Sarpur fyrir október, 2023

Hjólað og ljóðað

Stundum verða til sögur eða ljóðlínur eða eitthvað sem mér finnst ég þurfa að muna þegar ég er úti að hjóla. Í dag hjólaði ég töluvert í góða veðrinu. Það er mikill lögregluviðbúnaður í París og fólk er almennt frekar áhyggjufullt yfir ástandinu í heiminum.
En heilinn í manni virkar svo furðulega. Þetta braust fram hjá mér í dag. Ég er mjög spéhrædd og þori varla að kalla þetta ljóð, en ég er að reyna að vera kúl svo ég bara læt vaða. Ég fann engan titil samt:

Andlit þitt speglast í sólgleraugum hans.
En hann sér hvorki þig, né sólina
sem hann sér ekki fyrir sólgleraugunum
sem endurpegla í hans huga ekki andlit þitt
heldur hans eigin stöðu í samfélaginu.
Valin af kostgæfni, fyrst merkið svo lúkkið.
Hann glottir út í annað, grípur reikninginn,
segir: „Heyrðu, þarf að drífa mig, vertu í bandi.“

Ósýnileiki

Ég varð einhverju sinni fyrir uppljómun varðandi þýðingar og garðyrkju sem eiga dálítið sameiginlegt: Þetta vor hafði ég legið á hnjánum í jarðarberjabeðinu mínu í ískaldri mars rigningu nokkra daga í röð og hreinsað vandlega burt hvert einasta blettótta blað af plöntunum sem og allt illgresi. Svo hafði ég sett áburð og mold í beðið. Ég var krókloppin á höndunum eftir hvert skiptið sem ég lá þarna en var sumsé harðákveðin í að ná burt þessari sýkingu sem virtist vera í plöntunum.

Síðar um vorið voru plönturnar undurstórar og flottar og blómstrandi. Kemur náunginn sem var með garðreit við hliðina á mér, horfir á beðið og segir: „Sniðugt hjá þér að vera með svona viðhaldsfría ræktun. Eitthvað svona sem bara vex af sjálfu sér.“

Ég varð kjaftstopp í smá stund og reyndi svo að malda í móinn og útskýra fyrir honum að beðið væri svona gróskumikið og fínt af því ég hafði hugsað sérlega vel um það.
Það er staðreynd að því meira sem þú vinnur í garðinum þínum, því betur sem beðin eru hreinsuð og plönturnar klipptar og dedúað við þær, því minni líkur eru á að fólk sem horfir á garðinn og nýtur fegurðarinnar átti sig á stritinu bakvið hana. Fallegir og snyrtilegir garðar virðast vera það fyrir einhverja töfra. Blóðið, svitinn og tárin hverfa.

Hið sama gildir um góða þýðingu. Ef textinn rennur ljúflega og fallega er mjög líklegt að fólk finni engan veginn fyrir vinnu þýðandans. Ef þú finnur hnökra í textanum, er líklegra að þú leiðir hugann að þýðandanum.

Þannig eru það örlög garðyrkjumanna og þýðenda að því meira sem þau hafa fyrir hlutunum, því ósýnilegri verða þau.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

hildigunnur um Ósýnileiki
showerhead Percolato… um
parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó