Archive for the 'flokka' Category

kjaftstopp? ég?

Ég ætlaði að fara að skrifa eitthvað rosalega skemmtilegt þegar ég rakst á athugasemd í hinni alræmdu síu sem Eyjan hefur á athugasemdum. Athugasemd fer í síu ef það er tengill í henni. Ég er mjög ódugleg að fylgjast með því, og þess vegna hafði löng athugasemd frá 12. janúar farið gersamlega framhjá mér. Hún er nú komin inn á sinn stað, sem og örstutt svar frá mér.

Og nú er ég bara algerlega blokkeruð og langar ekki að skrifa neitt skemmtilegt. Svona getur farið stundum. Ég sagði bara það sem mér finnst, en einhverjum öðrum finnst eitthvað allt annað. Og reynir að nota það gegn mér að ég standi í þakkarskuld við hann. Það finnst mér svo óþægilegt að ég er alveg kjaftstopp.
Ég er nefnilega sjálf svo vön því að gera bara alls konar hluti fyrir fólk án þess að finnast það nokkuð tiltökumál. Ef ég set inn tengil á eitthvað fyrirtæki eða annað skemmtilegt, ætlast ég ekki til þess að fá neitt til baka. Hvað þá að mér finnist ég þar með hafa tryggt mér einhvers konar „liðsmann“ með því. Þessi hugsunarháttur er mér hreinlega framandi, ég bara næ þessu ekki.

Á www.parisardaman.com er smáauglýsingasíða. Hún er algerlega ókeypis. Fólk sendir mér beiðni um auglýsingu og ég kem henni á framfæri á póstlistann, sem er orðinn ansi langur listi samsettur af Íslendingum sem búa, eða hafa búið, í Frakklandi sem og frönskum Íslandsvinum. Ég þýði allar auglýsingarnar yfir á frönsku áður en ég sendi þær út, því það kunna ekki allir viðtakendur íslensku. Þetta getur stundum tekið mig ansi góða stund, ég hef aldrei tekið það saman, en það hefur komið fyrir að þetta hafi tekið tvær klukkustundir, ef mikið hefur borist af auglýsingum í einu. Ég er reglulega spurð hvers vegna í ósköpunum ég sé að þessu, fyrir ekki neitt. Ég get ekkert útskýrt það, ég geri þetta vegna þess að enginn annar gerir það. Mér finnst ég ekki geta hætt og ég nenni ómögulega að fara að koma upp einhvers konar greiðslukerfi fyrir þetta.
Ég hef jafnvel fundið fyrir því að fólk haldi í alvörunni að ég sé að leyna einhverjum ábata af þessu. Eini mögulegi ábatinn er sá að fólk tali vel um mig og það skili sér í viðskiptavinum í gönguferðir um París. Ég fæ aldrei ókeypis að borða á veitingastöðum, ég fæ ekki íbúð fyrir mömmu og pabba þegar þau koma, ég fæ ekkert fyrir þetta. Og það truflar mig ekki neitt.
Vegna þess að ef ég fer að fá eitthvað fyrir þetta verð ég komin í leiðinda markaðsflækju-aðstöðu og tilhugsunina um það þoli ég mjög illa. Ég er bara mjög sátt við að fá að gera góðverk, það veit hver heilvita maður að sælla er að gefa en að þiggja, er það ekki?

Þess vegna er ég kjaftstopp og blokkeruð eftir að sjá þessa athugasemd, þar sem beinlínis er sagt að ég eigi að þegja út af tengli (og líka vegna þess hver bauð mér hingað inn, en þann flöt nenni ég ekki að hugsa til enda núna).
Ef ég verð kjaftstopp mjög lengi, mun ég íhuga hvað hægt sé að gera, hvort ég þurfi að flytja mig annað, í burtu frá markaðshyggjukerfisþenkjandi týpum. Við sjáum hvað setur.

En ég nota tækifærið og bendi lesendum á að nú er lag að byrja að undirbúa sumarfríið. Í gegnum Parísardömuna hefur slatti af fólki náð að skipta á íbúðum og bílum og átt þannig kost á að vera lengur í útlandinu, en þegar verið er að borga fyrir hótel. Mæli með því!

Lifið í friði.

viðreynsla í hina áttina

Vinkona bað mig um viðreynslusögu í hina áttina. Það vakti mig til umhugsunar og ég er í raun algerlega kjaftstopp. Ég get ómögulega munað eftir því að hafa sýnt einhverja sérlega glæsilega frammistöðu í daðri.
Ég hef mjög sjaldan verið einhleyp í almennilega langan tíma. Það eru þarna eitt, tvö ár einhvers staðar, sem ég eyddi á Íslandi og naut þess að vera einhleypur ríkisstarfsmaður á skítalaunum, sífellt að nurla til að ná endum saman. Það batnaði ekki þegar ég sagði upp og fór í Háskólann og vann í sjoppu á kvöldin og um helgar í staðinn fyrir að fara á námslán.
Ég hef nú samt alltaf verið einhleyp á milli þess sem ég hef átt kærasta og einhvern veginn gerist það að daðrið hefst og endar stundum í einhvers konar ævintýri, misvel lukkuðu.
En í alvöru talað þá finnst mér daðrið bara hafa verið mjög náttúrulegt og algerlega „óvart“ einhvern veginn. Ég man alla vega ekki eftir neinu svona stönti eins og maðurinn í síðustu færslu framkvæmdi (ég býst alls ekki við að vera sú eina sem hann hefur notað þetta á).

Ef mér dettur eitthvað sniðugt í hug, læt ég ykkur vita. Þangað til, verð ég bara að lýsa því yfir hér með að ég er annað hvort náttúrutalent og þarf ekki á einhverjum frösum að halda, eða ég er mjög leim daðrari. Og þá er ég að tala um daður við einhvern sem maður hefur áhuga á, því ég er þess fullviss að ég er náttúrutalent þegar kemur að þessu daglega daðri við fólkið sem maður þarf að hafa samskipti við, ég er þrælflink í að snúa uppásnúnum Frökkum á mitt band og fá þá til að gera alls konar hluti fyrir mig þvert á einhverjar reglur sem þeir hafa sett sér. Nú síðast á föstudag sannfærði ég t.d. veitingahúsaeiganda að taka á móti stórum hóp í kvöldverð á miðjum háannatíma, þvert á reglur staðarins. Ég beitti alls konar bellibrögðum, aðallega skjalli, og það snarvirkaði.

Lifið í friði.

Viðreynslusaga

Vinur minn bað mig um viðreynslusögu og þar sem ég er fádæma hlýðin verð ég við bón hans:
Einhvern tímann var ég að staulast heim með of þunga innkaupapoka og börnin tvö. Það var rökkur, rigningarsuddi og ég var hálfstressuð yfir því að láta krakkana ganga með mér án þess að geta leitt þau, sonurinn hefur líklega verið 4 eða 5 ára.
Á móti mér kemur feitlaginn, góðlegur maður um þrítugt. Hann horfir á mig og segir svo stundarhátt: „Af hverju eru allar fallegustu konurnar alltaf fráteknar?“ Af talandanum mátti skilja að hann var eitthvað örlítið þroskaheftur eða á eftir. Ég brosti mínu fegursta til hans og var kát lengi á eftir. Mér fannst þetta glæsileg frammistaða í daðri, maðurinn kom fram af fyllsta öryggi og sýndi að hann hefur þennan líka fína húmor fyrir sjálfum sér.

Lifið í friði.

Leiðrétting á þvaðri um París

Það er fádæma fyndið þreytandi að lesa í glænýrri grein hér á Eyjunni, að kona geti ekki setið ein á kaffihúsi í París án þess að vera „álitin til í hvað sem er“.
Ég nenni varla að mótmæla þessu, en samt. Sem Parísardama bara neyðist ég til þess. Á hvaða öld lifa Pjattrófur eiginlega? Í hvaða fantasíuheimi?

Það eru reyndar ekki svo mörg ár síðan femínistahreyfingin „Les chiennes de garde“ [Varðtíkurnar] fór í hart gegn hinum dýra (og fína) Fouquet’s á Champs Elysées. Þeir streittust við að banna konum aðgang að staðnum nema „í fylgd“. Það var í ársbyrjun 2000 sem þeir loksins settu upp skilti undir því gamla sem sagði að konur mættu ekki koma einar, þar sem stendur að það fengi að hanga uppi sem söguleg heimild eingöngu.
Því gæti það verið svo, að í heimi hinna ríku (og fínu) séu meiri líkur á því að konur einar á ferð séu dæmdar sem mögulegar afætur eða hórur. Nema þá á Ritz, sem er eins og vin í eyðimörkinni fyrir stakar konur.
Aldrei nokkurn tímann hef ég fundið fyrir minnstu fordómum á þeim fjöldamörgu kaffihúsum sem ég hef vogað mér að sitja á, alein í mínum eigin heimi, jafnvel með vín í glasi. Ég hef heyrt konur segja að þeim finnist ekki þægilegt að sitja einar á kaffihúsi, en ég hef heyrt karla segja það sama. Það sé eitthvað svo einmanalegt að sitja einn, maður sé svo berskjaldaður. Mín upplifun er öfug, mér finnst ég geta gert mig ósýnilega þegar ég sit ein á kaffihúsi. Það er eitt af því skemmtilegasta sem ég geri í París, að sitja og geta glápt og hlustað án þess að þurfa að halda uppi samræðum við félaga. Ég skrifaði til dæmis alltaf bréfin til Íslands á kaffihúsum, þar komst ég á almennilegt flug og gat sagt frá senunum í kringum mig.
Ekki misskilja mig, mér finnst líka mjög gaman að sitja með félögum á kaffihúsi, það er bara ekki sami hluturinn. Og auðvitað hef ég stundum fengið athygli frá einhverjum sem sér mig sitja eina, einhver sem reynir að fá mann til að tala við sig, þiggja jafnvel drykk eða blóm. Það er daður, sem eiga sér stað, og er langoftast algerlega heilbrigt og jafnvel bara skemmtilegt. Ég get alveg tæklað mann sem sýnir mér áhuga án þess að fara öll í flækju, hvað þá að ég telji mér trú um að hann líti endilega á mig sem druslu „til í hvað sem er“. Með tækla á ég ekki við að ég standi upp og felli hann, heldur bara að ég ráði við þessar aðstæður.

Það einkennir skrif Pjattrófanna, að það virðist engu máli skipta þær hvort alhæfingarnar eigi sér nokkra stoð í raunveruleikanum eða ekki. Allt felst í „stílnum“. Ég er kannski að oftúlka eitthvað, en gæti það verið fantasía Gigi að vera álitin drusla af karlmönnum, og þess vegna sé svo smart að segja að þannig sé „menningin“ í Frakklandi?
Mér finnst svona bull svo þreytandi, ég bara skil ekki til hvers fólk er að hamast við að búa til svona platveröld með þessari undarlegu gjá milli kynjanna (og landanna líka, í þessu tilfelli).

París er meiriháttar borg. Hér er hægt að finna allt milli himins og jarðar. Hér er hægt að ganga milli mismunandi heima á örskömmum tíma. Hér er hægt að finna ótrúlegustu sérvöruverslanir, handverksmenn og listamenn, lífskúnstnera, snobbhana og -hænur og það er nákvæmlega það sem er svo skemmtilegt við París. Við erum samt komin inn í 21. öldina hér í borg og konur geta gengið nokkuð óáreittar um götur, þó athygli karlmanna sé vissulega alltaf sýnilegri en á götum Reykjavíkur. Það er ekkert óheilbrigt við það að karlmaður sýni konu áhuga, svo lengi sem hún hefur heilbrigða sýn á sjálfa sig og aðra.

Jæja, ég er að falla á tíma og þarf að fara. Kannski meira seinna. Kannski ekki. Ég strengdi ekki það áramótaheit að láta Pjattrófurnar ekki fara í taugarnar á mér, en ég ætlaði mér alls ekki að skrifa meira um þær eftir lætin um daginn. Mér finnst heldur ekki gaman að standa í deilum við fólk og auðvitað má fólk hafa aðrar skoðanir en ég. En þarna var ekki skoðun á ferð, heldur kolröng alhæfing um menningu borgarinnar sem ég lifi og hrærist í, og menningu landsins sem ég el börnin mín upp í. Ég gat ekki látið það standa hérna afskiptalaust.

Lifið í friði.

Gleðilegt ár

Ég óska öllum lesendum mínum gleðilegs nýs árs (og friðar, vitanlega).
Áramótin voru mjög óíslensk hjá okkur, en ansi skemmtileg. Engar sprengjur, bara venjuleg matar- og vínorgía. Þeir einu sem kíktu stundum út fyrir voru reykingamennirnir þrír. Ég verð að játa að það munaði afskaplega mjóu á því að ég færi út til þeirra í eitt skiptið, fékk þessa líka rokna sígólöngun, en eitt af því sem ég afrekaði á síðasta ári var einmitt að hætta þessu blessaða sígarettufikti sem ég hef stundað lengi. Mér tókst að halda í mér og ætla mér að láta árið 2011 vera fyrsta heila sígarettulausa árið mitt.
Fyrir utan þetta litla persónulega afrek, finnst mér árið hafa verið tiltölulega viðburðasnautt og jafnvel einhvern veginn ógurlega flatt, að undanskildum nokkrum frábærum hápunktum. Einn þeirra, og líklega sá mikilvægasti, var að ganga í Þjórsárverum. 6 dagar í óbyggðum með allar vistir á bakinu. Stórkostleg lífsreynsla.

bílar bannaðir - hvílíkur draumur

Ég man ekki hvort ég hef bloggað eitthvað um þessa ferð, ég veit að ég drattaðist alla vega aldrei til að skrifa stóru góðu ferðalýsinguna, en það gerði hann Gunnlaugur, sem í ferðinni bjargaði mér frá því að þurfa að svolgra í mig einhverjum lítrum af jökulá, og kannski bara hreinlega lífi mínu. Hvað veit maður? Það var alla vega magnað móment þegar ég fann skyndilega að undir mér var nákvæmlega ekki neitt og ég vissi að ég myndi vera á bólakafi í ánni, með pokann á bakinu, eftir örskamma stund. Var byrjuð að hugsa næstu „skref“, hvernig ég ætti að rífa af mér lausan pokann og halda niðri í mér andanum, þegar hann greip allt í einu undir hendurnar á mér, vippaði mér á fætur og gekk svo með mig yfir vaðið. Fokk, hvað ég skalf á eftir.

á Arnarfelli

á Arnarfelli

Það var allt meiriháttar við þessa ferð. Góðir leiðsögumenn, góður hópur, gott veður. Ég hef aldrei almennilega jafnað mig á því hvað þetta er ólýsanlega spennandi og skemmtilegt og er nú þegar búin að skrá mig í ferð næsta sumar hjá Ferðafélaginu. Prógrammið er á leiðinni á vefinn núna um miðjan janúar, en ég veit hvaða ferð ég vil fara næst. Og ég verð aftur með alvöru kaffi og alvöru kaffikönnu.

kaffikannan góða

kaffikannan góða

Aðrar góðar stundir ársins eru þær sem var eytt í góðra vina hópi, og að fylgjast með börnunum vaxa og dafna og verða stórkostlegri með hverjum mánuðinum sem líður. Afsakið væmnina en mér fannst ómögulegt að láta sem Þjórsárver væru það eina góða, enda er það ekki rétt.

Annars hefur þessi síðasta önn verið frekar erfið. Það er komin einhver rokna þreyta í mig í náminu, enda var dálítið erfitt að snúa aftur í fjarnámið eftir heilan vetur í tímum með fólki. Ég hef líka verið ódugleg að fara á bókasafnið, því bókasafnsvinkonurnar frá því í fyrra eru báðar komnar í fasta vinnu svo ég sit þar alltaf alein og fer ein í mat og… jámm, mér finnst þetta bara einhvern veginn alveg hrikalega erfitt allt saman í dag. Ég hef á köflum verið svo leið, að það myndi líklega mælast sem þunglyndi. Ég þekki samt svo rosaleg dæmi um þunglyndi að ég á erfitt með að segja þetta, ég næ alltaf að hafa mig fram úr rúminu og hef ekki lagst í dagdrykkju, of svartar pælingar eða neitt slíkt. En samt… ekki búið að vera auðvelt. Fleira hefur spilað inn í en námsþreytan, veikindi og ýmsir erfiðleikar hjá fólkinu í kringum mig tekur líka sinn toll.

Áramótaheitið var því að passa betur upp á að lifa gleðistundir, fara meira út af heimilinu, hitta vinina oftar og svo framvegis. Nú er bara að standa við það, en það er jú oft það erfiðasta við þau og ástæðan fyrir því að ég hef ekki mikið verið að standa í slíkum strengingum. Ég fæ alla vega stuðning, það er verið að óska mér gleðilegs árs hægri vinstri! Segjum bara að það muni rætast, ég mun alla vega reyna.

jólaljós við Champs Eylysées

Ljós og jólabörn við Champs Elysées

Lifið í friði.

Gleðilega hátíð!

Ég er dálítið sein með jólakveðjuna í ár, en það er lýsandi fyrir andlegt ástand mitt, ég hef bara ekki náð upp snefil af hressandi jólastressi.

Aðfangadagskvöld kom án þess að ég yrði nokkurn tímann hryssingsleg við mann og börn. Við lögðum á borð þremur korterum fyrir áætlaðan komutíma fyrsta gestsins, sú íslenska kom vitanlega fyrir sjö, til að ná jólaklukknahljóminum á RÚV. Þeir frönsku áttu svo að koma hálftíma síðar, en mágur minn mætti um þremur korterum of seint, og ruglaði dálítið allri tímasetningu á matarframburði. Lærið var því orðið volgt þegar við settumst að borðum. Kjötið var samt svo meyrt og ljúffengt, og sósan heit og fín, sem og allt meðlætið, að það kom ekki að sök. Verra var að Kári hafði dottið út meðan forrétturinn var snæddur og reyndist vonlaust að vekja hann aftur. Ég náði m.a.s. í hann og setti hann í sófann þegar við byrjuðum pakkaopnun, en hann breiddi teppi yfir höfuð sér og neitaði alfarið að gefa sig. Hann opnaði því pakkana á jóladagsmorgun eins og mörg frönsk börn gera reyndar.

í gær, jóladag, fórum við svo í matarboð til tengdamömmu og kærustunnar. Fengum bestu gæs með bestu fyllingu sem ég hef á ævinni smakkað. Verst að á undan var íslenskur lax og heimalöguð foie gras. Ég held ég hafi aldrei orðið jafnsödd á ævinni, en kannski er það bara þannig að ég þoli ekki lengur að verða svona pakksödd, hvað þá dag eftir dag. Ég gat ekki einu sinni klárað af disknum mínum, þó bragðið væri þannig að mig langaði ekkert frekar. Nú líður mér þannig að ég muni aldrei aftur geta borðað, en ég treysti því að það brái af mér eftir að kaffið sjatnar í maganum.
Ég ætla þó að skoða hvort ekki sé hægt að hafa hrátt grænmeti á borðum í hádeginu, ég meika ekki upphitaðan jólamat fyrr en í fyrsta lagi í kvöld.

Ég fékk allt of margar og fínar gjafir. Mamma prjónaði lopapeysu á mig, tengdamamma gaf mér undursamlega silki-kasmírpeysu og svo fékk ég hitt og þetta missmálegt en allt einhvern veginn svo fallegt og gott. Maðurinn minn tók áhættu og keypti varalit og hann er akkúrat eins og ég hef verið að leita að lengi árangurslaust. Mátulega rauðbleikur hversdagslitur.
Ég fékk nokkrar bækur, en þar sem ég er í svo annarlegu ástandi eftir tveggja daga ofát, nenni ég ekki að standa upp til að gá og ég get svo svarið það að ég man ekki hvaða bækur það voru. Nema jú, ég fékk Gjá eftir Hauk Má Helgason, sem ég hlakka mikið til að lesa, en verður samt ekki svona jólakósílesturinn.

Sem er að fara að hefjast núna bráðum.

Þegar kaffið hefur náð að virka á mig.

Já, klukkan er ellefu, ég svaf heldur betur út, ég er að segja ykkur það, engar ýkjur, ég er í mjög annarlegu ofáts-ástandi. Í dag er planið einfalt: Náttföt, bækur, DVD, spil og hangs. Ef við krakkarnir nennum, förum við í smá gönguferð í frostinu. Maðurinn er farinn að vinna, búinn að opna bóksöluna sína við Signu. Hann gat ekki unnið á Þorláksmessu og aðfangadag út af snjókomunni svo það er um að gera að reyna að næla í hugrakka vafrara borgarinnar í sólinni í dag.

Ég vona að jólin ykkar hafi verið jafn ljúf og náðug og mín. Megi restin vera tóm gleði og gaman.

Lifið í friði.

Það gamla og góða

Ég held að mig hafi aldrei langað í jafnmargar nýútkomar bækur og nú. Ég efast um að ég fái nokkra, en í afmælisgjöf fékk ég Þegar kóngur kom eftir Helga Ingólfsson (ég held að hún hafi komið út á árinu) og svo keypti ég mér hina yndislegu og hræódýru Leyndarmál annarra eftir Þórdísi Gísladóttur. Ég hef ekki enn snert á þeirri fyrrnefndu, og Leyndarmálin ætlaði ég að geyma til jóla en það fór fyrir þeim eins og konfektkassa, eitt í einu og allt í einu var ég búin. Tvisvar. Ég ætla samt að glugga í hana aftur yfir konfekti og piparkökum um jólin.
Þórdís er ein af uppáhalds bloggurunum mínum. Hún er hætt að blogga um fólk en bloggar nú um fallega hluti í staðinn. Að blogga um gamalt dót virðist reyndar orðið að trendi, því hér er eitt slíkt skemmtilegt frá gömlum bloggvini og hér annað frá bloggvinkonu.

En já, ég held sem sagt að mig hafi aldrei virkilega langað mikið í jafnmikið af bókum og nú. Ég held að það komi að hluta til vegna þess að ég fylgist betur með bókaútgáfunni í gegnum feisbúkk. Feisbúkk er mun skilvirkari áróðursmaskína en Bókatíðindin, sem mér skilst að séu nú ekki nema skugginn af sjálfum sér.
Og auðvitað langar mig líka í fullt af bókum frá því í fyrra og hittifyrra. Sem er líklegra að ég fái í jólapökkunum, bæði vegna þess að þeir voru sendir um miðjan október, áður en margar bókanna komu úr prentun og líka vegna þess að það hefur aldrei þótt hallærislegt í minni fjölskyldu að kaupa gamalt sem kostar minna.

Mér finnst ótrúlega gaman að gefa fólki hluti sem ég hef fundið á flóamörkuðum og þætti alls ekki slæm hugmynd að fara og versla jólagjafirnar í hinum stórskemmtilega Góða hirði. Það er gott að stuðla að endurnýtingu hlutanna um leið og peningurinn fer í góðgerðarmál. Tvö gott, fyrir Góða hirðinn.

Lifið í friði.

bissness

Þetta er „bara bissness“ og þess vegna er þetta bara allt í stakasta lagi. Eða hvað?

Svo vil ég þakka fyrir viðbrögðin við síðustu færslu, þau komu mér mjög á óvart, en sýna líka að við erum ansi mörg að hugsa á svipuðum línum og að baráttan er í fullum gangi. Ég mun vitanlega aldrei hætta alveg að nota orðið femínisti, það er einfaldlega of djúpt gróið inn í sjálfsvitund mína. Þessi dramatík var í raun áhersluauki, eins og ég held að flestir hafi skilið.

En ég verð þó stoltari og ánægðari ef einhver mun kalla mig dólgafemínista, eins og Erla Hlynsdóttir, blaðakona með meiru, er kölluð á feisbúkk í dag.
Dólgafemínisti og rauðsokka. Það er ég!

Lifið í friði.

femínisti deyr

Vegna þess hvað orðið femínisti er orðið útþvælt og gengisfellt hef ég ákveðið að hætta að kalla mig það og snúa aftur í að vera einfaldlega bara rauðsokka.
Einhvern veginn ímynda ég mér að konur sem skrifa um karlmenn eins og þeir séu skítaplebbar sem geti ekki átt vinkonur, bara hjásvæfur, og virðast í alvöru trúa því að allar alvöru konur séu svo uppteknar af útlitinu að þær séu til í að spandera tugum þúsunda króna á ári í snyrtivörur, spa og líkamsrækt, fari seint að kalla sig rauðsokkur. Því rauðsokkurnar voru náttúrulega ekki búnar að átta sig á því að biðja skuli til Dior og Guerlain, heldur voguðu sér að ganga um í mussum og slitnum fótlaga skóm, ómálaðar og jafnvel barasta feitar. Oj!

Þessar konur sem keppast nú við að halda því fram í ritdeilum á netinu að þær séu femínistar, trúa því að það sé smart og skemmtilegt að lepja upp nákvæmlega sömu velluna og hefur endalaust verið troðið upp á konur í sérstökum tímaritum ætluðum okkur. Þær velta sér upp úr frábærum kremum og meiriháttar augnskuggum og eru ógeðslega duglegar í ræktinni. Stundum sýna þær myndir úr einhverjum glanstímaritanna og þær hafa líka svipuð markmið í huga, þ.e. þær selja vöruna sem fjallað er um, bæði með auglýsingum á síðunum og stundum hnöppum inni í færslunum. Þær eru bara partur af iðnaðinum, en einhvern veginn geta þær samt ekki viðurkennt það, heldur nota óspart orðið blogg um þessar sölusíður sínar.
Þær svara allri gagnrýni á svo ruddalegum nótum að ég hef aldrei nennt að leggja orð í belg. Þetta er það eina sem ég mun skrifa um þetta „mál“ sem hefur m.a.s. náð í fjölmiðla undanfarna daga, eftir að ákveðin kona skrifaði frekar andstyggilega bloggfærslu um sinn harðasta gagnrýnanda, eftir að hún kom fram í viðtali í blaði og skaut niður þessi lífsstíls- og tísku“blogg“.
Að vísu var hin ákveðna kona fljót að taka út viðbjóðslegustu setninguna, en sú setning (sem fjallaði um að hin vonda konan væri illa riðin, svo ekki sé minnst á kynþáttafordómana sem skína þar í gegn) dugði mér þó til að sannfærast um að femínistastimpillinn sem ritarinn skreytir sig með, er feik. Og ég nenni ekki að láta rugla mér saman við svona konur.

Héðan í frá er ég sumsé rauðsokka og stolt af því.

Ég áskil mér þó þann rétt að fá að ganga áfram í mínum flegnu bolum og fallegu kjólum og jafnvel staulast um á hælum stundum, máluð og allt. Munurinn á mér og glanstímaritatýpunni er sá að mér dettur ekki í hug í sekúndubrot að reyna að upphefja mig fyrir að vera kvenleg. Ég er hins vegar ógeðslega montin af því hvað ég get verið góð, skemmtileg og klár!

Lifið í friði.

snjór og kuldi – tepoki

Hér í Copavogure helst snjórinn vel á grænu svæðunum þó að göturnar verði strax auðar. Við Íslendingarnir erum alsæl með veðrið og hlæjum ofan í góðu ullartreflana að skjálfandi illa klæddum útlendingunum. Stundum er næstum gert grín að okkur fyrir að eiga svona svakalega góð vetrarföt, en á dögum eins og í gær og í dag erum við dauðöfunduð. Nú er fólk hætt að spyrja okkur í hæðnistóni hvort við séum á leið á skíði.
Ég hef aldrei skilið almennilega hvernig fólk getur ímyndað sér að það að klæða sig of vel geti gert mann veikan. Vinafólk mitt heldur þessu stöðugt fram og láta börnin vera húfulaus og með einhverjar plattrefladruslur um hálsinn, örmjóa sem hleypa kuldanum auðveldlega ofan í hálsmálið. Krakkarnir eru með lekandi hor og hóstandi allan veturinn en mömmurnar standa fast á því að þetta sé hollara heldur en „öfgarnar“ í mér, með alls konar kraga og lúffur og húfur bundnar undir hökuna svo eyrun séu í góðu skjóli.
Ég er kannski komin með mynd í jólakortin, en þar sem ég þarf að skrifa næstum heila ritgerð fyrir annað kvöld ásamt því að lagfæra þýðingu sem ég fékk til baka frá ritstýru fulla af alls konar góðum athugasemdum, veit ég að það skiptir engu máli fyrr en í fyrsta lagi á laugardagsmorgun. Helgin er ansi þéttskipuð, málverkasýning uppi í sveit á laugardag og jólaball á sunnudag. Kannski eitthvað fikt eða a.m.k. lestur um Trados (sem er farið að heita helvítistrados) og helst þyrfti ég að skjótast upp í Ikea eftir piparkökum. Hverslags bjánagangur var það í mér að kaupa ekki piparkökur þegar ég fór um daginn? Æ, já, ég man. Það voru þrjátíu manns í biðröð á eina kassanum í matvörubúðinni. Kannsi ég prenti út eitthvað að lesa um trados og skelli mér í biðröðina?

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha