Archive for the 'grænt' Category

Fyrstu brauðin mín

eru sérlega falleg að mínu mati. Ég notaði sérstakt brauðhveiti sem er einhver blanda af mjöltegundum sem ég man ekki núna hverjar voru (henti pokanum fyrir þó nokkru síðan). Það gerir þennan fallega lit.
Mér finnst formið líka nokkuð gott, mér gekk alls ekki vel að móta deigið sem er mjög blautt, og bjóst við undarlegri útkomu.

fyrstu brauðin mín

Ég var að sjálfsögðu loksins að láta verða af því að prófa þessa uppskrift frá Nönnu. Ég endaði með því að láta deigið hefast í skálinni í næstum 5 klukkustundir. Smá rugl í skipulagningu minni. Það var komið upp úr skálinni og út á borð, en virðist ekki hafa sakað. Nú er fullt af deigi í skál inni í ísskáp og verður bakað á næstu dögum ef þessi valda lukku með ljúffengum ostum í kvöld.

Lifið í friði.

Brjóstsviði

Ég var að reyna að útskýra fyrir franskri blaðakonu hvers vegna þjóðin rauk ekki út á götu að fagna á laugardagsnóttina. Ég veit ekki með ykkur hin, en ég er frosin.
Mér líður eins og við eigum að gleðjast, það er a.m.k. ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki völdin lengur. En hvaða fólk hefur völdin? Hverjum er hægt að treysta? Ég man ekki hvar ég las það í gær, en mér líður nákvæmlega þannig. Ég er eins og brennd eftir erfið sambandsslit. Mig langar ekki í nýja ríkisstjórn. Finnst ég ekki þurfa á slíku að halda. Mig langar bara að fá að vera í friði.
Ég slengdi því m.a.s. fram í bréfinu til blaðakonunnar að líklega væri stór hluti íslensku þjóðarinnar orðinn hálfanarkískur djúpt í iðrum sér. Að líklega væri hægt að vinna eitthvað upp úr því einmitt núna, vekja anarkistahugsjónina sem ég trúi að blundi reyndar djúpt í öllum sálum, sé hluti af uppruna okkar, enda valdakerfið tilbúningur sem við kunnum alveg að lifa án „í gamla daga“. Eldgamla daga.
En ég skrifaði líka að þetta myndi að öllum líkindum dofna og jafnvel fjara út. Við myndum jafna okkur og samþykkja að halda áfram að lifa við þetta kerfi, enda allt of erfitt að hugsa út fyrir kassann, að trúa því að anarkí geti verið lausnin. Við erum allt of sannfærð um að eðli mannsins geri samvinnu og gagnkvæma virðingu óhugsandi. Sorglegt? Samt svo satt.
Þetta sökkar. Sökkar feitt. Allt saman. Og það eina sem stendur eftir sem óhagganleg staðreynd er að við erum föst í gini ljónsins, úlfsins. Á kafi í skítnum. Steytt á skeri. Sökkvandi skip. Drukknandi þjóð. HFF!

Ég kaus VG. Ég hikaði milli S, V og O. Ég valdi að leggja mína mestu áherslu á grænt og frið. Ég veit ekki hvað mér finnst um Evrópu, enda fjallar sá málaflokkur bara um peninga og ég hef svo lítinn áhuga á fjármálum. Það er samt varla hægt að segja þetta sem Íslendingur í dag. Fjármálin eru okkur svo hrottalega viðkomandi öllum, að það er fáránlegt að reyna að segja að maður hafi ekki áhuga. En. Samt. Í hjarta mínu er stærra hólf fyrir grænt og frið. Minna hólf fyrir efnahagslega afkomu þjóðarinnar. Skjótið mig ef þið viljið.
Ég kaus VG. Ég er sátt við þá ákvörðun mína upp að vissu marki. Ég er ósátt við kerfið. Ég þrái hrun valdakerfisins, en ég hafði ekki hugrekki til að éta atkvæði mitt eins og einhverjir gerðu. Mér fannst ég verða að taka þátt, láta atkvæðið mitt lenda einhvers staðar. En, eins og einhver annar sagði, mér fannst kosningadagurinn ekki vera hátíðisdagur. Mér fannst ekkert lýðræðislegt við þessar kosningar. Ég get ekki útskýrt það nánar, en ég er með brjóstsviða.

Viðbót: Hér las ég líkingu um sambandsslit.
Lifið í friði.

stífni og slow food

Ég er orðin svo stíf í líkamanum að ég meiddi mig í kjálkanum þegar ég geispaði stórum í gærkvöldi. Í morgun fann ég hvernig ég gat látið axlirnar síga um það sem manni finnst vera 10 cm, áður en ég var alveg vöknuð. Ferðastreita ofan á fyrirlestrarógn. Ekki góð blanda.

Dagurinn í gær var samt yndislegur. Ég dröslaðist með úlpur, flíspeysur, húfur og trefla. Börnin voru í sokkabuxum og ég í ullarkjólnum. Við vorum að kafna. Ég náði að taka lit í framan svei mér þá.

Ég var að horfa á myndband hjá Önnu. Ég er miður mín, mig langar svo að smakka lifrina hans Eduardo. Ég fann hana á netinu. Verðið er 506 evrur kílóið og vitanlega allt uppselt, en hægt að fara á biðlista fyrir haustið. Það er víst hægt að fá þetta í Harrods á haustin.
Síðasta sumar þegar ég sat í þægilegum sólstól og horfði yfir Risle-dalinn í kvöldsólinni kom yfir mig einhver yfirþyrmandi tilfinning sem líklega mætti kalla frelsun eða vitrun. Ég fann einhvern veginn fyrir móður náttúru og brjálæðislegri löngun til að verða slow food, slow life, slow allt „hippi“ (mér dettur ekkert betra í hug, allar ábendingar vel þegnar). Ég var líklega nýbúin að heimsækja lífvæna bóndabæinn og fræðast þar um lífvæna ræktun og fá fyrirlestur um að risaframleiðendur væru allt að drepa í heiminum. Ég var örugglega með pastís í glasi.
Ég hef hugsað töluvert um þetta síðan og er orðin næmari fyrir sögum af fólki sem leyfir sér að lifa á skjön við okkur hin. Á dögunum heyrði ég um hljómsveit sem ferðast þvert yfir Bandaríkin með allt sitt hafurtask á vögnum dregnum af hjólum. Mér finnst heillandi að fólk sé virkilega að hafa fyrir því að gera tilraunir með það að draga úr mengun, ofneyslu og sóun. Við erum alvarlega sköðuð, ég líka nota bene.
Það er ekki eðlilegt hvað okkur finnst allt þurfa að gerast hratt og það er alls ekki eðlilegt að finnast við þurfa að geta fengið allt sem við viljum á hvaða tíma ársins sem er. Það er ekkert lífsspursmál að geta borðað fersk jarðarber í desember í Norður-Frakklandi. Sérstaklega ekki ef þau eru framleidd með genabreytingum og sprautuð upp af einhverjum ókennilegum efnum til að hægt sé að flytja þau milli heimsálfa án þess að þau falli saman (og gráti?).
Æ, en svo nenni ég varla að gala um þetta, mér finnst svo erfitt að gera það án þess að hljóma klisjukennd, hræsnari, væminn vinstri grænn afturhaldskommatittur svo ég noti nú öll skammaryrðin í bókinni. Ég nenni bara að hugsa um mig og mína nánustu, ég þarf ekki að taka vottinn jehóvann á betri lífsstíl. Er það nokkuð?
En ég ætla samt að benda ykkur á að það er til slow food hreyfing á Íslandi. Hún ætlar nú að fara að sækja í sig veðrið og ef þið viljið komast á póstlista hjá þeim, er nóg að hafa samband við Dominique hja vinskolinn.is

Ég verð örugglega í sjóbaði á miðvikudag. Ef einhver ætlar með, hvaða tími hentar betur, hádegi eða kvöld?

Ég verð á Háskólasvæðinu alla vikuna frá þriðjudagsmorgninum. Veit ekki alveg hvar, því ég er ekki viss hvort þarf að panta borð á safninu eða hvort nóg pláss er þar fyrir aðkomufólk.
Vonandi næ ég að vera laus á kvöldin. Þar sem ég er barnlaus get ég í raun ráðið mér alveg sjálf. Ég er upptekin allan laugardaginn 28. mars, hvílíkt prógramm. Málþing, fermingarveisla, matarboð. Að öðru leyti er ég nokkuð laus þó þetta sé hörkuvinnuferð. Mér finnst ógeðslega gaman að láta trufla mig í vinnunni fyrir einn kaffibolla eða svo.
Ég reyndi að fá fólk með mér í afródans, en enginn bauð sig fram. Ég þarf því líklega að afpanta það, ferlega svekkjandi.

Hvernig er veðrið? Hör eða ull? Djók. Hlakka til að sjá hvort sögusagnir af andláti Laugavegarins séu stórlega ýktar eður ei.

Lifið í friði.

íslenskt bygg

Sólin skín á bláum himni og blankalogn ríkir þó kuldinn sé bæði napur og rakur. En ég get ekki notið veðursins heldur stend kófsveitt í minni ofhituðu sólríku íbúð og baka og raka saman dóti og undirbý afmælisveislu frumburðarins. Sjö ára á þriðjudag og ætlaði að halda sitt fyrsta almennilega stelpuafmæli í dag. Engir strákar, engin lítil börn, bara sjö ára stelpur í stóla- og myndastyttuleik og að mála. En þar sem tvær hafa afboðað komu sína þar sem hálft landið liggur í pest (svo til allir nema við, eins og vanalega) hefur litlu tvíburunum verið hleypt í boðið og litli bróðir fer ekki í bíó með pabba eins og áætlað var.
Það breytir þó engu um að ég stend sveitt og baka og raka saman dóti. Hvernig fer maður að því að eiga svona mikið dót? Hverni fer maður að því að ganga ekki jafnt og þétt frá þessu dóti heldur lætur það hlaðast upp í litlar óreglulegar hrúgur víðs vegar um íbúðina, eða á ég að segja rýmið? Er það fjallaþrá?

Farin að þeyta rjóma. Franskir krakkar borða ekki rjóma, en mamman ætlar sko að fá rjóma meðþessari girnilegu köku sem er einmitt núna í ofninum. Uppskriftinni þurfti að breyta örlítið, ég þorði ekki að setja valhnetur barnanna vegna, átti ekki pekan og ætlaði að setja kókosmjöl. Það sem ég taldi vera kókosmjöl reyndist vera möndlupúður.
Ég vil að lokum taka það fram að ég baka ekki úr íslensku byggi. Ég baka ekki úr íslensku byggi.

Lifið í friði.

Börnin munu ásaka okkur

Ég mæli eindregið með að horfa á þetta og setja í samhengi við ástandið á Íslandi í dag. Við megum alls ekki gleyma því að Nýja Ísland þarf að endurskoða öll sín viðhorf, þar á meðal umhverfismálin.

Lagið sem börnin syngja í sýnishorninu (la bande-annonce) er einmitt lagið sem börnin mín lærðu í vor og sungu fyrir okkur foreldrana.

Lifið í friði.

kitl í maga

Þá er að leggja lokahöndina á niðurpakk, börnin að fara til Grikklands í tvær vikur með tengdaforeldrum mínum. Sólarströnd, leikjanámskeið, dekur og dútl. Ég fyllist alltaf einhvers konar ótta um leið og ég er ánægð fyrir þeirra hönd. Ég veit að amman og afinn vaka vel yfir þeim en samt fylgir því alltaf einhver angistartilfinning að leggja líf þeirra og limi í hendur annarra en manns sjálfs.

Ég er strax byrjuð að undirbúa þessar tvær vikur sem ég hef hér heima barnlaus, nýtti þá staðreynd að veðrið breyttist í ógnandi þrumuveður og fór með börnin í byggingavöruverslanir í staðinn fyrir að vera í sundi.
Ég var löngu búin að kaupa málningu á klósett og bað, og nú hef ég skoðað skápainnréttingar fram og aftur upp og niður út og suður, ó, að ekki væri til svona mikið af innréttingum. Möguleikarnir eru óendanlegir, hillur, skúffur, körfur, snagar, krókar. Slatti af öllu í pott, suðan látin koma upp, bakað í heilanum við vægan hita í nokkra daga og voilà. Það hlýtur að koma skápur.
Svo ætla ég að útbúa almennilega vinnuaðstöðu fyrir mig fyrir veturinn og því fylgir náttúrulega að búa til aðra fyrir manninn minn svo við getum hætt að troða hvort öðru um tær. Eftir miklar mælingar og pælingar held ég að ég komi einum stórum Billy í viðbót fyrir í íbúðinni án mikilla tilfæringa. Og það besta er að það verður líklega eini kostnaðurinn við þessa framkvæmd, fyrir utan geisladiskaalbúmin sem ég keypti í Ikea í gær, ég ætla að nýta af fremsta megni það sem við eigum enda er ég í miklu átaki með að vera vænni, grænni og sparsamari en ég hef verið.

Það eina sem veldur mér háalvarlegu hugarangri með tilheyrandi andvökum, svitaköstum og magaverkjum (þetta eru bókmenntalegar ýkjur, þær leyfast hér) er eldhúsvaskurinn blessaður sem er stíflaður sem aldrei fyrr. Það er sama hvernig ég velti málinu fyrir mér, ég enda alltaf á því að vera komin með glænýtt eldhús með flísalögðu gólfi áður en ég veit af. Það er ekki hægt að láta gera bara við vaskinn, kranarnir eru löngu ónýtir, rörin úr sér gengin og allt er þetta í einhverjum stærðum og gerðum sem Evrópubandalagið ruddi af markaði fyrir áratugum síðan. Ég gæti ekki fengið krana sem passar, nema á einhverju fokdýru sérsmíðaverði, en það samræmist ekki sparnaðaraðgerðum mínum. Ef ég fæ nýjan vask og ný rör, þarf að breyta öllum götum í vegg og vinnuborði. Þá þarf nýjan skáp o.s.frv. Þið skiljið.
Ég er þó búin að semja við eldhúsinnréttingasnilling sem ætlar að byggja fyrir mig eldhús í tölvunni og kanna hvort við getum kannski gert þetta í nokkrum skrefum. Alla vega verður gerð fjárhagsáætlun og séð hverjir möguleikarnir eru. Þetta er eitthvað svona sem ég gæti aldrei gert ein.

Svo eru nokkrir snagar og smádótarí sem ég þarf að bora upp líka. Og ég byrjaði á að gera prinsessutjald yfir rúmið hennar Sólrúnar í gær. Og svo ætla ég að taka í gegn allar myndir í tölvunni og láta prenta slatta út. Og skrifa dagbók barnsins. Og byrja að lesa námsbækur. Og fara í bíó með manninum mínum. Og út að borða.

Voru þetta ekki örugglega tvö ár?

Lifið í friði.

um sáttmálann

Ég vil aftur minna á sáttmálann og koma að þeirri leiðréttingu að ekki er nauðsynlegt að fara í gegnum „innskráningu“. Nóg er að smella á SKRIFA UNDIR og fylla svo samviskusamlega út alla reiti þar. Ef þú býrð ekki á Íslandi, skaltu bara velja þér póstnúmerið á staðnum sem þig dreymir oftast um, staðnum þar sem þú helst vildir vera í 20 stiga hita og hlýrri golu með ilmandi nýslegið gras í kringum þig.

Einhverjir harðir græningjar virðast vera hikandi gagnvart sáttmálanum. Ég endurtek það sem Guðný segir í athugasemd hér fyrir neðan: Ef þú ert sammála, skrifaðu þá undir. Annað skiptir engu máli.

Ég veit alveg að sumir dyggir lesendur og góðir bloggvinir eru ekki sammála mér. Þau eru ekki verri menn í mínum huga, síður en svo. Það er allt í lagi að vera ósammála. Ég veit ekkert af hverju ég er á móti stóriðju, virkjunum, framleiðslu, iðnaði, peningagróða, vöxtum, vaxtavöxtum, þenslu, bólgu, eyðslu. Ég veit það ekki en ég er hrædd við öll þessi orð, þau valda mér ugg. Mig dreymir um nýslegið gras, fífur á eyri, gott ferskt loft og heilbrigt fólk. Sem helst skortir ekki neitt, og, það sem er ennþá betra, því líður ekki eins og það vanti samt eitthvað.
Ég er draumóramanneskja en þú líka.

Lifið í friði.