Sarpur fyrir febrúar, 2005

ó, veður?

Fyrst yfirlýsing: Ég er algerlega sammála ryksjúgandi, syngjandi og prjónandi fótboltamanninum varðandi trúmál og börn. Sjá tengil í titli síðasta pistils.
Hér í Frakklandi hefur verið tekin alger trúleysisstefna hjá ríkinu til að koma í veg fyrir árekstra milli trúarhópa. Aðskilnaður ríkis og kirkju er í sjálfu sér alveg ágætur hlutur en það á samt ekki að leiða til þess að algerlega sé bannað að tala um trúmál á ákveðnum vettvangi. Mér leiðast þessir öfgar og finnst þeir oft draga athyglina frá mikilvægari málum. Til dæmis hefur ofurumræða um slæðubannið í menntaskólum dregið athyglina frá öðrum og stærri vandamálum stúlkna hér.

Hér hefur verið ískalt og snjóað við og við undanfarna daga. Þannig eru sums staðar örsmáir vísar að sköflum á gangstéttum í fáförnum götum hverfisins míns. Dóttir mín skoppar á milli þeirra, þetta eru kannski fimm sentimetra háar, 40 sentimetra langar og 20 sentimetra breiðar eyjur. Varla hægt að gera almennilegan snjóbolta úr þessu án þess að eyðileggja gersamlega „skaflinn“. En það sindrar á götur og bíla á morgnana þegar sólin skín og ísköld golan bítur kinnarnar.
Þetta fárviðri hefur orðið til þess að búið er að loka öllum rólóum og görðum. Við vöfrum um göturnar með börnin okkar í fínu snjógöllunum og kuldaskónum sem keyptir voru á útsölu í Danmörku um áramótin en megum hvergi leika okkur. Frönsk börn sjást stundum á ferli, á leið út í búð eða í heimsókn til vina (það er vetrarfrí núna). Þau eru vitanlega ekki eins vel útbúin og hálfíslensku börnin mín, en það var sárt að sjá börnin hágrátandi við lögregluteipið sem hafði verið dregið utan um fína kastalann í garðinum í 10. hverfi sem við Agnes ætluðum í á föstudaginn. Það var hægt að komast inn í garðinn, en leiktækin voru sem sagt lokuð aðgangi, „fyrir öryggi barnanna“. Í raun er ekki ætlast til að börnin séu úti. Þ.e.a.s. þessi vesalings börn sem fá ekki að fara í skíðafrí eins og megnið af fólki gerir hlýðið og gott í þessu vetrarfríi skólanna.

Alveg eins og mér finnst að allir Íslendingar eigi að búa a.m.k. eitt ár í útlöndum, finnst mér nú að allir Frakkar ættu að fara og búa eitt ár á Íslandi. Finna almennilega hvað VETUR er. Átta sig á því að það er ekki lengur ómögulegt að vera úti í kulda. Nútímatæknin hefur fært okkur gore-tex og flís og gamla góða ullin gerir einnig kraftaverk gegn kuldabola sem getur rétt svo nartað í kinnar á barni sem vel er klætt. Og hvað er fallegra en eldrauðar kinnar á hamingjusömu barni sem hoppar í snjó og rennir sér á svelli?

Ekki dettur borgaryfirvöldum í hug að fjárfesta í íslenskum kraftgöllum á garðverðina og láta þá skafa þennan litla snjó af tækjunum og bera sand á hálkublettina til að börnin geti notið útiveru í sól og stillufrosti. Nú væri tækifæri fyrir 66N að gera markaðsárás á frönsk yfirvöld. Eiga ekki allir að vera í útrás?

Lifið í friði.

lesið þetta

Þetta er áhugavert. Þyrfti að skrifa meira, en ég hef ekki tíma, hér er horft illu auga á mig fyrir að vera að þessu akkúrat núna.

Lifið í friði.

reykingar og bönn

Ég er eiginlega í tilvistarkreppu varðandi þetta frumvarp framsóknarflokksins um að banna reykingar á veitingahúsum.
Ég reyki ekki lengur sjálf og er mjög ánægð með það. Ég er alltaf mjög fegin þegar ég kem á reyklaus veitingahús. Ég vona innilega að reykingar eigi eftir að minnka mikið og kannski jafnvel verða að engu einn góðan veðurdag.
En ég á marga vini sem reykja og ég þoli alveg að sitja í reyk, ólíkt sumum sem eiga virkilega erfitt með það. Og mér finnst svona alhliða bönn alltaf dálítið óþægileg.
Grein Hnakkusar um málið er mjög góð. Hann minnist á „afvegaleidda frelsispostula“. Ég hef stundum haft áhyggjur af því að ógeð mitt á lögum og reglum og boðum og bönnum geti rakið ættir sínar til frelsishyggjunnar sem hægrisinnaðir boða. Þetta hefur mér þótt flókið og vont að hugsa um og hef því ekki gert mikið af því. Bægt því frá mér.
Væri ekki hægt að hvetja veitingahúsin til að verða reyklaus, án þess þó að banna stöðum að leyfa reykingar? Væri til dæmis ekki hægt að hafa sömu reglur um reykingaleyfi eins og um áfengisleyfi. Sækja þyrfti sérstaklega um slíkt leyfi, vera með mjög öfluga loftræstingu og greiða einhvers konar skatt vegna mengunarinnar sem af reykingum og loftræstikerfi hlýst. Æ, ég veit ekki.
Það er í raun og veru út í hött hvað fáir staðir eru reyklausir á Íslandi. Mín reynsla af Íslendingum er sú að þeir eru reyklausir, með örfáum undantekningum. Samkvæmt skýrslu Sivjar reykja um 8 prósent gestanna, minnir mig. Hvaða leppalúðagangur er þetta í veitingahúsaeigendum?
Ég man að veitingahús Sigga Hall á Hótel Óðinsvéum var reyklaus staður og samt yfirfullur af gestum þegar ég borðaði þar, fyrir nokkrum árum. Hvers vegna fylgja hinir ekki í kjölfarið? Þarf virkilega stóra RÍKIÐ að koma og BANNA til að þróun eigi sér stað? Er fólk ekki fært um að sjá að hlutirnir eru að breytast, fólk er farið að lifa heilbrigðara lífi, orðið meðvitaðra um krabbameinsvaldandi hluti og reynir að draga úr þeim efnum í kringum sig.
Það er reyndar ansi margt í okkar nútímalegu lifnaðarháttum sem mengar umhverfi okkar og gerir það verra. Ódýr húsgögn úr spónaplötum eru mjög mengandi, mörg efni sem við notum til þrifa, sjampó og aðrar hreinlætisvörur svo eitthvað sé nefnt. Þá vil ég enn og aftur benda á ofnotkun of stórra bíla í borginni. Það er krabbameinsvaldandi og umhverfinu hættulegt en einhverra hluta vegna vilja Íslendingar ekki hugsa mikið út í það. Ef okkur tekst að útrýma sígó, skyldi þá vera hægt að virkja Þorgrím Þráinsson í að útrýma stórum spúandi einkabílum?
Ef allir taka sér tak og reyna að menga eins lítið og hægt er, hafa virkilega fyrir því að breyta hlutum í lífi sínu þannig að minna fari af efnum út í náttúruna munum við kannski ná að kaupa okkur örlítið lengri tíma á jörðinni. Af hverju getum við ekki bara gert þetta sjálf? Af hverju þurfa stjórnmálamenn eilíft að hafa vitið fyrir okkur? Af hverju hættir fólk ekki að sækja reykstaðina og smátt og smátt munu þeir verða reyklausir staðir?

Lifið í friði.

gaman

Það er sól og allt hvítt ennþá. Mér finnst þetta alveg frábært. Ég ætlast ekki til að fólkið sem hefur vaðið snjó í allan vetur og þreifað sig í gegnum þoku þessa viku skilji mig. En ég skil mig. Það er nóg.
Í gær fór ég í tölvubúð og stóðst prófraunina. Ég beið lengi í Apple-horninu meðan sölumaðurinn var í einhverjum kappakstursleik á risastórum fallegum flötum hvítum skjá. Hvílík misnotkun á vesalings tölvunni. Hver fann upp tölvuleiki? Ætti að hengja þann mann í hæsta gálga. Ekkert eins heimskulegt á svipinn og fullorðinn maður að handfjatla stýripinna. En ég beið þolinmóð þar til leikurinn var búinn. Þá sneri hann sér að mér: Mademoiselle? Ég fyrirgaf honum að vera kjáni, brosti mínu fegursta og rakti honum raunir mínar. Mig langaði svo í Mac Os X. Hann fann fyrir mig 512 megabita minniskort á 105 evrur sem ég keypti. Svo fæ ég lánaða uppsetningardiska hjá Jean Marc og gamli jálkurinn mun breytast í þykjustunni glænýja tölvu. Þá ætti ég að geta sett upp MSN, sýnt myndir úr nýju fínu myndavélinni og alls konar fleira skemmtilegt. Svo þarf maður náttúrulega að fá vefmyndavél, air-port, ljósmyndaprentara og ýmislegt fleira sá ég þarna sem mig bráðvantar. Þessi ferð gekk mun betur en síðast, þegar ég fylltist einhverri vanmáttarkennd og gekk út úr búðinni með tárin í augunum.
Ég var m.a.s. svo örugg með mig að ég skipti minniskortinu sjálf út í gærkvöldi. Alveg ein og á eigin spýtur. Kannski ég geti sjálf uppfært tölvuna? Ég held það. Ég held það nú!
Maður á alltaf að gera það sem mann langar til. Maður á aldrei að hugsa sem svo að maður sé kannski ekki nógu góður. Kannski verður maður hugrakkari við að ala upp börn? Fyrst maður getur það, getur maður allt annað? Ég veit það ekki, en ég er full af einhverjum framkvæmdakrafti í dag. Full af orku. Nú er bara að nota hana á réttan hátt.

Smá ferðamannaupplýsingar: Besta tölvubúðin í París heitir Surcouf, sem er nafnið á frægum sjóræningja frá 17. öld. Hún er nú komin á tvo staði í París:

Surcouf, 139, avenue Daumesnil, 75012 Paris.
Opið má-lau kl. 10-19.

Surcouf, 21, boulevard Haussmann, 75009 Paris
Opið má-lau kl. 10-20, fim til kl. 22.

Þarna fæst allt milli himins og jarðar sem tengist tölvum, myndavélum og farsímum. Oft góð tilboð í gangi. Var upphaflega byggt upp sem markaður, básar sem minni sölumenn leigðu, en mér sýnist það hafa breyst, þó ekki viss.
Þeir eru með tölvutöskur með Eiffel-turninum á. Myndi kaupa mér eina slíka ef ég ætti fartölvu. Netsíðan er http://www.surcouf.com

Annað var það ekki í bili. Lifið í friði.

Hvít París

Hér kyngir niður snjó. Þetta er ótrúlegt. Þegar maður leit út í morgun var allt hvítt og snjóaði og nú, tveimur tímum seinna snjóar enn jafnmikið.
Það er dásamlega gaman að sjá útlendingana koma út úr húsunum dúðaða, stíga ofurvarlega niður og renna aðeins til. Sjá jakkafatakallana róta lengi í skottinu og finna loksins sköfuna sem var keypt í skíðafríi í Ölpunum fyrir nokkrum árum síðan og skafa svo vandlega allar rúður. Mér dettur ekki í hug að hreyfa bílinn í dag. Parísarbúar kunna ekki að aka í snjó. Það má bóka það að árekstrar verða á öðru hverju horni með tilheyrandi öskrum og jafnvel handalögmálum.
Ég ætla samt í bæinn, þarf að þræða tölvubúðir því nú er kominn tími til að stækka þessa tölvu eitthvað svo ég geti notað nýju fínu stafrænu myndavélina sem ég freistaðist til að kaupa í fríhöfninni. Kannski ég taki myndavélina með og taki snjómyndir fyrir fyrrverandi Parísarbúa?
Það er gaman í París þegar náttúran sýnir sig svona harkalega. Lífið gengur ekki sinn vanagang, það myndast einhvers konar hópstemning eins og þegar fólk er veðurteppt í skíðaskála á Íslandi. Allir fara að tala saman um ósköpin. Ég skal hengja mig upp á að nú verða rifjaðar upp sögur af skíðafólki á Trocadéro snjóveturinn mikla 96 á öllum kaffihúsum borgarinnar.

En svo kannski hættir bara að snjóa innan skamms og allt verður horfið á hádegi.

Lifið í friði.

mardi

Mardi er þriðjudagur. Á frönsku.
Um leið og ég þakka uppörvandi orðabelgi og hugmyndir að stórgróða, bið ég lesendur mína afsökunar á leiðindabloggi í gær. Mér líður miklu betur núna, takk fyrir mig.

Tvennt hnaut ég um í íslenskum fjölmiðlum um daginn á Íslandi og hef alltaf gleymt að vekja athygli á:

1. Fyrst var verið að tala um mótmæli í París, sem höfðu átt sér stað á fimmtudeginum áður en ég fór. Hér eru alltaf gefnar upp tvær tölur um fjölda þáttakenda, þarna var sagt að lögreglan hefði talið 3.000, þrjú þúsund manns en að skipuleggjendur hefðu talið 15.000, fimmtán þúsund. Þetta er ekkert óeðlilegt og maður er orðinn vanur að leggja saman og deila í tvennt og fær þá nokkuð góða mynd af stærð mótmælafundarins, ef maður hefur þá nokkra möguleika á að ímynda sér hvernig 9.000 manna hópur lítur út. (Sem ég t.d. hef ekki).
Á Íslandi var minnst eitthvað á þessi mótmæli í útvarpsfréttum og þar var sagt að 300, þrjú hundruð manns hefðu mótmælt í París!
300 manna mótmæli í París er ekki neitt, en það sem truflar mig mest er að þarna datt eitt núll af LÖGREGLUTÖLUNNI. Þ.e.a.s. fréttaskeytið hefur væntanlega gefið eingöngu þá tölu, ekki tölu skipuleggjenda. Hvaða fréttastofa var það? Les RUV kannski bara óhikað obinber skeyti frá skrifstofu yfirvalda? Án þess að athuga fjölmiðla viðkomandi lands og önnur sjónarmið? Mér er alveg sama um núllið, enda held ég að við Íslendingar séum almennt ekki fær um að ímynda okkur muninn á 300 og 3000 manns. Bæði er stórt í okkar hugum og okkur er slétt sama um þáttöku í mótmælagöngu í París líka. Mér finnst samt merkilegt að hugsa um það hvernig erlendar fréttir berast til Íslands og hvernig þær eru reiddar fram.

2. Á léttmetissíðum Morgunblaðsins, þar sem kvikmyndahúsin auglýsa myndirnar með titli og sýningartíma, án þess að geta leikstjóra og sjaldan leikara (ímyndið ykkur að Listasafnið auglýsti: Komið og sjáið frábæru málverkin Esjan, Vornótt í Reykjavík, Bátur við bryggju o. fl.), var um daginn viðtal við kvikmyndagerðarmann sem hefur tekist að ná samningum við Guillaume Depardieu um að leika í mynd fyrir sig og mun faðirinn Gérard einnig vera að hugsa sig um. Þetta finnst mér frábærar fréttir, en það sem furðaði mig var að talað er um að Guillaume sé að ná sér eftir slys sem hann varð fyrir. Málið er að Guillaume mun aldrei verða samur eftir þetta hræðilega slys.
Guillaume var, fyrir nokkrum árum, ungur flottur sonur rétts manns á hraðri leið upp á stjörnuhimininn. Eins og allir vita fylgir frægðinni alltaf einhvers konar örvænting og vandamál sem við litla fólkið getum ornað okkur við að þurfa ekki að burðast með þegar við lesum um hrakfarir fræga og ríka fólksins á fyrrnefndum síðum Moggans eða í öðrum sérhæfðari tímaritum eins og Séð og heyrt. Guillaume fór fullur og dópaður út að keyra á mótorhjólinu sínu, datt og slasaði sig á hné. Í aðgerðinni kom sýking í sárið og endaði þetta með þeim ósköpum að læknarnir neyddust til að taka af honum fótinn við hné.
það hefur alltaf vafist fyrir mér hvort ég á að tala um vin minn hommann sem hommann í hvert skipti sem ég segi frá honum. Eða hvort maður þurfi alltaf að taka fram að manneskjan var svört þegar maður segir frá samskiptum sínum við svarta manneskju. Ég hef verið að æfa mig í því að gera það ekki, að tala bara um fólkið sem fólk almennt nema það skipti virkilega máli í sögunni.
Samt fannst mér þessi saga sem ekki var sögð í fréttinni um að Guillaume hefði misst fótinn hreinlega öskra á að vera með. Maðurinn er leikari, notar líkamann til tjáningar, og nú er hann gerbreyttur maður. Einfættur. Auðvitað er hann kominn með flottustu tegund af gervifæti og kannski á hann að leika tvífættann mann í myndinni íslensku og allt gott um það að segja. En það var bara svo greinilegt að blaðamaðurinn hafði ekki hugmynd um þetta atriði og mér finnst það reyndar dálítið smart hjá íslenska kvikmyndagerðarmanninum að gefa blaðamanninum þetta ekki, fyrst blaðamaðurinn spurði ekki nánar út í slysið sem kvikmyndagerðarmaðurinn nefndi.
Þetta er dálítið flókið allt saman. Á maður núna alltaf að tala um Guillaume einfætta eða á maður að sleppa því að nefna það að hann missti fótinn?
Ætlaði Guillaume kannski að ná frægð og frama á Íslandi í trausti þess að enginn vissi þar að hann er einfættur? Hér í Frakklandi vakti þetta vitanlega gífurlega athygli og ekki síður uppgjör feðganna sem fóru fram í hinum ýmsu viðtalsþáttum sjónvarpsstöðvanna. Fyrst fúkyrði og afneitun hvor á öðrum og síðar sættirnar.
Er ég nú búin að skemma þetta allt saman fyrir honum? Vonandi ekki.

Lifið í friði.

hví?

Af hverju hringir ekki einhver í mig og tilkynnir mér lát fjarskylds forríks ættingja sem hafi arfleitt mig að stóru setri við sjó einhvers staðar þar sem alltaf er hlýtt og gott að vera?
Af hverju á ég ekki flugvél?
Af hverju á ég ekki kokk og vinnuhjú?
Af hverju má maður ekki drekka kampavín daginn út og inn þegar maður er húsmóðir og alein heima með börnin?
Af hverju? Akkurru? Murru? Turru? Surru? Lurru?

Lifið.

lundi II

Langt síðan ég hef upplifað eins mánudagslegan mánudag. Reyndar snjóar ekki, heldur er þetta fína gluggaveður, sól og allt. En Kári hóstar ljótum hósta og svaf lítið, það er einhver mjög skrýtin lykt í eldhúsinu og ég finn ekki upptökin, mér líður eins og ég sé í sykurfallli en súkkulaðiát breytti engu, líður verr ef eitthvað er, mig langar bara að liggja uppi í rúmi með bók þó að mest langi mig til að vera að vinna og fá laun, ég er að springa úr alls konar hugmyndum og hef svo aldrei tækifæri til að vinna almennilega úr neinu.
Mánudagur, monday, lundi, mandag…
mánudagur til mæðu, til slæðu, til hræðu, bræðu, fræðu, glæðu…

Lifið í friði.

lundi

Lundi þýðir mánudagur á frönsku.
Skrýtnir þessir Frakkar.
Veðurspá: 3ja stiga hiti og snjókoma.
Kári er með grænt hor.
Af hverju er ekki on/off takki á börnum og hægt að slökkva á þeim við og við?
Af hverju?
AAAAARRRRGGGGHHHHHH!
Best að fara og fá sér hafragraut.
Elda hann í plasti í örbylgjunni en ekki í kastarholu á gashellunni.

Lifið í friði.

nýjar myndir

Eyddi öllum morgninum í að setja inn myndir af diskum. Þeir sem hafa áhuga geta smellt á titilinn hér að ofan. Öðrum er algerlega fyrirgefið að nenna ekki að skoða myndir af annarra manna börnum.

Annars var ég að ljúka við að lesa Villibirtu eftir Lizu Marklund, sem ég keypti mér í fríhöfninni. Undarleg þýðing. Finnst hún mun verri en Paradís þó að þýðandinn sú sá sama. Hún getur ekki búið á Íslandi, því hún veit ekki einu sinni hvað „Viltu vinna milljón?“ heitir á íslensku. Kallar það Hver vill verða milljónamæringur. Bara smáatriði í sjálfu sér, en truflar samt lesturinn.
Einnig hnaut ég um orðið kastarhola. Hann setti karföflurnar í kastarholuna. Býst við að þetta sé íslenskun á orðinu casserole (svona er það skrifað á frönsku) en á mínu heimili eru kartöflurnar einfaldlega settar í pottinn.
Nokkrir aðrir hlutir þarna sem mætti athuga.
Þýðingar eru mjög erfitt verk og vandasamt og auðvelt að gera mistök. En ef vel er lesið yfir af öðrum og ritstjórinn vinnur sitt verk, ætti að vera hægt að komast hjá miklu klúðri. Er kannski ekki lesið yfir þýðingar? Eru ekki ritstjórar sem gagnrýna verkin áður en þau eru prentuð?
En Villibirta er samt hin fínasta afþreying og manni þykir verst að lesa ekki sænskuna. Ætli það sé ekki búið að kvikmynda þessar bækur?

Nú er sunnudagur og svo verður sunnudagur aftur eftir viku (þannig er það bara börnin mín) og mánudagurinn þar á eftir er síðasti dagurinn í febrúar. Sem þýðir að mars kemur á þriðjudaginn eftir viku og tvo daga. Tíminn líður kannski of hratt, en það er a.m.k. hægt að ylja sér við að þetta er allt mjög lógískt og hefðbundið. Nema náttúrulega þegar hlaupár kemur og ruglar mann algerlega. En það er ekki núna svo ég hef engar áhyggjur.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha