Archive for the 'stundum' Category

gerið og dagsetningar á matvöru

Ég gleymdi að taka það fram í gær að gerið sem ég notaði var útrunnið. Reyndar bara síðan um miðjan maí. Enn og aftur sanna ég það fyrir sjálfri mér og heimilisfólki mínu að lítið er að marka dagsetningar á vörum. Ég er fullkomlega sannfærð um að þær eru falsaðar. Að alltaf má bæta við, ég miða við ca mánuð á því sem er „lifandi“, ekki meir. Ég hef lent í að baka úr dauðu geri og það virkar vitanlega ekki. Ég borða jógúrt þremur til fjórum vikum eftir dagsetningu síðasta neysludags. Enda stendur á frönskum pakkningum „consommer de préférence avant le“, og á íslensku er það „best fyrir“, best, já, en allt í lagi hversu lengi á eftir?
Fersk mjólk eyðileggst þó fljótt og ég vara mig á ýmsu sem getur byrjað að gerjast, s.s. spagettísósum og öðru slíku. Geymi það þó alveg viku en ekki bara þessa þrjá daga sem mælt er með utan á krukkunum.

Óþarfi að taka það fram að við erum oftast við hestaheilsu á þessum bæ.

Lifið í friði.

stífni og slow food

Ég er orðin svo stíf í líkamanum að ég meiddi mig í kjálkanum þegar ég geispaði stórum í gærkvöldi. Í morgun fann ég hvernig ég gat látið axlirnar síga um það sem manni finnst vera 10 cm, áður en ég var alveg vöknuð. Ferðastreita ofan á fyrirlestrarógn. Ekki góð blanda.

Dagurinn í gær var samt yndislegur. Ég dröslaðist með úlpur, flíspeysur, húfur og trefla. Börnin voru í sokkabuxum og ég í ullarkjólnum. Við vorum að kafna. Ég náði að taka lit í framan svei mér þá.

Ég var að horfa á myndband hjá Önnu. Ég er miður mín, mig langar svo að smakka lifrina hans Eduardo. Ég fann hana á netinu. Verðið er 506 evrur kílóið og vitanlega allt uppselt, en hægt að fara á biðlista fyrir haustið. Það er víst hægt að fá þetta í Harrods á haustin.
Síðasta sumar þegar ég sat í þægilegum sólstól og horfði yfir Risle-dalinn í kvöldsólinni kom yfir mig einhver yfirþyrmandi tilfinning sem líklega mætti kalla frelsun eða vitrun. Ég fann einhvern veginn fyrir móður náttúru og brjálæðislegri löngun til að verða slow food, slow life, slow allt „hippi“ (mér dettur ekkert betra í hug, allar ábendingar vel þegnar). Ég var líklega nýbúin að heimsækja lífvæna bóndabæinn og fræðast þar um lífvæna ræktun og fá fyrirlestur um að risaframleiðendur væru allt að drepa í heiminum. Ég var örugglega með pastís í glasi.
Ég hef hugsað töluvert um þetta síðan og er orðin næmari fyrir sögum af fólki sem leyfir sér að lifa á skjön við okkur hin. Á dögunum heyrði ég um hljómsveit sem ferðast þvert yfir Bandaríkin með allt sitt hafurtask á vögnum dregnum af hjólum. Mér finnst heillandi að fólk sé virkilega að hafa fyrir því að gera tilraunir með það að draga úr mengun, ofneyslu og sóun. Við erum alvarlega sköðuð, ég líka nota bene.
Það er ekki eðlilegt hvað okkur finnst allt þurfa að gerast hratt og það er alls ekki eðlilegt að finnast við þurfa að geta fengið allt sem við viljum á hvaða tíma ársins sem er. Það er ekkert lífsspursmál að geta borðað fersk jarðarber í desember í Norður-Frakklandi. Sérstaklega ekki ef þau eru framleidd með genabreytingum og sprautuð upp af einhverjum ókennilegum efnum til að hægt sé að flytja þau milli heimsálfa án þess að þau falli saman (og gráti?).
Æ, en svo nenni ég varla að gala um þetta, mér finnst svo erfitt að gera það án þess að hljóma klisjukennd, hræsnari, væminn vinstri grænn afturhaldskommatittur svo ég noti nú öll skammaryrðin í bókinni. Ég nenni bara að hugsa um mig og mína nánustu, ég þarf ekki að taka vottinn jehóvann á betri lífsstíl. Er það nokkuð?
En ég ætla samt að benda ykkur á að það er til slow food hreyfing á Íslandi. Hún ætlar nú að fara að sækja í sig veðrið og ef þið viljið komast á póstlista hjá þeim, er nóg að hafa samband við Dominique hja vinskolinn.is

Ég verð örugglega í sjóbaði á miðvikudag. Ef einhver ætlar með, hvaða tími hentar betur, hádegi eða kvöld?

Ég verð á Háskólasvæðinu alla vikuna frá þriðjudagsmorgninum. Veit ekki alveg hvar, því ég er ekki viss hvort þarf að panta borð á safninu eða hvort nóg pláss er þar fyrir aðkomufólk.
Vonandi næ ég að vera laus á kvöldin. Þar sem ég er barnlaus get ég í raun ráðið mér alveg sjálf. Ég er upptekin allan laugardaginn 28. mars, hvílíkt prógramm. Málþing, fermingarveisla, matarboð. Að öðru leyti er ég nokkuð laus þó þetta sé hörkuvinnuferð. Mér finnst ógeðslega gaman að láta trufla mig í vinnunni fyrir einn kaffibolla eða svo.
Ég reyndi að fá fólk með mér í afródans, en enginn bauð sig fram. Ég þarf því líklega að afpanta það, ferlega svekkjandi.

Hvernig er veðrið? Hör eða ull? Djók. Hlakka til að sjá hvort sögusagnir af andláti Laugavegarins séu stórlega ýktar eður ei.

Lifið í friði.

drengur

Sonur minn er ofurrólegur þegar við erum bara svona tvö ein. Hann nýtur sín í botn. En hann vill alls ekki vera einn inni í herbergi, bara vera á sama stað og ég. Það truflar mig svo sem ekkert of mikið, mér finnst það aðallega stórmerkilegt hvað hann er orðinn myrkfælinn, þetta er orðið vandamál hjá okkur á kvöldin, verður alltaf einhver að fara með honum á klóið og svona. Nú er þessi myrkfælni greinilega farin að færa sig yfir á sólríka daga líka, orðin að fælni við að vera einn. Hvernig stendur á þessu? Getur það verið að hann sé að leika? Miðað við það hvað hann kemur á miklum spretti ef hann áttar sig á því að hann er einn einhvers staðar finnst mér það ótrúlegt. Ég er tvisvar hreinlega búin að sjá hann koma fljúgandi fram úr stofu og inn í eldhús. Minnir mig á mig sem barn, man hvað ég hljóp stundum hratt undan stórum myrkum gluggum heima hjá mér. Og ég var ekki að leika, ég var og er alveg hrottalega myrkfælin.

Og við erum hætt við að kíkja á mótmælin niðri í bæ, ég fékk loksins bókina sem ég pantaði í síðustu viku og þyrfti helst að lesa hana alla í dag.

Lifið í friði.

allt í gangi

Druslurnar eru með skemmtilegan leik en hann slær varla þessum stílæfingum í minningargreinum við.

Fáið ykkur rjóma og farið að sofa með bros á vör.

Lifið í friði.

Áfram Ísland!

Jake Gittes: I just want to know what you’re worth. Over ten million?
Noah Cross: Oh my, yes.
Jake Gittes: Why are you doing it? How much better can you eat? What can you buy that you can’t already afford?
Noah Cross: The future, Mr. Gitts, the future.

Það er í raun alveg magnað hvað Chinatown á mikið erindi við íslenska áhyggjufulla konu árið 2008. Umdeildar stíflugerðir, ríkir braskarar sem vilja meira meira meira burtséð frá afleiðingum fyrir lýðinn…

Ég finn á mér að það verður stuð í miðbænum í dag. Dagskráin er:
14: Hlemmur, ganga niður Laugaveginn.
15: Austurvöllur, fundur.

Allir saman nú, einn tveir þrír!

Skemmtið ykkur vel, verið hörð.

Hlustið absolútt á Víðsjá föstudagsins 31. október. Tvær vikur á netinu, svo á podcast. Umræður um Ísland á krossgötum. Niðurlagið: Fágun er flott, bruðl er þreytandi.

Lifið í friði.

yfirlestur er nauðsyn

í gær skrifaði ég víst eftirfarandi ó-setningu (og lét standa):
„Það er mögulegt að veita honum sömu möguleika gagnvart mögulegum…“

Stundum verður maður bara hreinlega hræddur við sjálfan sig.

Lifið í friði.

auglýsing frá 1979

Því miður veit ég ekki neitt um þessa auglýsingu annað en að hún hefur sannarlega hlotið nýja merkingu í nýju sögulegu samhengi.
Maðurinn minn fann myndina á myndabloggi sem hann heimsækir reglulega, ég set tengilinn inn þegar hann kemur heim í kvöld.

Lifið í friði.

einmana

Ég er alveg hryllilega einmana inni á einhverjum spjallþræði sem settur var upp fyrir okkur fjarnema í Bókmenntafræðinni. Reyndar kemur það mér ekki á óvart að vera þarna ein, kennarasleikjan, því tilkynning um þessa „netlotu fyrir fjarnema“ var send út kl. 19:21 í gærkvöld og þar sem nú er hin svokallaða „verkefnavika“ er ekkert víst að fólk komi inn á Ugluna í dag.
Þetta er mjög undarleg aðstaða og nú þarf ég að gera upp við mig hvort ég eigi að sitja við spjallþráðinn í kvöld og bíða svars eins og yfirgefin kona, eða hvort ég láti eldgamalt plan um að fara út að borða með fjórum vinkonum í árlegan afmæliskvöldverð sem heitir því skemmtilega nafni Vogakaffi, standa. Mér segir svo hugur um að síðari kosturinn verði valinn.

Lifið í friði.

guillaume depardieu

Hann er dáinn. Hann fæddist í apríl 1971 og dó í dag. Hann missti fótinn eftir mótorhjólaslys og sýkingu á spítala. Hann átti ríkan, mjög ríkan, og mjög frægan pabba. Hann var sætur. Hann þótti góður leikari. Hann átti allt, en samt átti hann ekki nóg.

Lifið í friði.

og hlustið

Hér er mjúk tónlist að hlusta á.

Lifið í friði.