Archive for the 'náttúran' Category

af brjóstum

Djöfull er ég ánægð með þessa grein á Hugsandi. Alveg mátulega fræðileg án þess að maður hætti að skilja. Bíð spennt eftir framhaldinu og grufla í heilanum á sjálfri mér varðandi það hvers vegna ég fór allt í einu að raka á mér leggina nýlega. Get ekki skýrt það. Atbeinið eða formgerðin?

Lifið í friði.

að vera eða vera ekki memm

Eftir fyrsta skóladaginn í 6 ára bekk, tilkynnti Kári okkur hróðugur að hann hefði eignast vin, Sam. Hann væri nefnilega líka aðdáandi Star Wars. Þannig borgaði blessaður Svarthöfðabolurinn sig upp á einum degi.
Ég var búin að vera með ör-pínu-smá-litlar áhyggjur af því að Kári einangraðist úti í horni í nýja skólanum. Flest krakkanna voru saman í leikskóla líka, bara örfá sem bætast við úr öðrum hverfum, eins og Kári. Hann er frekar mikill einfari í hóp og tekur sér tíma í að kynnast fólki. Hann er mjög opinn og ræðinn heima við, en þagði næstum heilan vetur í leikskólanum, ef ég man rétt. Seinni tvö árin lék hann sér svo eingöngu við Basil sem er ári yngri og dálítið seinn til, bæði í tali og hreyfingum. Basil er nú einn á síðasta ári í gamla skólanum og fer ekki sögum af því hvernig honum gengur. Svarthöfði reddaði þessu fyrir Kára (og um leið mig).
Í morgun klæddi Kári sig svo í ósamstæða sokka, parið á móti því sem hann var í um helgina. Ég benti honum varlega á að kannski myndu einhverjir krakkar hlæja að honum í skólanum, hann fékk strax hálfgerða skeifu og skipti yfir í samstætt par.
Mér finnst smart að vera í ósamstæðum sokkum, mér finnst töff að geta verið í fötum sem öðrum þykir kannski skrýtin, ég leik mér að því að sjokkera í litasamsetningum sjálf. En mér finnst það vera skylda mín að vernda sniðugu börnin mín gegn stríðni. Ég gleymi aldrei vonsvikni Sólrúnar þegar hún var tekin í gegn í frímínútum fyrir íslensku húfuna sem hló. Húfan var eftir það eingöngu notuð í fríum eða um helgar og þó það sé svekkjandi, er þetta sjálfsögð vörn lítils barns gegn hættunni á því að lenda einangrað úti í horni á skólalóðinni.
Það er engin furða að foreldrar séu stressaðir þegar krakkarnir byrja í skólanum á haustin. Það er ekkert rosalega erfitt að rifja upp ljótar senur úr lífinu í skólanum. Jafnvel fyrir okkur sem sluppum að mestu leyti vel. Þetta er harður heimur og það byrjar snemma.

Lifið í friði.

búin

Ég held ég hafi aldrei verið svona þreytt. Jú, örugglega oft, en þannig líður manni samt alltaf þegar maður er vindlaus, orkulaus, búinn á því.

Það er magnað að þýða viðtöl við fólk. Sumir tala í fullkomnum litlum bútum, mátulega sundurskornum, ekkert sko jamm sko hérna hmmm, bara sagt það sem á að segja og ekkert mál að skrifa það upp með tæmkódum og alles. Aðrir kjamsa og humma, sko-a og hérna-a út í eitt. Allar setningar eru í einhvers konar lögum sem skarast: Já, sko, hérna, þetta var nú þannig að, eeeeh, þetta var nú þannig að báturinn var keyptur, eeeeeh jamm humm sko, keyptur eftir að frændin fór eeeeh sko, hérna. Martröð fyrir þýðandann, enn meiri martröð fyrir klipparann sem skilur ekki íslensku.

Þátturinn verður eflaust fínn, ég held þetta sé í fyrsta sinn sem ég verð vör við að Frakki sé að gera hlutlausa mynd um hvalveiðar Íslendinga og að hann hafi virkilega haft áhuga á því að grafast fyrir um það hvernig hvalveiðar tengjast sjálfi þjóðarinnar.

Lifið í friði.

ég er út um allt á þessu fokking interneti

til dæmis núna hér.

Lifið í friði.

gerið og dagsetningar á matvöru

Ég gleymdi að taka það fram í gær að gerið sem ég notaði var útrunnið. Reyndar bara síðan um miðjan maí. Enn og aftur sanna ég það fyrir sjálfri mér og heimilisfólki mínu að lítið er að marka dagsetningar á vörum. Ég er fullkomlega sannfærð um að þær eru falsaðar. Að alltaf má bæta við, ég miða við ca mánuð á því sem er „lifandi“, ekki meir. Ég hef lent í að baka úr dauðu geri og það virkar vitanlega ekki. Ég borða jógúrt þremur til fjórum vikum eftir dagsetningu síðasta neysludags. Enda stendur á frönskum pakkningum „consommer de préférence avant le“, og á íslensku er það „best fyrir“, best, já, en allt í lagi hversu lengi á eftir?
Fersk mjólk eyðileggst þó fljótt og ég vara mig á ýmsu sem getur byrjað að gerjast, s.s. spagettísósum og öðru slíku. Geymi það þó alveg viku en ekki bara þessa þrjá daga sem mælt er með utan á krukkunum.

Óþarfi að taka það fram að við erum oftast við hestaheilsu á þessum bæ.

Lifið í friði.

húsmæðraskipti

Ég fékk tölvupóst í dag um að frönsk kona myndi kannski skrifa mér fljótlega. Hún gengur með þann draum að koma til Íslands, en hana langar til að komast inn á heimili og vera með fólkinu. Ekki bara svona venjulegur túristi. Ég skil það mjög vel og finn sjálf alltaf fyrir því þegar ég ferðast á ókunnar slóðir (sem er í raun afar sjaldgæft, föst sem ég er milli þess að vera bara í Frakklandi og ferðast bara til Íslands), að mig langar svo að komast inn til fólksins sem býr á staðnum.
Þessa konu langar að bjóða tvær vikur á sínu heimili í Normandí gegn því að fá að koma í tvær vikur inn á íslenskt heimili. Hún er gift og á tvö börn, 21 og 17 ára.
Ég hef ekki enn fengið póst frá henni sjálfri, kannski mun hún aldrei láta verða af því að senda hann, kannski finnst henni þetta eitthvað kjánalegt, ég meina, við höfum aldrei séð svona auglýsingu áður. Hvað finnst ykkur, væruð þið til í að taka hana að ykkur og koma svo einhvern tímann til hennar? Persónulega væri ég til í svona díl, vandamálið er að ég er ekki með aukaherbergi. En á mitt heimili er gott fólk alltaf velkomið í svefnpokapláss, vitandi að hér er farið snemma á fætur, hvort sem setið er lengi að spjalli með tilheyrandi í glasi kvöldið áður eða ekki.

Lifið í friði.

skokk

Hingað til hef ég bara montað mig af nýja átakinu mínu á snjáldurskinnu. Aðallega vegna þess að ég var í svo lélegu formi að ég náði aldrei að hlaupa lengur en 8 mínútur. Þar má monta sig af smásigrum, hér á blogginu verður að vera ákveðinn standard sko.
Ég ákvað sem sagt að fara út eins oft í viku og ég gæti og hreyfa mig eins mikið og ég nennti.
Ég fór út á sunnudags- og mánudagsmorgun. Á þriðjudeginum var ég á bulland fór ég bara á bókasafnið, á miðvikudeginum er leikfimin í hádeginu en kennarinn mætti ekki svo við komumst ekki í tækjasalinn. Ég hljóp í 12 mínútur í staðinn ásamt slatta af magaæfingum, skoppum, og armbeygjum (9 alvöru á jörðinni).
Í gær, fimmtudag, fór ég ekki en í morgun fór ég og hljóp í 22 mínútur. Leit ekki einu sinni á klukkuna fyrr en eftir 11 mínútur. Þegar ég var búin með 20 ákvað ég að hlaupa eitt lag í viðbót. Það reyndist vera Nick Cave og því náði ég ekki að þrauka allt lagið.
Eftir hlaupin tók ég smá upprifjun á pallaleikfimi á háum gangstéttarkanti, hné og hæll, hopp og slaufa. Fimm mínútur. Svo gerði ég 120 magaæfingar og 12 armbeygjur á bekk (á ská sem sagt).
Það besta er að ég finn að ég er að springa úr löngun í að gera þetta, ég hengslast ekki út dragandi lappirnar á eftir mér heldur er ég spennt og kát að drífa mig. Hversu lengi þetta mun endast veit ég ekki. Hvort ég muni ná að laga slappan magann veit ég ekki. Í raun er það ekki aðalmálið. Aðalmálið er þessi slyttisþyngdarmáttleysistilfinning sem smyrst ofan á tilfinninguna um að ég sé að verða gömul. Fertugsafmælistíðin er hafin, tuttugu ára stúdentsafmæli í næstu viku (ég verð ekki þar). Ég er vissulega að verða gömul, en djöfull skal ég verða flott og spræk gömul kelling. Látið ykkur samt ekki dreyma um að ég hætti að kíkja í glas og fíra upp í sígó við og við.

Lifið í friði.

útlendingurinn

Það var að koma út yfirfarin þýðing á þessari bráðgóðu bók eftir Albert Camus. Ásdís R. Magnúsdóttir hressti gömlu þýðinguna við, færði hana nær ungu fólki í dag. Þessi saga er fullkomin fyrir menntaskólakrakka og uppúr og þar sem þetta er tvímála útgáfa er hún vitanlega fullkomin til að hressa við frönskukunnáttuna. Mér finnst bókin alltaf jafngóð, les hana nokkuð reglulega (eða gerði áður en ég var þrúgaður námsmaður (mér finnst ég hafa verið það í þúsund ár núna)).

Svo minni ég á útlending sem er í hungurverkfalli á gistiheimilinu Fit í Njarðvík. Það er hægt að fara og heimsækja flóttamennina sem eru geymdir þar meðan þeir bíða afgreiðslu mála sinna, sem langlanglangoftast enda með því að þeir eru sendir úr landi. Þannig er hægt að sýna Mansri samstöðu.

Annars er ég bara ömurlega leiðinleg og nenni varla að opna munninn. En það verður ahbú 15. maí. Hvernig sem það fer svo.

Lifið í friði.

hús-taka tvö

Ég tel mig ekki þurfa að fara í rökræður við nokkurn mann út af yfirlýsingu minni varðandi hústökuna. Mér finnst það alltaf jafnfyndið þegar fólk byrjar að tala um eigin íbúðir eða sumarbústaði í sömu andránni. Það að taka tómt húsnæði sem verið er að vanvirða með því að láta það grotna niður, eingöngu í hagsmunaskyni eigenda, er engan veginn, engan veginn, engan veginn sambærilegt við það að ryðjast inn á heimili eða sumarbústaði þar sem fólk nýtur friðhelgi.
Ég nenni ekki að ræða þetta frekar, en ég vildi samt koma því á framfæri að ég styð svona aðgerðir. Ég styð í raun allar aðgerðir gegn þessu glæpahyski sem hefur komið þjóðarbúinu á heljarþröm. Mér er skítsama hvað ykkur hinum finnst, þið megið vera ósammála mér og megið alveg láta þá skoðun í ljós. Það breytir minni skoðun ekki, enda er ég búin að stúdera þetta þó nokkuð, fylgjast með hústökum í Frakklandi og víðar og veit að þetta er allt annað en einhver vanhugsaður ruðningur yfir á annarra yfirráðasvæði. Ef þið nennið ekki að pæla í þessu, þá er það ykkar mál, það er þó alltaf virðingarvert þegar fólk hefur í það minnsta vit á að segja bara „þetta er flókið mál“ í staðinn fyrir að koma með yfirlýsingar úr takti við raunveruleikann. Skoðanaleysi er betra en fordómar, það er ekkert að því að viðurkenna að maður hafi ekki vit á öllum hlutum. Ef ykkur langar hins vegar að fræðast meira um þetta, getið þið gúgglað squats, artist squats og ýmsu fleiru sem ykkur dettur í hug. Það ætti að leiða ykkur inn á ýmsar skemmtilegar síður sem útskýra málstaðinn. Þið getið líka heimsótt t.d. Evu, hún er alltaf jafnþolinmóð í að koma með rök gegn þeim sem velja frekar þá leið að fordæma en að prófa að skilja.
Þið getið líka sagt að nú sé ég með fordóma gagnvart siðspilltu fjárglæframönnunum. Já, ég skal alveg viðurkenna það. Ég trúi því staðfastlega að þeir eigi að stíga fram og axla ábyrgð og ég mun meira að segja vera tilbúin til að fyrirgefa þeim kjánaganginn, ef þeir iðrast og vilja gera það sem í þeirra valdi stendur til að bæta fyrir skaðann sem þeir hafa unnið. En meðan þeir halda áfram að viðhalda spillingunni og gróðafíkninni get ég ekki annað en fyrirlitið þá.

Lifið í friði.

veður

hefur skipast í lofti

ausandi rigning og hávaðarok

get ekki sofnað

margt að gerjast í kolli mínum

Lifið í friði.