Sarpur fyrir mars, 2011

þakklæti

Ég þakka öllum þeim sem sáu myndina af straujuðu svuntunni í síðustu færslu, fyrir að hlífa mér athugasemdum við því hve illa hafði tekist til.
Börnin mín hafa alltaf brillerað á þroskaprófum hjá læknum, utan einu sinni, þegar dóttir mín stóð á gati yfir mynd af konu að strauja. Ég þurfti að játa fyrir lækninum að hún hefði aldrei séð þessa athöfn framkvæmda og læknirinn baðst afsökunar á því hvað prófið væri gamaldags.

Ég hef verið að horfa í kringum mig, í leit að næsta hlut sem á skilið að fá færslu um sig. Það er af nógu að taka, en enginn hlutur hefur beinlínis kallað eftir því að fá umfjöllun um sig enn. Einhver feimni í þeim kannski. Sonur minn er hins vegar farinn að spyrja að því við næstum hverja myndatöku, hvort myndirnar fari ekki örugglega á netið. Það finnst mömmunni pínu krípí.

Lifið í friði.

Trouvailles – I

Ég er góður hirðir. Ég hirði alls konar dót hjá fólki þegar það tekur til hjá sér og vill losa sig við alls konar óþarfa. Ég hirði líka alls konar dót af götunni, en í Frakklandi eru skýrar reglur um það hvaða daga má setja dót út á gangstétt í hvaða hverfi, sem er svo hirt af hreinsunardeildinni daginn eftir, ef enginn annar hefur séð notagildi í því.
Dagana sem setja má dótið út hér í Copavogure, á ég það til að taka aukakróka á bílnum á leið úr tónlistarskólanum, svona til að athuga hvort einhvers staðar bíði mín góður stóll, skemmtilegur skápur eða annað sem ég gæti fundið stað heima hjá mér. Nú er svo komið að íbúðin mín er eiginlega orðin yfirfull og ég hef því sett í gang ópereisjón losun um leið og ég er farin að afþakka dót og jafnvel ganga framhjá dóti án þess að þykjast sjá það úti á götu eða á flóamörkuðum. Mér finnst dót sem hefur lifað öðru lífi alltaf meira spennandi en nýtt dót sem mér er gefið.
Nokkrir vina minna hafa sett upp sérstök dótablogg, sem eru mjög skemmtileg og mæli ég eindregið með að fólk bæti þeim á leslistann sinn. Antík og alls konar, Gamalt dót, Gamla daga og Á rúi og stúi. Ég ætla ekki að setja upp sérstakt dótablogg, en hins vegar ætla ég að tutla hingað inn reglulega einhverju af dótinu mínu í von um að það gleðji lesendur. Ég ætla að kalla þetta Trouvailles, en það er nákvæmlega orðið yfir fundið dót, findings á ensku.
Fyrsta dótið er þessi fádæma fallega svunta. Hún kemur úr dánarbúi móðurömmu mannsins míns. Eða kannski móðurafans, ég rugla því tvennu dálítið saman í huganum, þar sem ég kynntist þessu fólki aldrei og fór ekki beint sjálf í gegnum dótið. Afinn dó um það leyti sem við vorum að kynnast og ég kom að vísu inn á heimili hans að honum látnum og benti á það sem ég hafði trú á að við gætum nýtt. Amman lá lengi á sjúkrastofnun og þekkti engan, og ég fór aldrei að heimsækja hana, hún var dálítið langt frá París og tengdamamma vildi einhvern veginn aldrei „leggja það á mig“, held ég núna. Fjölskyldubönd í Frakklandi eru dálítið ólík því sem a.m.k. ég á að venjast úr minni fjölskyldu.
Ég held mikið upp á þessa svuntu og það verður að teljast frétt að þegar ég ákvað að taka mynd af henni, dró ég fram strauboltann og brettið. Það gerist mjög sjaldan.

Lifið í friði.

Vorið er komið

Lifið í friði.

Marianne Faithfull

Á þriðjudag reyndi ég að slökkva á skoðanavélinni. Mér tókst að lækka smá í henni og klára þýðingu sem þurfti að senda til yfirlestrar hið fyrsta. Svo náði ég hálftíma í sólbaði úti í garðinum, áður en ég rauk í tónlistarskóla- og fimleikaþeyting þriðjudaganna.
Eftir að því stússi lauk, skellti ég á mig varalit og rauk í metró niður í bæ, á stefnumót við eiginmanninn og Marianne sjálfa Faithfull. Hún var með tónleika í Théâtre du Châtelet og svo heppilega vildi til að við höfðum fjárfest í miðum.
Ég var hikandi þegar maðurinn minn stakk upp á þessu, en smá gúggl leiddi mig inn á góða dóma um tónleikahald hennar á síðustu árum, svo ég ákvað að slá til. Og ég hef verið í skýjunum alla vikuna. Marianne Faithfull hefur alltaf verið í uppáhaldi, en á tónleikunum í gær upplifði ég tilfinningar sem ég bara vissi ekki að væru að brjótast um þarna inni í mér. Ég grét oft, stundum af geðshræringu, stundum úr hlátri. Því Marianne Faithfull hefur frábæran húmor og beitti honum óhikað á milli þess sem hún söng ný og gömul lög. Hún gerði grín að aldri sínum, frönskukunnáttu sinni og fleiru. Mig langar til að verða eins og Marianna Faithfull þegar ég verð sextug. Ekki læt ég mig dreyma um að vera söngkona sem getur staðið á sviði og raðað upp lögum sem frægir tónlistarmenn hafa samið fyrir hana, eflaust allir meira og minna ástfangnir af henni. Ég vil bara vera svona ánægð með mig og mitt og hress og kát. Takk.

Lifið í friði.

Egill Helgason, þú ert drekinn

Fyrirsögnin er vísun í eina af þessum ódauðlegu senum úr hinu ágæta sjónvarpsefni, Fóstbræðrum. Hún vísar á engan hátt í raunveruleikann, Egill Helgason er ekki dreki, og það var enginn að reyna að reka hann með afleitum árangri.

Egill Helgason svaraði bréfinu frá okkur á bloggi sínu mjög snemma í gær. Mun fyrr en ég átti von á, satt að segja. Svarið er mjög áhugavert, þið getið lesið það hér, en varúð, þetta er Eyjutengill. Hann ver sig meðal annars með því að skökk kynjahlutföll séu alls staðar. Eldgamalt bragð í samræðunni um jafnrétti, kallast algerlega á við að benda femínistum á að tala frekar um umskornar konur eða fjölkvæni, þegar þær reyna að tala um launamisrétti eða annað sem betur má fara.
Hin furðulegu ummæli um að Gerður Kristný hafi verið tekin fyrir í þættinum, eru varla svaraverð. Næstum hægt að túlka þetta sem einhvers konar hótun, en ég ætla nú ekki að gerast svo gróf. Þegar hann spyrðir henni svo á einhvern annarlegan hátt saman við eiginmanninn, er ekki annað hægt en að hlæja. Á hvaða öld lifir Egill Helgason? Er hann enn á 19. öld, þar sem konan hafði opinberlega einfaldlega bara skoðanir eiginmannsins? Úff …

Það er í raun ekki fyrr en í athugsemd undir svarinu sem endanleg túlkun hans kemur fram: Egill Helgason kemst að þeirri snarfurðulegu niðurstöðu að við séum að krefjast brottreksturs hans. Ég var alveg stúmm þegar ég las það, eftir að hafa verið meira svona bara pirruð/þreytt á því sem á undan fór í svarinu. En ég ætla að reyna að greina niður hvað það er sem fær Egil Helgason til að túlka bréf okkar þannig að við séum að krefjast brottrekstrar hans. Ég er með tvær hugmyndir:

1. Egill Helgason er að beita kænskubragði. Hann ýkir upp efni bréfsins, til að leiða lesendur frá hinu sanna inntaki og nær um leið að koma einhvers konar ofstopastimpli á hópinn sem skrifar undir.

2. Egill Helgason er of meðvitaður um að vissulega hljóti margir að öfunda hann af því að stjórna tveimur stórum og mikilvægum þáttum í íslenska ríkissjónvarpinu. Þar sem hann er of meðvitaður, er hann orðinn dálítið vænisjúkur. Hann tekur því allri gagnrýni sem beinni (og persónulegri?) árás, sannfærður um að verið sé að reyna að bola honum burt. Egill er kannski líka sannfærður um að einhverjir bókmenntafræðinganna á listanum eigi sér þá ósk heitasta að taka sæti hans í Kiljunni?
2bis. Egill las ekki bréfið. Hann las fyrirsögnina og þar sem hann er dálítið mikið hræddur um að allir vilji láta reka hann, ákvað hann að bréfið fjallaði um það.

Ég þekki ekki alveg alla sem skrifa undir bréfið með mér, en ég get fullvissað ykkur um að bæði ég, og þau sem ég þekki, eru svona frekar hreinskiptið fólk sem fer sjaldan í kringum hlutina eins og köttur í kringum heitan graut. Ef við hefðum viljað krefjast brottrekstrar Egils Helgasonar, hefðum við hreinlega skrifað það í bréfið. Þá hefði staðið einhvers staðar: „Og krefjumst við því umsvifalaust brottrekstrar Egils Helgasonar“ eða „Við krefjumst því að Agli Helgasyni verði vikið úr starfi“ eða … Það eru óteljandi leiðir til að skrifa kröfu um brottrekstur. Við vönduðum okkur töluvert við að skrifa bréfið. Eitt okkar gerði grunninn og svo fóru heilmargir tölvupóstar á milli okkar. Á meðal þess sem var breytt, var að stundum þótti orðalagið of harkalegt, og við vildum alls ekki vera með einhvern hæðnistón í því. Einn morguninn taldi ég bréfin í inboxinu mínu. Þau voru þá 53. Ég get lofað því, að aldrei nokkurn tímann var það viðrað að krefjast brottreksturs Egils Helgasonar. Aldrei svo mikið sem látið að því liggja, að hann ætti bara að fara.

Vinur er sá sem til vamms segir. Inntakið í varnarræðu Egils Helgasonar er að Egill ráði þessu ekki, því svona sé þetta bara. Þar er Egill Helgason á villigötum, því hann getur bara alveg unnið vinnuna sína og farið að lögum, jafnvel þó hann þurfi kannski stundum að hafa dálítið fyrir því. Sjáið til dæmis þessa frásögn hér. Þarna er markvisst farið eftir jafnréttisstefnu, en það er nákvæmlega það eina sem við erum að biðja um með bréfi okkar. Að farið sé að lögum og unnið samkvæmt jafnréttisstefnu RÚV. Öll önnur túlkun, er rangtúlkun.

Ef Egill Helgason stendur nógu lengi og galar það að ekki sé hægt að fara að lögum, það sé bara ekki hægt, þá kannski, já kannski, verður bara hreinlega kominn tími á að krefjast þess að hann segi starfi sínu lausu. En ég er ekki að krefjast þess í dag. Né nokkurt undirritaðra. Það eina sem við biðjum um, er að jafnréttis sé gætt í vali á viðmælendum og umfjöllunum í Kiljunni.

Lifið í friði.

Kiljan og konurnar

Ég hvet alla til að lesa bls. 31 í Fréttatímanum í dag, það má fletta öllu blaðinu á netinu í gegnum forsíðuna. Einnig er hægt að nálgast blaðsíðu 31 á PDF hér.

Kynbundið launamisrétti er óþolandi. Kynjahlutfallið í fjölmiðlum er óþolandi. Þetta er allt saman meira og minna óþolandi. Sérstaklega er það samt óþolandi að vera alltaf afgreiddur sem annað hvort vælukjói eða eineltisgerandi þegar maður reynir að standa upp og benda á hið augljósa.

Lifið í friði.

Loftskip

Frekar flott að sjá þetta svona í nálægð. Samkvæmt netverjum er verið að fylgjast með geislamengun yfir borginni. Ég veit ekki hvort það tengist Japan, en ég játa að ég er dauðhrædd við sprengingarnar í kjarnorkuverinu.

Lifið í friði.

Jacques Demy á Íslandi

Ég mæli eindregið með því að fara í Bíó Paradís og uppgötva Jacques Demy, en fjórar myndir eftir hann verða sýndar núna í mars. Regnhlífarnar í Cherbourg er til dæmis alveg frábær, sem og Stúlkurnar frá Rochefort. Ég hef ekki séð hinar tvær, en maðurinn minn segir að Lola sé svo átakanleg að hann hefur aldrei þorað að horfa á hana aftur. Hann mælir einnig með Englaflóa, sem er líklega minnst þekkt af þessum myndum.

Það eina sem ég ætla að segja um Jacques Demy, er að ég horfi mjög reglulega á þessar tvær myndir sem ég nefndi fyrst, og er jafn ánægð í hvert skipti. Ég get ekki útskýrt þetta neitt. Farið bara og sjáið sjálf.

Lifið í friði.

þreytt

Mikið óskaplega er ég þreytt á umræðunni um jafnrétti kynjanna. Veit ekki einu sinni hvort hægt er að tala um umræðu. Manni líður eins og helvítis hamstri í hjóli, að reyna að tala við þetta skítapakk, fólk sem neitar að skilja um hvað málið snýst. Það sem gerði útslagið fyrir mig var spjallþráður sem myndaðist á feisbúkk undir auglýsingu um hestamót kvenna til styrktar LÍF. Hvers vegna í ósköpunum þarf alltaf að stimpla heiðarlega og réttmæta gagnrýni, setta kurteislega en ákveðið fram, sem einelti og vonsku? Af hverju? Af hverju? WHY GOD, WHY?

Ein besta útvarps- og sjónvarpskona landsins, Þorgerður E. Sigurðardóttir, var með pistil um þetta hestamótsmál í Víðsjá í gær. Þar sem ég er Makkanotandi, get ég ekki sett tengil beint á pistilinn hennar, en þátturinn er aðgengilegur á netinu í 4 vikur og í podcast lengi, lengi: Víðsjá 9. mars 2011.

Ýmsar ágætar greinar birtast hér og þar á netinu, sérstaklega í tengslum við sérstaka kvennadaga, líkt og þann sem haldinn er hátíðlegur 8. mars, ár hvert. Þessi grein Drífu Snædal er til dæmis góð, og í lið 10 ræðst hún gegn því sem ég hef í vanmætti verið að reyna að benda á undanfarið:

„10. Lífsstílsvefir sérstaklega ætlaðir konum eru mikilvægt tæki, við kynnum þá sem eitthvað jákvætt, eins og „vefur fyrir drottningar“ og föngum konur með þeim hætti í vef sjálfsgagnrýni og efasemda um að þær séu nógu vel málaðar, nógu grannar, nógu góðar við manninn sinn og svo framvegis.“ [Við skulum ekki gleyma yfirskriftinni „Aðlaðandi er konan ánægð“ á vefnum sem ég, og allir þeir sem hafa í hann rýnt, hafa „lagt í einelti“.]

Í alvöru talað. Ég er örmagna. Ég hef tékkað á drottningum og pjattrófum reglulega. Ég taldi mér nefnilega trú um að það sé eðlilegt að fylgjast með því sem maður vill gagnrýna. Ég gæti ekkert tjáð mig um það sem ég ekki þekki. En í raun var nóg að fylgjast með í nokkrar vikur. Ég verð svo pirruð þegar ég fer inn á þessa vefi, að það hlýtur að vera óhollt.

Vernduð gegn þvaðri er Kristín ánægð.
Hér með er ég hætt að fara inn á þessa vefi.

Verst að vilji maður lesa þá sem standa sig best í rýninni þarf maður að lesa það sem rýnt er í hverju sinni. Til dæmis hann Sigurbjörn, sem pjattdúllurnar trúa einfaldlega ekki að sé karlmaður, hversu fyndið er það? En kannski er í lagi að renna yfir þvaðrið, þegar maður fær afbygginguna samtímis beint í æð? Ég vona það. Ég vona að Sigurbjörn haldi áfram. Og Hildur. Og Drífa. Og alls konar annað fólk sem er svo miklu klárara en ég.
Ég get svo bara haldið áfram að skrifa um garðinn minn og þýðingar, krakkana og lífið í París. Helst bara fyrir vini mína og pabba. Ókei?

Lifið í friði.

mánudagur

Nú er maður bara orðinn eins og útivinnandi, fyrir utan að ég er hvorki með skrifstofu, né nógu góða afsökun (eða laun) til að fá manneskju í að sækja börnin klukkan fjögur á þriðjudögum og fimmtudögum og fara með þau í tónlistarskólann. Það er alltaf heilmikið stress, ég neyðist til að vera á bílnum og þarf að finna stæði og svona. Ég er svo viðkvæmt blóm, að í svona bæjarsnatti finnst mér bíllinn vera byrði á bakinu á mér, þó ég viti alveg að það sé honum að þakka að við náum að mæta á réttum tíma.
Um daginn fór hann að hökta og drap á sér. Ég skildi hann eftir á verkstæðinu og ákvað að ef viðgerð væri fokdýr, myndi ég finna út leiðir til að sleppa því að eiga bíl áfram. Það reyndist nákvæmlega ekkert vera að, svo ég slepp ekki enn. Og auðvitað vil ég ekkert sleppa, það er mjög þægilegt stundum að bruna á bílnum í hitt og þetta snattið. Ég kæmist aldrei í Ikea, í stóru íþróttabúðina og nokkrar fleiri svona úthverfaviðbjóðsbúðir sem ég fer stöku sinnum í. Ég gæti ekki skroppið í dagsferðir í hallir eða skóga, eins og við gerum stundum … Það eru ýmsir kostir við bíla, jafnvel þó maður búi í jaðri stórborgar með meiriháttar almenningssamgöngukerfi. En ég myndi aldrei vilja eiga dýran og nýjan bíl, bara svona skrjóð sem kostar ekki það mikið að maður sé í losti ef eitthvað kemur fyrir hann. Og ég myndi ekki vilja þurfa að nota hann daglega, vera kannski föst í morgunumferð á leið á leiðindaskrifstofu, það eru aðstæður sem ég skal aldrei uppgötva að ég hafi komið mér í. Aldrei.
En ég er sem sagt orðin eins og útivinnandi, þarf að klára mína 7 klukkutíma á dag og ekkert múður. Í nótt vakti Sólrún okkur klukkan hálfþrjú til að segja okkur að hún hafði gleymt að gera eitthvað verkefni fyrir skólann. Við sendum hana aftur inn í rúm, maðurinn minn sofnaði strax, en ég lá andvaka í þrjá klukkutíma. Það hefði dugað mér til að ákveða að sleppa því að vakna klukkan sjö og vera mætt við skrifborðið klukkan níu, fyrir nokkrum vikum síðan. En ekki núna. Ég bara verð að halda takti, vinna, vinna, vinna. Það er mjög gaman að takast á við skáldsögu. En maður minn, hvað það er miklu erfiðara en að takast á við lagatexta. Í lagatextaþýðingum er í raun sami andinn í textanum á milli tungumála. Í skáldverki skapar höfundurinn einhvern anda sem er ekki endilega hluti af einhverri ákveðinni hefð, ekki partur af orðræðuhefð úr ákveðnum bransa, eins og lagatextarnir. Og ég ber ábyrgð á því að koma þessum anda yfir til íslenskra lesenda. Og stundum líður mér eins og ég sé með fíl á bakinu, sem er verra en finnast maður hafa bíl á bakinu. En svo koma stundum smáir en mikilvægir sigrar. Eitthvað sem maður er óheyrilega ánægður með. Og þá fyllist maður krafti og finnst maður alveg valda þessu. Þangað til maður kemur að næstu erfiðu þúfu. Og svo koll af kolli. Eða þúfu af þúfu.

Það er að vissu leyti mjög gaman að vera svona næstum eins og útivinnandi. Verst samt hvað það truflar mann í að vera að dútla við annað, eins og til dæmis garðinn. Nú neyðist ég til að geyma slíkt til helganna. Og um helgar er ég með börnin. Og þau eru skemmtileg og góð og allt það, en þeim finnst ekkert endilega nógu gaman að hanga úti í garði með mömmu of lengi neitt. Í gær málaði Sólrún samt skilti og svo rigguðu þau upp fuglahræðu, því fljótlega förum við að sá fyrir alls konar góðgæti. Og einni grasflöt líka, það þarf að vera rými þar sem þau mega drepa niður fæti án þess að vera að skemma neitt. Og þar sem ég sé mig líka í anda liggja á teppi með bók í júní, þegar ég verð búin að skila af mér þýðingunni. Ahhh, je m’en réjouis d’avance!
Ég steingleymdi að taka myndir af skiltinu og fuglahræðunni en lofa að gera það í vikunni. Já. Garðurinn heitir sem sagt Le jardin magique og fuglahræðan heitir Thomas Tómas. Hann lítur út eins og börnin mín, enda fékk hann fötin sín frá þeim, rennilásalausan flísjakka, of lítinn sólhatt og rennilásabilaða skó.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha