Archive for the 'byltingin' Category

Bastilludagurinn

Í dag er þjóðhátíðardagur Frakka, Bastilludagurinn. Afmæli byltingarinnar sem hófst opinberlega með árás á Bastillufangelsið og leiddi m.a. til þess að konungi var steypt af stóli og ríki og kirkja voru aðskilin.
Og, líkt og fyrri ár, er 14. júlí 2011 fagnað með risastórri hersýningu í París. Franska ríkið flaggar stolt öllum sínum hátæknilegu morðtólum, skriðdrekum og flugvélum, og auðvitað því mikilvægasta, ungum mönnum í einkennisbúningum. Að þessu sinni verða víst nýlenduherirnir í forgrunni. Herir frönsku suðlægu landsvæðanna, Gvadelúpeyja, Gvæjana, Pólýnesíu, Martiník, Réunion, Nýju Kaledóníu og Mayotte.
Ég hef einu sinni mætt til að sjá og mun aldrei fara aftur, nema þá kannski til að sýna börnunum mínum þegar ég tel mig tilbúna til að standa aftur frammi fyrir þessum viðbjóði. Mér varð ómótt og um tíma hélt ég að það myndi líða yfir mig. Ég held að þarna, frammi fyrir þessum óhugnanlegu vélum og við að sjá hermennina marséra eins og vélmenni, hafi ég virkilega staðfest í hjarta mínu að ég gæti aldrei samþykkt stríð sem lausn á nokkru vandamáli. Ég verð alltaf jafn svekkt og hissa þegar ég er minnt á stríðsbrölt siðvæddra þjóða.
Í gær létust fimm franskir hermenn í Afganistan. Ráðherra segir að þeir séu hetjur, ég lít á þá sem fórnarlömb. Ég er næstum viss um að hátíðahöldin í dag verða skreytt minningarþögn um þessa menn, og kannski líka um hina 12 sem hafa látist á þessu ári í Afganistan, eða allra 69 sem hafa farið síðan 2001. Eða kannski ekki, kannski verður engin þögn, bara húllumhæ og fagnaðarlæti? Ég veit það ekki og það skiptir kannski engu máli, því ég verð ekki á staðnum.

Lifið í friði.

ég er sammála

Hnakkusi í þetta skiptið. Ekki alltaf, en alla vega núna. Það hefur eitthvað truflað mig við þau rök að við, þjóðin, verðum dæmd fyrir afglöp óreiðumanna. Það sem ég þekki af fólki í heiminum greinir mjög auðveldlega milli venjulega fólksins og ríka, freka fólksins(/stjórnvalda).
Pældu bara aðeins í þessu: Segjum sem svo að ægilegt hneyskli komi upp með viðskipti úkraínsks/pólsks/norsks/fransks/íransks/ísraelsks/[settu það land sem þig langar hér] banka, heldurðu að þér þætti það sjálfsagt að úkraínsku/pólskur/norskur/… lýður (í skilninginum þjóð) eigi að vera dreginn inn í málið og látinn greiða? Ég bara get ekki séð réttlætið. Ég held að Hnakkus hitti naglann á höfuðið: þjóðin er enn í bullandi meðvirkni.

Athugið samt að ég tel mig ekki hafa fundið hinn heilaga sannleik í þessu máli né öðrum. Ég bara fékk svona tilfinningu um að loksins sæi ég það sagt um málið sem ég gæti skrifað undir þegar ég las Hnakkus. Enda er enginn heilagur sannleikur til í þessu, þar sem ENGAR STAÐREYNDIR liggja ljósar fyrir. Það er aðalvandamálið að mínu mati og ástæðan fyrir því að ég er andsnúin undirritun samnings. Pókerspilaaðferðin í opinberum málum hefur aldrei verið mér að skapi. Það á ekki að gambla með eignir lýðsins, en það er verið að gera það, þegar veðjað er á að eignir skuldaranna muni hækka á næstunni. Ekkert bendir til þess hér á meginlandinu að húsnæðisverð ætli að fara að hækka. Bílaiðnaðurinn er að hrynja, allt er í volli. Spáið aðeins í þetta.

Lifið í friði.

17. júní í svörtu

Það hittist svo á, að við fjölskyldan erum á leið í jarðaför góðrar fjölskylduvinkonu og samstarfskonu mannsins míns. Því verð ég svartklædd niðri í bæ í dag (í París). En þó ég hefði ekki verið á leið í jarðaför er allt eins líklegt að ég hefði klæðst svörtu og hugsað til Íslands á Þjóðhátíðardaginn með hnút í maga. Í alvöru talað, ef fólk ætlar niður í bæ að veifa fánum og fagna sjálfstæði þjóðarinnar verð ég hissa og gefst líklega upp á að gera mér vonir um að í þjóðarsálinni sé til vottur af hugrekki og reisn.
Dagskrá þeirra sem ætla ekki að láta narra sig út í hefðbundin þjóðhátíðarhöld heldur kjósa að tjá reiði sína og sorg er svona:
Klukkan 10: Hólavallakirkjugarður, við leiði Jóns Sigurðssonar með svart sorgarband um handlegg.

Klukkan 14: Við styttuna á Austurvelli, einnig með sorgarband.

Klukkan 15: Hvatt er til setuverkfalls, fólk er beðið um að setjast niður hvar sem það er statt og hugsa um það hvers vegna 17. júní er haldinn hátíðlegur.

Lifið í friði.

earl grey er morgunte

Sonur minn er týpan sem vaknar helst fyrir sjö. Stundum tuttugu mínútum fyrir, stundum tíu mínútum. Stundum slefar hann yfir sjö í svefni. Systir hans sefur yfirleitt eitthvað lengur en hann, stundum jafnvel alveg þar til þarf að vekja hana klukkan átta.
Þessa vikuna er systir hans búin að vera í skólaferðalagi og hann hefur okkur því út af fyrir sig. Hann er búinn að vera ósegjanlega ljúfur og skemmtilegur, talar út í eitt við matarborðið og nýtur sín í botn. En það merkilegasta, það sem kemur okkur mest á óvart, er að hann sefur þar til við vekjum hann klukkan átta. Hvað í ósköpunum á ég að lesa út úr því?

Af ritgerð er það að frétta að þetta stefnir í keisaraskurð í dag eða kvöld. Eftir 17 klukkutíma verð ég að skila. Sem betur f… fer.

Lifið í friði.

fríbúðin

Fríbúðin hefur opnað aftur á Vatnsstíg 4, sýnið samstöðu með því að mæta (ef þið styðjið aðgerðir gegn yfirgangi auðvaldsins).

Lifið í friði.

bylting með greiðsluviljaleysi?

Lesið þetta og líka tengilinn hjá þeim yfir á Tryggva Þór Herbertsson.

Einnig opna bréfið til ráðherra Gylfa, sjá t.d. hjá Láru Hönnu.

Persónulega hef ég aldrei skilið hversu lítinn hljómgrunn hugmyndin um greiðsluverkfall fékk í upphafi. Ég skil ómögulega hvernig fólk getur sæst á þessa ofurhækkun skulda sinna. Ég næ því ekki að fólk detti í sjálfsásökun frekar en reiði gegn gerendum. En það er svo sem ekkert nýtt að sjá að íslenska þjóðarsálin er að svo mörgu leyti ólík hinni frönsku, sem ég miða kannski ósjálfrátt við.

Lifið í friði.

vinn

Fjögur vinn á fjórum dögum. Fín afköst. Minni afköst á öðrum vígstöðvum. En allt í góðu ennþá. Rauðvín í glasi í kvöld, skálum fyrir öllu og öllum. Sérstaklega fyrir góðum degi með góðu fólki.

Ég lauk við Konur í gær. Það er undarleg bók sem þarfnast meltingar. Ég hika á milli þess að setja hana í góðan Lynchflokk eins og t.d. Blue Velvet, eða arfavondan flokk eins og Mulholland Drive. Á meðan er hún bara í týnda flokknum eins og Lost Highway. Ekki það að ég flokki allt sem ég les í Lynchflokka. Hann er bara svo áberandi þessa dagana og því hentugt að notast við hann. Ohmmmm.

Lifið í friði.

hús-taka tvö

Ég tel mig ekki þurfa að fara í rökræður við nokkurn mann út af yfirlýsingu minni varðandi hústökuna. Mér finnst það alltaf jafnfyndið þegar fólk byrjar að tala um eigin íbúðir eða sumarbústaði í sömu andránni. Það að taka tómt húsnæði sem verið er að vanvirða með því að láta það grotna niður, eingöngu í hagsmunaskyni eigenda, er engan veginn, engan veginn, engan veginn sambærilegt við það að ryðjast inn á heimili eða sumarbústaði þar sem fólk nýtur friðhelgi.
Ég nenni ekki að ræða þetta frekar, en ég vildi samt koma því á framfæri að ég styð svona aðgerðir. Ég styð í raun allar aðgerðir gegn þessu glæpahyski sem hefur komið þjóðarbúinu á heljarþröm. Mér er skítsama hvað ykkur hinum finnst, þið megið vera ósammála mér og megið alveg láta þá skoðun í ljós. Það breytir minni skoðun ekki, enda er ég búin að stúdera þetta þó nokkuð, fylgjast með hústökum í Frakklandi og víðar og veit að þetta er allt annað en einhver vanhugsaður ruðningur yfir á annarra yfirráðasvæði. Ef þið nennið ekki að pæla í þessu, þá er það ykkar mál, það er þó alltaf virðingarvert þegar fólk hefur í það minnsta vit á að segja bara „þetta er flókið mál“ í staðinn fyrir að koma með yfirlýsingar úr takti við raunveruleikann. Skoðanaleysi er betra en fordómar, það er ekkert að því að viðurkenna að maður hafi ekki vit á öllum hlutum. Ef ykkur langar hins vegar að fræðast meira um þetta, getið þið gúgglað squats, artist squats og ýmsu fleiru sem ykkur dettur í hug. Það ætti að leiða ykkur inn á ýmsar skemmtilegar síður sem útskýra málstaðinn. Þið getið líka heimsótt t.d. Evu, hún er alltaf jafnþolinmóð í að koma með rök gegn þeim sem velja frekar þá leið að fordæma en að prófa að skilja.
Þið getið líka sagt að nú sé ég með fordóma gagnvart siðspilltu fjárglæframönnunum. Já, ég skal alveg viðurkenna það. Ég trúi því staðfastlega að þeir eigi að stíga fram og axla ábyrgð og ég mun meira að segja vera tilbúin til að fyrirgefa þeim kjánaganginn, ef þeir iðrast og vilja gera það sem í þeirra valdi stendur til að bæta fyrir skaðann sem þeir hafa unnið. En meðan þeir halda áfram að viðhalda spillingunni og gróðafíkninni get ég ekki annað en fyrirlitið þá.

Lifið í friði.

Hústaka

Ég styð hústökur eins og þá sem á sér stað á Vatnsstíg 4 í Reykjavík þessa dagana. Úthugsuð aðgerð og vandlega valið hús sem er vanhirt og til stendur að rífa til að byggja verslunarhúsnæði. Mér finnst einhvern veginn eins og Reykjavík þurfi ekki fleiri slík núna. Til að standa síðan tóm?

Lifið í friði.

fit

eftir grúsk yfir Balzac tók ég upp prjónana og dokkuna sem lágu hérna til að ég myndi eftir að biðja gestinn sem kemur við í kvöld um aðstoð, og allt í einu gat ég bara fitjað upp. Ég veit ekki hvað ég er að gera öðruvísi en í gær, en núna virkar þetta, það myndast lykkjur með tilheyrandi festingum. Ég vildi að aðrir hlutir í lífinu væru svona innbyggðir í mann (eftir áralanga setu með tungu út á kinn undir styrkri og strangri handleiðslu ömmunnar).

Lifið í friði.