Archive for the 'Lífstíll' Category

Brenninetlusúpa

Ég sé að í orðabók er netla látið nægja til skýringar á ortie, en ég ætla nú samt að nota brenninetlu, enda eru þetta skæðar plöntur og vont að brenna sig á þeim (sem er í raun stunga, en svíður eins og bruni).
Þegar ég var ungur og smár lestrarhestur á Íslandi, fannst mér brenninetlur, linditré, vatnaliljur og fleira í þeim dúr tilheyra einhvers konar draumaheimi sem ég ætti að tilheyra. Nú bý ég í litlum bæ í útjaðri Parísar, með risastórt linditré trónandi í götunni minni og hálfgert villt (les: illa hirt) skógarsvæði í brekkunni fyrir ofan, þar sem brenninetlur vaxa í stórum breiðum. Vatnaliljur hitti ég þegar ég fer með Íslendinga að skoða Versalagarðana, eða heimsæki Monet í Giverny. Ég man svei mér ekki eftir vatnaliljum nær mér en það, en það er samt alveg nóg fyrir mig.
Ég las mér til um brenninetlusúpu í fyrra, eftir að hafa setið á svölum hjá vinkonu minni og séð konu koma akandi, leggja bílnum og vaða inn í breiðurnar af illgresi sem vaxa þarna, velja úr og fylla stóran poka af grasi. Eitthvað hafði ég heyrt um netluát, en aldrei spáð frekar í það. Ég ákvað strax að prófa, en ekkert varð af því fyrr en nú. Þegar ég gortaði af þessu á feisbúkk eins og vera ber, lofaði ég líka myndabloggi à la Erla Hlyns, og hér kemur það, gjörið svo vel:

Því miður láðist mér að taka myndir af breiðunum af brenninetlunum í sínu náttúrulega umhverfi, en ég tók mynd af þessum bekk áður en ég hóf tínsluna. Hann er greinilega góður til bjórþjórs og reykinga:

Best er að klippa brenninetlur áður en blómin koma á, sem sagt snemma á vorin. Ungar plöntur eru bragðmeiri, og þegar blómin koma missa þær bragð. Ég var alveg á síðasta snúning, á sumum plöntunum voru byrjaðir að myndast blómaknúppar, sem ég klippti stundum frá, ef mér leist mjög vel á laufin. Maður grípur um toppinn og klippir svo eins neðarlega og mann langar (neðst eru plönturnar oft mjög visnar, því þær vaxa svo þétt). Nauðsynlegt er að vera með hanska, ég var með uppþvottahanska og það var fínt, þeir eru líka frekar háir. Að öðru leyti var ég nú bara á hlýrakjól og sandölum, en fór varlega og slapp að mestu við bruna.
Það þarf töluvert magn, ég fyllt vænan plastpoka. Hér sést hluti hrúgunnar á eldhúsborðinu:

Í hrúgunni leyndust nokkrar pöddur, sem fengu að fjúka út um gluggann. Svo er öllu skellt í vaskinn, fylltan af vatni og látið skolast vel. Tæmdi vatnið, strauk sand og drullu upp úr honum og fyllti hann aftur. Þá hófst klipping laufa, því þó að stöngullinn sé góður, er hann erfiður undir tönn, vegna þráðanna í honum. Ég ákvað því að geyma stönglana handa tómatplöntunum mínum, þeir eru nú að marínerast í vatni úti í garðskýli. Ég klippti öll laufin og lét í skál með ediki og vatni og skolaði vandlega.

Ég lét drúpa vel af þeim í sigti og svo fór allt í stóran pott, með vænum bita af smjöri:

Svo eru laufin látin malla í smjörinu, alveg eins og maður gerir með spínat. Það er hryllingur að sjá laufin hverfa og verða að engu neðst í pottinum. Eins gott að maður er með sterkar taugar:

Vatn látið fljóta yfir, þrjár kartöflur flysjaðar og skornar í bita og hent út í. Saltað og piprað. Ég held að ég hafi bætt smá timjan, en ég þori ekki að hengja mig upp á það. Það eru til milljón uppskriftir á netinu með alls konar góðgæti í, gulrótum, lauk, hvítlauk og bara hverju sem er. Ég ákvað að hafa hana sem einfaldasta, svona í fyrsta skipti. Ég ætlaði að láta hana sjóða í 15 mínútur, en endaði með að láta hana sjóða í 40 mínútur, því mér fannst svo mikið vatn.
Svo er að taka töfrasprotann, sem er nauðsyn að eiga fyrir alla sem langar að borða heimalagaðar súpur. Ég var með hálfgert samviskubit þegar ég keypti hann, en nú get ég aldrei haldið aftur af mér þegar ég tek hann fram og tek alltaf góða sveiflu með honum:

Og hér er svo súpan, tilbúin til átu. Má setja rjóma eða crème fraîche en hún er dásamlega bragðgóð bara svona ein og sér. Og já, brenninetlur hætta sumsé að brenna mann um leið og þær eru steiktar, það má t.d. alveg bera þær fram smjör- eða olíusteiktar, með kjöti.

Þessi pottur er risastór, í honum var nóg af súpu sem forréttur fyrir okkur fjögur einn daginn, og svo vænn hádegisverður handa mér síðar. Þá bætti ég smá rjóma útí, það var líka mjög gott. Krakkarnir voru skeptískir á þetta, en átu með bestu lyst. Þrátt fyrir að ég hafi talað um hundapiss og svona, ég er stundum barnalegri en börnin mín og ræð ekki alltaf við mig.

BON APPÉTIT!

Lifið í friði.