þyrill og þvaður

Nú er ég byrjuð að vinna af alvöru við að koma mér í að klára … þið vitið … Ég er samt ekki komin nógu langt í að vera byrjuð til að geta skrifað orðið. Ég get sagt það upphátt, þó röddin í mér verði alltaf aðeins rámari því hálsinn herpist pínulítið saman þegar ég segi það.

Dramatík? Jájá, það má stundum.

Um daginn kom hingað arkitekt og rissaði upp hugmynd að breytingum á íbúðinni til að úr henni verði þrjú svefnherbergi ásamt því að finna geymslupláss fyrir bókastafla bóksalans, sem eru mér stundum til svo mikilla andlegra trafala að ég yfirfæri þá á allt sem angrar mig (eða er það öfugt? yfirfæri ég allt sem angrar mig yfir á þá?). Stundum verð ég nógu klikkuð til að halda að bara ef ég losna við þessa stafla, verði allt annað betra. Um leið veit ég að þetta er klikkun og veit að þörfin fyrir að geta stundum sest niður í spikk og span rými er ekkert nema smáborgaralegheit.
Mig langar mikið til að gera þessar breytingar og reyni að ímynda mér að þá munum við alltaf setja allt á sinn stað (arkitektinn benti okkur vinsamlega á að það væri ekki nóg að gera geymslupláss, það væri vissulega á okkar ábyrgð að ganga frá í hvert skipti, frekar mikið góður punktur). Ah, væri gaman að lifa þá? Eða á maður bara að búa áfram í ruslahaug og láta krakkana vera saman í herbergi og ekkert vesen?
Eða á maður bara að selja þessa íbúð sem hefur nánast tvöfaldað sig í verði síðan við keyptum hana og kaupa síðan stórt hús einhvers staðar úti á víðavangi, langt frá metró, langt frá tónlistarskólanum, langt frá París? Svara þessar spurningar sér sjálfar? Er mér hollt að vera að hugsa um þetta akkúrat þessar vikur sem ég ætla mér í að klára … þið vitið …? Nei, líklega ekki. Sumt er ágætt að leggja á ís og láta gerjast áður en það er vaðið í framkvæmdir.

Er möguleiki að vera mamma og eiginkona og starfandi við hitt og þetta og svona, án þess að verða smáborgari? Svör óskast send, merkt róttæk 2013.

Ég las annars Ósjálfrátt, sem var eina bókin sem ég fékk í jólagjöf. Alla vega eina íslenska bókin. Mikið rosalega óskaplega agalega fannst mér hún góð. Fyndin en samt einhvern veginn ótrúlega sönn og næstum hversdagsleg. Snilldartaktar hjá Auði Jónsdóttur. Æ, ég má nota svona lummulegt orðalag, ég er enginn alvöru gagnrýnandi eða neitt svoleiðis.

Svo hef ég líka undanfarið lesið Allt er ást eftir Kristian Lundberg, í þýðingu Þórdísar Gísladóttur og Góða nótt yndið mitt eftir Dorothy Koomson, í þýðingu Höllu Sverrisdóttur. Báðar mjög góðar. Allt er ást er miklu meiri „bókmenntahevíbók“, Góða nótt er meira svona eins og að horfa á fína afþreyingarmínísjónvarpsseríu. Báðar bækurnar eru svo svakalega vel þýddar að ég fer alveg hjá mér að þykjast geta þýtt sjálf.

Ég er búin að ákveða að skrifa alltaf hingað inn bækurnar sem ég les (sko skáldsögur, ég nenni varla að ræða fræðiritin, nema kannski jú þegar ég hendi mér í gömlu doðrantana frá aldamótum 1900, Les femmes (Konur) sem ég fékk í afmælisgjöf og hef ekki enn haft tíma til að lesa að ráði, bara „skoðað myndirnar“. Það verður kannski hvati á að skrifa oftar, því jú, maður er nú alltaf lesandi þó maður nenni engu öðru.

Lifið í friði.

4 Responses to “þyrill og þvaður”


 1. 1 Guðrún C. Emilsdóttir 18 Jan, 2013 kl. 11:27 f.h.

  Áfram Kristín með þú veist … ! Um hvað er þú veist aftur … og hjá hverjum ertu hjá í þú veist … ?

  Æ, veistu ég bý í 120 fm íbúð og við erum 3, stundum 4. Fyrir utan stofu, eldhúss, borðstofu sem eru í einu rými og baðherbergis höfum við fjögur herbergi til afnota. Tvö þeirra eru svefnherbergi og hin notum við sem vinnuherbergi. Auk þess er kompa í kjallaranum – sem sagt nóg pláss. Samt er allt í drasli hér og ég pirra mig á hverjum degi, mismikið þó, á þessum og hinum staflanum af blöðum, dóti, pappírum o.s.frv. Held að það hafi lítið með stærð íbúðar að gera. Þegar fólk kemur svo í heimsókn, þá segir það oftast að íbúðin sé kósí … held að draslið hafi þar mikið að segja 😉 Ætli þetta sé ekki spurning um viðhorf eða að við látum spikk og span myndir úr blöðum og sjónvarpi hafa alltof mikil áhrif á okkur … Hef þó mikið lagast með árunum og er orðin næstum því sátt við draslið mitt 😉

 2. 2 ella 18 Jan, 2013 kl. 1:12 e.h.

  Ég gaf það út skýrt og skilmerkilega hérna heima hjá mér að mig langaði í Ósjálfrátt í jólagjöf og það dugði. Ég var mjög ánægð með það.

 3. 3 Kristín 19 Jan, 2013 kl. 9:33 f.h.

  Ég steingleymdi að taka fram að það er svo fín nálgun í Ósjálfrátt á drasli og hvað það skiptir litlu máli. Yndislegt þegar hún segist vera að skrifa ofan á þvottahrúgunni. Drasl er kósí 🙂

 4. 4 Glúmur Gylfason 25 Jan, 2013 kl. 12:57 f.h.

  Sama hvað Daman skrifar um – textinn verður nammilesning


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: