Sarpur fyrir maí, 2011

þögn

Hér ríkir hálfgerð þögn, enda er ég á kafi í lokaspretti stærsta þýðingaverkefnis sem ég hef unnið. Ég skila því í kvöld. Skilafresturinn sem samið var um (þó ég hafi reyndar engan samning í höndum, bara tölvupósta, við erum líklega báðar jafnkærulausar með svona formlegheit, ég og útgefandinn), var lok maí. Ég bað fyrst um lok júní, en samþykkti þetta þó mér þætti það ansi djarft. Og þetta hefur verið erfitt, eins og mig grunaði. Ég hef líklega ekki unnið jafnmikið síðan í törninni við útgáfu símaskrárinnar í denn. En þetta er bráðskemmtilegt og ég er orðin þokkalega jákvæð núna eftir miklar sveiflur undanfarna daga. Ég er samt með stóran hnút í maganum og kvíði alveg hrikalega að fá handritið til baka frá prófarkarlesaranum. En þetta er sjálfskipuð pína, ég gæti alveg verið enn að vinna á skrifstofu símaskrár, nú eða á vídeóleigunni sem mér fannst mjög skemmtileg vinna. Það var líka álag, en á annan hátt en þetta. Í fyrsta skipti er ég að skila af mér einhverju sem er á einhvern furðulegan hátt mín sköpun, þó hún sé reyndar sköpun annars manns líka. Það verður kannski talað um mig í einni setningu í gagnrýninni, annað hvort verður þýðingin sögð „lipur“, eða „stirðbusaleg“. Ég óttast hrottalega að sjá „stirðbusaleg“ þó ég viti líka að ef stíllinn er furðulegur er það vegna þess að hann er það í frönskunni líka.
Ég lifi sem sagt spennandi tíma núna, sem sá sem hoppar út í djúpu laugina lifir. Og þess vegna má alls ekki halda að ég sé að kvarta, ég held ég verði að fá að vera sú sem hoppar stundum út í djúpu laugina. Því þannig er ég bara.
Ég sé næstu daga í hillingum. Verð á fullu á morgun að undirbúa helgina, vinn allan fimmtudaginn með ferðalanga, alls konar skemmtilegheit í gangi í sambandi við það, verð að vera ofurskipulögð. Því um leið og ég kveð hópinn rýk ég upp í bílinn minn og sting af í sveitina „mína“ sem ég hef ekki heimsótt í rúmt ár, sem er hneisa. Í sveitinni verður vonandi engin nettenging, var það alla vega ekki síðast þegar ég vissi, nema svona hrikalega hæg pung-tenging sem ég nenni ómögulega að nota. Veðurspáin er 29 gráður og sól með hættu á skúrum annað slagið. Ég verð með skáldsögur að lesa og skemmtilega krakka að leika við, svo ekki verður meira fjör hér en undanfarið. Og kannski bara verður gerð pása þar til einhvern tímann síðar, mér er hvort eð er farið að líða dálítið eins og ég sé rjúpa að rembast við staurinn með þetta bloggstúss, næstum alein í heiminum.

Lifið í friði.

börn og svið

Sólrún er á öðru ári í gítarnámi og spilaði um daginn á tónleikum. Í fyrra hætti hún við á síðustu stundu en núna var hún búin að sjá hvernig þetta fer fram og þó hún væri með dálítinn sviðsskrekk var tilhlökkunin sterkari hræðslunni. Hún kom fram með reisn, horfði út í salinn og brosti og spilaði lagið óaðfinnanlega.

Við leikum okkur mikið að því að skoða gömul tónlistarmyndbönd á youtube. Um daginn uppgötvuðu krakkarnir The Jackson Five og áttuðu sig á því að börn geta líka verið stjörnur á sviði. Þetta vakti með þeim þrá. Ég verð að játa að mig langar síst af öllu að vera mamma barnastjörnu svo mín fyrstu viðbrögð voru bæla þetta niður í þeim, telja þeim trú um að þetta væri ekki þess virði.
Ég sló síðan spurningu um þetta fram á feisbúkk, og langflestir segja að ég eigi að leyfa þeim að lifa eftir draumum sínum. Málið er, að þeirra heimur er einfaldur og þægilegur og ég er alls ekki viss um að ég vilji henda þeim út í eitthvað hark og vesen, mér finnst þetta nógu erfitt nú þegar. Og ekki er það eins og þau æði í að æfa sig á hljóðfærin, ég þarf nú yfirleitt að hafa dálítið fyrir því að fá þau til að sitja við, ef þau lenda á erfiðum lögum.
Hins vegar sé ég alveg hvað þeim finnst báðum gaman að koma fram, þau píndu kvöldverðargesti á dögunum á tónleika (ég lofaði sjálfri mér strax í byrjun, að ég myndi ekki láta gestina mína sitja undir misgóðum sýningum barnanna minna og hef hingað til staðið ágætlega við það). Hluti gestanna var tónlistarfólk, og öll eru þau ung og barnlaus, ein með barn í maganum, svo þetta var allt í lagi, þeim fannst held ég bara gaman.

Ég er eiginlega búin að ákveða að taka einhvers konar jóga-búdda-tækni á þetta: go with the flow. Ekki gera neitt í því að koma þeim á svið, ekki draga úr þeim ef þau fá tækifæri til að komast á svið. Aðalfrasi bókarinnar sem ég er að þýða er: C’est en ne cherchant pas que tu trouveras. Þetta er á góðri leið að verða mottóið mitt, mantran mín. Enda ágætis mantra: Þú finnur þegar þú hættir að leita.

Lifið í friði.

Páskamyndir úr sveitinni

Myndasería frá Páskaferðinni okkar. Segið svo að maður eigi ekki að láta sig dreyma um hús í sveit. Draumur minn verður sterkari og sársaukafyllri í hvert skipti sem ég fæ tækifæri til að vera í sveit í einhverja daga. Ekki meira um það. Í bili. Myndir:

Lifið í friði.

Brenninetlusúpa

Ég sé að í orðabók er netla látið nægja til skýringar á ortie, en ég ætla nú samt að nota brenninetlu, enda eru þetta skæðar plöntur og vont að brenna sig á þeim (sem er í raun stunga, en svíður eins og bruni).
Þegar ég var ungur og smár lestrarhestur á Íslandi, fannst mér brenninetlur, linditré, vatnaliljur og fleira í þeim dúr tilheyra einhvers konar draumaheimi sem ég ætti að tilheyra. Nú bý ég í litlum bæ í útjaðri Parísar, með risastórt linditré trónandi í götunni minni og hálfgert villt (les: illa hirt) skógarsvæði í brekkunni fyrir ofan, þar sem brenninetlur vaxa í stórum breiðum. Vatnaliljur hitti ég þegar ég fer með Íslendinga að skoða Versalagarðana, eða heimsæki Monet í Giverny. Ég man svei mér ekki eftir vatnaliljum nær mér en það, en það er samt alveg nóg fyrir mig.
Ég las mér til um brenninetlusúpu í fyrra, eftir að hafa setið á svölum hjá vinkonu minni og séð konu koma akandi, leggja bílnum og vaða inn í breiðurnar af illgresi sem vaxa þarna, velja úr og fylla stóran poka af grasi. Eitthvað hafði ég heyrt um netluát, en aldrei spáð frekar í það. Ég ákvað strax að prófa, en ekkert varð af því fyrr en nú. Þegar ég gortaði af þessu á feisbúkk eins og vera ber, lofaði ég líka myndabloggi à la Erla Hlyns, og hér kemur það, gjörið svo vel:

Því miður láðist mér að taka myndir af breiðunum af brenninetlunum í sínu náttúrulega umhverfi, en ég tók mynd af þessum bekk áður en ég hóf tínsluna. Hann er greinilega góður til bjórþjórs og reykinga:

Best er að klippa brenninetlur áður en blómin koma á, sem sagt snemma á vorin. Ungar plöntur eru bragðmeiri, og þegar blómin koma missa þær bragð. Ég var alveg á síðasta snúning, á sumum plöntunum voru byrjaðir að myndast blómaknúppar, sem ég klippti stundum frá, ef mér leist mjög vel á laufin. Maður grípur um toppinn og klippir svo eins neðarlega og mann langar (neðst eru plönturnar oft mjög visnar, því þær vaxa svo þétt). Nauðsynlegt er að vera með hanska, ég var með uppþvottahanska og það var fínt, þeir eru líka frekar háir. Að öðru leyti var ég nú bara á hlýrakjól og sandölum, en fór varlega og slapp að mestu við bruna.
Það þarf töluvert magn, ég fyllt vænan plastpoka. Hér sést hluti hrúgunnar á eldhúsborðinu:

Í hrúgunni leyndust nokkrar pöddur, sem fengu að fjúka út um gluggann. Svo er öllu skellt í vaskinn, fylltan af vatni og látið skolast vel. Tæmdi vatnið, strauk sand og drullu upp úr honum og fyllti hann aftur. Þá hófst klipping laufa, því þó að stöngullinn sé góður, er hann erfiður undir tönn, vegna þráðanna í honum. Ég ákvað því að geyma stönglana handa tómatplöntunum mínum, þeir eru nú að marínerast í vatni úti í garðskýli. Ég klippti öll laufin og lét í skál með ediki og vatni og skolaði vandlega.

Ég lét drúpa vel af þeim í sigti og svo fór allt í stóran pott, með vænum bita af smjöri:

Svo eru laufin látin malla í smjörinu, alveg eins og maður gerir með spínat. Það er hryllingur að sjá laufin hverfa og verða að engu neðst í pottinum. Eins gott að maður er með sterkar taugar:

Vatn látið fljóta yfir, þrjár kartöflur flysjaðar og skornar í bita og hent út í. Saltað og piprað. Ég held að ég hafi bætt smá timjan, en ég þori ekki að hengja mig upp á það. Það eru til milljón uppskriftir á netinu með alls konar góðgæti í, gulrótum, lauk, hvítlauk og bara hverju sem er. Ég ákvað að hafa hana sem einfaldasta, svona í fyrsta skipti. Ég ætlaði að láta hana sjóða í 15 mínútur, en endaði með að láta hana sjóða í 40 mínútur, því mér fannst svo mikið vatn.
Svo er að taka töfrasprotann, sem er nauðsyn að eiga fyrir alla sem langar að borða heimalagaðar súpur. Ég var með hálfgert samviskubit þegar ég keypti hann, en nú get ég aldrei haldið aftur af mér þegar ég tek hann fram og tek alltaf góða sveiflu með honum:

Og hér er svo súpan, tilbúin til átu. Má setja rjóma eða crème fraîche en hún er dásamlega bragðgóð bara svona ein og sér. Og já, brenninetlur hætta sumsé að brenna mann um leið og þær eru steiktar, það má t.d. alveg bera þær fram smjör- eða olíusteiktar, með kjöti.

Þessi pottur er risastór, í honum var nóg af súpu sem forréttur fyrir okkur fjögur einn daginn, og svo vænn hádegisverður handa mér síðar. Þá bætti ég smá rjóma útí, það var líka mjög gott. Krakkarnir voru skeptískir á þetta, en átu með bestu lyst. Þrátt fyrir að ég hafi talað um hundapiss og svona, ég er stundum barnalegri en börnin mín og ræð ekki alltaf við mig.

BON APPÉTIT!

Lifið í friði.

Páll Magnússon þarfnast mín

Það má nú teljast deginum ljósara að Páll Magnússon ætti að ráða mig til þess að skrifa fyrir sig bréfin. Ég vann í þó nokkurn tíma á skrifstofu símaskrár, einhvern tímann fyrir aldamót. Ég held að ég muni það rétt að mánaðarlaunin mín hafi verið innan við 90.000 krónur. Ég man mjög greinilega hvað ég fékk stóran kökk í hálsinn eftir hrikalega mánuðinn rétt fyrir útkomu símaskrár, þegar ég hafði unnið yfirvinnu alla daga og um helgar líka, og fékk 113.000 krónur útborgaðar. Ég lifði hrikalega spart á þessum tíma, en náði varla endum saman, nema af því ég tróð mér í mat hjá mömmu og pabba marga daga í viku. Ég gekk langoftast í vinnuna, en tók strætó ef það var illviðri.
Næstum því daglega lenti ég í því að hlusta á fólk ausa yfir mig skömmum. Ég væri á launum frá því, ég væri eins og allir opinberir starfsmenn, fáviti, letingi, afæta og áreiðanlega ýmislegt annað með. Ég tók því oft alveg hrikalega illa, fann hvernig hjartað í mér súkkaði saman, hvernig svartir blettir mynduðust í höfðinu á mér. En ég lét fólkið aldrei finna það, ég sýndi alltaf stillingu og lofaði að finna út úr þessu. Langofast fann ég undirritaða plaggið frá viðkomandi fólki, þar sem það bað um nákvæmlega þetta sem það ásakaði okkur um að hafa gert alveg sjálf – algengast var það að fyrrverandi sambýlisfólk var enn skráð með númerið í símaskrá, fólkið hafði í sæluvímu skráð nýja kærastann/kærustuna á númerið, en gleymdi svo alveg í ástarsorginni að biðja um útstrikun og trúði því einhvern veginn að við hefðum bara sett nafnið inn sjálf. Á þessum tíma var þess krafist að allt væri gert skriflega, og það kom sér mjög oft vel.
Já, við þurftum endalaust að þola það að það væri talað niður til okkar, gert grín að okkur og við gagnrýnd í tætlur. Útkoma símaskrárinnar var enginn smá atburður á Íslandi, hver einasti þegn hljóp út að ná í skrána og fletti sjálfum sér upp. Nógu margir voru það lélegir í stafrófinu að allar línur glóðu fyrstu dagana, og 99 prósent símtalanna enduðu á því að maður sagði fólkinu blaðsíðutalið og línunúmerið og allir voru glaðir. Og aldrei vorum við dónaleg við fólk. Allir lentu einhvern tímann í því að gefast upp undan hroðanum sem barst í gegnum tólið, og skelltu á. En það gerðist sjaldan.
Þegar maður gegnir ábyrgðarstöðu og fær laun í samræmi við það, er lágmarkið að kunna sig. Páll Magnússon bara verður að fara á reiðistjórnunarnámskeið, eða gera það sem ég sagði honum fyrir löngu síðan: Fá sér ritara. Mig.

Lifið í friði.

glaðst

Í gær gladdist ég yfir litlu einföldu hlutunum, til dæmis:
Manninum í rauðu sokkunum með hvítu doppunum.
Konunni sem var öll út í grasi á rassinum (eða ætti ég að segja sitjandanum?) í metró.
Pínupínulitu búðinni með alls konar gæðapottum og pönnum, næstum allt dótið hangandi niður úr loftinu og minnti mig á oggulitla sumarbústaðinn þeirra Viðars og Ellen.
Hjólreiðamenningunni í París. Ég fer næstum því alla leið frá Bastillunni og heim, á hjólastígum. Þetta tók tíma og hefur verið gagnrýnt svakalega, en í gær sást vel hvað þessir stígar eru kærkomnir, við vorum heilmörg að nýta þá.
Veðrinu. Ohhh, veðrinu sem er svo yndislegt að radísurnar eru allar ónýtar. Þær verða víst ofurbeiskar í þessum hita.

Í dag ætla ég að stinga niður kartöflum og athuga hvort ég get bjargað kartöflunum sem ég asnaðist til að skemma um daginn. Það voru einhverjar undarlegar plöntur komnar í beðin mín, hér og þar. Mér fannst þær kunnuglegar en ákvað samt að fjarlægja þær. Ég var að flýta mér og sleit bara stöngulinn, náði aldrei í rót og hafði ekki tíma til að fara að grafa. Síðar frétti ég að þetta væru kartöflugrös, upp úr kartöflum sem hafa gleymst í moldinni og spírað alveg sjálfar. Ég er ferlega svekkt út í mig, er hægt að gera eitthvað, eða deyja þær bara núna?

Lifið í friði.

mok

Ég veit ekki hvort það er sprellikarlinn eða eitthvað annað sem blokkerar mig. Ég er búin að skrifa alls konar hugsanir hingað inn undanfarna daga, en þær hafa alltaf verið þurrkaðar út, óbirtar.
Ég er á fullu í glímu við skáldsögu annars manns. Það er bæði skemmtilegt og erfitt. Eins og lífið sjálft. (Afsakið klisjuna, en bara … æ, ég má það alveg samt!) Langoftast er erfiðið fólgið í einhverju óáþreifanlegu sem ég get í raun ekki spurt neinn um. En stundum birtist orð sem ég stari á og hef ekki hugmynd um hvað er. Þá hefst gúgglvinna. Ég fræddist t.d. um celadon á dögunum. (Nú ætla ég að láta ykkur eftir að gúggla sjálf og fræðast, ef þið hafið áhuga). Ég er reyndar ekki búin að leysa það með sjálfri mér hvernig ég skrifa celadonið inn í íslenskuna, en það kemur í ljós. Seinna. Kannski spyr ég blogglesendur álits, þegar ég er komin með nokkrar hugmyndir á blað.

Dagarnir eru mjög misjafnir hjá mér. Stundum hendist ég áfram í gegnum blaðsíðurnar, aðra daga sit ég mest og stari. Ég held að það sé mjög eðlilegt. Ég sagði leiðbeinandanum að ég tæki á þessu eins og ég væri að grafa allt of stóran skurð. Hún sagði mér að það væri rétti vinkillinn. Best að fara að koma sér í mok-gírinn. Hvar setti ég nú skófluna?

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

hildigunnur um Ósýnileiki
showerhead Percolato… um
parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó