Sarpur fyrir janúar, 2006

undirskriftasöfnun

Þó mér sé það gersamlega óskiljanlegt að á 21. öldinni þurfum við að vera að ræða þessi mál ennþá, vil ég benda fólki á undirskriftasöfnunina
ÖLL JÖFN

Ég bara skil það ekki, skil það EKKI,hvers vegna þetta flækist fyrir fólki. Lenti einmitt inn á smá umræðu um þetta um daginn í franska sjónvarpinu. Franska þingið var að gera breytingar á hjúskaparlögum og „gleymdi“ enn og aftur samkynhneigðum. Fólkið sem situr þarna og er að réttlæta þetta beitir sömu rökleysunni og íslenskir hálfvitar: „Náttúran vill hafa þetta svona“.

Síðan hvenær í fjandanum eru hjúskaparlögin náttúrulögmál? Hjúskapur, hjónaband, giftingar, þetta eru allt orð sem við mennirnir bjuggum til og fjalla um skipulag í þjóðfélaginu sem er svo flókið að við þurfum að gera alls konar samninga við m.a.s. þá sem við elskum mest til að tryggja réttarstöðu okkar ef eitthvað kemur upp á. Náttúrulögmál hvað? Kapítalískt lögmál, já. Náttúran er alsaklaus af þessari vitleysu.

Ég giftist manninum mínum eftir að við vorum orðin fjögurra manna fjölskylda, eingöngu til að tryggja réttarstöðu mína sem útlendingur og móðir (og vitanlega eiginkona). Við gerðum örlítið partý úr þessu, svona fyrir foreldra sem voru svo innilega og á sinn gamaldags hátt, ánægð með þessa ákvörðun okkar. Við munum hvorugt okkar almennilega dagsetninguna og eigum eflaust lítið eftir að halda upp á brúðkaupsdaginn okkar. Við höldum upp á það á hverjum degi að við erum saman og að okkur líður vel saman og það er nóg. Hins vegar fannst mér, aðallega mér, nauðsynlegt að ganga frá þessum pappírsmálum.
Þess vegna er ég gersamlega ósammála þeim sem afgreiða þetta mál sem platvandamál. Það sé hvort eð er svo hallærislegt að giftast að hommar og lesbíur eigi bara að vera ánægð með að þurfa þess ekki. Það er rangt að hugsa svona meðan þjóðfélagið byggir ýmis lög og rétt fólks á hjúskaparsamningnum. Erfðamál, forræðismál og ýmislegt annað skipta (því miður) máli. Og það er bara hreinlega óútskýranlega fáránlegt að ákveðinn hópur fólks, vegna kynhneigðar sinnar, þurfi að líða svona óréttlæti.
Burtséð frá því hvort okkur finnist giftingar hallærislegar eða ekki, skiptir það máli fyrir alla að hafa þetta val.
Ef brotið er á einum þegn, er brotið á þjóðinni allri. Munum það.

Lifið í friði.

Ótrúlega góður

Fyrirsögnin er tengill í góðan pistil. Já, ég er orðin eins og versti sníkjubloggari. Kem með leiðindahúmbúkk hér á milli þess sem ég sendi ykkur að lesa markvert og gott á öðrum síðum.
Kannski er kominn tími til að leggja þessa síðu niður?
Kannski verður þetta bara tímabundin lægð.
En ég er í kreppu: Má maður segja fallega sögu af fólki sem maður þekkir ekkert lengur?

Æ, ég geri það bara. Ef mér berast kvartanir, tek ég söguna bara út. Annað eins hefur nú gerst hérna hjá mér.

Einu sinni vann ég á miklum kvennavinnustað. Þetta var með skólanum, á kvöldin og um helgar. Á laugardagskvöldum áttum við það til að byrja að fá okkur í tána rétt fyrir vinnulok, til að vera nú tilbúnar á djammið sem beið okkar niðri í bæ.
Eitt vetrarkvöld var svona plan í gangi. Mateus rósavín var drukkið úr plastglösum sem kók væri. Um leið og búið var að ganga frá var hringt á bíl. Við hlupum allar út í rok og mikla hálku og vildi ekki betur til en svo að ein okkar (því miður ekki ég) rann illilega til og sneri sig. Hún kom þó inn í bílinn með okkur en á leiðinni niður í bæ horfðum við á fót hennar bólgna upp og hún var hálfkjökrandi af sársauka. Eins og góðri vinkonu sæmir, rak hún okkur út úr bílnum niðri í bæ og þurfti ekki mikið að hafa fyrir því að sannfæra okkur, enda tókum við það loforð af bílstjóranum að hann færi með vinkonu okkar heim að dyrum.
Við skemmtum okkur ágætlega þetta kvöld og höfðum litlar áhyggjur af meiddu stúlkunni. Vissum þá ekki að bílstjórinn stóð ekki við orð sín. Þegar þau komu að götu þeirri er foreldrar hennar bjuggu við, blasti við honum klakabrynjuð brekka og neitaði hann að reyna við hana. Rak hana út úr bílnum, vitanlega eftir að hún hafði greitt farið.
Nú voru góð ráð dýr fyrir meiddu stúlkuna. Hún sá að í fyrsta húsinu í götunni var partý í gangi og ákvað að hökta þangað og biðja um hjálp að sínum dyrum. Hún hringir bjöllunni og fegursti maður sem hún hafði augum litið opnar dyrnar. Hún útskýrir vandamál sitt og orðalaust grípur maðurinn hana í fangið og ber hana heim. Hann kveður með virktum og hverfur út í nóttina og partýið sitt.
Meidda stúlkan átti erfitt með svefn um nóttina og ekki eingöngu vegna sársauka í ökkla.

Daginn eftir fréttum við að stúlkan er komin í gifsi og mun ekki mæta í vinnuna næstu vikurnar. Við hömuðumst við að vorkenna henni og vorum vitanlega með bullandi samviskubit við fréttirnar af ómögulega bílstjóranum. Eitthvað minnkaði samviskubitið þó þegar seinna um daginn barst risastór blómvöndur til vinkonunnar með korti sem óskaði henni góðs bata.

Einhvern veginn gerðist það svo að fallegi maðurinn hafði samband sjálfur og bauð í bíltúr á fína sportbílnum sínum. Við vinkonurnar stóðum yfirleitt á öndinni þegar hann fór svo að venja komur sínar á vinnustaðinn, til að sækja eða keyra meiddu stúlkuna í vinnuna eftir að hún var komin á fætur á ný.

Meidda stúlkan og fagri maðurinn eru hjón í dag.

Lifið í friði.

drengur með tár

Ef ég færi núna með drenginn minn upp á Montmartre til að láta teikna hann, gæti útkoman orðið myndin sem var á vegg í mörgum íbúðanna í blokkinni minni í gamla daga.
Hann er ómögulegur. Grætur og barmar sér. Vill ekki sofa, en samt ekki vaka. Hitalaus en rjóður í kinnum með grænt hor í nösum.
Mig grunar helst að tönn sé á leiðinni, þó ég hafi ekki hugmynd um það hvort allar séu komnar eða hvort eitthvað vanti. Hef oft skilgreint óværð hans sem tanntöku sem ekki varð. Bara dettur ekkert annað í hug.
Djöfull er þetta leiðinlegt blogg, en ég hef bara engan annan að tala við en þig. Blogger, þú ert vinur minn.

Ég sem ætlaði einmitt að nýta blundinn hans í hugleiðingu um vondar fréttir sem gætu verið góðar fréttir og vice versa. Það verður að bíða betri tíma. Best að fara að knúsa lítinn kall.

Lifið í friði.

lesist

Titillinn er tengill á óhugnalega en jafnframt frekar skemmtilega lýsingu á því hvað karlmenn eru oft mikið ÖM.
Ráðlegg lesturinn og hafa gubbufötu hjá sér.

Lifið í friði.

smáborgarinn moi

Ég stefndi hraðbyri í alvöru þunglyndi áðan yfir eigin smáborgarahugsunarhætti og almennri hræsni minni.
Ég sá að ég gæti ekki verið að gera neitt af viti og lagðist því upp í rúm eftir að drengurinn minn var sofnaður, og hélt áfram að lesa í bókinni sem ég er búin að vera að glugga í síðastliðna mánuði. Sjáið bara smáborgaraháttinn við þessa setningu. Mér, fullkomnu húsmóðurinni og góða gædinum getur ekki þótt það að liggja og lesa á miðjum degi, vera vit. Nei, það væri vit að vera að taka til uppi á skáp eða frammi á skrifstofu. Ekki veitti nú af!
EN, ég lenti á svo rosalega góðum kafla að ég fílefldist og varð aftur reið út í heimska markaðskalla (já, konur eru líka kallar eins og við amma pönk komust að í símanum áðan) og fylltist von um að bráðum fari nú eitthvað að gerast.
Ætla ég að deila þessum kafla með ykkur? Það væri nú gaman, en hann verður djöfulsins torf að þýða. Hann fjallar um tvöfeldni í samskiptum stjórnmálamanna við fólkið, lýðinn. Og um að þessi ameríkaníserun á stjórnmálum sem hafa breyst í sýningar (sirkús?) hverra gæði mælast með klappmælum í salnum er farin að valda hjásetu kjósenda. Er orðið hjáseta til?
Hver er munurinn á republicain og democratique? Ætli ég nenni að leggjast yfir þessar blaðsíður og deila þeim með ykkur?
Læt mér nægja í bili að segja ykkur að eftir að ég fór að lesa frönskuna almennilega fylltist ég miklum hroka gagnvart fólki sem ekki les frönsku. Fann fyrir mikilli stærrimáttarkennd, vegna víðáttunnar sem opnaðist mér. Ég hef aðeins lækkað rostann í sjálfri mér, held ég… og þó… veit ekki alveg.

Bendi svo á ágæta grein á Múrnum eftir ÁJ um lagabreytingar á hjúskaparlögum. Er sammála öllum orðunum og öllum samsetningum þeirra. Pour une fois.

Lifið í friði.

kuldi

Ég var búin að skrifa langa hugleiðingu um samviskubit og fátæklinga og mig feita og freka lifandi í vellystingum. Það er ekki hægt að skrifa svoleiðis tvisvar. Kannski var ágætt að „Safari left the building“ áður en ég náði að birta hana.
Fór með föt og teppi og fleira í rónaskjól hér í hverfinu. Mér líður samt ekkert betur. Það er erfitt að þola þennan kulda þegar maður er svona í ofkyntu húsi með allt sem þarf en veit samt af öllu þessu fólki sem þjáist svo mikið.
Af hverju þarf frumskógarlögmálið að gilda, þegar maður veit, VEIT, að megnið að þegnum þjóðfélagsins er ekki hlynnt því? Hver er ekki samþykkur því að hjálpa minni máttar? Hver getur uppástaðið að réttur sjúkra og fatlaðra til mannsæmandi lífs sé bara nostalgía?

Sem betur fer verður ekki eins kalt og búið var að spá. Á m.a.s. að ná upp í 4 gráður um helgina, ekki fara niður í -15 eins og spáin var í vikubyrjun.

Lifið í friði.

súrrealismi

Ten Top Trivia Tips about Parisardaman!

  1. If you lick parisardaman ten times, you will consume one calorie.
  2. The most dangerous form of parisardaman is the bicycle!
  3. In a pinch, the skin from a shark can be used as parisardaman.
  4. Parisardaman was the first Tsar of Russia.
  5. Europe is the only continent that lacks parisardaman.
  6. Only one person in two billion will live to be parisardaman!
  7. Parisardaman has a memory span of three seconds.
  8. The colour of parisardaman is no indication of her spiciness, but size usually is.
  9. All gondolas in Venice must be painted black unless they belong to parisardaman!
  10. By tradition, a girl standing under parisardaman cannot refuse to be kissed by anyone who claims the privilege!

I am interested in – do tell me aboutherhimitthem

öryggi í heimahúsum

Mér brá mikið við auglýsinguna frá Securitas sem var í Mogganum sem barst mér í hendur í gær. Þess vegna var ég mjög fegin að sjá þetta rætt hjá Dr. Gunna núna í morgun. Ég er honum fyllilega sammála og vona að sem flestir fyrirlíti svona lummulega herferð.
Þetta er svo sem alveg í stíl við annað í þessum brenglaða heimi okkar. Eins gott að við erum flest bara svo klár að sjá í gegnum þetta og halda áfram að lifa okkar dásamlega lífi ótrufluð af þessum trufluðu einstaklingum sem beita öllum brögðum til að ná okkur á sitt vald. Eins gott.

Lifið í friði.

holtasóley

Persónulega finnst mér ágætt að þingið sé upptekið af holtasóley og stöðu hennar í þjóðfélaginu. Fegin að rétt á meðan eru þeir þá ekki að gera neinn óskunda.
Þetta sýnir hvaða álit ég hef á löggjafarvaldinu.

Lifið í friði.

Baskakórinn syngur afar fallega á sínu fína tungumáli sem er áreiðanlega í meiri útrýmingarhættu en okkar ástkæra ylhýra.
Þeir eru líka skemmtilegir menn og fagrir með afbrigðum og átti ég góða kvöldstund með þeim.
Sumir eru gamlir og gráir í nælonpeysum og slitnum buxum. Aðrir ungir og uppstrílaðir í teinótt jakkaföt eða nýjasta gallabuxnasniðið (eða ekki það nýjasta, hvað veit ég, þegar einhver sagði einhvern tímann í hneykslunarrómi við mig um annan að sá hefði verið í 501 sem ég átti þá að skilja að væri síðasta sort, gerði ég mér grein fyrir því að ég er dottin út úr gallabuxnatískunni).
En ég er nokkuð sannfærð um að það verði gríðarlega skemmtilegir og spennandi karlakóratónleikar í París 1. apríl nk.

Dóttir mín fór í læknisskoðun í morgun. Hún er rétt tæpur meter á hæð og skrifar nafnið sitt og fleiri stafi. Hún ruglar reyndar hvernig S á að snúa, finnst það flottara öfugt, segir hún. Sjónprófið kom ekki nógu vel út, hún þarf að fara til augnlæknis í almennilega skoðun. Hún teiknaði hring, kross og ferning á blað og gerði allar þær kúnstir sem fyrir hana voru lagðar. Karlinn sem hún teiknaði var í mjög löngum og támjóum skóm með hárið út í loftið. Hún þekkti allar gjörðir fólksins á myndunum þar til kom að síðustu myndinni: Kona að strauja. Þá strandaði litla dúllan, enda ekki nema von. Hér er að vísu til bæði straujárn (sem mér var gefið og hvar er það nú?) og straubretti sem ég fann úti á götu ef ég man rétt. En bæði eru pökkuð inn í plast og hafa verið notuð kannski tvisvar á heimilinu síðan við fluttum hingað og í bæði skiptin af gestkomandi.

Í gær reyndi maður að fremja sjálfsmorð í Frakklandi. Næsta víst er að einhverjir aðrir en þessi maður hafi reynt það og nokkuð líklegt að einhverjum hafi tekist ætlunarverkið. Þessi maður var ekki að gera þetta í fyrsta skiptið og hefur alltaf verið bjargað því hann vill það. Þessi maður, ásamt góðum hóp af öðru fólki, er mikið í fréttum þessa dagana sem píslarvottur óhugnalegra réttarmistaka þar sem fjöldi fólks var í fangelsi í 20 mánuði eða meira vegna kynferðisafbrota gegn börnum sem búið er að sýkna þau öll af í dag. Outreau málið er mjög skrýtið allt saman og væntanlega er íslensk pressa að fylgjast með þessu, þetta er a.m.k. í meira lagi áhugavert mál. Sýnir m.a. núna við vitnisburð fórnarlamba lygavefsins fyrir framan þingnefnd, hvernig lögregla hikar ekki við að pynda hér í Frakklandi. Þau voru öll talin ógurleg skrímsli og þess vegna mátti neita þeim um stóla, vatn og annað. En nú verð ég að hætta í miðri setningu svo til. Vildi bara benda á að það eru ekki alltaf „bara“ sekir geðskjúklingar sem fremja sjálfsmorð eða reyna það.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha