rafmögnuð kona

Milli jóla og nýárs gekk ég í það litla og löðurmannlega verkefni að skipta út vaskmubblunni á baðinu, ásamt vaski og krana. Samkvæmt jútúb myndböndum tæki svona verkefni kannski daginn, en þar sem ég vissi að það gæti orðið snúið að ná gömlu skápunum frá, því þeir vöfðust svo fagurlega utan um pípulagnir sem ég vildi ekki fjarlægja fyrst, ákvað ég að gefa þessu þrjá daga. Sonur minn hefur sýnt viðhaldsvinnu mikinn áhuga og sagst vilja læra, svo hann var opinber handlangari minn. Við böksuðum töluvert lengi við að ná skápunum utan af pípulögnunum og voru aðfarirnar stundum dálítið eins og við værum tannlæknar að bora, eða mér leið alla vega þannig. Skáparnir losnuðu að lokum, en þá var eftir að losa vaskinn sem var vel límdur við flísalagðan vegginn. Þrátt fyrir óhóflega notkun á sérstökum silicon-leysi og að búið væri að fara með kíttispaða meðfram öllu, að ég taldi, fór að lokum svo að með vaskinum kom dágóður hluti af flísum, og með þeim dágóður hluti af veggnum undir.
Ég fékk áfall, slökkti ljósin á baðherberginu og lagðist í smá kör. Svo jafnaði ég mig, fór og skoðaði þetta og pældi aðeins í möguleikunum og ákvað að endingu að þetta væri merki um að ég ætti bara að leyfa mér að fjarlægja flísarnar, laga veggina, fjarlægja baðkarið, fá nýtt og fínt slíkt, nýja bað- og sturtukrana og auðvitað nýjar flísar á veggina.
En alltaf þegar framkvæmdir standa fyrir dyrum fer snjóbolti af stað og með þessum ákvörðunum fattaði ég að nú og akkúrat nú væri tími til kominn að láta taka rafmagnið í gegn hér, en innstungur í svefnherbergjunum eru frá 1960 og öll lýsingamál í þeim eru í slíkum ólestri að það verða aldrei birtar myndir.
Ég fór að leita að rafvirkja og af því leiddi að ég skoðaði rafvirkjanám og pældi í að skella mér og allt í einu datt mér í hug að gúggla rafvirkja í kvenkyni, og sló inn „electricienne paris“. Upp kom vefsíða kvenkyns rafvirkja sem ég hringdi í. Rám rödd hennar og kvik viðbrögð sannfærðu mig um að við ættum vel saman. Og í kvöld kom hún að taka út ástandið hérna og mældi og hummaði og bráðum fæ ég verðtilboð frá henni. Hún er lítil og mjó, með millisítt krullað hár. Ráma röddin á sínum stað undir grímunni. Hún ræddi eingöngu hluti sem skipta máli, útskýrði fyrir okkur alls konar varðandi norm og kröfur og möguleika til að koma sem best frá þessu. Ég er ofursátt. Nú þyrfti ég eiginlega bara að finna kvenkyns flísaleggjara/múrara/pípara. En eins og er hafa þeir iðnaðarmenn sem ég hef náð í annað hvort komið en senda svo ekkert verðtilboð eða bara segjast ætla að koma en koma svo ekki. Ég hef alveg þolað þá höfnun. Það skiptir engu máli þótt við þvoum okkur um hendur í baðkarinu, ég hugsa bara um aðstæður í Tógó í hvert skipti sem ég ætla að fara að vorkenna mér. En ég veit ekki hvert ég fer ef þessi rafmagnskona svíkur mig um tilboð. Það gæti riðið mér að fullu.

Verð ég ekki að enda þennan pistil eins og ég gerði ávallt í gamla daga? Jú, ég held það svei mér þá. Ég held ég bara gæti ekki annað:

Lifið í friði.

1 Svörun to “rafmögnuð kona”


  1. 1 Elín Kjartansdóttir 14 Feb, 2021 kl. 1:10 e.h.

    En gaman að ramba hér inn hjá þér á ný!


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha

%d bloggurum líkar þetta: