður bækurnar sem ég les og tónleikana sem ég fer á og svona. Ég man þó vel að ég sá Björku í Zenith ásamt allri fjölskyldunni. Það var stórmerkilegt, ég hafði ekki séð hana á sviði síðan ég sá Sykurmolana í Elysée Montmartre fyrsta veturinn minn í París. Björk er alveg rosaleg og þessir tónleikar voru mergjaðir. Gaman líka að hafa krakkana með. Mig langar orðið aldrei til að gera neitt nema þau séu með. Ég sá líka Ólaf Arnalds sem er flottur. Hann er kannski á einhvern hátt afsprengi tilraunastarfsemi Bjarkar, eða mig langar að prófa að halda því fram án þess að ég telji mig hafa nokkurt vit á tónlist, sérstaklega svona samtímatónlist eins og þau semja. Nú í nóvember sá ég svo Emiliönu Torrini sem er líka fær og skemmtileg. Hún hreif salinn með sér, vinur minn er ástfanginn upp fyrir haus af henni. Ég sá líka Eddu Erlendsdóttur spila á píanótónleikum, sem var mikil upplifun. Og ég var svo heppin að fá að fylgja Vox Feminae um alla borg og heyra þær syngja bæði í Saint Germain des Près og Notre Dame. Hvílíkar gyðjur.
Við krakkarnir fórum að sjá Flavio Esposito, gítarkennara Sólrúnar, spila á skemmtilegum tónleikum í pínulitlu leikhúsi og þau sjálf spiluðu og sungu á ótal uppákomum í tónlistarskólanum.

Ég skilaði MA-ritgerð og uppskar svakalega fínt diplómuskjal. Þvert á loforð um að fara aldrei aftur í nám, skráði ég mig í löggildingarprófið sem ég þreyti í febrúar og er svo að skoða árslangt nám í háskólanum í Nanterre fyrir næsta vetur. Nánar um það síðar.

Ég kærði mig inn á kjörskrá í lok nóvember, en ég hefði dottið út 1. des ella. Ég hef sterklega á tilfinningunni að það gætu alveg orðið kosningar aftur á Íslandi, ástandið er valt.

Ég er búin að lesa fullt af skáldsögum en þar sem ég held enga dagbók yfir það sem ég les og get ekki flett upp, sleppi ég því að reyna að gera lista. Ég er líka búin að lesa eitthvað af fræðilegu efni, aðallega sagnfræði eða félagsfræði sem tengist París.

Ég hef ekki staðið mig nógu vel í sukkjöfnun og held ég hafi fitnað. Nei, ég skal segja þetta rétt: Ég hef fitnað. Ég kemst til dæmis ekki í jólakjólinn frá því í fyrra. En þetta stendur nú allt til bóta. Eða ekki. Ég hamast við að berjast gegn útlitsdýrkun og megrunarkjaftæði, en ég vil samt ekki verða of feit sjálf. Það er reyndar í raun ekkert endilega þversagnarkennt. En samt jú, í mínu tilfelli er það dálítið þversagnarkennt því spikið er ekki farið að há mér líkamlega, ég get enn þrammað upp og niður og út og suður og allt sem ég vil. Það háir mér hins vegar andlega að reka stundum augun í mynd mína í spegli og sjá hvernig bumban stendur út í loftið.
Ég prófaði zumba og jóga í fyrsta skipti á árinu. Svona er nú hjarðhegðunareðlið sterkt í manni þótt maður þykist rosa kúl. Ég stefni á að verða duglegri í zumba núna eftir áramót, en það hittist furðulega þannig á að ég gat sjaldan mætt á haustönninni. Ég er ekki viss með jógann, einfaldlega of dýrt og of langt að fara. 

Ég þýddi enga bók á þessu ári og hef í raun fengið lítið af þýðingaverkefnum. Ég hef haft þó nokkuð að gera í túristabransanum og mér finnst það alltaf jafn skemmtileg vinna. Ég er farin að  endurskoða ferðirnar dálítið. Kannski eru þær of langar, ég er samt ekki viss. Þær fara oftast alveg upp í þrjá tíma. Ein hugmyndin er að bjóða tvær versjónir, styttri og lengri útgáfu. En það er alla vega kominn tími á að breyta þeim eitthvað, ég má ekki staðna.

Krakkarnir mínir eru stórkostleg börn. Ég veit ekki hvað ég hef gert til að eiga þau skilið. Þegar ég fór að sækja einkunnir þeirra núna í desember, notuðu kennarar beggja sama orðalagið eftir að hafa hlaðið þau lofi fyrir að vera prúð, skemmtileg, klár og dugleg: „Þú hlýtur að heyra þetta oft.“ Ég var bókstaflega að rifna úr monti í bæði skiptin þegar ég hálf valhoppaði út úr skólabyggingunum. Brosið hefur eflaust náð alveg út að eyrum.
Sólrún er í gagnfræðaskóla, og er í sérstökum tónlistarbekk. Einn eftirmiðdag í viku er hún í tónlistarskólanum þar sem hún lærir tónsmíðar, spuna og tónfræði. Hún mætir svo að auki í gítartíma og er í tveimur gítarhljómsveitum. Á mánudögum og þriðjudögum er hún í skólanum frá 8 til 17:30. Á föstudögum er hún búin á hljómsveitaræfingu klukkan hálfníu og fer á hina hljómsveitaræfinguna á laugardögum. Hún æfir þar að auki sund einu sinni í viku. Ég er stundum krossbit á því hvað hún er geðgóð og kát, þetta er svakalegt prógramm hjá henni.
Kári er enn í grunnskóla og hefur fengið boð um að koma í voða fínan gangfræðaskóla á næsta ári. Hvers vegna er löng saga sem ég segi kannski síðar, ég velkist í vafa með þetta allt saman. Hann er sæmilega duglegur að æfa sig á saxófóninn og æfir að auki aïkido sem honum finnst voða gaman. Skóladagarnir eru líka langir hjá honum, en hann er í fríi á miðvikudögum fyrir utan að mæta í saxófóntímann um morguninn. Mig langar stundum að stöðva allt, fara eitthvað í burtu með þau og leyfa þeim (og okkur) að vera bara til. Það er heilmikið álag á börn hér í Frakklandi. En, eins og ég sagði, þá eru þau fullkomin og virðast amk enn þrífast vel í þessu hörkukerfi.

En jæja, ég ætlaði nú ekki að skrifa einhverja langloku og í raun vona ég að enginn sjái þetta. En ef einhver villist inn: Gleðilegt nýtt ár og þakkir fyrir það gamla!

Munið ævinlega að lifa í friði.

það hlýtur að vera mars

Það er alveg ótrúlega fríkað að fylgjast með Íslandi úr fjarska þessa dagana. Ríkisútvarpið aflimað, lögrelgan skýtur mann til bana og strax er farið að tala um fleiri vopn og ríkisstjórnin sker niður bætur hinna lægst settu, svona til að jafna upp skattaafslátt hinna best settu sem veittur var nánast sama dag og stjórnin tók við völdum. Ekki dugir að skera niður bætur hinna lægst settu á Íslandi, heldur á líka að taka af því fé sem farið hefur í þróunaraðstoð.

Maður er bara gapandi gáttaður. Þar sem íbúðin mín er á hvolfi vegna framkvæmda við „stækkun“ hef ég ekki sett upp einn einasta jólastjaka og ég verð að segja að akkúrat þennan mánudagsmorgun og alveg að koma miður desember líður mér eins og það hljóti að vera mars. Treysta þeir á að fólk bara sitji með jólaglögg og piparkökur og rauli með Bó og Frostrósum og haldi kjafti?

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha