Archive Page 2

Laugardagur

Ég veit ekki alveg hvernig ég fer að því að gabba sjálfa mig svona, en af því ég þarf ekki að mæta í vinnu í dag fannst mér einhvern veginn eins og ég myndi bara liggja í sófanum með bók og kannski ná að spjalla við einhverja vini sem ég hef dissað undanfarið í síma og svona.

Ég þurfti hins vegar að vakna korter í átta, fara með þrjá snáða í Aïkido, nýta tímann á meðan í að fara á markaðinn og staulast sliguð með matinn í bílinn. Koma drengjunum heim, matnum í skápa og hafa til hádegismat (upphitað af markaðnum). Nú erum við búin að úða í okkur matnum og ég þarf að skutla Sólrúnu í gítar og fara með Kára að kaupa afmælisgjöf, koma honum svo á hljómsveitaræfingu og svo er planið að ég rjúki niður í bæ að sjá íslenska rithöfunda og glæpasögusérfræðing tala um glæpó og Íslendingasögur og svona EF mér tekst að koma krökkunum á einhvern sem getur komið þeim úr tónó, heim að skipta um föt og í afmæli. Og helst líka úr afmæli svo ég þurfi ekki að flýta mér heim.

Dæmigerður næs laugardagur þar sem ég þarf ekki að vinna?

Vinsamlegast athugið að ég er ekki að kvarta, meira bara svona að gera létt grín að sjálfri mér og hversdagnum.

Lifið í friði.

Frakkar eru hræddir við rigninguna

Það verður víst rigning í dag. Ég sem ætlaði að burðast út með hjól krakkanna, pumpa í dekk og smyrja. Hjólin hafa nefnilega ekkert verið tekin út í sumar og það er bara ekki hægt. Í gær var sumar, 23ja stiga hiti og sól. Þá voru krakkarnir lokaðir inni í skólastofu og ég að vinna. Í dag erum við næstum alveg í fríi og þá er rigning. Ég er reyndar jafnvel að spá í að athuga hvort ég geti pumpað Íslendinginn upp í þeim og við bara gefið skít í rigninguna, pumpað í dekkin og smurt keðjurnar og farið í hjólatúr í rigningunni. Kannski er ég sjálf orðin of frönsk, því mér datt þetta ekki í hug fyrr en ég fór að kvarta yfir rigningunni skriflega hér. Þetta er í fjórða eða fimmta skipti á skömmum tíma sem flögrar að mér að ég sé orðin of frönsk. Þarf ég að hafa áhyggjur?

Lifið í friði.

Ég er búin að fá einkunn fyrir mastersritgerð: 9.0. Ég er fullkomlega sátt við þá einkunn. Eiginlega er ég of sátt, mér finnst þau hljóti að hafa verið of góð við mig. Líklega er hún ekki svo góð. Eða hvað? Æ, við skulum ekki dvelja við það. Það er svo margt annað svo mikilvægara í þessum heimi heldur en ein lítil mastersritgerð einnar lítillar konu.

Ég dissa þetta blogg og kenni feisbúkk algerlega um. En stundum er feisbúkk bara ekki málið. Núna til dæmis er klukkan tvö að nóttu og ég ætlaði bara að setja inn lítinn status um hvað það hefði verið gaman og gott að borða góðan mat og skála við góðar vinkonur, en um leið þótti mér einhvern veginn eins og vegið væri að kvöldinu í gær. Af hverju kom enginn status um Leonard Cohen og hvað hann er meiriháttar?

Sem sagt.

Mér datt í hug að gera svona tilraun:

Setja inn status frá í gær, í dag. Setja sem sagt inn í kvöld: OMG LEONARD COHEN ER ENN HJARTABRJÓTUR! Eða þið vitið. Þið sem þekkið mig á feisbúkk vitið hvernig statusinn um tónleika með Leonard Cohen hefði getað litið út. Eða ekki.
Um leið og ég skrifaði eitthvað um að þrátt fyrir aldur væri karlhelvítið enn með allt sem þarf, fattaði ég að vinkona mín sem stóð í ströngu í allan dag við að undirbúa ó, svo velheppnað matarboð kvöldsins, yrði kannski pínu (og það væri alveg réttlætanlegt) svekkt yfir mínum status, hún sjálf rétt búin að taka allt til eftir matarboðið og setja síðustu glösin í uppþvottavélina og sæi svo bara eitthvað um Leonard Cohen?! Ég skil hana svo vel í þessari ímynduðu sitúasjón að ég set tilheyrandi spurningamerki ásamt upphrópunuarmerki, en þetta er hin besta leið til að tjá hneykslan, á eftir þartilgerðum „broskarla“táknum, en sumir broskarlar geta táknað annað en bros, til dæmis alls konar sárindi og sorg.

Sem sagt. Engin tilraun. Það stendur ekkert á feisbúkkveggnum mínum. Það síðasta sem ég setti inn var … eitthvað. Þú verður að fara þangað til að tékka, eins og ég sjálf. Og ef þú ert ekki á feisbúkk lofa ég þér að þú ert ekki að tapa neinu. Þar gerðist ekkert í kvöld. Nema ég lækaði eitt og annað, eins og gengur … þar.

Í kvöld átti ég yndiskvöld með vinkonum mínum. Það er eiginlega þúsund sinnum betra en allt annað. M.a.s. það að klára masterinn. Vinkonur eru bara eitthvað svo mikið … ahhh … (bara svona svo það sé á hreinu eigum við líka vini sem mega alveg vera memm stundum, þessir vinir bara eru ekki í sama landi akkúrat núna)

Lifið i friði.

Skil

Mér finnst bráðnauðsynlegt að tilkynna lesendum mínum (báðum) að ég er að skila af mér Meistararitgerðinni um helgina. Þetta er heljarinnar dútl á lokasprettinum, en ég held ég geti verið nokkuð örugg um að ég fái að útskrifast í vor.

Ég byrjaði í Þýðingafræðináminu árið 2008. Þegar ég innritaði mig í námið, var brjálað að gera hjá mér í ferðabransanum, en ég hafði frétt af þessu námi og ákvað að þetta hlyti að vera eitthvað sem ég ætti að gera. Ég var nefnilega með smá áhyggjur af því að vera í ferðabransanum án þess að hafa til þess nokkra menntun, en ég hef verið bögguð vegna þess, af Íslendingum. Vegna áreitis frá Félagi íslenskra leiðsögumanna tók ég orðið leiðsögn út af vefsíðunni minni. Íslenskir leiðsögumenn með próf í leiðsögn um Ísland þoldu ekki tilhugsunina um litla konu í París að þykjast vera leiðsögumaður. Ég skil að vissu leyti áhyggjur af lögverndun starfsheita en persónulega hef ég fulla trú á því að fólk geti alveg gert hluti mjög vel án þess að fara í gegnum nám. Og mér finnst meira spennandi að leyfa fólki að gera hlutina vel, en að vera að einblína á prófgráður.
En. Semsagt. Einhver sagði mér eitthvað um þýðingafræðin og mér fannst einboðið að skella mér í það nám, svo ég gæti þá alla vega sagst vera með próf þegar ég  tæki að mér þýðingar. Ég var líka með það í huga að kynnast þýðendum á Íslandi, enda finn ég eiginlega best fyrir fjarlægð og einsemd þegar ég er að þýða.

Um haustið 2008 skráði ég mig sem sagt í kúrsa á BA-stigi í íslensku og þrælaði mér í gegnum hljóðfræði, beygingar og orðmyndun og fleira skemmtilegt. Vinum mínum fannst ég snarklikkuð, það væri sko alveg nóg að gera hjá mér þó ég færi ekki að bæta þessu ofan á allt hitt. Börnin voru þá 4 og 6 ára gömul og eins og ég sagði áðan var slatti að gera í ferðabransanum, enda allir í afneitun á að góðærið væri að springa í andlitið á sjálfu sér. Þar til í október. Ég gekk um Mýrina með fjóra Íslendinga þarna rétt í byrjun október. Þau voru í losti yfir verðinu sem vísa setti á bjórkollurnar og eftir að þau komust aftur heim fékk ég enga viðskiptavini í langan, langan tíma. Jú, reyndar kom Hamrahlíðarkórinn síðar í október, en það ferðalag hafði verið skipulagt löngu áður og dagskráin var svo mikil að það hefði verið ömurlegt fyrir þau að hætta við. Ég man hvað það var fríkað að sitja í rútunni og þau öll með nesti, flatkökur og kókómjólk. Ég hafði aldrei fengið viðskiptavini með nesti áður, held ég. Og ég gleymi ekki hvað það var tilfinningaþrungið móment að sjá þau í þjóðbúningum að syngja í Notre Dame. Fulltrúar lands sem var á hausnum, ónýtt. Og þau svo frábær og falleg. Vá, hvað maður var nú bljúgur þá.

Já. Semsagt. Ég hef alltaf sagt að það hafi verið verndarengillinn minn sem leiddi mig til þess að skrá mig í námið. Ég veit ekki hvað hefði orðið um mig þarna í nóvember og desember 2008, ef ég hefði ekki getað legið á kafi í hljóðfræðiverkefnum og fleiru skemmtilegu.

Og þessi örstutta tilkynning er orðin of löng, en nú er ég sem sagt búin. Eða þannig. Þið vitið. Næstum búin. Og í gegnum námið hef ég kannski ekki beint kynnst mörgum samnemendum, þar sem ég var bara með í anda. En þó hef ég komist í samband við nokkra þýðendur, fengið að kynnast frænku minni sem er doktor í íslensku þegar maðurinn hennar kenndi mér einmitt blessaða hljóðfræðina og síðast en ekki síst atti Gauti mér út í að prófa að þýða skáldverk. Og nú eru komnar tvær franskar skáldsögur út í minni þýðingu. Rannsóknin eftir Philippe Claudel þarna 2011 og nú um daginn kom út hin þrælskemmtilega og spennandi bók Í trúnaði eftir Hélène Crémillon. Ég er enn dálítið hissa. Ég hélt í alvöru talað að ég gæti þetta ekki. Þýtt bókmenntir. En mér finnst það meiriháttar gaman og ég vona að ég nái því að fá að þýða amk eina bók á ári héðan í frá.

Í trúnaði

Þegar maður klárar svona verkefni, verða kaflaskil. Nú þarf ég að taka aðeins til hjá mér og finna út úr því hvernig framhaldið verður. Eins og er, bögglast í mér hugmyndin um að halda áfram að vera Parísardaman því það er náttúrulega skemmtilegast af öllu. Þýða eina skáldsögu á ári og verða mér úti um aðeins fleiri nytjaþýðingar, en undanfarið hefur verið ógurlega lítið að gera í þeim. Ég veit samt ekki alveg hvernig ég á að snúa mér í því, allar ábendingar vel þegnar.

Nú ætla ég að halda út í vorið og svei mér ef ég kaupi mér ekki bara ís í dag!

Lifið í friði.

Tau frá Tógó

Tau frá Tógó

Tau frá Tógó er með facebook-síðu, tékkið á henni. Þar fást nú tveir kjólar í þessu sniði sem ég er í, og nokkrir í sniðinu sem Sólrún er í. Þeir heita eftir okkur mæðgum, „Tata Kristín“ og „Sólrún“.

af dauða bloggsins, flösu, fitu og fleiru spennandi

Yfir kaffisopanum í morgun mundi ég allt í einu eftir blogginu mínu. Ég ákvað að fara og tékka og jú, hér situr það enn líkt og það vilji sanna fyrir mér að sumt breytist aldrei. En það er náttúrulega rangt að segja að þetta blogg breytist ekki. Einu sinni var ég mjög dugleg að skrifa um alls konar. Nú skrifa ég aðallega um bloggið sjálft, eða leti mína við að halda því við öllu heldur.

En í morgun fylltist ég allt í einu blogglöngun sem ég varð að bæla niður því nú er ég orðin handboltamóðir ofan á allt hitt og ekki mátti drengurinn mæta of seint á mótið. Ég skal ekkert tala um það að þjálfarinn mætti þremur korterum of seint, og ekki í fyrsta skipti sem okkar lið stendur þjálfaralaust til hliðar meðan hin liðin hita sig upp og eru með alls konar pepp í gangi. Nei nei, ég er svo jákvæð og ánægð með að börnin skuli vilja stunda íþróttir að ég tek öllu svona óskipulagi og vanefndum með jafnaðargeði búddistans. Bara gaman að sitja þarna í óupphituðu íþróttahúsi á hörðum bekk með engu baki, krumpuð að innan og utan, of mikill hávaði til að njóta lesturs hvað þá að skilja hina foreldrana sem hafa aðeins reynt að tala við mig en ég bara get ekki heyrt mælt mál í þessum dæmigerða hljómburði íþróttahúsa.
En nú er ég búin með mömmuskyldurnar, íþróttir og tónlist og búin að ryksuga alla bévítans íbúðina í þokkabót svo ég hlýt að mega sitja hér í sófanum og prófa mig áfram með blogg.

Ungur maður sagði um daginn að bloggið væri dautt. Og bætti svo við að í því væri engin framtíð. Það hentar mér ágætlega, ég hef alltaf gert í því að vera pínu svona eftir á, lummó, það er nefnilega svo artí. Við Egill Helgason og Jónas og nokkur fleiri, við erum rosa svona retró smart. Gott ef ég þyrfti ekki að finna einhverja nýja mynd sem væri meira svona tákn þess hve retró artí ég er, veit samt ekki hversu langt aftur ég ætti að fara. Ef ég hef ritvél, er þá of að hafa hana eldri en ég er sjálf? Væri ekki einhvern veginn lógískara að hafa rafmagnsritvél eins og þá sem ég lærði að vélrita sjúklega hratt á á Pósti og síma? Hún er eflaust afar framandi í augum unga mannsins sem deyddi bloggið, en þegar ég notaði hana, fannst mér ég svakalega mikil nútímakona og mjög fullorðins líka (ég var 16 ára og í næsta herbergi við mig mátti yfirmaðurinn (sem var kona) nota tölvuna okkar, bara svo þið farið ekki að gera mig of gamla, nóg er nú samt). Hmmm, eða er kannski bara nóg að hafa mynd af ketti og lítilli stúlku? Lítilli stúlku sem situr nú hér í sömu stofu og ég, í bol og sokkum af mér (ég tók til í skápnum og gaf henni föt sem ég hef ekki notað lengi), með gleraugu á nefinu, stráhatt á höfðinu og fartölvu í fanginu? Kettir eru dálítið retró og artí, er það ekki?

Æ, nú datt ég úr blogggírnum því ég þurfti að hjálpa henni að finna wordið, stelpunni sem var lítil í gær en er stór í dag. Bara nokkrir molar, örstutt, svona til að þið vitið örugglega allt um mig:

Ég er ekki búin að skila, en þetta er þó eiginlega alveg komið. Það er samt eitthvað þarna sem virkar ekki alveg, það vantar samloðun, lím, ég fann eitthvað um daginn, en var þá auðvitað ekki við tölvu og gat ekki skrifað nema punkta og hef ekki síðan náð að setjast niður og vinna úr þeim. Ég er þó nokkuð ákveðin í að skila þessu á mánudagskvöld. Eða þriðjudagskvöld kannski, því vinkona mín sagðist ætla að lesa yfir þetta og skila mér á þriðjudag.

Ég hef verið að vinna töluvert sem Parísardaman, en það er samt ekki komið 2007 aftur. Það er alltaf fáránlega gaman, en mesta gleðiefnið er að ég hef fengið nokkra skólahópa og það er bara fullt af flottum unglingum að læra frönsku út um allt land. Og unglingar eru bara ekkert agalegir að vera í samskiptum við, síður en svo.

Ég hef fitnað. Ég nenni aldrei út að hlaupa, enda kaldasta vor í hálfa öld og ég hef orðið fyrir frostsskemmdum undanfarið. Ég borða líka óheyrilega mikið og súkkulaðiátið um páskana hefur aldrei verið jafn svaðalegt. Ég er orðin aðeins pirruð á þessu núna, þetta er aðeins of mikið af því góða. Verður tekið á þessu … á morgun, hehe.

Ég get ekki ákveðið mig með hvað ég á að kjósa. Mér er skapi næst að sleppa því en ég er svo illa (eða vel) upp alin að ég held ég hafi ekki taugar í það. Ekki heldur að skila auðu. Ég veit nákvæmlega hvaða flokka ég vil ekki kjósa, en hika alvarlega milli tveggja. Ég er eiginlega búin að ákveða að láta ekki uppi hvað ég kýs á endanum, þvert á venju mína. En ég ákveð oft að segja ekki frá einhverju og brýt það svo. Ég er svoddan blaðra.

Ég er með flösu. Mjög mikla flösu og henni fylgir kláði. Það er sama ástæða fyrir henni og að ég fitna. Ritgerðarstressið er að fara með mig. Ég er orðin nógu biluð til að halda að þegar ég skila ritgerðinni verði allt einhvern veginn öðruvísi. Gott ef ég held einmitt ekki að ég verði grennri og ekki með flösu og íbúðin alltaf tandurhrein og ég alltaf tilbúin með matinn þegar maðurinn minn kemur heim og svona.

Það verða framkvæmdir á íbúðinni í byrjun maí. Vinur okkar, arkitekt, gaf okkur teikningu og nú fer allt á fullt. Fyrsta skrefið verður svaka bókaherbergi/sjónvarp/sófi/skrifborðin okkar. Svo, kannski ekki fyrr en í haust, verður eldhúsið flutt hingað fram í fremri stofuna og við græðum eitt stykki herbergi svo börnin þurfa ekki lengur að vera saman. Þetta er bæði gaman og hrikalega stressandi. Ég er byrjuð að fara í gegnum dót og píni mig til að henda. 21. apríl verðum við með bás á flóamarkaði og ég er að reyna að sannfæra sjálfa mig um að selja alls konar húsgögn sem ég mun þó eiga mjög erfitt með að selja. Kannski ætti ég að taka myndasyrpu og spyrja ykkur álits. Bloggarar (sem eru eina fólkið sem les blogg, utan nokkra furðufugla í viðbót) eru oft svo góðir með að gefa ráð. Sé til hvort ég nenni því.

En nú ætla ég að hætta, þetta er orðið allt of langt. Hver nennir að lesa svona bull? Ekki nenni ég að renna yfir þetta aftur!

Lifið í friði.

þyrill og þvaður

Nú er ég byrjuð að vinna af alvöru við að koma mér í að klára … þið vitið … Ég er samt ekki komin nógu langt í að vera byrjuð til að geta skrifað orðið. Ég get sagt það upphátt, þó röddin í mér verði alltaf aðeins rámari því hálsinn herpist pínulítið saman þegar ég segi það.

Dramatík? Jájá, það má stundum.

Um daginn kom hingað arkitekt og rissaði upp hugmynd að breytingum á íbúðinni til að úr henni verði þrjú svefnherbergi ásamt því að finna geymslupláss fyrir bókastafla bóksalans, sem eru mér stundum til svo mikilla andlegra trafala að ég yfirfæri þá á allt sem angrar mig (eða er það öfugt? yfirfæri ég allt sem angrar mig yfir á þá?). Stundum verð ég nógu klikkuð til að halda að bara ef ég losna við þessa stafla, verði allt annað betra. Um leið veit ég að þetta er klikkun og veit að þörfin fyrir að geta stundum sest niður í spikk og span rými er ekkert nema smáborgaralegheit.
Mig langar mikið til að gera þessar breytingar og reyni að ímynda mér að þá munum við alltaf setja allt á sinn stað (arkitektinn benti okkur vinsamlega á að það væri ekki nóg að gera geymslupláss, það væri vissulega á okkar ábyrgð að ganga frá í hvert skipti, frekar mikið góður punktur). Ah, væri gaman að lifa þá? Eða á maður bara að búa áfram í ruslahaug og láta krakkana vera saman í herbergi og ekkert vesen?
Eða á maður bara að selja þessa íbúð sem hefur nánast tvöfaldað sig í verði síðan við keyptum hana og kaupa síðan stórt hús einhvers staðar úti á víðavangi, langt frá metró, langt frá tónlistarskólanum, langt frá París? Svara þessar spurningar sér sjálfar? Er mér hollt að vera að hugsa um þetta akkúrat þessar vikur sem ég ætla mér í að klára … þið vitið …? Nei, líklega ekki. Sumt er ágætt að leggja á ís og láta gerjast áður en það er vaðið í framkvæmdir.

Er möguleiki að vera mamma og eiginkona og starfandi við hitt og þetta og svona, án þess að verða smáborgari? Svör óskast send, merkt róttæk 2013.

Ég las annars Ósjálfrátt, sem var eina bókin sem ég fékk í jólagjöf. Alla vega eina íslenska bókin. Mikið rosalega óskaplega agalega fannst mér hún góð. Fyndin en samt einhvern veginn ótrúlega sönn og næstum hversdagsleg. Snilldartaktar hjá Auði Jónsdóttur. Æ, ég má nota svona lummulegt orðalag, ég er enginn alvöru gagnrýnandi eða neitt svoleiðis.

Svo hef ég líka undanfarið lesið Allt er ást eftir Kristian Lundberg, í þýðingu Þórdísar Gísladóttur og Góða nótt yndið mitt eftir Dorothy Koomson, í þýðingu Höllu Sverrisdóttur. Báðar mjög góðar. Allt er ást er miklu meiri „bókmenntahevíbók“, Góða nótt er meira svona eins og að horfa á fína afþreyingarmínísjónvarpsseríu. Báðar bækurnar eru svo svakalega vel þýddar að ég fer alveg hjá mér að þykjast geta þýtt sjálf.

Ég er búin að ákveða að skrifa alltaf hingað inn bækurnar sem ég les (sko skáldsögur, ég nenni varla að ræða fræðiritin, nema kannski jú þegar ég hendi mér í gömlu doðrantana frá aldamótum 1900, Les femmes (Konur) sem ég fékk í afmælisgjöf og hef ekki enn haft tíma til að lesa að ráði, bara „skoðað myndirnar“. Það verður kannski hvati á að skrifa oftar, því jú, maður er nú alltaf lesandi þó maður nenni engu öðru.

Lifið í friði.

Áramót

Mér finnst ég þurfa að koma með nokkra áramótapunkta – ég er enn skuldbundin þessu bloggi þó það sé í andaslitrunum.

Ég held ég hafi þroskast dálítið, þetta ár hefur verið viðburðaríkt og ég hef tekist á við hluti sem ég hefði þurft að gera mun fyrr. Ég hef leyft mér að vera sorgmædd og jafnvel reið, hef áttað mig á hvernig hlutir úr fortíðinni geta haft áhrif án þess að maður sé endilega meðvitaður um það og hef náð að sleppa taki af óþarfa böggum sem ég bar með mér. Já, sorrí, ég veit að þetta gagnast engum nema sjálfri mér, ég get ekki verið opinskárri en þetta.

Hápunktur ársins er líklega ferðin til Tógó, og fá að kynnast þar alvöru fátækt og sjá með eigin augum að hægt er að takast á við fátækt með stolti. Þetta hefur legið á mér síðan og ég á enn erfiðara með að hlusta á væl um blankheit og kreppu en áður. Samt væli ég sjálf um blankheit og vorkenni mér stundum, svona er maður nú klikkaður og ófullkominn. En kannski næ ég að vinna úr þessu líka og verða eitthvað betri. Ég þarf samt meira en hálft ár til þess. Maður er svo flæktur í þetta neysluhyggju-gerviþarfanet að þó maður viti að það sé rangt getur maður ekki losað sig svo auðveldlega. Nú finnst mér ég vera komin á hála braut slepjunnar. Bið forláts.

Ég man ekki hvort það var um síðustu eða þarsíðustu áramót sem ég lofaði sjálfri mér því að dansa meira og syngja. Mér hefur gengið alveg ágætlega að standa við það, en ég fór samt ekki nógu oft á karókístaði þetta árið. Það þarf að laga 2013. En nýlega fór ég í partý þar sem húsráðandi var kominn með plötuspilara og allar gömlu plöturnar. Við dönsuðum og sungum til sex um morguninn. Þá kom vesalings nágranninn upp og bað okkur um að gefa sér tveggja tíma svefn áður en hann þyrfti í vinnuna. Við vorum hálf lúpuleg og flissuðum skömmustulega þegar við kvöddumst, en ég var í góðu skapi í marga daga eftir þessa nótt. Það er pottþétt fátt hollara en að dansa og syngja með góðum vinum.
Verst að ég er sjálf sjúklega hrædd við nágrannana mína. Þau eru bestu skinn, herra og frú Sinnep hér fyrir neðan, en þau myndu nú samt ekki leyfa okkur að dansa óáreitt til sex að morgni. Líklega ekki mínútu fram yfir miðnætti. Sjálf hef ég held ég aldrei stoppað partý, mér finnst m.a.s. bara pínu gaman að sofa hálfilla þegar ég heyri í fólki skemmta sér og dansa einhvers staðar nálægt. Ég held að heimurinn geti orðið betri ef fólk sleppir aðeins af sér þessum hömlum með að hafa ekki of hátt og hristir sig dálítið meira. Og þá verð ég aftur næstum slepjuleg, en held samt ég hafi náð að stoppa í tæka tíð.

Ég náði að halda mér í svipaðri þyngd og áður. Ég borða frekar mikið og oft alveg hrikalega fitandi mat. Ég drekk líka áreiðanlega meira áfengi en margir aðrir. En ég passa mig á að fara reglulega í leikfimi og út að hlaupa þegar ég nenni og get, ég hjóla dálítið og leik mér að því að sleppa rúllustigum og slíku þegar sá gállinn er á mér. Engar öfgar, en sukkjöfnun er höfð að leiðarljósi. Eitt af því sem ég hef þó náð að laga heilmikið hjá mér, er að hætta að hafa áhyggjur af mýkt bumbunnar minnar. Jólakjóllinn minn felur hana til dæmis bara ekki neitt og mér er slétt sama. Þessi kjóll hefur vakið mikla hrifningu, ég þarf að athuga hvort það sé nokkuð til mynd af mér í honum og sýna ykkur, hann er ekkert smá fallegur.

Börnin mín eru frábært fólk. Þau eru til fyrirmyndar í skólanum, vinmörg, skemmtileg og fá góðar einkunnir. Þau eru fordekruð, fengu slíka ofgnótt jólagjafa að ég hef verið með nettan brjóstsviða. En ég hef ákveðnar hugmyndir um að reyna að stöðva þetta á næsta ári og fá að ráða því að peningurinn fari í eitthvað annað og gagnlegra en meira dót.

Á þessu ári urðu nokkur svipleg dauðsföll í kringum mig. Ég man að í lok 2011 tilkynnti ég vinkonu að ég myndi ekki þola meira af dauðsföllum og að þetta yrði betra 2012. Ég er hreinlega ekki alveg viss hvort það hafi gengið eftir. Að vísu missti ég ekki jafn nána vini og þá, en samt hefur þetta verið ógurlega erfitt á köflum. Líklega er þetta bara hluti af því að vera að verða miðaldra … Það var einmitt hluti af þroskaferlinu að leyfa mér að vera virkilega sorgmædd og ósátt við dauðann um tíma. Ég er komin á þá skoðun að maður bara megi alveg vera það og mér líður mun betur en þegar ég þykist vera sterk. Um leið finnst mér það styrkja mig að líða betur.

Jæja, nú er ég búin að sitja hér við í tja, klukkutíma eða því sem næst. Ýmislegt var ritað en strikað út. Ég nenni ekki að lesa yfir þetta aftur og veit hreinlega ekki enn hvort ég birti þetta. Ef svo fer, þá óska ég mínum fáu lesendum innilega gleðilegs árs 2013, megi það verða ár dans og söngs, kátínu og súkkulaðis.

Lifið í friði.

Blogg fyrir þá sem laumulega hafa fyllt mig samviskubiti með því að kvarta almennt yfir fækkun virkra blogga

Það er liðinn rúmur mánuður síðan síðast! Og ég er orðin ári eldri!

Ég er ekkert hætt að blogga, það er bara bloggið sem er hætt með mér. Eða eitthvað. Eða ekkert. Ég veit það eiginlega ekki. Veit ekki hvað ég ætla mér að gera. Um daginn var ég næstum því búin að loka þessari síðu, láta hana hverfa. En svo gat ég það ekki. Þessi síða er fáránlega mikill hluti af mér.

Um daginn ræddi ég við konu sem sagði mér að stundum titlar hún sig „writer“ þegar hún er spurð hvað hún gerir. Hana langar í raun til að skrifa, en hefur samt ekki látið af því verða. Pabbi minn trúir því statt og stöðugt að ég eigi að skrifa bók. En ég get ekkert bara sest niður og skrifað bók. Bókin verður að vera um eitthvað. Og þá um hvað? Ég held að ég sé aðallega hrædd við að lenda í því sama og ég óttast stundum hér (og á feisbúkk) ég get aldrei annað en verið rosalega persónuleg og hreinskilin. Jújú, mér tekst auðvitað að leyna ykkur ýmsu. Mentir par omission. Ljúga með því að þegja. En samt …

Alla vega kemur bráðum út bók í þýðingu minni. En ekki strax samt. Eitthvað svona markaðsútreiknað dæmi sem ég er ágætlega sátt við. Það geta ekki allir sigrað í jólabókaflóðinu. Sem er nú byrjað. Og ég er búin að kaupa eina jólagjöf (í viðbót við það sem var keypt í Tógó til að stinga í pakka). Þetta var útúrdúr.
Ég tek sjaldan þátt í jólabókaflóðinu sem virkur lesandi. Hef í mörg ár verið of mikill námsmaður og eiginlega bara alltaf of fátæk til að geta leyft mér að kaupa nýútkomið. Kjöt af nýslátruðu er fyrir fínna fólk en mig. Getur alveg verið frústrerandi en að vissu leyti samt ágætt. Jólabókaflóðið er náttúrulega rugl. Gamal stöffið er oft alveg nógu gott fyrir mann. Ég las einmitt La vie devant soi (til á íslensku Lífið framundan, þýð. Guðrún Finnbogadóttir) um daginn. Í þriðja skiptið. Hrikalega er það nú góð bók. Ég les annars lítið af skáldsögum, þannig. Því ég þykist vera að fræðast. En það er einmitt mál sem ég lýg um með þögn. Uss!

Lifið í friði.

Trouvailles V

Um daginn gortaði ég hástöfum af frábærum markaði í Frakklandi. Ég mæli innilega með ferð til Frakklands með viðkomu á mörkuðum en ekki má heldur gleyma að á Íslandi er fullt af meiriháttar stöðum þar sem hægt er að gera afar góð kaup. Góði hirðirinn, Samhjálp og fleiri eru með litlar búðir víðsvegar um borgina en uppáhalds, algerlega uppáhalds markaðurinn minn er þó alltaf búð þeirra Dísu og Betu á netinu, Eigulegt. Þær hafa ótrúlega næmt auga og það er nánast ómögulegt að finna þýskt og hvað þá skandínavískt á mörkuðum í Frakklandi. Skandínavísk hönnun er orðin þvílík lúxusvara hér að það er nánast ómögulegt að finna gersemar þaðan á verði nískupúkans sem ég er. Þær á Eigulegt eru hins vegar sjúklega miklir hippar og verðleggja hlutina þannig að fólk með blæti getur alveg sleppt sér ansi reglulega.

Sem ég sumsé gerði á dögunum, því rétt eftir að ég hafði stillt hér upp minni íðilfögru skál á fæti, rakst ég á eina frá Funa á eigulegt. Mér fannst þetta vera þannig að ég bara yrði að taka áskoruninni um að leyfa Norðri og Suðri að hittast. Og hér sést hvað þær fara vel saman, hvað franska skálin unir sér vel þarna við hliðina á alls konar íslenskum eðalgripum (ég er búin að sannfæra mömmu um að svona gripir séu fullkomin fjárfesting og að þetta „dót“ muni borga elliheimilið fyrir börnin mín).

Íslenskt knúzar franska skál

Aftast á myndinni má sjá Birki-snafs, sem fagur hópur reykvískra kvenna gaf mér um daginn. Hef ekki enn smakkað, en það er bara því ég er svo þæg akkúrat núna, ég hlakka mikið til að prófa.

Þegar ég pantaði og borgaði fyrir skálina á fæti, fylgdi þessi líka fíni rauði vasi með í kaupbæti, en hann er víst smá skörðóttur þó ég sjái það nú reyndar varla sjálf. Ég var nú ekkert að biðja um hann, en honum hafði verið stungið með í pakkann til Parísar. Hér má sjá hvað vel fer á með honum og þessum sem ég sníkti út úr móður minni um jólin.

Annar kom með Icelandair, hinn með WOW

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha