Sarpur fyrir janúar, 2010

villibráð í Copavogure

Á þriðjudag kom ég heim og gekk inn í eldhúsið. Þar lá fiðraður fugl dauður á eldhúsborðinu. Hjartað missti úr slag, fyrst hélt ég að þetta væri kannski E.T. kominn í heimsókn. (Það er ekki enn komið loftljós í eldhúsið, það var mjög dimmt, ég var edrú).
Í ljós kom að tengdafaðir minn hafði komið með fyglið í vinnuna til mannsins míns, en honum hafði borist það frá fyrrverandi einkabílstjóranum, sem fylgdi stöðu hans í frönsku góðæri á 8. eða 9. áratugnum.
Ég tilkynnti manninum mínum að ég myndi ekki sjá um að reita hann eða matbúa og eftir vangaveltur var ákveðið að sjá hvort slátrarinn væri ekki til í að hjálpa okkur gegn gjaldi. Slátrarinn gerði að fuglinum ókeypis, gegn því að selja okkur fyllingu í hann.
Í fyrrakvöld var maðurinn minn svo í eldhúsinu til ellefu, ilmurinn lofaði góðu. Í gærkvöld var hann borinn á borð og jú, þetta er ljúffengt fuglakjöt, þó ekki eins bragðsterkt og ég bjóst við miðað við lyktina.
Á frönsku er til kvenkyns mynd af orðinu fasani, fyrir kvenfuglinn. Un faisan, une faisanne. Hvernig yrði það á íslensku? Fasana/fasína/fasinna?

Í kvöld er hið árlega kvennakvöld okkar íslensku kvennanna í Frakklandi og þó víðar væri leitað. Að þessu sinni eru fáar utan af landi, eða frá nágrannalöndum, því miður, en við erum 44 skráðar til leiks. Mér segir svo hugur um að íbúarnir í Gleðigötu eigi eftir að finna eitthvað fyrir okkur í kvöld. Hvort það verður sæt hefnd eftir rústun ákveðins landsliðs í ákveðinni hundleiðinlegri boltaíþrótt eður ei, er ekki vitað þegar þetta er ritað.

Lifið í friði.

ljósmyndakver – Reykjavíkurmyndir

Nýtt ljósmyndakver Einars Jónssonar Utan Hringbrautar – Reykjavík Urban Landscape er nú fáanlegt á Blurb. Þar er að finna borgarlandslagsmyndir frá Reykjavík og nágrannasveitarfélögum sem teknar voru á undanförnum árum. Kíkið endilega á sýnishornið.

Lifið í friði.

Þjónn, það er putti í súpunni minni!

Ég var að breyta fyrstu færslunni minni hérna á Eyjunni. Ég hafði víst talað um stúlkur en ekki drengi í máli nágrannakonu minnar. Engin skýring á þessu, veit bara ekki hvað kom yfir mig.

Annars er ég á fullu að rembast við að skrifa ritgerðina. Reyndar ennþá bara að lesa heimildirnar og krota niður hugmyndir. Ég er komin með einn kafla í hausinn, en annað er enn mjög óljóst, svo ekki sé meira sagt. Og nú velkist ég í vafa með að segja henni að ég sé aftur hætt við. Hversu hallærislegt er það samt? Æh. Bleh. Ég reyni að klambra einhverju saman og skila.

Svo er ég að reyna að setja saman dagskrá næstu annar:
Ég er búin að taka því að verða sölumaður fyrir íslenskar náttúruvörur í París og vinn við þýðingar og yfirlestur á bæklingum og fleiru í kringum það.
Ég er að lesa um Íslendingasögurnar á frönsku, með áherslu á Hallgerði Langbrók, en ég ætla að skrifa ritgerð um hana fyrir rauðklædda femínistann sem er með málstofu um konur á miðöldum.
Ég er að reyna að komast í samband við mann sem er að leita að túlkum á vetrarólympíuleikunum í gegnum síma, tímamismunur hefur valdið því að við höfum farið á mis undanfarið.
Ég er að leita að hóteli með aðgengi fyrir hjólastóla, á von á skólahóp í mars og tveimur gönguferðum í apríl.
Mamma og pabbi koma í heimsókn í byrjun febrúar ásamt systur minni og dætrum hennar tveimur (þær eru stelpur, stelpur, ég sver það), sú yngri einmitt glæný og nafna mín að auki. Og gamlir lesendur vita að þegar mamma er að koma þarf Kristín að gera alls konar hluti heima hjá sér til að vera ekki skömmuð. Undarlegar hrúgur í hornum þurfa að hverfa, ryk ofan á skápum, gluggar þurfa að glansa og barnaherbergið þarf að líta út eins og úr Ikeabæklingi.
Svo er kvennakvöld í París á laugardaginn, ég hef staðið í undirbúningi, en ekkert ógurlega flóknum. Þetta virðist allt ætla að smella saman, með aðstoð góðra kvenna.

En það er nóg að gera. Feikinóg. Þess vegna var líklega alger óþarfi að búa til nýja uppskrift að kjötsúpu og vera nú illt í puttanum. Baugfingri vinstri handar, nánar tiltekið.

Lifið í friði.

glit(t)

Það glittir í vorið, hér rétt handan við hornið. Ég er búin að ákveða að það snarhlýni áður en fjölskyldan mín kemur í heimsókn frá Íslandi, í byrjun febrúar (reyndar inni í miðju verkfalli flugstjóra, en ég forðast að hugsa um það). Mjög vorlegt að horfa út um gluggann en ískalt þegar ég opna hann.

Það glittir hins vegar ekki í skilning á efninu sem ég er að lesa. Þannig er mál með vexti lömbin mín að ég lenti í smá tölvusamskiptum við ítölsku beljuna sem kenndi mér merkingarfræði og á einhvern undraverðan hátt tókst henni að sannfæra mig um að reyna við ritgerðina núna í vikunni. Svo ég sit sveitt við að endurlesa ritgerðir fræðimannanna, allar útstrikaðar með grænum áherslupenna, en það dugar skammt til að lýsa upp í skilningshorni heilans.

Svo ég haldi áfram með svona framhaldssögufréttir þá glittir stundum í nágrannakonuna sem veiktist svona hastarlega í sumar eins og ég sagði ykkur frá. Hún komst heim til sín í desember, eftir rúmlega fjögurra mánaða sjúkrahúslegu. Hún er mjög undarlega afskræmd í framan eftir mikla steralyfjatöku, en ótrúlega sterk og ákveðin. Fer út í göngutúr á hverjum degi, hvernig sem viðrar. Læknarnir segja að hún sé einmitt kraftaverk og hafi eingöngu lifað þetta af út af þessum undarlega viljastyrk sínum. Það var átakanlegt að heyra sögur af því þegar hún sá eldri strákinn sinn í fyrsta skiptið aftur, eftir mánaðardá. Hún hafði verið góð daginn áður og átt orðaskipti við manninn sinn svo ákveðið var að láta strákinn koma samkvæmt læknisráði, sem töldu það geta hjálpað henni áfram. En þann dag var hún alveg lömuð. Þegar hann kom gangandi að rúminu og sá mömmu sína brosti hann þó hún væri með túpu tengda við hálsinn og snúrur og tæki allt í kringum sig. Hún opnaði þá augun og hann uppástendur að hún hafi blikkað hann. Enginn annar sá það, en henni tókst það víst.
Hún lýsir því líka að henni þótti ekkert spennandi tilhugsun að sjá yngri drenginn, þannig lagað séð. Bar engar tilfinningar til hans. En þær kviknuðu um leið og hún fékk hann í fangið, henni leið eins og hún hefði verið að fæða hann þá, ég held að hann hafi verið um tveggja mánaða. Hún er hugrökk, jákvæð og ákveðin í að ná sér að fullu. Ég vona innilega að það takist, það er erfitt að horfa framan í hana því hún lítur svo illa út, en þegar maður einbeitir sér að augunum batnar það strax. Sagan hennar er bara enn ein sagan af hvunndagshetjum sem sigrast á hinu ómögulega. Mér finnst það magnað, þetta fólk.

Lifið í friði.

lífið er jafna

Daginn sem ég fékk ávísunina upp á 25 evrur sendar fyrir smáþýðinguna, fékk ég tilkynningu frá bankanum um að ég hefði farið yfir leyfilegan tíma í mínus og því væru 24,95 evrur teknar af mér í vanskilagjald. Svona er lífið nú undarlegt.
Hér í Frakklandi gilda ekki sömu reglur um yfirdráttarheimildir og á Íslandi. Ég er með heimild til að fara 300 evrur í mínus, en ég má ekki vera undir núllinu í meira en tvær vikur samfleytt. Ef það gerist fæ ég viðvörun og ef ég laga það ekki borga ég tveimur vikur síðar 24,95 evrur í sekt.
Ef það gerist, fer ég á svartan lista. Þá fæ ég ekki viðvörun næst þegar ég fer tvær vikur yfir, heldur eru 24,95 evrur teknar út strax. Ef mér tekst að halda mér hreinni í 3 mánuði fer ég af svarta listanum. Ég lenti sumsé á svarta listanum í nóvember fyrir helberan klaufaskap. Svo kíkti ég á stöðuna um daginn og reiknaði út að ég yrði að laga minn litla mínus fyrir mánudaginn næsta, ekki mánudaginn síðasta. Hef eitthvað stokkið yfir eina viku í dagatalinu. Svo ég tapaði 24,95 evrum.
Þetta kallar óreiðufólk „vesen í bankanum“, ég kalla þetta bölvað og bévítans vesen á sjálfri mér. Ég fyrirlít reglur bankans og þá staðreynd að ég neyðist til að vera með bankareikning. Ég fyrirlít kerfi sem gengur út á að hygla þeim sem græða meira og refsa þeim sem græða minna. En ég á að skilja þessar reglur og á að geta passað upp á að þeir geti ekki svínað svona á mér.

Í morgun skilaði ég svo þýðingu sem ég fæ rúmar 200 evrur fyrir einhvern tímann í mars. Ömurleg lagaþýðing en mikið er nú góð tilfinning að vinna sér inn pening. Þó maður þoli ekki peninga.

Hér er stillt og fallegt veður, skýjað en ekki dökkgrá ský með rigningu eins og í gær, svei mér ef sést ekki til sólar í gegnum þessi ljósu ský. Þvottavélin malar, nágranninn ryksugar, ég undirbý mig andlega undir að taka 51 stökk með dýfu. Ég er reyndar hætt að svitna núna og mér finnst ég alls ekki grennast. Ég styrkist, ég mæðist minna en mér finnst ég ekkert tálgast niður. Samt geri ég líka magaæfingar og er farin að hreyfa mig mun meira með, hætt að nota rúllustiga og fleira smálegt. Ég er farin að halda að ég þurfi að huga betur að mataræðinu. Ég borða mikið af grænmeti en kannski of mikið af brauðmeti og sósum, ég veit það ekki. í morgun fékk ég mér það sem mér finnst komast næst skyri, með eplamauki. Algerlega fitusnautt og próteinríkt. Mig langar hrikalega mikið til að minnka magann framan á mér. Síðast á mánudag var ég enn og aftur spurð hvort ég væri ólétt. HFF.

Uppfært: Ég svitnaði eins og ég ætti lífið að leysa við stökkin í morgun:)

Lifið í friði.

Rokkstjarna og fallinn flugstjóri

Ég las ekki mikið af bókum úr íslenska jólabókaflóðinu þetta árið. Að undanskildum tveimur bókum sem mér hafa verið lánaðar fékk ég bara gamalt efni og „úrelt“, hinn marglofaða Stieg Larsson Menn sem hata konur og Maí 68 – Frásögn eftir Einar Má Jónsson og sem er einmitt metróbókin mín þessa dagana, enda mun hentugri en sænski doðranturinn sem ég er líka búin að rífa í mig.

En ég fékk sumsé tvær glænýjar (held ég alveg örugglega) lánaðar, sú fyrri var Paradísarborgin eftir Óttar M. Norðfjörð, hin ágætasta skemmtisaga með óhugnaðarívafi. Einnar nætur gaman. Bók sem ég held að ætti að auglýsa upp sem góða fyrir eldri unglinga, fín fyrir lestur í menntó, gæti ég trúað.
Hin síðari lá aðeins lengur á náttborðinu og var ég engan veginn viss um að ég ætti að lesa hana. Þetta er ekki skáldsaga heldur texti beint upp úr bloggi manns sem lést úr krabbameini síðastliðið sumar, langt fyrir aldur fram, Dagbók rokkstjörnu – þrjú ár í lífi fallins flugstjóra eftir Atla Thoroddsen.
Síðan systir mín gabbaði mig til að lesa A Child Called „It“ fyrir ótalmörgum árum síðan, hef ég forðast svona sannar sorgarsögur eins og heitan eldinn. En margt spilaði inn í að á endanum ákvað ég að lesa þessa bók. Í fyrsta lagi þekktu tvær vinkonur mínar höfundinn og báðu mig sérstaklega um að lesa hana. Í öðru lagi hef ég lengi haft mikinn áhuga á heilbrigðiskerfinu og hvernig farið er með fólk í því. Og í þriðja lagi var ég forvitin að sjá hvernig bloggið hans var, ég er jú bloggari sjálf.
Allur texti utan á bókinni og á saurblaðinu bendir til ofurjákvæðni „hetju sem neitaði að láta erfið veikindi ræna sig lífsgleðinni og kímnigáfunni“. Ég verð að játa að mér leist ekkert sérlega á blikuna í upphafi lesturs, ég á alltaf dálítið erfitt með þá sem kalla sjálfa sig „kallinn“ og textinn er ekkert allt of vel skrifaður. En smátt og smátt lærir maður, eins og svo oft á bloggum, að þekkja manneskjuna, finna hvenær hún er að grínast og hvenær maður á að taka skrifunum alvarlega og allt í einu er maður einhvern veginn orðinn fastur í lestrinum og vill ekki hætta. Þó maður viti endinn og langi helst ekkert til að fara þangað.
Líkt og langflestir alvarlega veikir sjúklingar, er Atli fullur af húmor gagnvart sjálfum sér og ástandinu. Og þó að hann sleppi sér stundum og kvarti þá er það alltaf varlega gert og næstum beðist afsökunar í sömu andrá.
Kaflar konunnar hans, Ástu Hallgrímsdóttur, sem dreifðir eru um bókina á milli bloggfærslna Atla, eru mun alvarlegri, en hún fellur þó ekki heldur í fúlan pytt tilfinningaseminnar. Frásagnir af bið og undarlegum uppákomum á læknastofum eru skýrar og án biturðar. Ískalt vatn rennur milli skinns og hörunds lesanda á köflum en æðruleysi Ástu er með ólíkindum. Hún var of kurteis, of lengi. Algengt vandamál „viðskiptavina“ heilbrigðiskerfisins.

Ég veit ekki hvort ég á sérstaklega að mæla með þessari bók, ég skal alveg játa að ég brotnaði algerlega niður í lokin og grét með ekkasogum. En kannski er bara allt í lagi að gráta dálítið stundum og vitanlega er mjög mikilvægt, alltaf, hvort sem það er slæmt ástand eða góðæri eins og var þegar Atli fær sína fyrstu röngu greiningu, að krefjast þess að hlúð sé að heilbrigðiskerfinu, að komið sé fram við fólk af virðingu, að hlustað sé á lýsingar á verkjum og reynt að finna rót vandans og allt þetta blablabla, ó svo augljósa, sem endalaust virðist hægt að benda á og biðja um, en aldrei virðist ætla að verða reglan.

Lifið í friði.

hugs og blaðr

Þegar móðir manns er farin að kalla eftir bloggi, verður að rífa sig upp úr bloggdoðanum. Allt fyrir mömmu. Málið er ekki að ég væri komin með „leið á blogginu“, „leið á internetinu almennt“ eða nokkuð slíkt. Reyndar er ég orðin mjög leið á að sjá svoleiðis frasa. Hvað þá klisjuna um að bloggið sé bara pólitískt bull. Halló! Ég er hérna!

Ég hef bara svo mikið verið að hugsa undanfarið að ég hef ekki getað blaðrað um leið, nema náttúrulega á facebook, en þar þvaðrar maður í einni setningu svo það er ekki að marka. Og hvað hef ég verið að hugsa? Haha, það er eiginlega leyndarmál ennþá en undirritaðri hefur boðist að taka þátt í tilraun sem er mjög spennandi þó hún sé um leið dálítið ógnvekjandi. Nei, ég á ekki að taka inn töflur sem eingöngu hafa verið prófaðar á rottum eða neitt slíkt. Ég á bara að taka að mér hlutverk sem ég hef alltaf haft hálfillan bifur á og aldrei talið henta mér, sumsé sölumennsku.
Ég hef til dæmis alltaf átt dálítið bágt með þann hluta af Parísardömunni, að tala vel um sjálfa mig og París og hljóma eins og einhver [helv…] almannatengill. Verða fjölmiðlahóra, taka verkefni mér sjálfri til auglýsingar o.s.frv. hefur alltaf verið skuggahliðin á þessu brölti mínu sem ég vil helst líta á sem einhvers konar amatör götu“leikhús“ (úff, hvað maður þarf alltaf að passa sig á að styggja ekki prófessjónal fólkið, ég er ekki leiðsögumaður og ég er ekki leikari, ég bara kona sem gengur um götur og blaðrar).
Málið með þessa sölumennsku sem ég ætla (líklega) að taka að mér, er að það sem ég mun bjóða er alvörustöff sem ég hef sjálf reynslu af og sem ég trúi að eigi erindi á markað hér.

Annars er maður bara að hamast við að vera til og halda jákvæðninni þrátt fyrir hörmungarnar á Haítí og óendanlegan pirring yfir að sumir nái að sjá í þeim hörmungum einhvers konar almannatengslatækifæri fyrir Íslendinga. Sveiattan.

Femíniska greinin sem ég var að þýða fyrr í vetur er nú allt í einu að verða til í alvörunni á íslensku. Og svo var ég að gera samning upp á 25 evru laun í dag. Það gerir meira en evru á dag fyrir það sem liðið er af janúar. Þýðingin verður unnin um leið og ég stekk 44 froskastökk með armbeygjum og hala. Vá hvað lífið brosir nú við manni, þrátt fyrir allt og allt.

Lifið í friði.

roðrunnate

Kuldinn hérna er ansi bitur og bítur í kinnar. Ég gat varla talað eftir að ég kom inn eftir göngutúr áðan. Mér finnst eiginlega núna að vetrinum megi bara ljúka, svona veðurfarslega séð. Reyndar gladdist ég við að horfa á snjókornin falla í morgun en að vera úti í þessum raka kulda er ekkert sérlega mikið grín. Fólkið sem er að koma til baka eftir jólafrí á Íslandi er sammála um að hér er mun kaldara og erfiðara að vera úti.

