Archive for the 'skólinn' Category

einkunnin er komin

Ég náði. Fékk 7. Er sæl með það, mjög sæl, en mig svimar ég var svo hrædd að kíkja.

Lifið í friði.

gleði

Ég var að fá einkunn fyrir Þýðingasögu. Níu. En það gerir mig ekki minna hrædda við Málbreytingar, verð alls ekki há þar, vona bara að ég skríði þó yfir fimmuna (og já, ég geri mér fulla grein fyrir því að ég neyðist til að gefa þá einkunn upp, hver sem hún verður, þýðir ekki að monta sig endalaust en þegja yfir því sem ekki er jafngott).

Lifið í friði.

Greynarmunur Derrida

Ég er að rembast við að skrifa málfræðiritgerð. Þurra og leiðinlega, því þannig er ég bara. En þar sem ég vildi krydda aðeins þurran og leiðinlegan stíl minn þurfti ég að leita að líkingu frá Jaques Derrida á netinu og rakst á skemmtilega grein um La différance. Það var þýtt sem skilafrestur á íslensku, en allt í einu birtist mér hin rétta íslenska þýðing: greynarmunur. Málið með franska orðið er að allt sem orðið þýðir, felst í a-inu. Sem breytir orðinu différence (sem þýðir til dæmis greinarmunur) í rituðu máli en það heyrist ekki í framburði. Auðvitað átti að leita að sambærilegum áhrifum í íslensku. Þetta er eitthvað svo augljóst að mér finnst næstum eins og það hljóti að koma annars staðar frá.

Lifið í friði

útlendingurinn

Það var að koma út yfirfarin þýðing á þessari bráðgóðu bók eftir Albert Camus. Ásdís R. Magnúsdóttir hressti gömlu þýðinguna við, færði hana nær ungu fólki í dag. Þessi saga er fullkomin fyrir menntaskólakrakka og uppúr og þar sem þetta er tvímála útgáfa er hún vitanlega fullkomin til að hressa við frönskukunnáttuna. Mér finnst bókin alltaf jafngóð, les hana nokkuð reglulega (eða gerði áður en ég var þrúgaður námsmaður (mér finnst ég hafa verið það í þúsund ár núna)).

Svo minni ég á útlending sem er í hungurverkfalli á gistiheimilinu Fit í Njarðvík. Það er hægt að fara og heimsækja flóttamennina sem eru geymdir þar meðan þeir bíða afgreiðslu mála sinna, sem langlanglangoftast enda með því að þeir eru sendir úr landi. Þannig er hægt að sýna Mansri samstöðu.

Annars er ég bara ömurlega leiðinleg og nenni varla að opna munninn. En það verður ahbú 15. maí. Hvernig sem það fer svo.

Lifið í friði.

orðtakaleit

Eruð þið með eitthvað gott myndrænt orðtak, myndlíkingu, sem segir „að lifa á næstum engu“, „að lifa sparlega“?
Balzac segir lifði á „hnetum og brauði“ og er þetta hans eigin uppfinning, finnst a.m.k. ekki í orðabókum eða á netinu.

Lifið í friði.

sveit(t)

Ég er sveitt, það er heitt.

Ég ætla upp í sveit á morgun. Spáin er ömurleg, en ég hef sömu veðurgæfu og móðir mín, yfirleitt rætast slæmar spár ekki í mínum fríum.
Reyndar er ég ekki að fara í frí, ég ætla bara að gera börnum mínum þann greiða að fara aðeins með þau út úr bænum í sínu tveggja vikna skólafríi. Sjálf verð ég að læra mikið og helst aðeins meira. Smá klúður síðustu daga með það og mér líður dálítið eins og ég sé komin með allt niður um mig aftur eftir góða törn á Íslandi. Samviskubitið nagar ekki aðeins móðurina og eiginkonuna, líka námsmanninn. Þreföld hamingja. Næstu viku verða börnin svo í leikjanámskeiði og þá verður vinnutörnin færð niður á stóra bókasafn, engin miskunn, ekkert sveitaljúfuhangs.

Ég ætla samt að tækla þessa kúrsa. Þungir, en báðir skemmtilegir. Ég skal ná að skila öllu á réttum tíma. Það er skýrt hjá báðum kennurum að ekki er möguleiki á að ræða frest.
Enda vil ég ekki frest, ég sé 16. maí í hillingum og ætla að vera búin að öllu þá.

Verst er að í sveitinni er ekkert netsamband. Það flækir töluvert þýðingavinnuna. Djöfull er hann Balzac snúinn. Ég held ég hafi aftur valið mér aðeins hærri garð en ég hefði þurft.

Lifið í friði.

mikið

Það er svo mikið um að vera. Það væri allt í lagi, ef það skaraðist ekki á við hvað það er mikið um að vera á öðrum vígstöðvum líka. Sem væri allt í lagi ef ég væri ekki komin með þá tilfinningu að meðan ég er hérna nokkuð kát og hraust (burtséð frá undarlegri gerjun í kolli mínum) sé allt á leið norður og niður í kringum okkur. Eilífar neikvæðar fréttir. Það er svo komið að ég nenni varla að hafa samband við fólk, ég nenni ekki meiri neikvæðni. Get ekki höndlað frekari frásagnir af veikindum, skilnuðum, riftum samningum, vonlausri atvinnuleit og almennu þunglyndisvaldandi veseni. Pass.

Balzac er hress. Ég ætla að þýða 3.000 orð eftir hann. Það eru sko dýr orð, full merkingar og vandmeðfarin. Hvernig skyldi standa á því að enginn hefur drifið í að þýða Balzac á íslensku? Það skyldi þó aldrei eiga fyrir mér að liggja að vera sú sem hefur það stórvirki? Ef ég fæ tíu fyrir verkefnið, skal ég prófa.

Lifið í friði.

sól og ylur

Það eru margir ókostir við að yfirgefa Ísland, ég hefði alveg viljað mæta í fleiri tíma og hitta fleira fólk og borða kókosbollu edrú.
En hér skín sólin og tvö börn hanga utan á mér og þekja mig kossum. Það er á við bestu gleðipillur, býst ég við.

Ég kann vel að meta kurteisi landsins, sem kveður mig svo til alltaf með grenjandi rigningu. Það hjálpar.

Lauk við Vonarstræti í flugvélinni, mæli eindregið með henni. Vona að ég nái að hlusta á útvarpsþátt Þórdísar og Þorgerðar áður en honum verður eytt úr svæði sínu á ALnetinu.

Lifið í friði.

málbreytingar

Ég hlýt að mega setja íslenskuverkefnið á netið. Ef annað kemur í ljós, tek ég það út. Mig langar bara að sýna ykkur hvað það er gaman hjá mér í skólanum.
Hér kemur það:

1. Sögnin troða

Sögnin troða hefur óvenjulega beygingu í íslensku máli að fornu og reyndar á öllum
tímum íslenskrar málsögu. Í íslensku máli að fornu (13. öld) var mynstrið á þessa leið:

troða – 3.p.et.nt. treðr – 3.p.et.þt. trað – 3.p.ft.þt. tráðu – lh.þt. troðinn

Síðar spruttu fram ýmsar aðrar beygingarmyndir sem sýndar eru hér að neðan. Nú er
verkefni ykkar að útskýra hvernig þær hafa orðið til. Lýsið breytingum með hlutfalls-
jöfnum þar sem það á við.

a) 3.p.et.þt. tróð, 3.p.ft.þt. tróðu.
b) 3.p.et.þt. traddi, lh.þt. traddr.
c) 3.p.et.þt. trauð, 3.p.ft.þt. truðu.
d) 3.p.et.þt. troddi.

2.
a) Í enskunni í Suðurríkjum Bandaríkjanna varð til mállýskufyrirbæri á 19. öld. Fram
komu nýjar myndir nokkurra eignarfornafna og enduðu þær á -n.

his : hisn
her : hern
your : yourn
their : theirn

Gömlu n-lausu myndirnar voru áfram notaðar hliðstætt, en þær nýju notaðar sérstætt,
eins og eftirfarandi setningar sýna:

Whatever you get, if it’s yourn be satisfied.
And don’t spend your money till you get it.

Notið þekkingu ykkar á eignarfornöfnum í ensku til að finna skýringu á því hvaðan n-
viðbótin geti verið komin og lýsið breytingunni sem orðið hefur í þessari mállýsku.
b) Á síðustu árum hafa íslensk leikskólabörn tekið upp á því að búa til orðmyndirnar
minns og þinns til að nota í dúkkuleikjum. Orðmyndin minns þýðir ‘dúkkan sem ég
stýri, persónan sem ég leik’, þinns er ‘dúkkan sem þú stýrir, persónan sem þú leikur’.

Reynið að giska á hvernig þessar orðmyndir hafa orðið til, þ.e. hvaðan þetta -s getur
verið komið. Hvers konar breyting hefur orðið þarna?

3. Ýmsar málbreytingar

Hér fer á eftir listi af setningum og þar eru sumar orðmyndirnar skáletraðar. Sum
dæmin eru fengin úr máli barna (einhver má kannski kalla barnamálsvillur), önnur eru
dæmi um nýleg orð og orðmyndir þótt þau séu ekki endilega barnamálsfyrirbæri. Öll
dæmin má túlka þannig að málbreyting(ar) hafi orðið.

Gerið stuttlega grein fyrir þeim breytingum sem hafa komið við sögu þegar skáletruðu
orðmyndirnar urðu til. Lýsið breytingunum á formlegan hátt (með hlutfallsjöfnum) þar
sem það á við.

a) Vegna lagningu nýs slitlags er vegurinn lokaður í dag.
b) Við verðum í bandi!
c) Mamma, hvaða skalli er það sem ég er með? (Tannlæknir hafði fundið
glerungsgalla.)
d) Allir hinir syngdu lagið en ég vill aldrei syngja með.
e) Ég er búinn að ydda blýantinn og setja yddið í ruslið.

Lifið í friði.

plön

Ég er að koma til Íslands í lok mars, út af blessuðum skólanum.
Ég er vitanlega byrjuð að plana ýmislegt, en tíminn verður naumur, út af blessuðum skólanum.

Mig langar að fara í sjóbað, það er öruggt og helst alla dagana sem opið er. Mér sýnist á óljósum upplýsingum í gegnum gúgglið að það sé nú opið á föstudögum líka í Nauthólsvík. Getur einhver staðfest það?
Annars er opið á mánudögum og miðvikudögum. Ég fer pottþétt á miðvikudeginum 25. mars, veit ekki enn hvort það yrði í hádeginu eða um kvöldið.

Svo langar mig að láta gamlan draum um að fara í afrótíma hjá Sigrúnu Grendal rætast. Ég kynntist Sigrúnu í gegnum vinnu mína hér í París. Þá var ég slösuð á hné og ekki að ræða það að prófa að dilla mér með henni. Nú er ég gróin og fín og svei mér ef hún birtist mér ekki í draumi um daginn og sagði mér að drífa mig. Ég vil smala einhverjum hóp í tíma hjá henni, eru einhverjir lesendur með? Ég var að spá í lok eftirmiðdags, byrjun kvölds, annað hvort fimmtudaginn 2. apríl eða föstudaginn 3. apríl. Hún er með trommuleikara með sér og þetta er svaka stuð.
Skráning í athugasemdum eða í t-pósti.

Svo er það bara spurningin stóra: Á ég að koma með franska byltingaráhaldið í þetta skiptið? Eru íslensk yfirvöld ófær um að sinna því að réttvísin nái fram að ganga?

Lifið í friði.