Archive Page 2

Áramót

Mér finnst ég þurfa að koma með nokkra áramótapunkta – ég er enn skuldbundin þessu bloggi þó það sé í andaslitrunum.

Ég held ég hafi þroskast dálítið, þetta ár hefur verið viðburðaríkt og ég hef tekist á við hluti sem ég hefði þurft að gera mun fyrr. Ég hef leyft mér að vera sorgmædd og jafnvel reið, hef áttað mig á hvernig hlutir úr fortíðinni geta haft áhrif án þess að maður sé endilega meðvitaður um það og hef náð að sleppa taki af óþarfa böggum sem ég bar með mér. Já, sorrí, ég veit að þetta gagnast engum nema sjálfri mér, ég get ekki verið opinskárri en þetta.

Hápunktur ársins er líklega ferðin til Tógó, og fá að kynnast þar alvöru fátækt og sjá með eigin augum að hægt er að takast á við fátækt með stolti. Þetta hefur legið á mér síðan og ég á enn erfiðara með að hlusta á væl um blankheit og kreppu en áður. Samt væli ég sjálf um blankheit og vorkenni mér stundum, svona er maður nú klikkaður og ófullkominn. En kannski næ ég að vinna úr þessu líka og verða eitthvað betri. Ég þarf samt meira en hálft ár til þess. Maður er svo flæktur í þetta neysluhyggju-gerviþarfanet að þó maður viti að það sé rangt getur maður ekki losað sig svo auðveldlega. Nú finnst mér ég vera komin á hála braut slepjunnar. Bið forláts.

Ég man ekki hvort það var um síðustu eða þarsíðustu áramót sem ég lofaði sjálfri mér því að dansa meira og syngja. Mér hefur gengið alveg ágætlega að standa við það, en ég fór samt ekki nógu oft á karókístaði þetta árið. Það þarf að laga 2013. En nýlega fór ég í partý þar sem húsráðandi var kominn með plötuspilara og allar gömlu plöturnar. Við dönsuðum og sungum til sex um morguninn. Þá kom vesalings nágranninn upp og bað okkur um að gefa sér tveggja tíma svefn áður en hann þyrfti í vinnuna. Við vorum hálf lúpuleg og flissuðum skömmustulega þegar við kvöddumst, en ég var í góðu skapi í marga daga eftir þessa nótt. Það er pottþétt fátt hollara en að dansa og syngja með góðum vinum.
Verst að ég er sjálf sjúklega hrædd við nágrannana mína. Þau eru bestu skinn, herra og frú Sinnep hér fyrir neðan, en þau myndu nú samt ekki leyfa okkur að dansa óáreitt til sex að morgni. Líklega ekki mínútu fram yfir miðnætti. Sjálf hef ég held ég aldrei stoppað partý, mér finnst m.a.s. bara pínu gaman að sofa hálfilla þegar ég heyri í fólki skemmta sér og dansa einhvers staðar nálægt. Ég held að heimurinn geti orðið betri ef fólk sleppir aðeins af sér þessum hömlum með að hafa ekki of hátt og hristir sig dálítið meira. Og þá verð ég aftur næstum slepjuleg, en held samt ég hafi náð að stoppa í tæka tíð.

Ég náði að halda mér í svipaðri þyngd og áður. Ég borða frekar mikið og oft alveg hrikalega fitandi mat. Ég drekk líka áreiðanlega meira áfengi en margir aðrir. En ég passa mig á að fara reglulega í leikfimi og út að hlaupa þegar ég nenni og get, ég hjóla dálítið og leik mér að því að sleppa rúllustigum og slíku þegar sá gállinn er á mér. Engar öfgar, en sukkjöfnun er höfð að leiðarljósi. Eitt af því sem ég hef þó náð að laga heilmikið hjá mér, er að hætta að hafa áhyggjur af mýkt bumbunnar minnar. Jólakjóllinn minn felur hana til dæmis bara ekki neitt og mér er slétt sama. Þessi kjóll hefur vakið mikla hrifningu, ég þarf að athuga hvort það sé nokkuð til mynd af mér í honum og sýna ykkur, hann er ekkert smá fallegur.

Börnin mín eru frábært fólk. Þau eru til fyrirmyndar í skólanum, vinmörg, skemmtileg og fá góðar einkunnir. Þau eru fordekruð, fengu slíka ofgnótt jólagjafa að ég hef verið með nettan brjóstsviða. En ég hef ákveðnar hugmyndir um að reyna að stöðva þetta á næsta ári og fá að ráða því að peningurinn fari í eitthvað annað og gagnlegra en meira dót.

Á þessu ári urðu nokkur svipleg dauðsföll í kringum mig. Ég man að í lok 2011 tilkynnti ég vinkonu að ég myndi ekki þola meira af dauðsföllum og að þetta yrði betra 2012. Ég er hreinlega ekki alveg viss hvort það hafi gengið eftir. Að vísu missti ég ekki jafn nána vini og þá, en samt hefur þetta verið ógurlega erfitt á köflum. Líklega er þetta bara hluti af því að vera að verða miðaldra … Það var einmitt hluti af þroskaferlinu að leyfa mér að vera virkilega sorgmædd og ósátt við dauðann um tíma. Ég er komin á þá skoðun að maður bara megi alveg vera það og mér líður mun betur en þegar ég þykist vera sterk. Um leið finnst mér það styrkja mig að líða betur.

Jæja, nú er ég búin að sitja hér við í tja, klukkutíma eða því sem næst. Ýmislegt var ritað en strikað út. Ég nenni ekki að lesa yfir þetta aftur og veit hreinlega ekki enn hvort ég birti þetta. Ef svo fer, þá óska ég mínum fáu lesendum innilega gleðilegs árs 2013, megi það verða ár dans og söngs, kátínu og súkkulaðis.

Lifið í friði.

Blogg fyrir þá sem laumulega hafa fyllt mig samviskubiti með því að kvarta almennt yfir fækkun virkra blogga

Það er liðinn rúmur mánuður síðan síðast! Og ég er orðin ári eldri!

Ég er ekkert hætt að blogga, það er bara bloggið sem er hætt með mér. Eða eitthvað. Eða ekkert. Ég veit það eiginlega ekki. Veit ekki hvað ég ætla mér að gera. Um daginn var ég næstum því búin að loka þessari síðu, láta hana hverfa. En svo gat ég það ekki. Þessi síða er fáránlega mikill hluti af mér.

Um daginn ræddi ég við konu sem sagði mér að stundum titlar hún sig „writer“ þegar hún er spurð hvað hún gerir. Hana langar í raun til að skrifa, en hefur samt ekki látið af því verða. Pabbi minn trúir því statt og stöðugt að ég eigi að skrifa bók. En ég get ekkert bara sest niður og skrifað bók. Bókin verður að vera um eitthvað. Og þá um hvað? Ég held að ég sé aðallega hrædd við að lenda í því sama og ég óttast stundum hér (og á feisbúkk) ég get aldrei annað en verið rosalega persónuleg og hreinskilin. Jújú, mér tekst auðvitað að leyna ykkur ýmsu. Mentir par omission. Ljúga með því að þegja. En samt …

Alla vega kemur bráðum út bók í þýðingu minni. En ekki strax samt. Eitthvað svona markaðsútreiknað dæmi sem ég er ágætlega sátt við. Það geta ekki allir sigrað í jólabókaflóðinu. Sem er nú byrjað. Og ég er búin að kaupa eina jólagjöf (í viðbót við það sem var keypt í Tógó til að stinga í pakka). Þetta var útúrdúr.
Ég tek sjaldan þátt í jólabókaflóðinu sem virkur lesandi. Hef í mörg ár verið of mikill námsmaður og eiginlega bara alltaf of fátæk til að geta leyft mér að kaupa nýútkomið. Kjöt af nýslátruðu er fyrir fínna fólk en mig. Getur alveg verið frústrerandi en að vissu leyti samt ágætt. Jólabókaflóðið er náttúrulega rugl. Gamal stöffið er oft alveg nógu gott fyrir mann. Ég las einmitt La vie devant soi (til á íslensku Lífið framundan, þýð. Guðrún Finnbogadóttir) um daginn. Í þriðja skiptið. Hrikalega er það nú góð bók. Ég les annars lítið af skáldsögum, þannig. Því ég þykist vera að fræðast. En það er einmitt mál sem ég lýg um með þögn. Uss!

Lifið í friði.

Trouvailles V

Um daginn gortaði ég hástöfum af frábærum markaði í Frakklandi. Ég mæli innilega með ferð til Frakklands með viðkomu á mörkuðum en ekki má heldur gleyma að á Íslandi er fullt af meiriháttar stöðum þar sem hægt er að gera afar góð kaup. Góði hirðirinn, Samhjálp og fleiri eru með litlar búðir víðsvegar um borgina en uppáhalds, algerlega uppáhalds markaðurinn minn er þó alltaf búð þeirra Dísu og Betu á netinu, Eigulegt. Þær hafa ótrúlega næmt auga og það er nánast ómögulegt að finna þýskt og hvað þá skandínavískt á mörkuðum í Frakklandi. Skandínavísk hönnun er orðin þvílík lúxusvara hér að það er nánast ómögulegt að finna gersemar þaðan á verði nískupúkans sem ég er. Þær á Eigulegt eru hins vegar sjúklega miklir hippar og verðleggja hlutina þannig að fólk með blæti getur alveg sleppt sér ansi reglulega.

Sem ég sumsé gerði á dögunum, því rétt eftir að ég hafði stillt hér upp minni íðilfögru skál á fæti, rakst ég á eina frá Funa á eigulegt. Mér fannst þetta vera þannig að ég bara yrði að taka áskoruninni um að leyfa Norðri og Suðri að hittast. Og hér sést hvað þær fara vel saman, hvað franska skálin unir sér vel þarna við hliðina á alls konar íslenskum eðalgripum (ég er búin að sannfæra mömmu um að svona gripir séu fullkomin fjárfesting og að þetta „dót“ muni borga elliheimilið fyrir börnin mín).

Íslenskt knúzar franska skál

Aftast á myndinni má sjá Birki-snafs, sem fagur hópur reykvískra kvenna gaf mér um daginn. Hef ekki enn smakkað, en það er bara því ég er svo þæg akkúrat núna, ég hlakka mikið til að prófa.

Þegar ég pantaði og borgaði fyrir skálina á fæti, fylgdi þessi líka fíni rauði vasi með í kaupbæti, en hann er víst smá skörðóttur þó ég sjái það nú reyndar varla sjálf. Ég var nú ekkert að biðja um hann, en honum hafði verið stungið með í pakkann til Parísar. Hér má sjá hvað vel fer á með honum og þessum sem ég sníkti út úr móður minni um jólin.

Annar kom með Icelandair, hinn með WOW

Lifið í friði.

Trouvailles IV

Í sumarfríinu lenti ég á einum besta flóamarkaði sem ég hef nokkurn tímann komist á, í Argentat í Corrèze-héraðinu. Hann var mátulegur á allan hátt, mátuleg blanda af antíksölum, söfnurum og svo einstaklingum að selja úr kompunni sinni. Mátulega stór. Mátulega mikið af fólki. Ég í mátulega góðu skapi og keypti því nokkra góða hluti.

Ég er búin að gorta af aflanum á feisbúkk, þetta er í raun bara fyrir hana Ellu og svona ef ske kynni að einhver með dótablæti villtist hingað inn. Reyndar keypti ég ekki allt á sama markaði, salatskálin og mylsnuburstinn koma af örsmáum markaði í litlu þorpi í Périgord, og flögubergið og valhnetuvínið var keypti í flögubergsnámunni.

Allur aflinn

Allur aflinn

Aflinn úr hinni áttinni

Aflinn úr hinni áttinni

Gullskreytt salatskál, töfra-sósukanna, blómvöndur, ávaxtaskál á fæti, mylsnusópur með skúffu, diskar, valhnetuvín og tilskorið flöguberg til að leggja kámuga hnífa á.

Diskar

Diskar

Ég er búin að leita að matardiskum í eldhúsið lengi. Þessir biðu mín þegar ég var á leiðinni út af stóra markaðnum með fangið fullt af alls konar. Þetta eru leirdiskar og afskaplega þungir, ég hélt að handleggurinn myndi rifna af mér áður en ég kæmist að bílnum. Ég ætlaði að skipta þeim út fyrir gömlu diskana sem eru af ýmsum sortum og flestir orðnir krambúleraðir eftir massífa notkun. Enn hef ég þó ekki fengið af mér að taka gamla staflann burt. Sjáum hvenær ég finn kjarkinn. Á meðan bíða þessir rólegir frammi í stofuskápnum.

Sósukanna

Sósukanna

Sósukanna - 2 stútar

Sósukanna – 2 stútar

Það voru tengdamóðir mín og ástkona hennar sem keyptu þessa forláta sósukönnu handa mér. Hún er þeim hæfileikum gædd að geta gefið manni annað hvort fituna sem flýtur ofan á, eða tæran kjötsafann sem liggur undir. Allt eftir því hvorn stútinn þú velur að nota. Er þetta ekki dásamleg kanna?

Skál á fæti

Skál á fæti

Allir innflytjendur með sjálfsvirðingu leggja kapp á að aðlagast. Ég hef lengi vitað að ég yrði ekki almennilega aðlöguð fyrr en ég eignaðist skál á fæti fyrir apríkósur, hnetur eða jafnvel kökur barasta. Hún á helst að tróna á skenknum og sumir svindla og hafa ávexti úr marmara (eða fílabeini, en þá verður það að vera antík) í skálinni. Ég fann spegilinn eftir áralanga leit fyrir nokkrum árum, nú er ég komin með skál á fæti. Bráðum verð ég kannski bara frönsk? (Spegillinn lítur enn svona út.)

Salatskál

Salatskál

Þessi salatskál kallaði mig til sín á örsmáa markaðnum í litla þorpinu. Parið sem dansar í miðjunni gerði útslagið, ég bara varð að eignast hana. Mér brá svo þegar drengurinn nefndi verðið, 12 evrur, að ég veit ekki alveg hvernig ég hef litið út. Ég bjóst við að hún væri miklu dýrari. Þessi skál passar ekki við neitt sem ég á, en mér er alveg sama.

Blóm

Blóm

Á markaðnum var karl með troðfullan flutningabíl af þurrkuðum blómum. Hann seldi grimmt, allar  konurnar í sveitinni koma gagngert á markaðinn til að kaupa af honum blóm til að hafa inni hjá sér um veturinn. Í Corrèze verður oft mjög kalt og dimmt og nauðsynlegt að lífga upp á stofurnar með minningu um sumarið sem leið. Parísardömur þurfa vitanlega ekki á þurrkuðum blómum að halda, hér er hægt að kaupa afskorin blóm allan ársins hring. Sólrún varð hins vegar hugstola og varð að eignast þessar bleiku margarítur (eru þetta annars margarítur?).

Við það að setja þessar myndir inn, sé ég tvennt: Ég verð að gera eitthvað í þessu buffeti, á ég að mála skúffur og hurðir í öðrum lit, eða sama lit og restin? Og svo verð ég að finna tíma og pening til að mála íbúðina, það er gersamlega kominn tími á það. En það verður samt ekki á þessu ári … ég heiti því hér með að gera ekkert slíkt fyrr en ég er búin með ritgerðina. Sagði einhver ritgerð?

Lifið í friði.

Ferðasaga frá París

Nú geta allir lesið ferðasögu Hildigunnar frá París, inn eru komnir dagur eitt og tvö. Ég get hiklaust mælt með íbúðaskiptum og langsniðugast er að vera tiltölulega snemma á ferðinni til að geta spáð í tilboð og fengið miða á góðu verði með hinum ýmsu flugfélögum sem bjóða ferðir til Parísar. Um að gera að senda mér auglýsingar, ég kem þeim ókeypis á framfæri. Einnig eru til góðar síður eins og t.d. Airbnb.com og fleiri sem bjóða upp á íbúðaskiptaauglýsingar og ná líklega til fleiri útlendinga en mín síða gerir.

Það er segin saga að áður en maður skilur íbúð sína eftir fyrir ókunnuga, tekur maður alveg rosalega vel til, þrífur alls konar skúmaskot sem maður hefur lengi litið hornauga og lagar hluti sem mann hefur lengi langað til að nenna að laga. Dálítið eins og að halda góða veislu, ágætis hreinsun sem felst í þessu ferli.

Ég dáist að Hildigunni fyrir að vera svona dugleg að skrifa ferðasögur, sjálf hef ég alltaf uppi háar hugmyndir um að halda dagbók um það skemmtilega sem maður gerir í fríum svo aðrir geti þá nýtt sér upplýsingar, en ég held ég verði að horfast í augu við að ég er bara ekki þessi týpa. Ferðalagið okkar um Suður-Frakkland var býsna vel heppnuð, ég lofa að setja inn nokkrar myndir og nöfn á þorpum, söfnum og veitingahúsum sem vert er að heimsækja. Eða bara til að þið getið öfundað mig. Eða samglaðst. Eða eitthvað.

Til hamingju með regnbogalitu gönguna í dag, mér sýnist á öllu að borgarstjórinn sé hetja dagsins. Hið besta mál!

Lifið í friði.

Molar

Eg er ennþá til, þó ég hafi ekki lengur tíma eða nennu til að blogga.

Ég er búin að skila þýðingunni og bíð eftir að fá handritið aftur í hausinn fullt af athugasemdum prófarkarlesara. Það verður líklega í miðju sumarfríinu, en við ætlum að leggja af stað suður á bóginn á mánudag.

Ég held að bókin geti orðið vinsæl, þetta er heilmikið drama, ástir og svik, lygar og leyndarmál. Frásögnin er endursögn af játningum tveggja kvenna, amk önnur þeirra reynist hafa logið eða leynt hluta sannleikans, sá sem segir endanlega frá öllu stoppar í ýmis göt.

Svo er ég orðin fréttaritari Spegilsins í París, það vex mér örlítið í augum, en er samt fjári gaman að neyða sig til að setja sig í stellingar og skilja þjóðmálin nógu vel til að geta deilt þeim með öðrum. Ég er þó engin Sigrún Davíðsdóttir, sei sei nei. En við sjáum hvað mér tekst að moða úr þessu enn eina verkefninu í lífi mínu.

Lifið í friði.

Lomé, Tógó

Ég er komin heim frá Tógó. Og Týr Théophile fór með mömmu sinni beint til Íslands, ég hef ekkert frétt, vildi ekki vera að trufla þau í gær, en þau voru nánast sólarhring á ferðalagi. Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig litli afríski drengurinn plumar sig í íslenska hryssingnum (já, ég veit að það er sumar og búið að vera rosa gott veður og allt það, jájá, en íslenskt veðurfar er samt hörkulegt fyrir fólk sem elst upp nærri miðbaug).

Þessi dvöl í Tógó var dálítið sérstök vegna þess hve bundin ég var yfir einu ákveðnu krefjandi verkefni. En ég er gersamlega heilluð af landi og þjóð, fólk er svo brosmilt og hlýlegt, engin óþægileg ágengni, oft hlegið að okkur í okkar hvíta skinni en frekar af einhvers konar gleði en að það væri hæðnislegt.

Það er mikil fátækt, en greinilega uppgangur líka. Nokkuð ljóst af mýmörgum byggingaframkvæmdum sem standa yfir, að höfuðborgin Lomé á eftir að gerbreytast á næstu árum eða áratugum (tíminn og Afríka, þið munið…). Strandlengjan er mjög falleg, frekar breið, pálmatré nær götunni, sem er ein af fáum malbikuðum götum borgarinnar, breið og fjölfarin aðalbraut, og svo bara nokkuð breið sandrönd út að sjó. Ég náði aldrei að fara og mynda almennilega ströndina, við höfðum heyrt sögur af því að þar væri hættulegt að vera, bandíttar á ferð, og lögðum því ekki í að vera þar með barnið. Við fréttum í lok ferðar að ströndin þarna okkar megin væri ekkert hættuleg, bandíttarnir væru ekki á sama stað og veiðimennirnir, sem við sáum handdraga inn netin á hverjum morgni.

Göturnar í Lomé eru langflestar bara sandur með tilheyrandi holum og hæðum, alltaf eins og að aka íslenska sveitavegi. Það er mikil umferð bæði bíla, sem eru langflestir gamlir bílar innfluttir notaðir frá Evrópu, skellinaðra sem mörg hver eru svokallaðir taxi-moto, bjóða manni far gegn vægu gjaldi, og svo gangandi vegfarendum sem eiga í raun sífellt fótum sínum fjör að launa, enda sjaldan skýr mörk gangstéttar og götu.

Image

Ég á í smá vandræðum með að finna út úr myndunum sem ég tók, ýmislegt virðist hafa horfið af minniskortinu, en þetta er mynd af fasteignasölu sem heitir Le bon berger, eða Góði hirðirinn. Óvanalega fínt og flott, ber líklega uppsveiflunni vott.
Verslun og viðskipti fara að mestu leyti fram í smásölu við göturnar. Ýmist í einhvers konar skýlum/kofum þar sem sölufólkið situr með vöru sína í skjóli fyrir sólinni á þessum skemmtilegu trébekkjum eða kollum sem maður sér út um allt, eða sölufólk sem stendur við veginn með vöru sína á höfðinu eða hangandi utan á sér, og maður spurði sig oft hvort þetta væri algerlega tilviljanakennt hver væri að selja hvað, sumir voru með túristadót, fána og skartgripi, aðrir með afar nýtilega hversdagshluti eins og sápur, tuskur, eyrnapinna eða sópa. Ég fór einu sinni í svona alvöru stórmarkað þar sem fékkst innfluttur matur, borðbúnaður og fleira fínerí og fannst ég þá komin til Frakklands. Þar voru eingöngu hvítir að versla og búðin var vöktuð vopnuðum vörðum.

Eins og fyrr sagði, er mikið af byggingaframkvæmdum í Lomé. Það er komið eitt stórt og fínt hótel með sundlaug og stórum garði á sjálfri ströndinni og búið að girða af svæði við hliðina á því, þar sem annað risahótel mun rísa. Ég vona innilega að borgaryfirvöldum beri gæfa til að passa upp á að ekki verði byggt eftir allri strandlengjunni, það yrði alveg ömurlegt fyrir heildarmynd og lífsgæði í borginni.

Þar sem við bjuggum, á hóteli hinum megin við stóra veginn, með útsýni niður á strönd, var svæðið við hliðina á okkur einhvers konar samansafn af því sem við myndum kalla kumbalda, þar sem fólk bjó við afar frumstæðar aðstæður. Við horfðum á konurnar þvo þvotta í bölum á morgnana úti í portinu, krakkana þvo sér þar og svo var eldað á hlóðum úti. Þið fáið að sjá myndir af svipuðum aðstæðum kvenna að störfum þegar ég skrifa um lítið leyniveitingahús sem bílstjórinn fór með okkur á. Svona kumbaldahverfi eiga alveg pottþétt eftir að hverfa smátt og smátt fyrir nýjum byggingum, fátækara fólkið verður hrakið utar, burt úr miðbænum og þar munu rísa hótel og íbúðarhús fyrir betur megandi, eins og hefur þegar gerst í vestrænum borgum.

Ég er staðráðin í að fara aftur til Tógó. Helst fljótlega, áður en góðærisgleðin tekur völdin.

Lifið í friði.

Sól í Tógó

Þá hef ég eytt heilli viku í sólinni í Tógó. Var á endanum aðeins fjóra daga í Aneho, en náði að kynnast barnaheimilinu þar ágætlega. Það var yndislegt að vera þar og mjög gaman að fylgjast með því hve fagmannlega er staðið að afhendingu barns til nýrrar móður. Góður aðlögunartími, falleg kveðjuveisla með dansi og trumbuslætti og barnið látið gefa öllum kex í kveðjuskyni, bæði börnum og starfsfólki. Þó að tár væru á hvarmi alls fullorðna fólksins, ríkti samt gleði og hlýja. Reyndar hef ég ekki kynnst öðru hér en þægilegheitum. Fólk heilsar manni glaðlega hvar sem maður fer, óskar manni alls hins besta. Við erum búnar að vera um helgina hér í Lomé og eyðum dögunum við sundlaugarbakka á fínasta hótelinu,“ tákni hins nýja uppgangs Lýðveldisins Tógó“, eins og stendur á marmaraskildi í móttökunni. Við erum í biðstöðu, bíðum eftir undirritun félagsmálaráðherra og þurfum þá að fara yfir til Benín til að fá bráðabirgða vegabréf fyrir nýjan lítinn yndislegan Íslending, hann Tý Theophile. Allt gengur að óskum. Segi almennilega frá þessu öllu síðar, þegar ég kemst í franska nettengingu. Hver veit nema það verði fljótlega… Ég mun kveðja Tógó með söknuði og er harðákveðin í að koma hingað aftur, á mínu eigin forsendum og með fjölskylduna mína með. Vilt þú koma líka?

Lifið í friði.

Tíminn og Afríka

Það mætti eiginlega segja að ég hafi beðið um þetta sjálf, með einhverju rómó-nostalgísku tali um tímann og Afríku. Því nú er svo komið að ég sit hér á föstudagskvöldi með breyttan flugmiða, fer sumsé til Tógó á sunnudaginn. Núna á sunnudaginn.

Í raun er þetta mjög gott, ég fann alveg að ég var hálfvegis farin með vinkonu minni, það var erfitt að kveðja hana og vita af henni einni þarna niður frá. Það var einfaldlega ekki rétt. Þó að ég sé með óvanalega háværan són í eyranu og pínulítið stressuð yfir því að vegabréfsáritunin mín miðar við 22. maí, er ég fullkomlega sátt við að setja ritgerðarsmíðar á bið. Úrið verður sett upp þegar ég kem til baka. Hvenær sem það verður.

Fylgist spennt með frásögnum af ferðum mínum, sendið mér góða strauma, ég þarf á því að halda.

Lifið í friði.

Tógóferð

Hér er ekki mikið lífsmark, enda er ég í miklu kappi við tímann þar sem ég á nokkur verkefni ókláruð áður en ég flýg á brott frá honum og öllu öðru þann 22. maí.

Ég ætlaði mér að skila fullgerðri MA-greinargerð áður en ég færi og vera komin með góða hráþýðingu á skáldsögu. Mér gengur ekki alveg eins vel að komast áfram eins og ég myndi vilja. Íslendingar virðast farnir að ferðast meira og ég hef haft töluvert að gera í snúningum og gönguferðum, krakkarnir þurfa sína athygli og umönnun enda ekkert nema endalaus frí og langar helgar hér um þessar mundir. Félagslíf hefur dálítið setið á hakanum, fyrir utan náttúrulega að hafa haft góða vinkonu hjá mér í tíu daga. Hún flaug til Tógó fyrir nokkrum dögum síðan og er búin að hitta litla drenginn sem hún er að ættleiða. Ég fer til þeirra 22. maí og ætla að vera með þeim í rúmar þrjár vikur. Ég hlakka mikið til að fá loksins að koma til Afríku, hef aldrei farið svona langt niður eftir en hins vegar alltaf fundið fyrir Afríkuþrá. Ég hitti mann á föstudaginn, sem fór til Tógó fyrir tveimur árum, hann sagði mér að ég yrði væntanlega svo heilluð að ég myndi eiga erfitt með að koma til baka. Ég hef einmitt verið að spá í að setja börnin og manninn í sprautumeðferðina svona ef ég skyldi hringja og segja þeim að koma frekar til mín en ég til þeirra …

En já. Ég er að skrifa þessa greinargerð. Ég er nánast komin með allt sem ég þarf að segja og vísa í og ræða. Ég veit að ég get þetta. Mig bara skortir tilfinnalega það fullkomna næði sem ég þarf til að setjast niður og ljúka þessu. Ég hef verið að spá í að slökkva á feisbúkk og tölvupósti og öllu í tvo, þrjá daga. En svo er ég einhvern veginn svo sjúklega samviskusöm (gráðug?) að ég get ekki einu sinni sagt nei við nokkrum hlut. Tók m.a.s. eitt stykki lagaþýðingu um daginn, þvert á allar fyrirætlanir um að segja nei við öllum þýðingum. En þetta er að vissu leyti fangelsi free-lance vinnunnar. Að segja nei, getur þýtt að missa kúnnann. Sama með túristana, ef ég segi nei við einni Versalaferð, gæti ég verið að missa tíu aðrar ferðir, þar sem ég byggi á orðspori og nánast engu öðru. Já, það er vandlifað. En samt fáránlega gaman.

Ég veit að nettenging er afar ótrygg í Tógó, en ég vona innilega að ég nái að senda ykkur fréttir af mér hér. Ég verð í Aneho, og mun kynnast starfsemi heimilisins sem Sól í Tógó rekur þar. Við þurfum á einhverjum tímapunkti að fara yfir landamærin til Benin, upp á vegabréfsáritun fyrir hann Tý Theophile og svo verðum við eitthvað í Lomé líka.

Ég sagðist ætla að fljúga í burt frá tímanum. Eitt af því sem heillar mig hvað mest við Afríku, er slökun þeirra gagnvart tímanum. Eins og ég sá einhvern tímann sagt á afrískri sjónvarpsstöð: „Hvíti maðurinn er alltaf með úr, en hefur aldrei neinn tíma.“

Lifið í friði.

Viðbót – auglýsing – Í KVÖLD:

Stefnumótakaffi í Gerðubergi 

Miðvikudagskvöldið 9. maí kl. 20-22, segir Alda Lóa Leifsdóttir frá Tógó í Vestur-Afríku á Stefnumótakaffi í Gerðubergi.
Alda Lóa segir frá kynnum sínum af landi og þjóð og þá sérstaklega tógósku kaupsýslukonunni Mireille (Mírey). Frásögnina styður Alda Lóa með fjölda ljósmynda auk þess sem hún býður gestum upp á heilsudrykkinn Bissap sem bruggaður er úr Hisbiscus blómum. Nánari upplýsingar um dagskrána má nálgast hér.

Á Stefnumótakaffi eiga gestir stefnumót við fólk sem hefur áhugaverða sögu að segja, gjarnan af framandi menningarsvæðum. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.