Archive for the 'þvaður' Category

Yfirlýsing (það var þá aldrei)

Í gær fór ég í góða gönguferð í sveitinni. Ferðin tók um 5 og 1/2 klukkustund og gengu börnin mín þetta með mér eins og ekkert væri. Það hjálpaði vitanlega til að við vorum 5 fullorðin og 5 krakkar á aldrinum 6 – 9 ára, ég er ekki viss um að Kári hefði verið svona hughraustur ef hann hefði bara verið með mömmu sinni og systur. Krakkarnir voru aðframkomnir af þreytu í lestinni á leiðinni til baka, en það vorum við fullorðna fólkið líka.
Þegar ég gekk uppi á heiðinni fyrir ofan þorpið Auvers sur Oise, síðasta dvalarstað Van Gogh, fór ég að pæla í þessu með að vera að blogga á tveimur stöðum, vesen að birta færslurnar tvisvar, asnalegt að vera með athugasemdir á tveimur stöðum o.s.frv. Í raun ekkert nema gallar við þetta.

Og hefst þá yfirlýsingin (ha ha, mig grunaði ekki að ég fengi tækifæri til þess að gefa út yfirlýsingu svona fljótlega eftir að hafa rætt um ofurmikilvæga jafnaldra og yfirlýsingar þeirra):

Ég hef tekið þá ákvörðun að færa mig alfarið yfir á Eyjuna.
Ég sé að ein af mínum elstu og bestu bloggvinkonum ákvað þetta sama í gær. Líkt og hún, vona ég að mínir góðu lesendur, sérstaklega þið sem svarið mér stundum til baka, fylgið mér þangað yfir. Kannski ég fari bara líka að gráta ef ekki. Ég er drullufeimin þarna hinum megin en mér finnst samt eins og ég eigi eftir að ná að fóta mig þar. Við sjáum þá bara til og ég get alltaf komið aftur hingað, eins og fyrrnefnd vinkona bendir á.

Yfirlýsingu lýkur.

Má ekki alveg nota forskeytið drullu- í svona alvöru yfirlýsingar? Það er líklega merki um komplexa en ég hef svo sem enga ástæðu til að fela þá.

Lifið í friði.

fótbolti og grenjandi nagli

Fyrsta fótboltaæfingin í dag. Kári mætti í íslenska landsliðsbúningnum með eftirnafninu sínu, GENEVOIS, aftan á. Ekkert smá flottur. Þjálfarinn heitir Pablo, afalegur karl frá Chile sem spurði okkur strax hvað við gerðum og vill fá kort frá manninum mínum því konan hans kaupir bækur. Þetta er mjög óvanaleg hegðun í Frakklandi, alltaf mikið laumuspil hvað fólk gerir, hver launin eru og allt það. Fyrir forvitna konu eins og mig heufur þetta verið hálfgerð þjáning, t.d. erfitt að komast að því hvað nágrannarnir gera. Þarf mikla slægð og spurningaflóð til að fá það á hreint. Ég er strax farin að spá í að nota bara sömu taktík og Pablo, beita fyrir mig sterkum hreim með erlendum orðum inn á milli og bara spyrja hreint út áður en viðmælandinn hefur náð að koma sér í samræðugírinn og gæti þá náð að humma spurninguna fram af sér (sem er listgrein sem mig hefur líka alltaf langað að ná valdi á). Allt í skjóli þess að ég sé útlendingur.
Hinn íslenski Genevois gafst upp á miðri æfingu og fór að gráta vegna þreytu. Hann var tekinn í fangið og horfði aðeins á, en fór svo aftur inn á völlinn og segist ætla að mæta næst. Eins gott að hann standi við það, við þurftum að borga ársgjaldið strax og er víst ekki smuga að fá endurgreiðslu.
Í fótboltaskólanum er greinilega ekki verið að setja H1N1 fyrir sig, allir heilsuðu manni með handabandi og vatnsflöskur gengu á milli leikmanna á æfingunni. Í barnaskólanum var ákveðið að hætta öllum handaböndum, hætta að nota handklæði og hvert barn kemur með sína vatnsflösku í skólann sem það getur svo fyllt á úr krananum. Skólanum má loka ef þrjú börn verða veik.

Ég er svo búin að fá það á hreint að konan á 2. hæð fékk þennan svínslega vírus. Hún liggur enn á spítala og er með slöngur í hálsinum. Getur opnað augun og hefur náð einhverju sambandi við bróður sinn. Hún virðist því ekki heilasködduð. Við höfum hitt bæði afann og pabbann og þeir segja að hún sé úr lífshættu. En hún á enn langt í land. Dóttir hennar opnaði hurðina þegar ég var að klöngrast upp með poka um daginn og sagði „mamma, mamma“. Ég grenjaði alla leiðina upp til mín og lengur. En ég er orðin þannig að ég grenja yfir fáránlegustu hlutum. Ég hélt að það tilheyrði bara óléttunni en nú eru rétt tæp 6 ár síðan ég ungaði síðara barninu út, bráir þetta ekkert af svona alvöru nöglum eins og ég þykist alltaf vera?

Lifið í friði.

eyjan

Ég er komin með bloggsíðu á eyjunni, hún er hér.

Hvernig get ég samtengt síðurnar eins og t.d. Dr. Gunni gerir?

Lifið í friði.

eitt

Eitt af því sem ég hélt í alvöru talað að ég myndi gera á Íslandi, var að stunda bókasafnið með ókeypis skírteininu hennar mömmu borgarstarfsmanns og hakka í mig alls konar bækur sem ég hef misst af í gegnum árin.
Ég hélt að ég yrði bara að njóta lífsins með tærnar upp í loft úti á palli í úthverfinu með bók meðan börnin væru á fótboltanámskeiði.
Ha ha! Ég er svo fyndin að geta alltaf blekkt mig svona auðveldlega. Eftir öll þessi ár.

Í dag, síðasta barnlausa dag sumarsins, er ég hins vegar búin að afreka það að ljúka við þýðingu og leiðrétta eftir athugasemdir og byrja á þýðingu á unaðslegum bókmenntatexta skrifuðum af Nathalie Sarraute. Ég rifjaði hann upp í ágúst og ákvað að nota hann í verkefnið mitt þó ég hefði eiginlega verið hætt við þar sem íslensk kona þýddi verk eftir Sarraute sem lokaverkefni í þessu þýðingafræðinámi. Og hefur því kannski einhvers konar forgang í að ráðast í að þýða verk hennar.
En þetta er bara einfaldlega of góður kafli til að sleppa honum og sá sem mér datt strax í hug þegar okkur var sagt að velja texta. Ég reyndi að finna annað, las til dæmis L’élegance du hérisson sem allir lásu í fyrra eða hittifyrra, en mér finnst hún bara froða. Gervifroða úr brúsa. Sarraute er þykk brún froða úr espressóuppáhellingu.
Og eftir smá smjatt á textanum góða kom andinn skyndilega yfir mig og ég skrúfaði upp hillu sem hefur staðið hér upp á rönd á gólfinu í tja, marga marga marga mánuði. Une bonne chose de faite.

Nú má helgin alveg fara að byrja. Ég ætla út að hitta vinkonu í kvöld. Þurfum að fara á smá trúnó. En þú?

Lifið í friði.

af fótum

Það þarf að taka upp nýjan lífsstíl eftir töluvert sull í léttvínum í ágúst. Það er svona að vera barnlaus næstum allan mánuðinn og búa í landi þar sem vín fæst á eðlilegu verði.
Hluti af nýja lífsstílnum verður að taka fram hlaupagallann aftur. Ég stalst til þess, þvert á neyslubremsuregluna, að kaupa mér léttari sumarhlaupabuxur í vor en hef bara notað þær einu sinni. Þær komu með til Íslands og suður til Charentes Maritimes, en lágu fallega samanbrotnar í töskunni allan tímann í báðum ferðum. Ég get þó ekki rifið þær fram strax í dag þar sem ég hef ekki alveg jafnað mig á flugnabiti sem olli frekar ýktum viðbrögðum með tilheyrandi bólgum í kringum vinstra hnéð. Aðallega í hnésbótinni, sem gerir það að verkum að ég get ekki beygt fótinn.
Það eru tíðindi að vinstri fótur minn sé sá sem eitthvað kemur fyrir, yfirleitt er það sá hægri sem tekur skellinn: hann hefur verið soðinn í hver, ökklinn tognað allilla (djöfull er þetta töff orð – ef ég gæti sett a-ið í lokin öfugt væri það symmetrískt) og svo hnykkti ég hnénu á skíðum og kom víst sprunga í lærlegginn í leiðinni. Ekkert þessara áfalla hefur þó dugað til að gera fótinn ónothæfan, síður en svo.

Og flugnabitsbólgan er, sýnist mér, farin að hjaðna svo kannski næ ég að skreppa í smá skokk í fyrramálið, jafnvel í lok dagsins í dag. Svo er ég með áætlun um að hætta ákveðnum ósið, en skrifa ekki orð um það hér fyrr en það kemst endanlega á hreint hvernig ég fer að því.

Lifið í friði.

aftur til lífsins

Vel heppnað frí er að ná að fara út úr lífinu í smá stund. Tíminn hættir algerlega að skipta máli, áhyggjur af smámunum sem maður þrjóskast við að hafa alla daga hverfa og manni finnst jafnvel líkaminn verða einhvern veginn þyngdarlaus. Þannig leið mér síðustu daga í góðu yfirlæti með örlátu fólki í fallegu húsi með mátulega stórum garði og sundlaug, í 40 mínútna hjólafæri frá ströndinni, fyrst í gegnum vellyktandi skóg og svo yfir sandöldurnar. Atlandshafið er alltaf í stuði og þrátt fyrir hálfgerða hitabylgju leikur alltaf þægilegur svali um mann. Við drukkum vín með matnum á kvöldin en fórum samt tiltölulega snemma í háttinn því litlu börnin í húsinu sáu til þess að við vorum öll komin framúr upp úr níu. Sem við bættum flest upp með smá blundi með þeim í eftirmiðdaginn. Það var allt gaman í þessu fríi. En ég held samt, að vel athuguðu máli að ég geti neglt niður einn hápunkt:

Heitar ostrur í rjómasósu

Heitar ostrur í rjómasósu

Ekki spillti umhverfið fyrir:

Port des Salines á Oléron eyjunni

Port des Salines á Oléron eyjunni

Og nú eru bara þrír langir dagar eftir þar til ég fæ mín eigin börn aftur í faðminn. Og þangað til verður nóg að gera, það er ótrúlegt hvað þessir smámunir geta safnast auðveldlega upp. Hvert setti ég nú listann?

Lifið í friði.

Af Gaston, Tigrou, Gremlin og Bohème

Gaston vildi ekki leyfa mér að koma við sig fyrr en þegar ég var að fara. Ég þóttist sjá blik í augum hans þegar ég tjáði honum að það væri mynd af honum á alnetinu og fékk ég að klóra honum örlitla stund bakvið annað eyrað.
Gremlin var öllu kelnari, malaði og nuddaði sér upp við mig og Tigrou (frb. Tígrú) hélt fast í venjur sínar um að drekka aperítífinn með okkur við borðið sem stendur undir trjánum sem mynda kærkominn skugga í þrjátíu stiga hita. Myndin af Sólrúnu og Gaston er einmitt tekin þaðan. Tigrou er að verða tvítugur og á erfitt með að komast sjálfur upp á stólinn. Hann nuddar sér við tærnar á manni og hefur alla sína ævi verið haldinn skó- og fótablæti.
Á heimilið hefur bæst við nýr köttur, Bohème, sem lét varla sjá sig um helgina. Hann er mikið vöðvabúnt og segja eigendurnir (sem kalla sig reyndar þrælana) að hann sé þungur eins og trjádrumbur. Hann klífur tré og hús af mikilli fimi en á það til að detta þegar hann gleymir sér og fer að velta sér um á erfiðum stöðum og haltrar því iðulega. Versta fallið var þegar hann klóraði gat á plasthlífina yfir suðurterrössunni, það er ekki mjög hátt og kom honum svo á óvart að hann náði ekki að setja sig í neinar stellingar. Þá þurfti hann að fara til læknis og fá spelku.
Það ríkir ákveðin samkeppni og afbrýðisemi milli kattanna, en Tigrou er þó óumdeilanlegur foringi þeirra. Hann þarf að borða sérstakan mat og virða yngri kettirnir skálina hans skilyrðislaust. Þeir draga sig líka alltaf í hlé ef hann kemur að fá sér meðan þeir eru að borða.
Mig langar ennþá meira í kött eftir allar kattasamræðurnar um helgina. Kettir eru svo merkileg og skemmtileg dýr. Og svo óendanlega miklu skemmtilegra að tala um og fylgjast með köttum en til dæmis skítkastkeppni í stjórnmálahreyfingu eða umræðum á Alþingi manna.

Lifið í friði.

pakk

Enn og aftur stend ég í því að pakka niður. Og enn og aftur eru það börnin. Nú er það Tyrkland í tvær vikur með afa. Margir hafa áhyggjur af því að hann sé að fara einn með þau, en ég blæs á slíkt enda eru þau að fara í Club Med, búa í litlum strandkofa, borða af hlaðborði í öll mál og eru á leikjanámskeiði frá 9 til 17 á daginn. Þau eru búin að læra að setja á sig sólkremið sjálf og lofa að vera þæg eins og englarnir sem þau vissulega eru. Og í bónus eru þau svo líka flott beita fyrir nýfráskilinn afann. Ég treysti því að hann komi heim brúnn, sæll og ástfanginn.

Ég veit að ég á að vera þakklát fyrir það hvernig fólk slæst um að fá að vera með börnin mín, en að vissu leyti er ég hálfleið að missa þau frá mér núna í þessu góða veðri og með ekkert að gera nema helvítis námsþýðingar sem ég nenni hvort eð er ekki að vinna. En svona er þetta. Fram að þessu fóru þau þessar tvær vikur með afanum og ömmunni, en núna urðu þau að fara fyrst í nokkra daga með ömmunni og svo þessar tvær vikur með afanum. Ég hafði ekki brjóst í mér til að reyna prútta fríið hans niður í eina viku, hann hefur farið þessar tvær vikur á sama staðinn (reyndar ekki alltaf sama landið en Club Med er alltaf bara Club Med og gæti verið á tunglinu þess vegna ef veður og þyngdarlögmál leyfðu) og ef einhver er vanafastur er það áreiðanlega bara djók við hliðina á áráttukenndri vanafestu tengdaföður míns.

Ég ætla að skreppa í skottúr til Normandí um helgina að heimsækja köttinn Gaston sem trónir hér efst á síðunni einmitt núna. Og í næstu viku skrepp ég í smá heimsókn til vinafólks við Atlandshafsströndina og verð þá með þýðingarverkefnið með mér. Og tölvuna, en líklega enga nettengingu. Quoique.

Lifið í friði.

búin

Ég held ég hafi aldrei verið svona þreytt. Jú, örugglega oft, en þannig líður manni samt alltaf þegar maður er vindlaus, orkulaus, búinn á því.

Það er magnað að þýða viðtöl við fólk. Sumir tala í fullkomnum litlum bútum, mátulega sundurskornum, ekkert sko jamm sko hérna hmmm, bara sagt það sem á að segja og ekkert mál að skrifa það upp með tæmkódum og alles. Aðrir kjamsa og humma, sko-a og hérna-a út í eitt. Allar setningar eru í einhvers konar lögum sem skarast: Já, sko, hérna, þetta var nú þannig að, eeeeh, þetta var nú þannig að báturinn var keyptur, eeeeeh jamm humm sko, keyptur eftir að frændin fór eeeeh sko, hérna. Martröð fyrir þýðandann, enn meiri martröð fyrir klipparann sem skilur ekki íslensku.

Þátturinn verður eflaust fínn, ég held þetta sé í fyrsta sinn sem ég verð vör við að Frakki sé að gera hlutlausa mynd um hvalveiðar Íslendinga og að hann hafi virkilega haft áhuga á því að grafast fyrir um það hvernig hvalveiðar tengjast sjálfi þjóðarinnar.

Lifið í friði.

íþróttafréttir

Ég hlustaði á hádegisfréttir í dag, sem ekki er í frásögur færandi. En í milljónasta skiptið stóð ég mig að því að vera hálfnuð inn í íþróttafréttir án þess að átta mig á því að ég var greinilega hætt að hlusta fyrir einhverju síðan. Og í milljónasta skipti spyr ég mig (og nú ykkur): Hvað í ósköpunum veldur því að íþróttir fá þetta sérpláss í öllum fréttatímum á meðan útgáfa bóka, opnanir myndlistasýninga og aðrir listviðburðir þurfa að berjast um að næla sér í umfjöllun í einum af örfáum svokallaðra menningarþátta RÚV?
Ég segi einum, því ég man eftir ljóðskáldi nokkru kvarta yfir því að þar sem bókin hans fékk umfjöllun í Morgunútvarpinu, mátti ekki tala um hana í Víðsjá.

Rétt’upp hend sem hlustar af athygli á íþróttafréttirnar. Og af þeim, rétt’upp hend sem gæti ekki mjög auðveldlega fundið þessar upplýsingar annars staðar þó þeim yrði kippt út úr aðalfréttatímunum?

Ég þarf að senda tvær myndir af mér á Eyjuna, en ég er búin að vera með hrikalega ljótu þessa síðustu daga, hálfblúsuð af heimþrá til Íslands er ég bæði löt og ljót þessa dagana. Á meðan blogga ég bara í rólegheitum hér á minni kósí leynibloggsíðu. Og aumingja skarinn á Eyjunni missir af öllu.

Lifið í friði.