Archive for the 'fall' Category

skemmtilegt

Þetta gladdi mig í morgun:

Ég rakst á þetta eftir að hafa látið verða af því að horfa á þessa frönsku stjörnu, sem er vel þess virði að horfa á, þó ekki væri nema fyrir franska hreiminn á enskunni:

Lifið í friði.

séns

Sénsinn að ég nenni að blogga.

Lifið í friði.

sumarvinnulausn

Auðvitað hlýtur að vanta snekkjupössun. Ég er til í það. Elías og Þórdís gætu komið með, og ég myndi spila á úkúlele, Þórdís gæti sungið sinni fögru röddu og Elías blandað kokkteilana fyrir okkur og sagt okkur ógrynni af staðreyndum um heiminn.

Ég er með blóðbragð í munni, kannski sumarið verði tími byltingarinnar?

Lifið í friði.

mánudagur og sumarið fer að koma eða ekki

Eva Joly kom vel út í Silfrinu.

Ég skemmti mér vel um helgina.

Það stefnir í hörkupúlviku.

Ég nenni því ekki.

Ég er svöng en nenni ekki að fara fram og fá mér eitthvað.

Mig langar til að það fari að hlýna, er ekki komið nóg af vetrartíð?

Mig langar til að fá hluti á hreint, hvað á ég að gera í sumar? Koma heim eða vera hér í veikri von um að Íslendingar ákveði að slá til og ferðast?
Er einhver með vinnu handa mér heima í sumar? Ég er opin, hógvær (jeræt, en ég meina að ég get unnið næstum hvað sem er þó ég hafi heitið því að skipta ekki á kúkableiu fullorðins ókunnugs einstaklings aftur), ég kann ensku og frönsku, vön því að eiga við fólk og leysa úr ótrúlegustu vandamálum, skítfær á tölvu (excel er þó mín fötlun), í sæmilegu líkamlegu formi.

Lifið í friði.

draumur um vakandi þjóð

Mig dreymdi í nótt að ég var að kenna í framhaldsskóla. Ekki man ég hvað, en krakkarnir sögðu mér að ég væri besti kennarinn. Ég ákvað að skreppa eitthvað eftir skólann, mér finnst eins og það hafi verið í HogM og mér finnst eins og skólinn hafi átt að vera samtengdur einhverju molli þar sem var HogM. Ég skildi töskuna mína eftir með öllu frammi á gangi skólans og þegar ég kem til baka sé ég að nokkrir nemenda minna eru að fara í gegnum töskuna mína og leita að peningum. Ég tryllist og húðskamma þá og minni þá m.a. á að ég sé nú einu sinni „besti kennarinn“. Þeir verða voða lúpulegir og grátbiðja mig um að láta ekki skólastjórann vita. Þá öskra ég á þá að gamla Kristín hefði kannski séð aumur á þeim en nú sé ég bara ekki meðvirk lengur og vissulega muni þeir þurfa að svara fyrir glæp sinn. Ég var full af krafti og stolti yfir að geta sagt þetta hátt og skýrt. Ég var ekkert endilega harðákveðin í að senda þá til skólastjórans, en ég vildi að þeir héldu það svo þeir gerðu sér almennilega grein fyrir slæmri hegðun sinni.

Þetta er mjög gagnsær draumur. Ég var mjög hissa og ánægð við viðtökunum sem beiðni mín um breytingar á lögum varðandi kjörskrá fékk. Ég gerði mér vonir um kannski 200 undirskriftir, þær eru nú 350. Þegar fréttir bárust af frumvarpinu fylltist ég baráttuanda sem ég hafði einnig fundið fyrir þegar ég mætti ásamt nokkrum tugum fólks til að reyna að hindra ríkisstjórnina í að komast á fund einn dimman desembermorgun. Sem ég fann líka fyrir á öllum þeim mótmælafundum sem ég mætti á.
Ég fann hríslast um mig kraft sem m.a. stafar af fullvissunni um að ég væri að gera rétt, að ég væri að setja fram sanngjarnar kröfur. Að ég væri í fullum rétti og að „hin“ ættu eftir að heyra til mín og skilja kröfurnar.

Við erum ansi mörg að vakna upp af doða, bælingu, ótta. Við sjáum um leið og við gerum eitthvað sem skilar árangri, að það er nákvæmlega rétt að standa í þessu. Við erum laus við tepruskapinn, laus undan spéhræðslunni. Nú þarf bara að koma fleiri í skilning um þessa tilfinningu, því hún er svo miklu betri og hollari en tilfinningin um að þó maður hafi skoðanir, eigi maður ekkert endilega að vera að básúna þeim því kannski er einhver ekki sammála. Þetta var í alvörunni sagt við mig um daginn, vinkona hefur áhyggjur af starfsemi minni með Parísardaman.com. Ég hef engar áhyggjur af því aðrar en þær að fólk hefur náttúrulega ekki lengur efni á að ferðast til útlanda í sama mæli og áður. Starfsemi mín liggur algerlega niðri vegna óhollrar blöndu níðingsháttar og tepruskaps yfirvalda, hátt settra embættismanna og fjármálaskúrka.

Ég held að það megi vera ljóst hverjum þeim sem les mig reglulega að ég er enginn bókstafstrúar-öfgasinni og ég ber fulla virðingu fyrir þeim sem ég er ekki sammála. Ég treysti því að aðrir geti gert slíkt hið sama. Ég hef t.d. átt mjög góðar stundir hér í París í rútu fullri af Sjálfstæðismönnum. Þau göntuðust með að líklega væri ég ekki vís til að kjósa flokkinn þeirra, en það var bara allt í stakasta lagi með það. Því heilbrigt flokksbundið og flokkshollt fólk skilur alveg að það eru ekkert allir sammála þeim og sem betur fer. Það býr kraftur í samræðunni, það býr kraftur í andstöðunni, mótbárunni. Það er hollt að þurfa sí og æ að ígrunda sjálfan sig, spyrja sig, efast. En það þarf þá líka að muna að hlusta á það sem hinir eru að segja.

Undanfarna daga hefur margt verið rætt og ritað um áfallið sem þjóðin er að ganga í gegnum og áhyggjur verið viðraðar af heilbrigði hennar. Lesið greinarnar og hugleiðingar Láru Hönnu hér og lesið svo þetta ljóð sem Baldvin Kári frændi minnti mig á um daginn.

Spáið svo í það, hvað er það sem þið viljið að gerist núna? Viljum við sitja uppi með sömu stjórn og þá sem við veltum af stóli í janúar? Viljum við Sjálfstæðisflokk og Vinstri Græn? Viljum við Samfylkingu og Vinstri Græn? EÐA, viljum við tryggja það að alvöru breytingaskeið eigi sér stað? Að Stjórnarskráin verði tekin til gagngerrar endurskoðunar? Lesið hugmyndirnar sem Lýðveldisbyltingin hefur sett fram hér. Í alvörunni. Gerið það.
Bara til að geta myndað ykkur skoðun á því hvort við eigum að leggja í hörkubaráttu fyrir því að grasrótin nái nógu miklu fylgi til að ekki verði mögulegt að mynda tveggja flokka stjórn gömlu flokkanna. Persónulega væri ég til í að bylta lýðræðislegu skipulagi Íslands svo rækilega að ekkert væri eftir af þessum gömlu afdönkuðu stofnunum sem hafa vaðið yfir þjóðina í valdahroka sínum. Persónulega væri ég til í að prófa anarkí, gera Ísland að einni stórri hamingjusamri hippakommúnu. Já, ha ha ha! ég er barnaleg, draumóramanneskja. Ég áskil mér rétt til þess.

Það þarf ljóslega að gerbreyta ýmsum grunngildum sem hafa náð að festast í sessi í gegnum ýmsa valdakúgun. Ég trúi því að við, ég og þú og hún og hann, við getum knúið fram þær breytingar. Við þurfum að vita nákvæmlega hvað það er sem við viljum. Við getum ekki þóst vera að gera það með því að anda nú bara léttar, ah, kosningabaráttan er hafin, ég er x þetta eða x hitt. Ég kýs [veldu einn af flokkunum] og þess vegna er ég.

NEI.

Við getum alveg hugsað með okkur nákvæmlega núna að eftir allt sem hefur gengið á í vetur sé rétti tíminn til að taka líf sitt til alvarlegrar endurskoðunar. Málið er ekkert bara að reka einhverja kalla út úr fílabeinsturnum sínum. Málið er að við verðum að nýta þennan kosningarétt og sýna af alvöru fram á það hvað við viljum í raun og veru að gerist í framtíðinni.

Ég er ekki enn ákveðin í því hvað ég ætla að kjósa. Ég ætla að gefa öllu séns (eða því sem næst) og hugsa mig vel og vandlega um. Ég vona innilega að þú berir gæfu til þess að gera slíkt hið sama. Ekki fara bara inn í kjörklefann og krossa við „stafinn þinn“. Ef þú gerir það, gerðu það þá í þeirri staðföstu trú á að það sé hið eina rétta, að vandlega athuguðu máli.

Ekki láta Hjálmar hafa rétt fyrir sér í sínu svartsýniskasti hér.

Og eitt enn: Lestu NEI! og ef þú átt þúsund krónur aflögu (eða minna, eða meira), gerstu þá endilega áskrifandi að þessum ágæta fjölmiðli.

Lifið í friði.

búðin

Ég tilkynnti manninum mínum fyrir rúmri viku síðan að það færi í taugarnar á mér þetta vesen á honum að þurfa að fara í búðina á hverjum degi. Að ég vissi að til eru fjölskyldur sem ná að versla allt inn fyrir vikuna, eða svo til, og nú ætluðum við að verða svoleiðis fjölskylda.
Þar sem maðurinn minn er ekki með bílpróf (hann er að vinna í því, en m.a. vegna þess að hann þykist alltaf þurfa að fara út í búð á hverjum degi, gengur þetta ökunám afar hægt fyrir sig) er deginum ljósara að það er ég sem fer í búðina. Ég fór í Leclerc í síðustu viku og svo í Carrefour í þessari viku. Bæði er jafnviðbjóðslega slæmt. Það gerist eitthvað hjá mér í svona búðum, ég verð taugaveikluð, hvekkt, pirruð og heiladauð. Það tók mig um 1 og 1/2 tíma í bæði skiptin að fylla körfuna. Er það eðlilegur tími?
Ég tek það fram að eina grænmetið sem ég keypti eru kartöflur þar sem við fáum grænmetið í lífrænu áskriftarkörfunni okkar. Og ávexti kaupi ég á markaðnum ásamt ostunum.
Reyndar þurfti ég að kaupa kampavín og var örugglega í 20 mínútur með valkvíða í þeirri deild, óþolandi að hafa ekki komist til kampavínsbóndans míns fyrir kvennakvöldið á morgun.

Matarmarkaðir eru yndislegir, þar er spjallað og hlustað og maður tekur tíma í að velja og má það, enginn með frekju eða pirring. Hvernig í ósköpunum tókst markaðsgúrúum að hanna þessa risavörumarkaði og gera þá að svona viðbjóðslegum stað?

Lifið í friði.

gengið er undarlegt II

Í fréttum útskýrir einhver (man ekki hvern var talað við) að þessi ógnarmunur á genginu erlendis og heima sé vegna þess að gengið verði ekki ljóst fyrr en gjaldeyrisviðskipti fara í gang á ný. Hvernig í ósköpunum geta þeir þá staðhæft að gengið sé 147 krónur fyrir evruna? Geta þeir ekki bara játað að þeir eru að spreða láninu með því að selja evruna á útsölu? Hver á svo að taka skellinn þegar rétta gengið kemur í ljós? Ég skil hvorki upp né niður í þessu.

Hér snjóar blautum stórum flygsum sem væntanlega munu bráðna án þess að ná að búa til almennilegt snjóteppi yfir hverfið mitt. En það er næs að horfa á þær út um gluggann. Meira næs en að koma heim áðan með gegnfrosin læri. Gleymdi sokkabuxunum.

Lifið í friði.

jólatré, óþekka María og stígvél

Í Frakklandi er jólatréð yfirleitt sett upp strax í byrjun desember. Börnin fóru um daginn í heimsókn til vinkonu sinnar sem er komin með stórt og fallegt tré í stofuna hjá sér. Þau kvörtuðu sáran yfir jólatréleysinu heima fyrir. Svo vel vildi til að nokkrum dögum fyrr hafði ég hirt grein úti í garði sem ég hugðist gera að jólaskreytingu. Ég stakk henni í vasa og vafði um hana jólaseríu og krakkarnir vöfðu um hana glitrandi borðum. Þau eru alsæl með útkomuna:

ókeypis jólatré

ókeypis jólatré

Glöggir sjá kannski að fremst á myndinni er fjósið (síðar: ég meinti fjárhúsið) sem Jesú fæddist í. Ef skoðuð er nærmynd af þessu fjósi (fjárhúsi) sjást þrjú sár: María er farin ásamt einum vitringanna og virðast þau hafa tekið lamb með sér. Jósep situr eftir með sárt ennið og barn sem hann á líklega ekki. Þetta fjós (fjárhús) hefur fylgt mér síðan ég var barn, eins og ansi margt af jólaskrautinu mínu.

einstakur Jósep

einstakur Jósep

Að lokum birti ég mynd af skónum mínum. Þeir eru léttir og úr mjúku leðri. Ég get verið í þunnum ullarsokkum í þeim og vona að þeir dugi í slabbið án þess að eyðileggjast. Annars á ég gömlu góðu gönguskóna mína alltaf heim hjá mömmu. Ég á mjög góða trampara, rauða og fína, en þeir eru hreinlega of þungir fyrir mig til að ganga á lengi, ég fæ í hnéð mitt af því og vil ekki taka of mikla áhættu með það.
Ég hef, eins og áður hefur komið fram, aldrei eytt eins miklu í skó. Þeir kostuðu 199 evrur. Merkið er Camper, ég hef heldur aldrei viljað kaupa skó frá þeim, finnst það allt of vinsælt og þar með snobba ég gegn því. Prinsipp eru til að beygja þau.
Hér eru stígvélin, þið megið alveg segja hvað ykkur finnst, ég hló dátt að vinkonum mínum á laugardaginn sem þorðu ekki að segja mér að þeim finnst þau ekkert flott. (Mér finnst pinnahælastígvélin þeirra alveg fín á þeim, en myndi aldrei ganga í svoleiðis sjálf).

dsc00293

Ef ég man/nenni læt ég taka aðra og betri mynd í kvöld. Sólinn undir er rauður, það gerði útslagið fyrir mig (og er það sem manninum mínum finnst verst við þau).
Lifið í friði.

mótmælafundur

Það er vitanlega mótmælafundur kl. 15 í dag. Þið mætið. Ég verð með ykkur í anda.

Eru ekki örugglega allir búnir að sjá myndbandið með Geir og Pétri blaðamanni? Ef ekki, er það út um alla vefheima, Elísabet baun bendir t.d. á það í síðustu færslu sinni. Ótrúlega vel leikið hjá þeim herramönnum. Er þetta ekki annnars örugglega brot úr áramótaskaupinu?

Lifið í friði.

uppsagnir

Mér reiknast svo til að þessi 1765 manns sem talin eru upp í frétt á RÚV (fjármálageirinn, byggingabransinn, Nóatún, Skjár 1 og 365) jafngildi 360.000 manns í Frakklandi. Þetta er reiknað út frá því að Íslendingar séu 300.000 en Frakkar 60.000.000.

Lifið í friði.