Ég er búin að fá allar einkunnirnar í höfn og náði öllu með sóma. 12 í merkingarfræðiprófinu, 15 fyrir ritgerðina um Todorov og 17 í þýðingarýninni á The Great Gatsby. Ég er að rifna úr monti, var nú bara með þeim hærri í þeim tveimur síðarnefndu og fékk uppörvandi hrós. Og nú er komið frí í skólanum til 8. febrúar. Það er fáránlegt, ég vildi óska að ég gæti byrjað strax og klárað þá fyrr, en næsta vika er upplestrarfrí, svo kemur prófavikan (en enginn kennaranna minna nennti að standa í því, notuðu bara næstsíðasta tímann í prófið) og svo leiðréttingar prófa-vikan. Svo megum við byrja aftur. En ég ætla að nýta tímann vel, byrja að vinna í ritgerð um konur á miðöldum sem ég fékk frest til að gera á seinni önn og hver veit nema ég dútli mér eitthvað við að klára greinina sem ég var að þýða um Polanski og svo þarf að byrja að lesa og svo þyrfti ég að prenta út þúsund myndir og svo mætti mála klósettið og þrífa eldhúsið (sérstaklega ísskápinn en líka aðra skápa) og svo… já, þið vitið… ég veit að þessi blessaði 8. febrúar verður kominn áður en ég veit af.
En nú ætla ég að dressa mig upp og setja rússarauða varalitinn á mig og fara í matarboð til góðs fólks. Þar verður ekki rætt um… þið vitið. Þar verður rætt um bókmenntir og listir og nokkrar djúsí spennandi kjaftasögur rifjaðar upp. Ah, það er svo hollt að vera bara kátur þrátt fyrir allt. Er það ekki?

Titilllinn er bara orð sem ég lærði á feisbúkk í dag eða í gær. Og þar sem þetta er tepokablogg, fannst mér hann tilvalinn á færsluna.
Lifið í friði.

skaup og niðurtaka jólanna

Ég lýsi yfir eindreginni ánægju minni með skaupið. Ég fann að ég var að missa af einhverri vísun og er búin að sjá á feisbúkk hvaða mynd er verið að vísa í sem ég er ekki búin að sjá og man ekki núna hver er. En ég hló stundum og skemmti mér almennt vel. Mér fannst það áberandi vel unnið tæknilega, alveg sannfærð um að þarna eru senur sem kosta slatta pening og er forvitin að vita hvort þau fóru bara betur með peningana, hvort einhverjir unnu kannski brellur og dót launalaust eða á óvanalega lágum launum. En ég ætla ekki að leggja mig sérstaklega eftir þeim upplýsingum enda finnst mér peningatalið í kringum RÚV núna óþolandi. Auðvitað þarf að vera RÚV, og þegiði bara ef þið eruð ósammála mér. Ég nenni ekki einu sinni að telja augljós rökin fyrir því upp.
Lokaatriði skaupsins er stórsigur í sjónvarpsgerð á Íslandi. Til hamingju skaupsfólk.

Hér stendur svo jólatréð strípað og ljóslaust í stofunni og bíður örlaga sinna. Ég tek ekki allt jólaskrautið í dag, geri þetta í svipuðum skrefum og þegar ég set það upp. Mér finnst ferlega góð tilhugsun að börnin séu að fara aftur í skólann en kvíði því sjálf svo hryllilega að það tekur engu tali. Eina einkunnin sem ég fæ á morgun er úr prófinu sem ég tók í merkingarfræði svo hún telst ekki með. En ég er búin að fá íslensku einkunnina, fékk átta í skjalaþýðingum. Merkileg tölfræði í þeim áfanga. 23 skráðir, 8 virðast hafa mætt til prófs, 6 fengu einkunn, 4 náðu. Ég minntist reyndar á það við vin á dögunum að það væri fínt að fleiri færu úr þjóðfélaginu og inn í Háskóla. Fólk sem heldur að það ætli að „rúlla upp“ einhverjum gráðum sér vonandi að þetta er annað og meira en að segja það.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha