Ég átti nokkra náðuga daga í Normandí sem er dásamlegt hérað. Það var gott fyrir höfuðið að komast aðeins niður að sjó. Mig langar dálítið mikið að flytja út í sveit og þá helst einhvers staðar frekar nærri sjó en samt með garð þar sem hægt er að rækta grænmeti. Húsið mitt yrði að vera í þessum stíl ef ég veldi Normandí.

Ég sé mig algerlega í anda búa í svona húsi og ganga um á gúmmískóm alla daga, klippandi trjágreinar, rótandi í moldinni, hugandi að fræjum eða plöntum og auðvitað alltaf með gesti. Eða ekki. Kannski er ég enn og eilíflega borgarbarnið sem ég hef alltaf talið mig vera. Ég veit það ekki.
Rafmagnskonan hafði að sjálfsögðu samband eins og hún hafði lofað, tilboð hennar var ásættanlegt og hún kemur að bora og laga 8. mars. Sonur minn er byrjaður að pilla flísar af veggnum en ég er enn ekki búin að ákveða alveg hvernig framkvæmdirnar verða, ég næ ekki að finna réttu mennina og svo veit ég ekki alveg í hvaða röð þetta þarf allt saman að vera gert. Það þarf að klára að pilla restina af flísum af veggjum og gólfi, það þarf að taka baðkarið og kranann. Laga veggina og gera þá tilbúna til að taka við nýjum flísum. Setja upp nýtt baðkar og krana með alvöru sturtu. Setja upp vaskmubblu en mér skilst að ég þurfi að flísaleggja bakvið hana. Flísaleggja gólfið og svuntu framan á baðkarið. Flísaleggja veggi. Mála rest og fá hillur og snaga og ljós. Þetta er svona um það bil röðin sem ég held að þetta þurfi að vera gert í, en ég veit ekki. Ég veit ekki neitt. Nema að ég hef aldrei verið jafn róleg yfir því að þurfa að fara að standa í framkvæmdum. Ég veit ekki alveg hvað það er, en mér liggur einhvern veginn ekkert á að láta þetta gerast. Ég held að grímunotkun og samkomubann sé að breyta mér í afturgöngu. Nema þetta sé aldur og þroski.
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir