Sarpur fyrir mars, 2006

rauðvín og söngur í rigningu

Það rigndi hjá sólkonungnum í allan eftirmiðdaginn. En hópur af íslenskum syngjandi víkingum lét það nú ekki á sig fá. Nýttum okkur marmarasúlugöng til að fá okkur rauðvín, osta og hráskinku og kórinn tók nokkur lög. Þangað til að verðinum fannst nóg komið því vitanlega eru öll svona hátíðahöld bönnuð nú á tímum. Það er af sem áður var þegar konungar tóku léttan ballett á góðum stundum og leyfðu Molière að vera með ádeiluleiksýningar sem allt liðið hló að um leið og það hélt áfram að níðast á lýðnum.
En þetta var mjög gaman, engar sektir og allir kvöddust sáttir. Yfirvörðurinn fékk það sem hann vissi um Ísland staðfest hjá okkur: við erum jú trúaðasta þjóð Evrópu og minnsta glæpatíðnin er hjá okkur. Gleymdirðu nokkuð að læsa bílnum elskan?

Ég er ekki enn búin að fá dagatalið, en ég sendi þessum kór geisladisk sem var mánuð á leiðinni heim svo ég örvænti nú ekki.

Lifið í friði.

Veðurspáin í dag: Létt rigning og mikil rigning til skiptis.
Ég: Í pikknikk í Versölum með 73 ferðalanga.

Nú reynir á mitt sérstaka sambandi við Loðvík 14. nefndur Sólkonungurinn.

Lifið í friði.

eyvindur með hor

Á mínu heimili hét kjöt í karrý Eyvindur með hor.

guðbergur og bloggarar í París

Guðbergur er einn af þessum mönnum sem er svo vel úr garði gerður að hann verður fegurri með hverju árinu sem líður. Ég er ekki búin að lesa hann í Blaðinu, en fæ myndina hans upp í hvert skipti sem ég kem að tölvunni. Og fæ verki, hann er svo fallegur.

Annars er ég að stelast, hef sko engan engan tíma til að tala við ykkur núna. 73 manns að koma á morgun og alltaf eitthvað sem þarf að skipuleggja. Og bæði börnin heima því allsherjarverkfallið og stóru mótmælin eru í dag. Og ég föst heima eins og við var að búast. Og ekki hægt að ná í helminginn af fólkinu sem ég þarf að ná í.

Slagorðið er: LA POLICE PARTOUT, LA JUSTICE NULLE PART. Lögreglan er alls staðar, réttlætið er hvergi.

Ef bloggið væri tengt við heilastöðvar mínar mynduð þið vita að ég er á fullu að útbúa prógramm fyrir væntanlega bloggaraferð til Parísar. Það er dálítið flókið, því auðvitað eru bloggarar sérstakt fólk, ofur kúltíverað og næmt fyrir umhverfi sínu. Engar venjulegar túristaleiðir duga fyrir slíkan hóp. Nei, það þarf að koma ykkur á óvart, gleðja fegurðarskyn og örva bragðlauka. Þetta verður gaman. Hvaða mánuður hentar ykkur best?

Lifið í friði.

líka stjarna

Ég var í Fréttablaðinu í gær.

Mikið er ég fegin að tæknileg skýring er á ofurnærveru ÁJ hjá Mikka vef á síðunni hennar Hildigunnar. Þetta hefur með fyrirsagnabreytingar að gera. Mjög lógískt og mér er létt. Eftir umhugsun held ég að ég vilji halda honum inni því hann er svo duglegur að skrifa og duglegur að eyða. En ég er búin að átta mig á einni sem má fara út af listanum mínum, það er ég sjálf. Frekar mikill óþarfi að hafa sjálfan sig þar, ekki satt? En ég nenni ekki að breyta neinu núna. Alveg uppgefin eftir flóamarkaðsferð í morgun.

Þetta var meiriháttar markaður, ódýr og troðfullur af skemmtilegu dóti og skemmtilegu fólki. Tannlausum kellingum að selja skítug glös, skítugum köllum að selja safnaradót eins og litlar dollur og smádrasl sem fólk eins og ég getur endalaust skoðað og girnst meðan mínímalistarnir í stílhreinu íbúðunum taka andköf yfir að annað eins skuli vera hægt að reyna að selja. Gaman að þessu. Ákvað að ég yrði að gera markaðssíðu á http://www.parisardaman.com síðunni minni. Vera með dagatal yfir næstu litlu markaði í nágrenni Parísar sem eru margfalt ódýrari en stóru föstu flóamarkaðirnir.
Enda sér maður kaupmennina þaðan vafra um á þessum mörkuðum. Um daginn keypti ég risastóran spegil á svona litlum markaði og sölumaðurinn var svo ánægður með að selja hann einhverjum sem ætlaði að hengja hann upp heima hjá sér. Benti mér á nokkra hrægamma sem stóðu álengdar og voru búnir að bögga hann allan morguninn að selja sér spegilinn fyrir skít á priki til að geta svo selt hann amerískum túrista á okurverði.
Á litlu mörkuðunum eru engir amerískir túristar. Hins vegar er fullt af arabakerlingum og þær kunna sko að prútta. Ég hálfvorkenndi sölukonunni sem seldi mér litlu hilluna og þvottabalann (sem ég féll fyrir þó ég viti alls ekki til hvers ég mun geta notað hann) sem barðist við tvær slíkar um verð á sófaborði. Þær eru ótrúlega sterkar, dökkar og svipmiklar með fagurlitar slæðurnar og standa bara þegjandi með óræðan svip meðan sölukonan pínist og engist í löngun til að ganga frá sölu. Og verðið sígur neðar og neðar eins og fyrir galdra. Þetta eru áreiðanlega galdranornir. Fallegar og góðar galdranornir. Mig langar stundum svo að vera svona dökk og svipmikil og geta borið svona slæður. Ég er eins og trúður með slæðu.
Hitastigið var 17 gráður í dag. VORIÐ ER KOMIÐ.
Við misstum einmitt eina klukkustund úr lífinu í morgun. Það er þessi óþolandi vorboði, tímabreytingin. Fer alveg hrikalega í taugarnar á mér þó vitanlega sé stundum gaman að græða klukkustund á haustin.

Lifið í friði.

ritskoðun

Ég ætla að fara eftir ryksjúgandi fótboltamanninum og taka ÁJ einn góðan veðurdag út af Mikkalistanum mínum, því, eins og hann bendir sjálfur á, getur hann ekkert að þessu gert.
Hann gæti náttúrulega, eins og við öll hin, látið bloggfærslurnar sínar í friði. En ég býst við að þetta sé nú samt réttur hans að breyta sínu eigin bloggi eins oft og hann vill.

Ég hef einu sinni breytt færslu. Þá hélt ég um tíma að ég væri að missa góðan vin. Það var hræðilegt.
Annars læt ég allt standa eins og það kemur út úr kúnni. Um daginn las ég fullt af gömlum skrifum í leit að ákveðinni færslu sem ég fann ekki. Annað hvort át einhver ógurlegur ormur þá speki eða ég ruglaðist gersamlega á ártölum eða ég veit ekki hvað. Alla vega varð mér stundum um og ó, hvílíkt rusl sem er að finna þarna.
Munur að vera orðinn reyndur og gamall bloggari núna.
Allt svo fágað, úthugsað og ber merki um andlegt atgervi og þroska.

Færsla númer tæplega fimmhundruð, s’il vous plaît.

Lifið í friði og skál á laugardagskvöldi í boðinu!

Blaðið í París

Einn af fyrrverandi eftirlætis bloggurunum mínum, Uppglenningur, sagði skilið við bloggheima og fór að vinna á Blaði í raunheimum greyið litla (þetta á ekki að vera niðrandi, sagt í fúlustu umhyggju).
Hann var settur í erlendar fréttir, er hægt að ímynda sér nokkuð leiðinlegra, já, líklega, get til dæmis nefnt bókhald og endurskoðun, en nú er hann komin í helgarblaðið sem hlýtur að vera skemmtilegra og í dag er opna eftir hann á bls. 20-21.
Ég þekki þessar myndir og sumt af textanum, en mikið er ég stolt af honum og ánægð með að Terra Nova býður helgartilboð í júlí og ágúst á sömu síðum, skemmtileg tilviljun, ekki satt?
Ég treysti því að ákveðin vinkona mín komi með þetta út til mín, láttu ekki eins og þú sért ekki þarna, ég sé þig vel!

Blaðið er ekki í París, en París er í Blaðinu og er það vel.

Lifið í friði.

Bloggdívan í rauðu kápunni er flott í Blaðinu í dag.

Ég á eftir að lesa Lesbókargreinina hennar því fyrir mistök hætti ég að fá Moggann minn í mars og er nú með þrjú ólesin blöð sem bárust mér í einum búnka og hafa enn varla verið opnuð. Jú, reyndar datt Lifun út úr einu blaðinu og fletti ég því og sá mér til ánægju að gagnrýni mín hefur verið tekin til greina og fólk sem ekki er mínimalískt í lífinu er nú heimsótt. M.a.s. hlustað á vinylplötur í eldhúsinu á einu heimilanna. Sko til!

Og ég á sem sagt alveg eftir að lesa fræðilegar úttektir á Silvíu Nótt og Gilzenegger. Það litla sem ég hef kynnst af Gilzenegger segir mér að rangt sé að bera þau saman. En ég undirstrika það að ég þekki hann mjög lítið.

Í morgun var í fyrsta sinn hægt að fara út án þess að herpast allur saman af kulda. En í staðinn rignir eldi og brennisteini.

Ég keypti mér græna flauelskápu á útsölu útsölunnar, var búin að girnast hana lengi og í dag hafði hún hrunið niður um enn meiri pening og ég nýbúin að fá greidda þýðinguna í janúar svo ég sló til.
Kannski ég fái mér rauða tösku, kallist á við stíl bloggarans?

Kannski.

Ferlega er veðrið óhuggulegt, en þetta er áreiðanlega gott fyrir gróðurinn.

Mér líður svo skringilega. Er örþreytt en samt langar mig til að vera að gera eitthvað og samt eirðarlaus og veit ekki hvað ég á að demba mér í. Kannski tilboðið sem ég lofaði að yrði til í gær? Já, best að skella sér í það. Verðleggingar eru verstar.
Í morgun varð mér hugsað til manns sem sagði einu sinni við mig á Laugaveginum, þegar ég var nýlent og furðaði mig enn og aftur á háu verðlaginu þarna á Fróni: „Bara selja sig dýrt“. Ég veit ekki hvað hann er að gera í dag, langar svo sem ekkert mikið að vita það, en væri samt til í að vita hvort hann selur sig.

Lifið í friði.

elegantaður

Það var mér töluvert áfall þegar ég áttaði mig á því að þetta skemmtilega orð var eitthvað allt annað. Elgtanaður?

Lifið í friði.

Púúki


Puuki invit
Originally uploaded by parisardaman.

Ein af Parísardömunum, hún Elva klæðskeri, saumar barnaföt og selur.
Hún verður með sölu föstudaginn 24. mars, kl. 17-20 í Aratúni 40 í Garðabæ heima hjá Katrínu systur sinni.
Ég hvet ykkur til að fara að skoða, allir eru velkomnir og engin skylda að kaupa.
Fötin eru saumuð úr japönskum efnum og hafa flest þann yfirnáttúrulega eiginleika að vaxa með börnunum. Þannig verður síðpils smám saman minipils, kjóll breytist í mussu o.s.frv. Strákafötin eru einnig sérlega skemmtileg og frumleg, þægilegar mussur og víðar léttar buxur.
Þessari undursamlegu bómull má svo stinga í vél og hún kemur straujuð út.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha