Kveðja

Madame Michaud par Caroline Dubois

Dyggir lesendur ættu að muna eftir Mamí Michaud á jarðhæðinni. Nú er hún farin yfir í sumarlandið. Gluggahlerarnir hafa verið lokaðir síðan hún var lögð inn á spítala fyrir tveimur vikum og þótt ég hafi heimsótt hana reglulega, leit ég alltaf á gluggann í von um að sjá henni bregða fyrir.
Við eigum eftir að sakna þessarar ömmu okkar sem var svo dásamleg manneskja. Hún var góð við börnin mín og öll börn hér í hverfinu, spjallaði við þau eins og jafningja strax frá unga aldri. Hún var hjálpsöm, tók við pökkum og öðru sem þurfti að redda fyrir hvaða íbúa hússins sem var. Hún lét aldrei styggðaryrði falla um nokkurn mann. Hún var sprettharðari en margur jafnaldri minn, ég átti sjálf stundum fullt í fangi með að draga hana uppi þegar ég sá hana á undan mér í götunni. Það var alltaf gaman að tala við hana, stundum bara um daginn og veginn, stundum um eitthvað sem hún hafði séð í sjónvarpinu, um ferðir með eldri borgurum, lífið þegar hún kom til Parísar og fór að vinna í stóru vöruhúsi. Þá bjó hún í Palais Royal hverfinu og kynntist rithöfundinum Colette, í gegnum sameiginlegan áhuga þeirra á köttum.

Frú Michaud hélt fullri getu alveg fram á það síðasta, en þetta veiruástand hefur auðvitað tekið mikið á með tilheyrandi einangrun vegna þess að allt félagslíf eldri borgara hefur legið í dvala. Alveg síðan í maí minntist hún stundum á að komið væri nóg, fór að svara grunnspurningunni „Hvað segir þú gott?“ með neikvæðu svari um að það væri ekkert gott að segja. En alltaf þegar við fórum að spjalla lifnaði yfir henni, ljósið birtist í augunum svo leiftrandi gáfur hennar skinu á ný. Hún þekkti mig, grímuklædda, jafnvel þegar hún var komin í líknandi meðferð. Þakkaði mér aftur og aftur fyrir að nenna að koma til hennar. Ég er þakklát fyrir að hafa getað endurtekið aftur og aftur hvað við elskuðum hana mikið, hafa talið upp nöfn okkar allra, nágrannanna, barna sem fullorðinna og sannfært hana um að við værum öll að hugsa til hennar og söknuðum hennar mikið úr glugganum. Ég er þakklát fyrir að hafa tekið af mér grímuna og haldið utan um hana og haldið í hendur hennar meðan hún svaf og látið hana finna fyrir því að hún var ekki ein.
Hún missti manninn sinn fyrir þó nokkrum árum og svo köttinn sinn síðar. Þá vildi hún ekki taka annan kött, því henni fannst of óhugnanleg tilhugsun að deyja frá honum. Dugði þá ekki að lofa henni að við myndum taka hann að okkur eða sjá til þess að koma honum til nýrrar fjölskyldu. Við komum því alltaf við hjá henni þegar við fórum með Grisemine til dýralæknisins og sem betur fer eru nokkrir útikettir í götunni, sem vissu allir að það var gott að koma upp á gluggasyllu hjá frú Michaud og fá klapp og jafnvel eitthvað góðgæti.
Undanfarnar vikur hafa lokaðir hlerarnir vakið athygli vegfarenda sem hafa staldrað við og spurt frétta af gömlu konunni, fólk sem vissi ekki einu sinni hvað hún hét en þótti samt vænt um hana. Hennar verður sárt saknað af fjölda manns sem þekktu hana mismikið, en öll af góðu einu.

Myndin af Jeannine Michaud var tekin af ljósmyndaranum og nágrannakonu okkar Caroline Dubois í fyrsta útgöngubanninu í mars 2020.

2 Responses to “Kveðja”


  1. 1 Margrét H 20 Mar, 2022 kl. 2:26 e.h.

    Kæra Parísardama, ekki hætta að blogga, fann þig aftur eftir mörg ár.
    Þekki þig ekki neitt, en hef einu sinni labbað með þér. Þú er svo skemmtileg.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha

%d bloggurum líkar þetta: