Archive for the 'Trouvailles' Category

Trouvailles IV

Í sumarfríinu lenti ég á einum besta flóamarkaði sem ég hef nokkurn tímann komist á, í Argentat í Corrèze-héraðinu. Hann var mátulegur á allan hátt, mátuleg blanda af antíksölum, söfnurum og svo einstaklingum að selja úr kompunni sinni. Mátulega stór. Mátulega mikið af fólki. Ég í mátulega góðu skapi og keypti því nokkra góða hluti.

Ég er búin að gorta af aflanum á feisbúkk, þetta er í raun bara fyrir hana Ellu og svona ef ske kynni að einhver með dótablæti villtist hingað inn. Reyndar keypti ég ekki allt á sama markaði, salatskálin og mylsnuburstinn koma af örsmáum markaði í litlu þorpi í Périgord, og flögubergið og valhnetuvínið var keypti í flögubergsnámunni.

Allur aflinn

Allur aflinn

Aflinn úr hinni áttinni

Aflinn úr hinni áttinni

Gullskreytt salatskál, töfra-sósukanna, blómvöndur, ávaxtaskál á fæti, mylsnusópur með skúffu, diskar, valhnetuvín og tilskorið flöguberg til að leggja kámuga hnífa á.

Diskar

Diskar

Ég er búin að leita að matardiskum í eldhúsið lengi. Þessir biðu mín þegar ég var á leiðinni út af stóra markaðnum með fangið fullt af alls konar. Þetta eru leirdiskar og afskaplega þungir, ég hélt að handleggurinn myndi rifna af mér áður en ég kæmist að bílnum. Ég ætlaði að skipta þeim út fyrir gömlu diskana sem eru af ýmsum sortum og flestir orðnir krambúleraðir eftir massífa notkun. Enn hef ég þó ekki fengið af mér að taka gamla staflann burt. Sjáum hvenær ég finn kjarkinn. Á meðan bíða þessir rólegir frammi í stofuskápnum.

Sósukanna

Sósukanna

Sósukanna - 2 stútar

Sósukanna – 2 stútar

Það voru tengdamóðir mín og ástkona hennar sem keyptu þessa forláta sósukönnu handa mér. Hún er þeim hæfileikum gædd að geta gefið manni annað hvort fituna sem flýtur ofan á, eða tæran kjötsafann sem liggur undir. Allt eftir því hvorn stútinn þú velur að nota. Er þetta ekki dásamleg kanna?

Skál á fæti

Skál á fæti

Allir innflytjendur með sjálfsvirðingu leggja kapp á að aðlagast. Ég hef lengi vitað að ég yrði ekki almennilega aðlöguð fyrr en ég eignaðist skál á fæti fyrir apríkósur, hnetur eða jafnvel kökur barasta. Hún á helst að tróna á skenknum og sumir svindla og hafa ávexti úr marmara (eða fílabeini, en þá verður það að vera antík) í skálinni. Ég fann spegilinn eftir áralanga leit fyrir nokkrum árum, nú er ég komin með skál á fæti. Bráðum verð ég kannski bara frönsk? (Spegillinn lítur enn svona út.)

Salatskál

Salatskál

Þessi salatskál kallaði mig til sín á örsmáa markaðnum í litla þorpinu. Parið sem dansar í miðjunni gerði útslagið, ég bara varð að eignast hana. Mér brá svo þegar drengurinn nefndi verðið, 12 evrur, að ég veit ekki alveg hvernig ég hef litið út. Ég bjóst við að hún væri miklu dýrari. Þessi skál passar ekki við neitt sem ég á, en mér er alveg sama.

Blóm

Blóm

Á markaðnum var karl með troðfullan flutningabíl af þurrkuðum blómum. Hann seldi grimmt, allar  konurnar í sveitinni koma gagngert á markaðinn til að kaupa af honum blóm til að hafa inni hjá sér um veturinn. Í Corrèze verður oft mjög kalt og dimmt og nauðsynlegt að lífga upp á stofurnar með minningu um sumarið sem leið. Parísardömur þurfa vitanlega ekki á þurrkuðum blómum að halda, hér er hægt að kaupa afskorin blóm allan ársins hring. Sólrún varð hins vegar hugstola og varð að eignast þessar bleiku margarítur (eru þetta annars margarítur?).

Við það að setja þessar myndir inn, sé ég tvennt: Ég verð að gera eitthvað í þessu buffeti, á ég að mála skúffur og hurðir í öðrum lit, eða sama lit og restin? Og svo verð ég að finna tíma og pening til að mála íbúðina, það er gersamlega kominn tími á það. En það verður samt ekki á þessu ári … ég heiti því hér með að gera ekkert slíkt fyrr en ég er búin með ritgerðina. Sagði einhver ritgerð?

Lifið í friði.

trouvailles III og meira til


Þessi skemmtilega furðulegi sprellikarl sprellar ekki í bili. Hann er dálítið skemmdur, og mér hefur gengið illa að laga hann. Það eru jesúholur í höndum og fótum, en bandið hefur skorið viðinn í sundur, og það virðist sama hversu þykkan þráð mér hefur tekist að þræða í hann, hann endar alltaf á því að komast út aftur, þó ég sé ekki einu sinni neitt að hamast sérstaklega hrottalega á honum, bara sprellað pínu smá og hop! Ég þarf að nota eitthvað lím eða kítti, en hef ekki komið mér í það.
Ég hef því látið hann alveg vera með sprellið undanfarin tvö ár eða svo, en hann vaktar skrifborðið mitt ásamt nokkrum góðum hlutum sem mér þykir sérstaklega vænt um. Þessi sprellikarl kemur frá föður mínum, ef mér skjöplast ekki (af hverju fær maður alltaf löngun til að tala gamlafólks mál þegar maður hugsar eða skrifar um gamla hluti? – er skjöplast ekki annars eitthvað voða gamaldags og úr sér gengið?). Kannski er þetta svertingjastrákur og einhver rasismi í því að hafa hann að leikfangi, en það tók mig mörg ár að átta mig á þessum möguleika. Ég hef haft hann hjá mér síðan ég var krakki, ég hef alltaf verið spennt fyrir gömlu dóti. Hann mun ekki fara í sölu á flóamarkaði meðan ég lifi og vonandi mun hann haldast í fjölskyldunni fram til þess að Katla þurrkar mannkyn út. Eða eitthvað kjarnorkuver. Eða eitthvað allt annað sem við vitum ekki enn að er til. Hah, hvað það er hressandi að enda umfjöllun um sprellikarl á pælingum um hvað muni á endanum eyða okkur. Svona er ósjálfráð skrift furðulegt fyrirbæri. Eða hvað sem svona bloggbull er.

Svona til að létta andrúmsloftið, ætla ég að sýna ykkur mynd af 1. apríl sprellikarlinum sem ég og krakkarnir bjuggum til, til að hrekkja pabbann. Það virkaði sæmilega, við földum okkur og honum átti að bregða hrottalega þegar hann kæmi inn í rökkvaða íbúðina og alger þögn ríkti og þessi maður sæti þarna í hægindastólnum. En Sólrún fór að flissa meðan hann var enn að reima af sér skóna fram á gangi, svo hann vissi að eitthvað var í gangi og brá ekki eins mikið. Kallinn missti svo höfuðið fljótlega, en tókst samt að láta mér bregða nokkrum sinnum og vinkonu okkar brá svakalega þegar hún kom blaðskellandi í heimsókn einn daginn. Hann hefur nú látið lífið, eftir að ég varð öskureið út í hann fyrir að hafa látið mig leita dyrum og dyngjum að gallabuxunum mínum árangurslaust. Það var ekki fyrr en tveimur dögum síðar að ég áttaði mig á því að hann var í þeim, helvískur. Ég hef sko lent í því að týna heilum Levis gallabuxum hér í íbúðinni, svo þetta var enn dramatískara mál en ella.

Og svo bara svona í tilefni frétta af snjókomu á Íslandi, ein mynd af túlípönunum mínum fínu. Það sést líka smá í grasflötina sem ég er að búa til:

Lifið í friði.

trouvailles II

Þessi handþurrka hefur verið í minni eigu um árabil. Líkt og með svuntuna, er ég engan veginn viss hvaðan hún kemur. Hún gæti jafnvel komið úr búi ömmu minnar Kristínar, ef hún er ekki frá öðru hvoru þeirra móðurforeldra mannsins míns. Í raun finnst mér þessi teiknistíll sem ég kann ekki að nefna, ekkert sérstaklega fallegur, en hann heillar mig þó fyrir það hvað hann er gamaldags, eiginlega úreltur. Hann minnir mig á Siggu Viggu, sem ég átti í ástar-haturssambandi við alla mína barnæsku. Stundum svo fyndin, en stundum svo vúlgar.
Handþurrkan var straujuð við sama tækifæri og svuntan. Það skal upplýst að ég straujaði einnig gamlan smekk, bróderaðan og fínan, sem verður kannski sýndur næst. Eða ekki.

Lifið í friði.

Trouvailles – I

Ég er góður hirðir. Ég hirði alls konar dót hjá fólki þegar það tekur til hjá sér og vill losa sig við alls konar óþarfa. Ég hirði líka alls konar dót af götunni, en í Frakklandi eru skýrar reglur um það hvaða daga má setja dót út á gangstétt í hvaða hverfi, sem er svo hirt af hreinsunardeildinni daginn eftir, ef enginn annar hefur séð notagildi í því.
Dagana sem setja má dótið út hér í Copavogure, á ég það til að taka aukakróka á bílnum á leið úr tónlistarskólanum, svona til að athuga hvort einhvers staðar bíði mín góður stóll, skemmtilegur skápur eða annað sem ég gæti fundið stað heima hjá mér. Nú er svo komið að íbúðin mín er eiginlega orðin yfirfull og ég hef því sett í gang ópereisjón losun um leið og ég er farin að afþakka dót og jafnvel ganga framhjá dóti án þess að þykjast sjá það úti á götu eða á flóamörkuðum. Mér finnst dót sem hefur lifað öðru lífi alltaf meira spennandi en nýtt dót sem mér er gefið.
Nokkrir vina minna hafa sett upp sérstök dótablogg, sem eru mjög skemmtileg og mæli ég eindregið með að fólk bæti þeim á leslistann sinn. Antík og alls konar, Gamalt dót, Gamla daga og Á rúi og stúi. Ég ætla ekki að setja upp sérstakt dótablogg, en hins vegar ætla ég að tutla hingað inn reglulega einhverju af dótinu mínu í von um að það gleðji lesendur. Ég ætla að kalla þetta Trouvailles, en það er nákvæmlega orðið yfir fundið dót, findings á ensku.
Fyrsta dótið er þessi fádæma fallega svunta. Hún kemur úr dánarbúi móðurömmu mannsins míns. Eða kannski móðurafans, ég rugla því tvennu dálítið saman í huganum, þar sem ég kynntist þessu fólki aldrei og fór ekki beint sjálf í gegnum dótið. Afinn dó um það leyti sem við vorum að kynnast og ég kom að vísu inn á heimili hans að honum látnum og benti á það sem ég hafði trú á að við gætum nýtt. Amman lá lengi á sjúkrastofnun og þekkti engan, og ég fór aldrei að heimsækja hana, hún var dálítið langt frá París og tengdamamma vildi einhvern veginn aldrei „leggja það á mig“, held ég núna. Fjölskyldubönd í Frakklandi eru dálítið ólík því sem a.m.k. ég á að venjast úr minni fjölskyldu.
Ég held mikið upp á þessa svuntu og það verður að teljast frétt að þegar ég ákvað að taka mynd af henni, dró ég fram strauboltann og brettið. Það gerist mjög sjaldan.

Lifið í friði.