Sarpur fyrir september, 2021

Litlu minningarbrotin

Þegar man hamast, fer hugurinn oft á fullt. Nú hjóla ég í vinnuna og þótt ekki þýði að vera með hugann á of miklu flugi út í buskanum þegar hjólað er í morgunumferðinni í París, næ ég stundum að fara á smá flug á leiðinni heim, enda er það oftast um miðjan dag eða hefur alla vega verið undanfarið því nettengingin í Sorbonne hefur verið óþolandi léleg og betra að vinna heiman frá sér þegar ekki er verið að kenna.

Um daginn fékk ég svona minningaleiftur um forláta skíðahjálma sem pabbi minn kom með frá útlöndum handa okkur systrum, löngu áður en slíkur búnaður fór að þykja eðlilegur. Á hjálminum var einhvers konar skel sem passaði beint á hökuna. Hjálmurinn var sem sagt ekki festur undir hökuna heldur lá þessi skel á hökunni henni til varnar. Mér fannst þetta eitthvað svo stórmerkilegt sem krakka, að það væri líka passað upp á hökuna, ekki bara hlutann sem varðveitir heilann. Og mér fannst alltaf svo mikilvægt að þessi skel væri á nákvæmlega réttum stað, stundum þurfti ég margar tilraunir áður en það gekk upp, því skelin rann til á bandinu.

Hvílíkt sem ég væri til í að handfjatla skíðahjálminn minn aftur. Mér þótti hann með því fegursta og besta sem ég hafði átt í einhvern tíma eftir að ég fékk hann. Ég man alls ekki eftir tilfinningu um að fara hjá mér við að vera allt öðruvísi en aðrir skíðakrakkar. Hef ég bælt það niður eða náði ég bara að finnast ég töff með hjálm? Ég sem var oft svo óþolandi meðvituð og hrædd við að vera öðruvísi. Samt líka alltaf svo mikill besservisser og nett vírd líklega þótt ég væri fríkað flínk í að falla í hópinn.

Þessi hugleiðing varð allt öðruvísi en ég hafði hugsað í upphafi. En það er nú hið besta mál. Lifið í friði.

Föstudagur

Líklega væri sniðugt að kíkja á hvað ég bullaði síðast til að muna hvort ég hafi einhverjar fréttir að flytja, sem þið bíðið í ofvæni eftir að fá. En í staðinn opna ég bara beint nýjan póst. Sem er furðulegt því ég hef í raun ekkert sérstakt að segja, þannig.


Ég hlustaði á Monu Chollet í morgun, það er að koma út ný bók eftir hana. Mona Chollet hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér lengi, lengi. Ég hef þýtt tvær greinar eftir hana, aðra fyrir Smuguna sem svo dó og greinin sú er því ekki lengur til á internetinu. Ég á hana vistaða í tölvunni minni og gæti alveg birt hér á blogginu en ég veit ekki hvort einhver nennir að lesa hana. Hún fjallar um Polanski-málið en vísar í fleiri mál og sögur, sumt mjög franskt en ekki bara. Mér finnst hún góð en ég man ekki eftir því að hafa fengið nokkur viðbrögð við henni.
Síðari greinina, sem fjallar um pjatt eða sundurgerð, þýddi ég svo fyrir Knúz og eina kommentið var spurning um hvers vegna í ósköpunum verið væri að þýða svona efni á íslensku. Mér fannst það sem betur fer frekar fyndið en særandi á sínum tíma, en hef eiginlega bara haldið Monu Chollet fyrir mig og mína frönsku vini síðan. Kannski er hún of klár. Kannski eru þýðingarnar ekki góðar. Ég veit ekki. Ég vildi óska að ég gæti mælt með bókum hennar við ykkur, en alla vega ef einhver frönskumælandi villist hingað inn, má tékka á henni.

Í morgun vaknaði ég með háar hugmyndir um að fara út í garð að púla og tína hindber. En eftir að hafa hlustað á Monu vaknaði í mér eitthvað sofandi dýr og ég henti mér hugsunarlaust út í að bora fyrir og skrúfa upp ljós í svefnherberginu, en ég málaði nefnilega í byrjun mars og ákvað að skipta út ljósunum þá. Ég er megasátt við að hafa fest upp ljósin. Aðeins minna sátt við að þrátt fyrir að hafa getað endurnýtt eitt af götunum fyrir lampana sem áður voru náttlamparnir okkar, er töluverður hæðamunur á nýju lömpunum tveimur. Þessu tók ég aldrei eftir með hina lampana og hef ekki græna glóru um það hvernig þetta gerðist. Ég geri fastlega ráð fyrir að þetta hætti að fara í taugarnar á mér strax í dag og að þetta verði ekki lagað fyrr en í fyrsta lagið þegar aftur verður málað.

Ég vildi óska að ég væri núna á leið út í garð, en nei, ég á stefnumót við bankafulltrúa á eftir. Er reyndar á góðri leið með að gera mig of seina. Kveð því núna. Lifið í friði.

Haust

Enn og aftur er komið haust, skólarnir byrjaðir og lífið að fara í skorðurnar sem sumarið riðlar alltaf til. Reyndar á ég erfitt með að tala um haust hér í París, enda þrjátíu stiga hiti og ég ekki farin að vinna neitt að ráði. Tutla við undirbúning kennslunnar sem byrjar í næstu viku og er reyndar í dag að rifja upp það sem ég þykist vita um Mont Saint Michel, en þangað held ég á morgun með vinkonur frá Íslandi.
Við ætlum að prófa að nýta okkur dagsferðartilboð með lest, förum frá Montparnasse lestarstöðinni klukkan hálfátta í fyrramálið og komum til baka klukkan tíu um kvöldið. Lestin gengur ekki alla leið að eyjunni, en rúta bíður okkar við lestarstöðina í Normandí og flytur okkur til baka í tæka tíð fyrir lestina um kvöldið. Spennt að sjá hvort ég geti mælt með þessum ferðamáta. Allt til að nota bílinn sem minnst!

Ég sé að ég bloggaði síðast um yfirvofandi baðherbergisframkvæmdir og var þá að leita að mönnum í verkið. Ég fékk að lokum konu til að taka þetta að sér og þótt ég hafi greitt stórfé fyrir þetta var ómetanlegt að allt stóðst eins og stafur á bók. Hún kom þegar hún sagðist ætla að koma og lauk á tilsettum tíma. Munur miðað við karlana sem höfðu svikið mig trekk í trekk.

Þetta gerðist rétt áður en ég fór til Íslands í sumarfrí og enn hef ég því ekki sett upp hillur, snaga og ljós, né fundið rétta skápinn fyrir handklæðin. En fallegt er það sem komið er, maður mín. Ég hef aldrei verið með fallegt baðherbergi, held ég. Eða jú, það var reyndar ansi krúttlegt og næs hjá mér á Þórsgötunni forðum, pínulítið baðkar undir stiga. Ég held samt að ég eigi ekki myndir af því.

Ég sé það fyrir mér að eyða löngum stundum í þessu baðkari, en veit ekki hvort ég muni hafa tíma til þess. Kennsla fjóra daga í viku, kóræfingar, pilates, hlaupáskorun og auðvitað að eiga meiri tíma með vinum og fjölskyldu. Jájá, það vantar ekki áramótaheitin hér á þessum bæ. Eins gott að ég er frekar slök gagnvart því að standa við þau!

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha