Í gær fór ég í góða gönguferð í sveitinni. Ferðin tók um 5 og 1/2 klukkustund og gengu börnin mín þetta með mér eins og ekkert væri. Það hjálpaði vitanlega til að við vorum 5 fullorðin og 5 krakkar á aldrinum 6 – 9 ára, ég er ekki viss um að Kári hefði verið svona hughraustur ef hann hefði bara verið með mömmu sinni og systur. Krakkarnir voru aðframkomnir af þreytu í lestinni á leiðinni til baka, en það vorum við fullorðna fólkið líka.
Þegar ég gekk uppi á heiðinni fyrir ofan þorpið Auvers sur Oise, síðasta dvalarstað Van Gogh, fór ég að pæla í þessu með að vera að blogga á tveimur stöðum, vesen að birta færslurnar tvisvar, asnalegt að vera með athugasemdir á tveimur stöðum o.s.frv. Í raun ekkert nema gallar við þetta.
Og hefst þá yfirlýsingin (ha ha, mig grunaði ekki að ég fengi tækifæri til þess að gefa út yfirlýsingu svona fljótlega eftir að hafa rætt um ofurmikilvæga jafnaldra og yfirlýsingar þeirra):
Ég hef tekið þá ákvörðun að færa mig alfarið yfir á Eyjuna.
Ég sé að ein af mínum elstu og bestu bloggvinkonum ákvað þetta sama í gær. Líkt og hún, vona ég að mínir góðu lesendur, sérstaklega þið sem svarið mér stundum til baka, fylgið mér þangað yfir. Kannski ég fari bara líka að gráta ef ekki. Ég er drullufeimin þarna hinum megin en mér finnst samt eins og ég eigi eftir að ná að fóta mig þar. Við sjáum þá bara til og ég get alltaf komið aftur hingað, eins og fyrrnefnd vinkona bendir á.
Yfirlýsingu lýkur.
Má ekki alveg nota forskeytið drullu- í svona alvöru yfirlýsingar? Það er líklega merki um komplexa en ég hef svo sem enga ástæðu til að fela þá.
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir