Archive for the 'spring' Category

Fyrstu brauðin mín

eru sérlega falleg að mínu mati. Ég notaði sérstakt brauðhveiti sem er einhver blanda af mjöltegundum sem ég man ekki núna hverjar voru (henti pokanum fyrir þó nokkru síðan). Það gerir þennan fallega lit.
Mér finnst formið líka nokkuð gott, mér gekk alls ekki vel að móta deigið sem er mjög blautt, og bjóst við undarlegri útkomu.

fyrstu brauðin mín

Ég var að sjálfsögðu loksins að láta verða af því að prófa þessa uppskrift frá Nönnu. Ég endaði með því að láta deigið hefast í skálinni í næstum 5 klukkustundir. Smá rugl í skipulagningu minni. Það var komið upp úr skálinni og út á borð, en virðist ekki hafa sakað. Nú er fullt af deigi í skál inni í ísskáp og verður bakað á næstu dögum ef þessi valda lukku með ljúffengum ostum í kvöld.

Lifið í friði.

einkunnin er komin

Ég náði. Fékk 7. Er sæl með það, mjög sæl, en mig svimar ég var svo hrædd að kíkja.

Lifið í friði.

gleði

Ég var að fá einkunn fyrir Þýðingasögu. Níu. En það gerir mig ekki minna hrædda við Málbreytingar, verð alls ekki há þar, vona bara að ég skríði þó yfir fimmuna (og já, ég geri mér fulla grein fyrir því að ég neyðist til að gefa þá einkunn upp, hver sem hún verður, þýðir ekki að monta sig endalaust en þegja yfir því sem ekki er jafngott).

Lifið í friði.

Brjóstsviði

Ég var að reyna að útskýra fyrir franskri blaðakonu hvers vegna þjóðin rauk ekki út á götu að fagna á laugardagsnóttina. Ég veit ekki með ykkur hin, en ég er frosin.
Mér líður eins og við eigum að gleðjast, það er a.m.k. ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki völdin lengur. En hvaða fólk hefur völdin? Hverjum er hægt að treysta? Ég man ekki hvar ég las það í gær, en mér líður nákvæmlega þannig. Ég er eins og brennd eftir erfið sambandsslit. Mig langar ekki í nýja ríkisstjórn. Finnst ég ekki þurfa á slíku að halda. Mig langar bara að fá að vera í friði.
Ég slengdi því m.a.s. fram í bréfinu til blaðakonunnar að líklega væri stór hluti íslensku þjóðarinnar orðinn hálfanarkískur djúpt í iðrum sér. Að líklega væri hægt að vinna eitthvað upp úr því einmitt núna, vekja anarkistahugsjónina sem ég trúi að blundi reyndar djúpt í öllum sálum, sé hluti af uppruna okkar, enda valdakerfið tilbúningur sem við kunnum alveg að lifa án „í gamla daga“. Eldgamla daga.
En ég skrifaði líka að þetta myndi að öllum líkindum dofna og jafnvel fjara út. Við myndum jafna okkur og samþykkja að halda áfram að lifa við þetta kerfi, enda allt of erfitt að hugsa út fyrir kassann, að trúa því að anarkí geti verið lausnin. Við erum allt of sannfærð um að eðli mannsins geri samvinnu og gagnkvæma virðingu óhugsandi. Sorglegt? Samt svo satt.
Þetta sökkar. Sökkar feitt. Allt saman. Og það eina sem stendur eftir sem óhagganleg staðreynd er að við erum föst í gini ljónsins, úlfsins. Á kafi í skítnum. Steytt á skeri. Sökkvandi skip. Drukknandi þjóð. HFF!

Ég kaus VG. Ég hikaði milli S, V og O. Ég valdi að leggja mína mestu áherslu á grænt og frið. Ég veit ekki hvað mér finnst um Evrópu, enda fjallar sá málaflokkur bara um peninga og ég hef svo lítinn áhuga á fjármálum. Það er samt varla hægt að segja þetta sem Íslendingur í dag. Fjármálin eru okkur svo hrottalega viðkomandi öllum, að það er fáránlegt að reyna að segja að maður hafi ekki áhuga. En. Samt. Í hjarta mínu er stærra hólf fyrir grænt og frið. Minna hólf fyrir efnahagslega afkomu þjóðarinnar. Skjótið mig ef þið viljið.
Ég kaus VG. Ég er sátt við þá ákvörðun mína upp að vissu marki. Ég er ósátt við kerfið. Ég þrái hrun valdakerfisins, en ég hafði ekki hugrekki til að éta atkvæði mitt eins og einhverjir gerðu. Mér fannst ég verða að taka þátt, láta atkvæðið mitt lenda einhvers staðar. En, eins og einhver annar sagði, mér fannst kosningadagurinn ekki vera hátíðisdagur. Mér fannst ekkert lýðræðislegt við þessar kosningar. Ég get ekki útskýrt það nánar, en ég er með brjóstsviða.

Viðbót: Hér las ég líkingu um sambandsslit.
Lifið í friði.

sól og ylur

Það eru margir ókostir við að yfirgefa Ísland, ég hefði alveg viljað mæta í fleiri tíma og hitta fleira fólk og borða kókosbollu edrú.
En hér skín sólin og tvö börn hanga utan á mér og þekja mig kossum. Það er á við bestu gleðipillur, býst ég við.

Ég kann vel að meta kurteisi landsins, sem kveður mig svo til alltaf með grenjandi rigningu. Það hjálpar.

Lauk við Vonarstræti í flugvélinni, mæli eindregið með henni. Vona að ég nái að hlusta á útvarpsþátt Þórdísar og Þorgerðar áður en honum verður eytt úr svæði sínu á ALnetinu.

Lifið í friði.

kaffisamsæti

Þar sem ég er orðin leið á að nota orðið hittingur, sem mér hefur alltaf þótt hálfundarlegt orð, vil ég boða til kaffisamsætis í næstu viku. Það verður að vera að kvöldlagi svo sem flestir geti mætt. Ég sting hér með upp á miðvikudagskvöldinu klukkan tja, 8. Eftir mat. Sátt við það? Er Hljómalind opin á kvöldin? Ef svo er finnst mér það fínn staður að hittast á. Ef ekki er ég alveg týnd í kaffihúsamenningu Reykjavíkurborgar. Komið með hugmyndir og biðjið um hliðranir ef miðvikudagur hentar ekki. Ég er sveigjanleg þó ég sé þrjósk. Og upptekin.

Allir velkomnir!

Lifið í friði.

laugardagur í París

Íslenski skólinn í París er skemmtilegur, bæði fyrir börnin og íslensku mömmurnar (og stöku pabba) sem sitja á kaffistofunni og blaðra meðan börnin læra að leika sér á íslensku með ungum og hressum valkyrjum í útrás (djók).
Síðastliðin ár hefur aðallega verið rætt um góða veitingastaði, fallega söngvara, brjóstahaldara með eða án spanga og aðra mikilvæga „little things“ hluti. Þennan veturinn hefur hins vegar stundum verið kvartað yfir okkur því þegar byrjað er að ræða efnahagsmál hækkar raddstyrkur fólks og meira er gripið frammí. Einhvern tímann var stungið upp á því að banna þetta umræðuefni, en það hefur ekki gengið vel.
Umræður um efnahagsmál geta tekið óvænta stefnu, til dæmis hafa kynlífsvenjur nokkurra gullkálfanna verið ræddar af alúð og ótrúlegt hvað sumar konur kunna margar kjaftasögur (vitanlega allar dagsannar, frá fyrstu hendi fyrstu handar fyrstu handarinnar).

Ég vaknaði klukkan 7:20 á laugardagsmorgni. Nú, 40 mínútum og tveimur kaffiföntum síðar, er ég tilbúin í slaginn. Hafragrautur, ferskur lime-safi með engiferdropa, taka til hádegisverð í pikknikktöskuna, koma sér í sturtu og þægileg föt með mörgum lögum til að geta farið í og úr, sama fyrir börnin. Eftir skóla á nefnilega að gerast hugrakkur og borða hádegismat úti í garði. Helvítis myndavélin er enn biluð og ekkert verið gert í að koma henni í viðgerð. Ferlegt alveg hreint, því Monceau garðurinn er sérlega fallegur og vorið hefur stímt inn síðustu daga, litadýrðin er slík að kona kemst reglulega við.

Lifið í friði.

fullt af blómum

Það er komið fullt af blómum á kirsuberjatré götunnar okkar. Þau eru bleik, lítil og þar sem mörg eiga eftir að springa út, er tréð ekki enn orðið eins og bleikt ský. Hins vegar sá ég hvítt ský á trjástofni á leið úr almenningsgarðinum á sunnudaginn var.

Lifið í friði.

ellefu mínútur

Í ellefu mínútur hef ég velt því fyrir mér hvort ég eigi að hlusta á Víðsjá strax eða klára skólaverkefnið fyrst. Og ekki gert neitt á meðan.
Ég veit hvað er gáfulegra, en ég lifi ekkert endilega eftir því prinsippi að gera hlutina í rökréttri röð. Mér finnst gott að lifa í ákveðinni óreiðu, láta hluti eftir mér sem kannski gætu hneykslað aðra, hneyksla kannski jafnvel sjálfa mig að einhverju leyti, annars væri ekkert gaman.
Stundum tek ég svo líf mitt „föstum tökum“ eins og lífsþjálfararnir orða það, geng frá hrúgu sem hefur farið í taugarnar á mér vikum saman, sortera pappíra, set í margar þvottavélar og les skólabækur meðan ég hræri í pottinum. Maðurinn minn kemur heim til annarrar konu það kvöldið. Ég gæti aldrei verið svona alla daga. Ég er í raun örmagna eftir þessa fullkomnunardaga. Ég skil ekki fullkomna fólkið í kringum mig en hef reyndar oftar en ekki komist að því að það eru djúpar sprungur í þeirri fullkomnun.
Ég held samt að ég ljúki við verkefnið áður en ég hlusta á Víðsjá frá í gær. Þetta er fjári skemmtilegt verkefni. Kannski ég sýni ykkur það eftir að ég er búin að skila.
Ef lífið væri fullkomið, væri þátturinn kominn á hlaðvarpið og ég gæti farið út og lyktað af vorinu meðan ég hlustaði. Garðyrkjumaðurinn okkar sýndi mér tvær fjólur sem skutu upp kollinum í nótt. Hann veit að þær voru ekki þarna í gær, því hann byrjaði að leita þeirra á mánudag. Vorið er alveg að koma. Vorið er alveg að koma. Vorið er alveg að koma.

Lifið í friði.

frönsk menning

Þetta finnst börnunum mínum óborganlega fyndið:

Og mér finnst gaman að horfa á þau horfa á þetta. Um mig hríslast líka góð minning um tvo litla stráka dansa við þetta lag í stofunni hjá mér. Þeir eru nú orðnir stórir strákar, annar þeirra m.a.s. kominn með kærustu. Kannski báðir. Ég er í tíminn-líður-kasti akkúrat núna.

Lifið í friði.