Archive for the 'Frakkland' Category

Trouvailles IV

Í sumarfríinu lenti ég á einum besta flóamarkaði sem ég hef nokkurn tímann komist á, í Argentat í Corrèze-héraðinu. Hann var mátulegur á allan hátt, mátuleg blanda af antíksölum, söfnurum og svo einstaklingum að selja úr kompunni sinni. Mátulega stór. Mátulega mikið af fólki. Ég í mátulega góðu skapi og keypti því nokkra góða hluti.

Ég er búin að gorta af aflanum á feisbúkk, þetta er í raun bara fyrir hana Ellu og svona ef ske kynni að einhver með dótablæti villtist hingað inn. Reyndar keypti ég ekki allt á sama markaði, salatskálin og mylsnuburstinn koma af örsmáum markaði í litlu þorpi í Périgord, og flögubergið og valhnetuvínið var keypti í flögubergsnámunni.

Allur aflinn

Allur aflinn

Aflinn úr hinni áttinni

Aflinn úr hinni áttinni

Gullskreytt salatskál, töfra-sósukanna, blómvöndur, ávaxtaskál á fæti, mylsnusópur með skúffu, diskar, valhnetuvín og tilskorið flöguberg til að leggja kámuga hnífa á.

Diskar

Diskar

Ég er búin að leita að matardiskum í eldhúsið lengi. Þessir biðu mín þegar ég var á leiðinni út af stóra markaðnum með fangið fullt af alls konar. Þetta eru leirdiskar og afskaplega þungir, ég hélt að handleggurinn myndi rifna af mér áður en ég kæmist að bílnum. Ég ætlaði að skipta þeim út fyrir gömlu diskana sem eru af ýmsum sortum og flestir orðnir krambúleraðir eftir massífa notkun. Enn hef ég þó ekki fengið af mér að taka gamla staflann burt. Sjáum hvenær ég finn kjarkinn. Á meðan bíða þessir rólegir frammi í stofuskápnum.

Sósukanna

Sósukanna

Sósukanna - 2 stútar

Sósukanna – 2 stútar

Það voru tengdamóðir mín og ástkona hennar sem keyptu þessa forláta sósukönnu handa mér. Hún er þeim hæfileikum gædd að geta gefið manni annað hvort fituna sem flýtur ofan á, eða tæran kjötsafann sem liggur undir. Allt eftir því hvorn stútinn þú velur að nota. Er þetta ekki dásamleg kanna?

Skál á fæti

Skál á fæti

Allir innflytjendur með sjálfsvirðingu leggja kapp á að aðlagast. Ég hef lengi vitað að ég yrði ekki almennilega aðlöguð fyrr en ég eignaðist skál á fæti fyrir apríkósur, hnetur eða jafnvel kökur barasta. Hún á helst að tróna á skenknum og sumir svindla og hafa ávexti úr marmara (eða fílabeini, en þá verður það að vera antík) í skálinni. Ég fann spegilinn eftir áralanga leit fyrir nokkrum árum, nú er ég komin með skál á fæti. Bráðum verð ég kannski bara frönsk? (Spegillinn lítur enn svona út.)

Salatskál

Salatskál

Þessi salatskál kallaði mig til sín á örsmáa markaðnum í litla þorpinu. Parið sem dansar í miðjunni gerði útslagið, ég bara varð að eignast hana. Mér brá svo þegar drengurinn nefndi verðið, 12 evrur, að ég veit ekki alveg hvernig ég hef litið út. Ég bjóst við að hún væri miklu dýrari. Þessi skál passar ekki við neitt sem ég á, en mér er alveg sama.

Blóm

Blóm

Á markaðnum var karl með troðfullan flutningabíl af þurrkuðum blómum. Hann seldi grimmt, allar  konurnar í sveitinni koma gagngert á markaðinn til að kaupa af honum blóm til að hafa inni hjá sér um veturinn. Í Corrèze verður oft mjög kalt og dimmt og nauðsynlegt að lífga upp á stofurnar með minningu um sumarið sem leið. Parísardömur þurfa vitanlega ekki á þurrkuðum blómum að halda, hér er hægt að kaupa afskorin blóm allan ársins hring. Sólrún varð hins vegar hugstola og varð að eignast þessar bleiku margarítur (eru þetta annars margarítur?).

Við það að setja þessar myndir inn, sé ég tvennt: Ég verð að gera eitthvað í þessu buffeti, á ég að mála skúffur og hurðir í öðrum lit, eða sama lit og restin? Og svo verð ég að finna tíma og pening til að mála íbúðina, það er gersamlega kominn tími á það. En það verður samt ekki á þessu ári … ég heiti því hér með að gera ekkert slíkt fyrr en ég er búin með ritgerðina. Sagði einhver ritgerð?

Lifið í friði.

Bastilludagurinn

Í dag er þjóðhátíðardagur Frakka, Bastilludagurinn. Afmæli byltingarinnar sem hófst opinberlega með árás á Bastillufangelsið og leiddi m.a. til þess að konungi var steypt af stóli og ríki og kirkja voru aðskilin.
Og, líkt og fyrri ár, er 14. júlí 2011 fagnað með risastórri hersýningu í París. Franska ríkið flaggar stolt öllum sínum hátæknilegu morðtólum, skriðdrekum og flugvélum, og auðvitað því mikilvægasta, ungum mönnum í einkennisbúningum. Að þessu sinni verða víst nýlenduherirnir í forgrunni. Herir frönsku suðlægu landsvæðanna, Gvadelúpeyja, Gvæjana, Pólýnesíu, Martiník, Réunion, Nýju Kaledóníu og Mayotte.
Ég hef einu sinni mætt til að sjá og mun aldrei fara aftur, nema þá kannski til að sýna börnunum mínum þegar ég tel mig tilbúna til að standa aftur frammi fyrir þessum viðbjóði. Mér varð ómótt og um tíma hélt ég að það myndi líða yfir mig. Ég held að þarna, frammi fyrir þessum óhugnanlegu vélum og við að sjá hermennina marséra eins og vélmenni, hafi ég virkilega staðfest í hjarta mínu að ég gæti aldrei samþykkt stríð sem lausn á nokkru vandamáli. Ég verð alltaf jafn svekkt og hissa þegar ég er minnt á stríðsbrölt siðvæddra þjóða.
Í gær létust fimm franskir hermenn í Afganistan. Ráðherra segir að þeir séu hetjur, ég lít á þá sem fórnarlömb. Ég er næstum viss um að hátíðahöldin í dag verða skreytt minningarþögn um þessa menn, og kannski líka um hina 12 sem hafa látist á þessu ári í Afganistan, eða allra 69 sem hafa farið síðan 2001. Eða kannski ekki, kannski verður engin þögn, bara húllumhæ og fagnaðarlæti? Ég veit það ekki og það skiptir kannski engu máli, því ég verð ekki á staðnum.

Lifið í friði.

Brenninetlusúpa

Ég sé að í orðabók er netla látið nægja til skýringar á ortie, en ég ætla nú samt að nota brenninetlu, enda eru þetta skæðar plöntur og vont að brenna sig á þeim (sem er í raun stunga, en svíður eins og bruni).
Þegar ég var ungur og smár lestrarhestur á Íslandi, fannst mér brenninetlur, linditré, vatnaliljur og fleira í þeim dúr tilheyra einhvers konar draumaheimi sem ég ætti að tilheyra. Nú bý ég í litlum bæ í útjaðri Parísar, með risastórt linditré trónandi í götunni minni og hálfgert villt (les: illa hirt) skógarsvæði í brekkunni fyrir ofan, þar sem brenninetlur vaxa í stórum breiðum. Vatnaliljur hitti ég þegar ég fer með Íslendinga að skoða Versalagarðana, eða heimsæki Monet í Giverny. Ég man svei mér ekki eftir vatnaliljum nær mér en það, en það er samt alveg nóg fyrir mig.
Ég las mér til um brenninetlusúpu í fyrra, eftir að hafa setið á svölum hjá vinkonu minni og séð konu koma akandi, leggja bílnum og vaða inn í breiðurnar af illgresi sem vaxa þarna, velja úr og fylla stóran poka af grasi. Eitthvað hafði ég heyrt um netluát, en aldrei spáð frekar í það. Ég ákvað strax að prófa, en ekkert varð af því fyrr en nú. Þegar ég gortaði af þessu á feisbúkk eins og vera ber, lofaði ég líka myndabloggi à la Erla Hlyns, og hér kemur það, gjörið svo vel:

Því miður láðist mér að taka myndir af breiðunum af brenninetlunum í sínu náttúrulega umhverfi, en ég tók mynd af þessum bekk áður en ég hóf tínsluna. Hann er greinilega góður til bjórþjórs og reykinga:

Best er að klippa brenninetlur áður en blómin koma á, sem sagt snemma á vorin. Ungar plöntur eru bragðmeiri, og þegar blómin koma missa þær bragð. Ég var alveg á síðasta snúning, á sumum plöntunum voru byrjaðir að myndast blómaknúppar, sem ég klippti stundum frá, ef mér leist mjög vel á laufin. Maður grípur um toppinn og klippir svo eins neðarlega og mann langar (neðst eru plönturnar oft mjög visnar, því þær vaxa svo þétt). Nauðsynlegt er að vera með hanska, ég var með uppþvottahanska og það var fínt, þeir eru líka frekar háir. Að öðru leyti var ég nú bara á hlýrakjól og sandölum, en fór varlega og slapp að mestu við bruna.
Það þarf töluvert magn, ég fyllt vænan plastpoka. Hér sést hluti hrúgunnar á eldhúsborðinu:

Í hrúgunni leyndust nokkrar pöddur, sem fengu að fjúka út um gluggann. Svo er öllu skellt í vaskinn, fylltan af vatni og látið skolast vel. Tæmdi vatnið, strauk sand og drullu upp úr honum og fyllti hann aftur. Þá hófst klipping laufa, því þó að stöngullinn sé góður, er hann erfiður undir tönn, vegna þráðanna í honum. Ég ákvað því að geyma stönglana handa tómatplöntunum mínum, þeir eru nú að marínerast í vatni úti í garðskýli. Ég klippti öll laufin og lét í skál með ediki og vatni og skolaði vandlega.

Ég lét drúpa vel af þeim í sigti og svo fór allt í stóran pott, með vænum bita af smjöri:

Svo eru laufin látin malla í smjörinu, alveg eins og maður gerir með spínat. Það er hryllingur að sjá laufin hverfa og verða að engu neðst í pottinum. Eins gott að maður er með sterkar taugar:

Vatn látið fljóta yfir, þrjár kartöflur flysjaðar og skornar í bita og hent út í. Saltað og piprað. Ég held að ég hafi bætt smá timjan, en ég þori ekki að hengja mig upp á það. Það eru til milljón uppskriftir á netinu með alls konar góðgæti í, gulrótum, lauk, hvítlauk og bara hverju sem er. Ég ákvað að hafa hana sem einfaldasta, svona í fyrsta skipti. Ég ætlaði að láta hana sjóða í 15 mínútur, en endaði með að láta hana sjóða í 40 mínútur, því mér fannst svo mikið vatn.
Svo er að taka töfrasprotann, sem er nauðsyn að eiga fyrir alla sem langar að borða heimalagaðar súpur. Ég var með hálfgert samviskubit þegar ég keypti hann, en nú get ég aldrei haldið aftur af mér þegar ég tek hann fram og tek alltaf góða sveiflu með honum:

Og hér er svo súpan, tilbúin til átu. Má setja rjóma eða crème fraîche en hún er dásamlega bragðgóð bara svona ein og sér. Og já, brenninetlur hætta sumsé að brenna mann um leið og þær eru steiktar, það má t.d. alveg bera þær fram smjör- eða olíusteiktar, með kjöti.

Þessi pottur er risastór, í honum var nóg af súpu sem forréttur fyrir okkur fjögur einn daginn, og svo vænn hádegisverður handa mér síðar. Þá bætti ég smá rjóma útí, það var líka mjög gott. Krakkarnir voru skeptískir á þetta, en átu með bestu lyst. Þrátt fyrir að ég hafi talað um hundapiss og svona, ég er stundum barnalegri en börnin mín og ræð ekki alltaf við mig.

BON APPÉTIT!

Lifið í friði.

aftur til lífsins

Vel heppnað frí er að ná að fara út úr lífinu í smá stund. Tíminn hættir algerlega að skipta máli, áhyggjur af smámunum sem maður þrjóskast við að hafa alla daga hverfa og manni finnst jafnvel líkaminn verða einhvern veginn þyngdarlaus. Þannig leið mér síðustu daga í góðu yfirlæti með örlátu fólki í fallegu húsi með mátulega stórum garði og sundlaug, í 40 mínútna hjólafæri frá ströndinni, fyrst í gegnum vellyktandi skóg og svo yfir sandöldurnar. Atlandshafið er alltaf í stuði og þrátt fyrir hálfgerða hitabylgju leikur alltaf þægilegur svali um mann. Við drukkum vín með matnum á kvöldin en fórum samt tiltölulega snemma í háttinn því litlu börnin í húsinu sáu til þess að við vorum öll komin framúr upp úr níu. Sem við bættum flest upp með smá blundi með þeim í eftirmiðdaginn. Það var allt gaman í þessu fríi. En ég held samt, að vel athuguðu máli að ég geti neglt niður einn hápunkt:

Heitar ostrur í rjómasósu

Heitar ostrur í rjómasósu

Ekki spillti umhverfið fyrir:

Port des Salines á Oléron eyjunni

Port des Salines á Oléron eyjunni

Og nú eru bara þrír langir dagar eftir þar til ég fæ mín eigin börn aftur í faðminn. Og þangað til verður nóg að gera, það er ótrúlegt hvað þessir smámunir geta safnast auðveldlega upp. Hvert setti ég nú listann?

Lifið í friði.

parlez-vous fransí biskví?

Lifið í friði.

ég er sammála

Hnakkusi í þetta skiptið. Ekki alltaf, en alla vega núna. Það hefur eitthvað truflað mig við þau rök að við, þjóðin, verðum dæmd fyrir afglöp óreiðumanna. Það sem ég þekki af fólki í heiminum greinir mjög auðveldlega milli venjulega fólksins og ríka, freka fólksins(/stjórnvalda).
Pældu bara aðeins í þessu: Segjum sem svo að ægilegt hneyskli komi upp með viðskipti úkraínsks/pólsks/norsks/fransks/íransks/ísraelsks/[settu það land sem þig langar hér] banka, heldurðu að þér þætti það sjálfsagt að úkraínsku/pólskur/norskur/… lýður (í skilninginum þjóð) eigi að vera dreginn inn í málið og látinn greiða? Ég bara get ekki séð réttlætið. Ég held að Hnakkus hitti naglann á höfuðið: þjóðin er enn í bullandi meðvirkni.

Athugið samt að ég tel mig ekki hafa fundið hinn heilaga sannleik í þessu máli né öðrum. Ég bara fékk svona tilfinningu um að loksins sæi ég það sagt um málið sem ég gæti skrifað undir þegar ég las Hnakkus. Enda er enginn heilagur sannleikur til í þessu, þar sem ENGAR STAÐREYNDIR liggja ljósar fyrir. Það er aðalvandamálið að mínu mati og ástæðan fyrir því að ég er andsnúin undirritun samnings. Pókerspilaaðferðin í opinberum málum hefur aldrei verið mér að skapi. Það á ekki að gambla með eignir lýðsins, en það er verið að gera það, þegar veðjað er á að eignir skuldaranna muni hækka á næstunni. Ekkert bendir til þess hér á meginlandinu að húsnæðisverð ætli að fara að hækka. Bílaiðnaðurinn er að hrynja, allt er í volli. Spáið aðeins í þetta.

Lifið í friði.

Ljósmyndir frá París á Akureyri

Ljósmyndasýningin Flandur um París hefur verið opnuð á kaffihúsinu Bláu könnunni, Hafnarstræti 96 á Akureyri. Þar sýnir Einar Jónsson, blaðamaður og ljósmyndari, mannlífsmyndir frá Parísarborg. Flestar myndirnar tók Einar þegar hann dvaldi í borginni veturinn 2004-2005 en sumar eru aðeins eldri.

Heiti sýningarinnar vísar í hugmyndina um flandrarann (fr. le flâneur), sveimhugann sem ráfar stefnulaust um borgina, virðir fyrir sér mannlífið og uppgötvar eitthvað nýtt og áhugavert á hverju götuhorni. Flandrarinn á sjálfur rætur að rekja til Parísar en hann spratt upphaflega úr höfði franska 19. aldar skáldsins og Parísarbúans Charles Baudelaire og hefur veitt mörgum andans manninum innblástur æ síðan.

Sýningin stendur í fáeinar vikur.

Allir velkomnir. Opið frá morgni til kvölds.

Lifið í friði.

Verkfall í Frakklandi

Í dag er risaverkfall í Frakklandi með tilheyrandi mótmælafundum.
Ég ætla kannski að kíkja niður í bæ með Kára sem er mjög kátur með að vera í verkfalli. Sólrún er í einkaskóla og er því í skólanum í dag. Þær vinkonur eru farnar að væla um að þetta sé óréttlátt, að hinir fái alltaf verkfall en þær aldrei.

Skoðanakönnun sem birt var í fyrradag sýnir að 80 prósent þjóðarinnar sýna þessari aðgerð í dag skilning. Það er óvenjulega há samúðartala, en líklega er fólk orðið skíthrætt og gerir sér fulla grein fyrir því að kominn er tími til að þjarma að stjórnvöldum. Sarkósí er hins vegar bara hress og ætlar að sturta þjóðarstoltinu niður með inngöngu í Nató.

Lifið í friði.

góður dagur

Keypt tígurefni.

Túristast heilan helling um Montmartre.

Bakaðar vöfflur og þeyttur rjómi.

Horft á fullt af myndböndum af Jóni Páli Sigmarssyni. Liður í að baða börnin í íslenskri menningu.

Nú er verið að láta renna í bað.

Fullkomna móðirin – dagurinn var í dag.

Kvöldið má alveg vera komið mín vegna. Er ekki örugglega háttatími bráðum?

Lifið í friði.

frönsk menning

Þetta finnst börnunum mínum óborganlega fyndið:

Og mér finnst gaman að horfa á þau horfa á þetta. Um mig hríslast líka góð minning um tvo litla stráka dansa við þetta lag í stofunni hjá mér. Þeir eru nú orðnir stórir strákar, annar þeirra m.a.s. kominn með kærustu. Kannski báðir. Ég er í tíminn-líður-kasti akkúrat núna.

Lifið í friði.