Líklega væri sniðugt að kíkja á hvað ég bullaði síðast til að muna hvort ég hafi einhverjar fréttir að flytja, sem þið bíðið í ofvæni eftir að fá. En í staðinn opna ég bara beint nýjan póst. Sem er furðulegt því ég hef í raun ekkert sérstakt að segja, þannig.
Ég hlustaði á Monu Chollet í morgun, það er að koma út ný bók eftir hana. Mona Chollet hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér lengi, lengi. Ég hef þýtt tvær greinar eftir hana, aðra fyrir Smuguna sem svo dó og greinin sú er því ekki lengur til á internetinu. Ég á hana vistaða í tölvunni minni og gæti alveg birt hér á blogginu en ég veit ekki hvort einhver nennir að lesa hana. Hún fjallar um Polanski-málið en vísar í fleiri mál og sögur, sumt mjög franskt en ekki bara. Mér finnst hún góð en ég man ekki eftir því að hafa fengið nokkur viðbrögð við henni.
Síðari greinina, sem fjallar um pjatt eða sundurgerð, þýddi ég svo fyrir Knúz og eina kommentið var spurning um hvers vegna í ósköpunum verið væri að þýða svona efni á íslensku. Mér fannst það sem betur fer frekar fyndið en særandi á sínum tíma, en hef eiginlega bara haldið Monu Chollet fyrir mig og mína frönsku vini síðan. Kannski er hún of klár. Kannski eru þýðingarnar ekki góðar. Ég veit ekki. Ég vildi óska að ég gæti mælt með bókum hennar við ykkur, en alla vega ef einhver frönskumælandi villist hingað inn, má tékka á henni.
Í morgun vaknaði ég með háar hugmyndir um að fara út í garð að púla og tína hindber. En eftir að hafa hlustað á Monu vaknaði í mér eitthvað sofandi dýr og ég henti mér hugsunarlaust út í að bora fyrir og skrúfa upp ljós í svefnherberginu, en ég málaði nefnilega í byrjun mars og ákvað að skipta út ljósunum þá. Ég er megasátt við að hafa fest upp ljósin. Aðeins minna sátt við að þrátt fyrir að hafa getað endurnýtt eitt af götunum fyrir lampana sem áður voru náttlamparnir okkar, er töluverður hæðamunur á nýju lömpunum tveimur. Þessu tók ég aldrei eftir með hina lampana og hef ekki græna glóru um það hvernig þetta gerðist. Ég geri fastlega ráð fyrir að þetta hætti að fara í taugarnar á mér strax í dag og að þetta verði ekki lagað fyrr en í fyrsta lagið þegar aftur verður málað.
Ég vildi óska að ég væri núna á leið út í garð, en nei, ég á stefnumót við bankafulltrúa á eftir. Er reyndar á góðri leið með að gera mig of seina. Kveð því núna. Lifið í friði.
0 Responses to “Föstudagur”