Það er alveg ótrúlega fríkað að fylgjast með Íslandi úr fjarska þessa dagana. Ríkisútvarpið aflimað, lögrelgan skýtur mann til bana og strax er farið að tala um fleiri vopn og ríkisstjórnin sker niður bætur hinna lægst settu, svona til að jafna upp skattaafslátt hinna best settu sem veittur var nánast sama dag og stjórnin tók við völdum. Ekki dugir að skera niður bætur hinna lægst settu á Íslandi, heldur á líka að taka af því fé sem farið hefur í þróunaraðstoð.
Maður er bara gapandi gáttaður. Þar sem íbúðin mín er á hvolfi vegna framkvæmda við „stækkun“ hef ég ekki sett upp einn einasta jólastjaka og ég verð að segja að akkúrat þennan mánudagsmorgun og alveg að koma miður desember líður mér eins og það hljóti að vera mars. Treysta þeir á að fólk bara sitji með jólaglögg og piparkökur og rauli með Bó og Frostrósum og haldi kjafti?
Lifið í friði.
0 Responses to “það hlýtur að vera mars”