Bækur að teyga eða teygja

Var að ljúka við n-ta lestur á Ástin fiskanna eftir Steinunni Sigurðardóttur. Ein af fáum bókum sem hefur fylgt mér í gegnum ótal flutninga, fram og til baka yfir hafið og allt. Lesin reglulega, stundum þegar ég hef ekkert annað en stundum þegar ég er með fullt af öðru að lesa en sem ég þarf greinilega að hvíla mig frá, eins og er nú.
Ég var með fjórar hálflesnar bækur í gangi, sem er ólíkt mér. Lauk við eina af þeim í gær og byrjaði þá á sögunu af ástinni köldu í staðinn fyrir að ráðast að bunkanum furðulega.

Mér finnst þær allar brilljant góðar og mun lesa þær upp til agna, en ég ræð ekki við að gera það í einum sprett. Sú sem ég lauk í gær var Jón Kalman, Fjarvera þín er myrkur. Ég hélt satt að segja að ég væri löngu búin með hana og ætlaði meira að segja að skila henni um daginn, en hafði víst geymt mér síðasta kaflann og steingleymt því síðan. Eins gott að ég gleymdi að skila!

Hinar eru Kristín Lafransdóttir eftir Sigrid Undset, íslensk þýðing Helgi Hjörvars og Arnheiður Sigurðardóttir, Elskan mín ég dey eftir Kristínu Ómarsdóttur og Myndin af heiminum eftir Pétur Gunnarsson.

Ástin fiskanna er snjáð og inni í henni er blettur sem gæti verið súkkulaði. Hann er neðst í krikanum fyrir miðri bók. Ég sé fyrir mér að ég hafi gripið hana einmanaleg jól hér í Frakklandi, þegar fólkið mitt passaði ekki upp á að senda mér bækur (já, það hefur gerst og er ekki gleymt). Ég hef þá hálflegið í rúminu með þessa bók og súkkulaði mér til hugarhægðar.

Ég vildi óska þess að ég gæti átt fleiri daga eins og þann sem ég gaf mér í gær. Ég ákvað áður en ég fór að sofa að ég myndi hanga og lesa og hekla allan daginn og ekkert annað gera. Ég stóð næstum við það, en hékk því miður dálítið á netinu líka og tók til í baðherbergisskúffunni í leit að naglaklippunum sem virðast tröllum gefnar. Þegar ég vaknaði of snemma í morgun, vegna nýja vetrartímans, lauk ég við bókina og lá svo og lét mig dreyma um bjálkakofa, íslenskt rok og lóusöng.

Ég er alltaf jafn undrandi á þessari sögu. Svo undrandi á því að þau geti verið svona vitlaus en um leið undrandi á að í því felst einmitt öll fegurðin. Mér finnst svo gaman að foreldrum hennar og get að vissu leyti speglað mig bæði í mömmunni og í aðalpersónunni. Ég er einhvern veginn bæði glöð og kát og afkastamikil og nýt þess að nostra við fjölskylduna mína og þrái fátt heitar en að verða amma. En um leið öfunda ég í laumi fólk sem hefur ekkert að gera annað en að dedúa við sjálft sig og láta sér leiðast og sakna svo tímanna þegar ég var ógeðslega blönk og hafði oft ekkert að gera heilu og hálfu vikurnar annað en að lesa og skrifa og hugsa.

Ástæðan fyrir frídeginum í gær var ógnarharkaleg tilfinning um vanmátt og hræðslu sem lagðist yfir mig á laugardaginn vegna þess að ég er að sigla inn í fríviku með risastóran bunka af prófum að fara yfir. Annar bunki sem bíður mín.

Ég harkaði af mér á laugardag og bjó til dúndurmáltíð fyrir vini þrátt fyrir að langa mest af öllu til að senda þeim sms um smitgát. Hversu mörg ætli hafi nýtt sér veiruna til að ljúga sig út úr matarboðum? – skyldi þetta verða rannsakað? Við fengum vini okkar í mat og hlógum og fífluðumst og þegar ég lagðist til svefns ákvað ég frídag og svo yrði ég hress á mánudeginum og myndi bara rústa þessum prófabunka. Vaknaði síðan of snemma og las í bók og nú er ég bara að blogga, með fullan maga af vöfflum og klukkan orðin tíu og prófbunkinn enn þar sem ég faldi hann á laugardag svo ég myndi ekki rífa hann í tætlur.

En nú er ég tilbúin. Tomato-timer verður nýttur og ég mun hafa þetta af! Lifið í friði.

0 Responses to “Bækur að teyga eða teygja”



  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s




Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha

%d bloggurum líkar þetta: