Archive Page 3

Tíminn og Afríka

Það mætti eiginlega segja að ég hafi beðið um þetta sjálf, með einhverju rómó-nostalgísku tali um tímann og Afríku. Því nú er svo komið að ég sit hér á föstudagskvöldi með breyttan flugmiða, fer sumsé til Tógó á sunnudaginn. Núna á sunnudaginn.

Í raun er þetta mjög gott, ég fann alveg að ég var hálfvegis farin með vinkonu minni, það var erfitt að kveðja hana og vita af henni einni þarna niður frá. Það var einfaldlega ekki rétt. Þó að ég sé með óvanalega háværan són í eyranu og pínulítið stressuð yfir því að vegabréfsáritunin mín miðar við 22. maí, er ég fullkomlega sátt við að setja ritgerðarsmíðar á bið. Úrið verður sett upp þegar ég kem til baka. Hvenær sem það verður.

Fylgist spennt með frásögnum af ferðum mínum, sendið mér góða strauma, ég þarf á því að halda.

Lifið í friði.

Tógóferð

Hér er ekki mikið lífsmark, enda er ég í miklu kappi við tímann þar sem ég á nokkur verkefni ókláruð áður en ég flýg á brott frá honum og öllu öðru þann 22. maí.

Ég ætlaði mér að skila fullgerðri MA-greinargerð áður en ég færi og vera komin með góða hráþýðingu á skáldsögu. Mér gengur ekki alveg eins vel að komast áfram eins og ég myndi vilja. Íslendingar virðast farnir að ferðast meira og ég hef haft töluvert að gera í snúningum og gönguferðum, krakkarnir þurfa sína athygli og umönnun enda ekkert nema endalaus frí og langar helgar hér um þessar mundir. Félagslíf hefur dálítið setið á hakanum, fyrir utan náttúrulega að hafa haft góða vinkonu hjá mér í tíu daga. Hún flaug til Tógó fyrir nokkrum dögum síðan og er búin að hitta litla drenginn sem hún er að ættleiða. Ég fer til þeirra 22. maí og ætla að vera með þeim í rúmar þrjár vikur. Ég hlakka mikið til að fá loksins að koma til Afríku, hef aldrei farið svona langt niður eftir en hins vegar alltaf fundið fyrir Afríkuþrá. Ég hitti mann á föstudaginn, sem fór til Tógó fyrir tveimur árum, hann sagði mér að ég yrði væntanlega svo heilluð að ég myndi eiga erfitt með að koma til baka. Ég hef einmitt verið að spá í að setja börnin og manninn í sprautumeðferðina svona ef ég skyldi hringja og segja þeim að koma frekar til mín en ég til þeirra …

En já. Ég er að skrifa þessa greinargerð. Ég er nánast komin með allt sem ég þarf að segja og vísa í og ræða. Ég veit að ég get þetta. Mig bara skortir tilfinnalega það fullkomna næði sem ég þarf til að setjast niður og ljúka þessu. Ég hef verið að spá í að slökkva á feisbúkk og tölvupósti og öllu í tvo, þrjá daga. En svo er ég einhvern veginn svo sjúklega samviskusöm (gráðug?) að ég get ekki einu sinni sagt nei við nokkrum hlut. Tók m.a.s. eitt stykki lagaþýðingu um daginn, þvert á allar fyrirætlanir um að segja nei við öllum þýðingum. En þetta er að vissu leyti fangelsi free-lance vinnunnar. Að segja nei, getur þýtt að missa kúnnann. Sama með túristana, ef ég segi nei við einni Versalaferð, gæti ég verið að missa tíu aðrar ferðir, þar sem ég byggi á orðspori og nánast engu öðru. Já, það er vandlifað. En samt fáránlega gaman.

Ég veit að nettenging er afar ótrygg í Tógó, en ég vona innilega að ég nái að senda ykkur fréttir af mér hér. Ég verð í Aneho, og mun kynnast starfsemi heimilisins sem Sól í Tógó rekur þar. Við þurfum á einhverjum tímapunkti að fara yfir landamærin til Benin, upp á vegabréfsáritun fyrir hann Tý Theophile og svo verðum við eitthvað í Lomé líka.

Ég sagðist ætla að fljúga í burt frá tímanum. Eitt af því sem heillar mig hvað mest við Afríku, er slökun þeirra gagnvart tímanum. Eins og ég sá einhvern tímann sagt á afrískri sjónvarpsstöð: „Hvíti maðurinn er alltaf með úr, en hefur aldrei neinn tíma.“

Lifið í friði.

Viðbót – auglýsing – Í KVÖLD:

Stefnumótakaffi í Gerðubergi 

Miðvikudagskvöldið 9. maí kl. 20-22, segir Alda Lóa Leifsdóttir frá Tógó í Vestur-Afríku á Stefnumótakaffi í Gerðubergi.
Alda Lóa segir frá kynnum sínum af landi og þjóð og þá sérstaklega tógósku kaupsýslukonunni Mireille (Mírey). Frásögnina styður Alda Lóa með fjölda ljósmynda auk þess sem hún býður gestum upp á heilsudrykkinn Bissap sem bruggaður er úr Hisbiscus blómum. Nánari upplýsingar um dagskrána má nálgast hér.

Á Stefnumótakaffi eiga gestir stefnumót við fólk sem hefur áhugaverða sögu að segja, gjarnan af framandi menningarsvæðum. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Lolita

Hér er frábær grein um Lolitu e. Nabokov. Ég man vel eftir því hvernig mér leið þegar ég las bókina (sem ég veit nú að ég verð að endurlesa). Ég féll í gildruna um tíma, vorkenndi karlhelvítinu, en áttaði mig svo og kalt vatn rann mér milli skinns og hörunds.

Lifið í friði.

fauskar fúska

Nýlega varð ég fyrir því að kalla mætan mann fausk eftir að sá hafði skrifað pistil um unga tónlistarkonu í víðlesið blað. Þessi litli pistill gekk allur út á að tónlist unga fólksins væri óþolandi og ekki á hlustandi. Ég nenni ekki að finna hann aftur, hann var mjög ómerkilegur í raun og veru, bara einn af þúsund stuttum hugleiðingum venjulegs fólks í venjulegu blaði. Oft koma rosalega góðar hugleiðingar út úr þessum skrifum en þó mun oftar er þetta bara svona loftbóla sem springur og gleymist óðara. Og í raun finnst mér ekkert að því að afhjúpa hvað maður getur stundum verið mikið gamall fauskur eða smáborgari eða hvað sem maður er þá og þá stundina. Ég meinti þetta sumsé alls ekki illa, mér fannst þetta eiginlega pínu fyndið. Og mér krossbrá þegar maðurinn „lækaði“ þessa athugasemd mína, sem var slegið fram á facebokk síðu einhvers allt annars, sem ég hafði ekki hugmynd um að hefði þennan mann á vinalista sínum. En ég jafnaði mig strax, enda bjóst ég við að með því að læka mig, væri hann að sýna að hann skildi tóninn í mér.
Síðan þá hef ég tvisvar séð hann nota þetta orð um sig eða sumsé til að segja hvað aðrir segja um hann. Í hvert skipti krossbregður mér aftur, ég er nefnilega frekar viðkvæm fyrir því að lenda í að særa fólk, og forðast það í lengstu lög. Nú hef ég á tilfinningunni að ég hafi sært hann, að þetta sitji í honum og ég velti því stundum fyrir mér að skrifa honum persónulega og biðjast afsökunar. En um leið, þá stend ég reyndar með því sem ég sagði, þetta var voðalega fauskalegt nöldur í honum. Og svo er ég líka aldrei alveg viss um hvort hann er ekki einmitt að gantast dálítið með þetta sjálfur. Það er þetta með kaldhæðni og húmor á internetinu. Hrikalega flókið stundum.

En ég ætlaði ekkert að tala um þetta fauskadæmi, það bara hrökk upp úr mér alveg óvart. Ég ætlaði nú bara að segja að mér finnst nett fyndið að það skuli reynt að nota slagsmál þá 22ja ára sambýlismanns forsetaframbjóðenda til að valda henni skaða. Þetta held ég að sé hámarksfauskun. Að ekki sé talað um hversu ógurlegt fúsk þetta var nú líka. Mín hló.

Lifið í friði.

Garðurinn allur að koma til

ImageImageImage

 

Lifið í friði.

Meira grænt

Betri mynd af grænu

Grænt og bækur

Grænt og bækur

Grænt og bækur

rammur tepoki

Stundum líður mér eins og að þegar ég komi að tjá mig á blogginu, sé það svona eins og þegar ég fer út í garðinn minn. Bloggið, sem einhvern tímann áður var vettvangur fyrir öskur og óp um allt sem miður fór og átti að laga er núna bara svona kósí horn fyrir mig til að prjóna hugleiðingar eða bara ekki neitt. Bara vera.

Garðurinn minn lofar hvílíkt góðu. Moltan frá því í fyrra lítur vel út, Jósep (á ég ekki eftir að segja frá Jósep sem ég lánaði helminginn af garðinum?) gerði svaka fínan kassa sem ég ætla að nota fyrir jarðarberjaplöntur, búin að koma honum fyrir og blanda moldu í hann. Ég ætla að reyna að finna rabbarbara (hef hvergi séð í búðunum) og er búin að sá fyrir fullt af tómatplöntum, gúrkum, baunum og kryddi og alls konar. Ég er með þetta hér um alla íbúð og læt oggulitlar plönturnar dilla sér samkvæmt ráðum Alnetsins með því að snúa pottunum svo plönturnar snúi sér í leit að birtu – þetta kallast spírunarbootcamp á heimilinu og krökkunum finnst þetta óborganlega skemmtilegt.

Mikið óskaplega sakna ég Gunnars Hrafns þegar ég skrifa Alnetið. Hann var sá eini sem skildi húmorinn, eða alla vega sá eini sem kommenteraði á þá orðanotkun. Hann efaðist fyrst, en fór svo að nota það sjálfur, enda er Alnetið eitthvað svo fullkomið orð yfir netið. Mikið óskaplega getur maður saknað. Og mikið ógurlega er það nú stundum eiginlega bara vont. Systir hans sagði mér að hún reyndi stundum að taka helluna sem hún bæri stöðugt í fanginu og setja hana á bakið, það létti burðinn. Ég reyni að hugsa eins. Og nú er ég búin að nota orðið Alnet aftur. Hef strikað það út hingað til, því það var bara of sárt. Kannski er ég búin að taka skref. En ég veit líka að þó ég taki skref, er söknuðurinn engu minni. Já, er ekki bloggið örugglega bara kósí og ég að tala við sjálfa mig og vini?

Lifið í friði.

Flandur um París – á Seltjarnarnesi!

Í gær var opnuð ljósmyndasýning Einars Jónssonar í bókasafni Seltjarnarness, á Eiðistorgi, fyrir ofan Hagkaup.

Einar Jónsson er „hirðljósmyndari“ Parísardömunnar og skrifaði ég litla hugleiðingu í sýningaskrána. Sýningin stendur yfir til 30. mars og er opin alla virka daga. Sýningin er með feisbúkksíðu.

Lifið í friði.

Vorið sem er að koma – vígvöllur sem þarf knúz

Það er alveg að koma vor hér í París. Í Jardin des Plantes voru það reyndar ekki blóm sem mynduðu bleika litinn á gamla kirsuberjatrénu úr fjarlægð, heldur glænýir sprotar sem höfðu yfir sér bleika slikju. En við sáum að ekki væri langt í að brumið færi að springa út. Og á feisbúkk sé ég að ég talaði um bleiku blómin í götunni minni 11. mars í fyrra, en þá höfðu þau gulu forsythiurnar glatt mig í u.þ.b. viku. Þetta hlýtur allt að fara að koma. Alla vega er orðið mjög hlýtt og það angar allt af vori.

Ég skrapp út í garðinn minn, skoðaði og spekúleraði og ætla að hefja spírun fræja vonandi í þessari viku. Það verður gert hér heima, enda með afbrigðum heitt í sólríkri íbúðinni. Þar sem við förum ekki til Íslands í sumar, stefni ég á hörkuræktun þetta árið. Ég ætla að reyna að koma upp rabbabarabeði, en ég er ekki viss hvernig það er gert. Get ég farið og sníkt afleggjara hjá öðrum eða þarf ég að sá? Kemur í ljós…

Ég hef ekkert komist að ráði áfram í ritgerð. Er byrjuð að þýða aðra skáldsögu, ritstjórnarstarfið á knúz.is tekur slatta tíma ásamt því að nú er skólafrí (2 vikur) og mér finnst ég verða að sinna krökkunum og gera alls konar með þeim, milli þess sem ég leiði ferðalanga um torg og garða. Ritgerðin mallar samt þarna inni í mér og bíður þess að fá að brjótast út. Ég sver. Ég lofa. Og ég treysti því að um leið og það gerist, hverfi hálsbólgan sem hefur mallað í mér undanfarið. Komið og farið. Með slími eða án. Með verkjum eða án.

Annars má segja internetið hafi breyst í vígvöll í gær. Ég nenni ekki að skrifa um það, annað en að ég dáist að þoli þeirra sem leggja til atlögu gegn kvenhatri, sem mörgum virðist þykja algerlega réttmætt og jafnvel bara hið besta mál. Af hverju má almennt níða konur niður? Af hverju þykir brandari eins og þessi fyndinn: „Hvað þarf marga svertingja til að skúra fótboltavöll? Engan, konan getur bara gert það!“ Hvað er að? Af hverju virðast jafnvel ungir karlmenn vera algerar karlrembur (ég nenni ekki að fjalla um fauskana, þeir geta átt sig)?

Lifið í friði.