Sarpur fyrir ágúst, 2007

stíf í öxlum

Ég er ekki frá því að ferðastrengir og ökuþreyta sé verra en þynnka. Ekki einu sinni hægt að hugga sig við skemmtilegt fyllerí í slenástandinu.

Það er náttúrulega rugl að eiga mann án bílprófs og aka allri fjölskyldunni rúma 5oo kílómetra í hvora átt fyrir þrjá daga í góðra vina hópi. Rugl. Hvað ætli bílpróf kosti? Kannski ég sé komin með jólagjöfina í ár?
Annars var þetta ferðalag algerlega þess virði. Hvað er betra en góðir vinir, góð vín, góð strönd, stundum gott veður, góð stemning, gott hús, góð sundlaug, gott fólk, gott gott gott. Það er ekkert betra. Mig langar stundum svo mikið að flytja út í sveit. Af hverju er ég ekki forríkur rithöfundur? Eða maðurinn minn? Það gæti nú heldur betur bætt upp bílprófsleysið.

Frísins vegna klikkaði ég á að nýta ferð hingað með bækur af lista bóksölunnar. Ef einhver veit af ferð hingað út á næstu dögum er ég að leita að burðardýri. Ég er komin með feitustu og þyngstu bækurnar, held ég.

Á ég að leyfa orðinu fyllerí að standa þarna fyrir ofan? Er það ekki alveg ferlega sjabbí og ódömulegt? Ætti ekki að standa: Ekki einu sinni hægt að hugga sig við það í slenástandinu að kvöldstundin var góð. Jú það er betra. Þið skiptið þessu út, er það ekki?

Lifið í friði.

elli

Fyrsta persónulega bréfið á háskólapóstfangið mitt gladdi mitt litla hjarta í morgun.
Reyndar var ég búin að fá bréf frá vini áður á þetta póstfang, en það var tilkynning til allra nemenda og minnti mig rækilega á að síðast þegar ég var nemi í HÍ heilsaði ég svo til eingöngu kennurum og starfsfólki á skólalóðinni, vegna þess að ég þekkti bara svoleiðis „gamlingja“.

Lifið í friði.

gull í mund

Erfið helgi framundan, alger óþarfi að hefja hana klukkan sex á laugardagsmorgni. Finnst mér. Persónulega.
Sérstaklega þar sem ég þarf að vakna eldsnemma á morgun líka og verð líklega seint á ferðinni í kvöld.

Á mánudaginn ætla ég svo að vinna fyrst og aka síðan með fjölskylduna einhver hundruð kílómetra til að komast í hús með sundlaug og rólum í garðinum og stutt í Atlantshafsströnd.
Og veðrið ætlar víst eitthvað að batna þó ég eigi erfitt með að trúa því að það verði sól og hiti í dag því það var þykk hvít þoka yfir hverfinu mínu þegar ég vaknaði og nú er klukkan að verða níu og enn þoka.
Í gær fór ég í lopapeysu í vinnuna. Þurfti reyndar að hafa hana bundna um mig miðja mestallan daginn, en samt, það er ágúst! Það á að vera gott veður.
Í morgun leið mér skyndilega eins og það væri desember. Jólastemning helltist yfir mig í þokunni.
Ég var næstum því búin að eyða þessu þvaðri en þar sem ég frétti að kvartað væri yfir bloggleti minni í kaffisamsætum á Íslandi leyfi ég þessu að standa með afsökunarbeiðni minni. Ég er andlaus. Hvenær byrjar eiginlega námið mitt? Ekkert að gerast á Uglunni ennþá. Engir bókalistar. Ekkert.

Lifið í friði.

magnað

Stjörnuspáin í laugardagsmogganum er alveg ótrúleg. Þessi kona veit bara allt um mig!

Lifið í friði.

pæling um það sem er varla er pælandi í

Ég skrifaði í gær um eigin ritskoðun og langar að svara nöfnu minni sem sagðist vara sig á oftúlkunum lesenda:
Það sem ég strokaði út í gær var bara hundleiðinlegt þvaður, eins og svo margt sem ég set hérna inn. Stundum finnst mér þetta hundleiðinlega þvaður virka vel og leyfi því að standa en stundum sé ég að það er einfaldlega algerlega flatt og því læt ég það hverfa.

Ég veit bara til þess að hafa einu sinni sært manneskju sem fannst ég skrifa opinskátt um hennar einkalíf og er það í eina skiptið sem ég hef strokað eitthvað út sem ég var búin að birta. Síðan þá minnist ég svo til aldrei á vini mína. Enginn af mínum góðu vinum bloggar, ein vinkona hefur reynt það en var afskaplega blogglöt. Hún er sú eina sem ég veit til að les ýmis blogg, önnur en mitt. Ég er stundum að vísa í þennan heim, bloggheiminn, í samræðum við vini en þau skilja þetta engan veginn þó nokkrir vinir komi og lesi mig, svona til að fylgjast með mínu lífi.

Líklega hafa einhverjir mistúlkað skrif mín, ég skrifa oft í hæðnistón, geri t.d. ansi oft grín að sjálfri mér með ýkjum og gæti það misskilist sem háalvarleg sjálfsskoðun en mér er í raun alveg sama. Það er mjög erfitt að láta hæðnistóninn skína í gegn í skrifum, það sem stendur ritað er einhverra hluta vegna oft tekið mjög alvarlega. Sjálf tek ég VONANDI fáum hlutum of alvarlega, ég er allt of upptekin við að njóta lífsins til þess. Ég er ekki að meina að ég sætti mig við fordóma, átroðning eða annað slíkt enda hef ég nú einmitt rætt það ég hef t.d. verið ásökuð um að vera bitur vegna þess að ég læt mig „málin varða“.

Einu sinni fékk ég mjög sterk viðbrögð, þegar ég játaði að vera ekki hrædd við ofsatrúað fólk heldur finnast það frekar fyndið. Það var í sambandi við fólk sem afneitar þyngdarlögmálinu og trúir því að Guð ýti okkur niður á jörðina. Það var nú bara gaman að fá alls konar reiðiöskur frá lesendum. Var m.a.s. ásökuð um að vera þá sátt við að konur væru umskornar, hm, einmitt það já.
Ég skrifaði svo síðar aftur um trúmál og viðraði þá skoðun mína að trú væri einkamál hvers og eins, líkt og kynlíf og býst við að flestir sem komu inn á athugasemdakerfið hafi ætlað að skamma mig eða hissast á mér en þá vildi svo óheppilega eða skemmtilega til að þetta var á afmælisdaginn minn og fyrsta athugasemdin voru hamingjuóskir svo allir einhvern veginn skrifuðu bara hamingjuóskir. Þennan dag fékk ég næstflestu heimsóknir á bloggferlinum (eitthvað um 130 minnir mig) og hef aldrei vitað hvers vegna. Flestu heimsóknirnar komu daginn sem Anna Vélstýra tengdi á mig, ég man alls ekki lengur á hvað hún var að tengja. Ég veit sem sagt ekki hvort trúmálapistillinn hafi vakið athygli og fengið tengingu frá einhverjum hitamanni, trúar eða vantrúar, eða hvort einfaldlega allir vinir og fjölskylda kíktu inn í tilefni dagsins.

Ég blogga aðallega til að fá útrás fyrir sjálfa mig. Mér finnst ógurlega gaman að fá viðbrögð, ég man alveg hverjir fóru fyrst að skilja eftir athugasemdir og man hvað ég var glöð og hissa að einhver skildi nenna að lesa mig. Ég er í raun ennþá mjög hissa þegar mér er sagt af ókunnugu fólki að það lesi mig, eins og t.d. flugfreyjan sem ég hitti á leiðinni heim eftir sumarfríið.
Ég viðurkenni að ég fer eiginlega hjá mér, fæ sviðsskrekkog allt. Ég er sammála Tobba Tenór sem útskýrði hvers vegna hann yfirgaf moggabloggið og kom aftur yfir á blogspot. Þetta er lítið partý og er skemmtilegt sem slíkt. Ég er samt ósammála honum um að allir eigi að vera mér sammála, ég hef alltaf átt gott með að virða annarra skoðanir, finnst það alltaf ósegjanlega spennandi tilhugsun að vera á öndverðum meiði með ýmsa hluti en finna samt væntumþykjuna, samhygðina eða hvað það er sem tengir fólk hvert við annað. Ég finn bara svona stór og væmin orð, bið forláts. Til dæmis finnst mér Anna Vélstýra (svona fyrst ég var búin að minnast á hana) frábær kona og nauðsynleg lesning, fullt af hlutum sem við erum algerlega sammála um þó að hún sé fylgjandi stíflugerðum og álversbyggingum á Íslandi sem ég er ekki. Ég fæ ekki með nokkru móti séð hvernig ég gæti dæmt fylgjendur stóriðjunnar sem ómarktækt fólk og óviðræðuhæft. Au contraire.

En þó mér finnist þetta allspennandi efni að pæla betur í, verð ég nú að kveðja í bili, kannski röfla ég meira um þetta síðar, kannski aldrei. Kannski hætti ég að blogga í kvöld, kannski verð ég áttræð bloggandi blindfull kerling í Suður-Frakklandi eftir rúm fjörtíu ár. En nú þarf lítill gutti með hita og hálsbólgu á mömmu sinni að halda. Og svona til að gleðja ykkur heima á Fróni: Það rignir eldi og brennisteini hér líka!

Lifið í friði.

ekkert

Ég er búin að skrifa þrjár bloggfærslur um mismunandi efni og stroka þær jafnharðan út. Þið vitið ekki hvað þið eruð heppin að þessi síða skuli hafa svona harða ritstjórn.

Lifið í friði.

meira um Falco en einnig um fangelsi

Maðurinn minn vill að það komi fram að hann man vel eftir Rock me Amadeus. En þar sem hann man ekki eftir Jeannie, er honum vart fyrirgefið af yfirvaldinu hér á bæ. Jeminn eini hvað ég man hvað ég lifði mig inn í það ljóta mál allt saman. Myrt stúlka, móðir sem gerist morðingi morðingja barnsins síns, man ekki nákvæmlega hvað ég var gömul en var akkúrat á þeim aldri að geta velt mér upp úr svona hlutum.

Það er greinilegt að nú er orðið svolítið mikið að gera hjá mér, margt sem þarf að huga að, skólar að hefjast bráðum, börnin heima alla daga (gæsla er í boði en ég afþakkaði hana), ýmislegt í gangi í túristabransanum og í skemmtanalífinu. Þá er einmitt dæmigert fyrir mig að flýja inn í eitthvað allt annað, eins og t.d. Falco karlinn, blessuð sé minning hans.

En nú ætla ég í langferð með börnin upp í 15. hverfi til lögreglunnar að sækja veski sem fannst. Börnunum finnst mjög spennandi tilhugsun að vera að fara til lögreglunnar, þau hafa einmitt mikið verið að spá í löggæslu og fangelsismálum undanfarið, ekki veit ég hvers vegna, í alvöru talað, ég sagði þeim ekki frá Hauki hennar Evu né Steinunni né öllum hinum sem sitja í fangelsi fyrir skoðanir sínar (og ekki snúa út úr, þau sitja, eða hafa þurft að sitja, í fangelsi vegna þess að þau neita að greiða sekt, en sektin er vegna skoðana þeirra og því sitja þau inni vegna skoðana sinna). Úff, þetta er löng setning og eflaust léleg en ég er ekki enn byrjuð í íslenskunáminu. Komin með veflykilinn en varð engu nær inni á Uglu síðast þegar ég leit þangað inn.

Lifið í friði.

Bon Dimanche à vous!

Ég trúði því varla þegar ég komst að því í fyrradag að ég bý með, og er gift, manni sem man ekki eftir þessu. Stundum getur tveggja ára aldursmunur myndað kynslóðabil.

Lifið í friði.

bananar eru hollir

Um daginn dreymdi mig að ég var með tvo valinkunna bloggara í gönguferð um París á ljóðrænar slóðir. Þessir tveir bloggarar eiga það til að yrkja. Og ég man að ég var að reyna að útskýra fyrir þeim fegurð alexandrínunnar, sem er tólf atkvæða klassíska franska ljóðlínan. Hvaðan koma svona draumar eiginlega?

Þegar ég fór að gera stórinnkaup um daginn var ég vafrandi um blessaða búðina, týnd að vanda. Ég fann hvorki vöruna sem ég leitaði að, né manninn minn með kerruna. Geng ég þá ekki fram á konu liggjandi í gólfinu, full helvítis búð af fólki og er ég reiðubúin að veðja milljón um að einhver var búinn að sjá hana en ekki nennt/þorað að kanna málið, áreiðanlega ímyndað sér að um dópista væri að ræða. Ég tala af reynslu, hef staðið með manninn minn grænan og bláan í framan, meðvitundarlausan, og fólk tók krók framhjá okkur þar sem ég reyndi að fá það til að hjálpa mér að bera hann upp úr metró. Spyrjið líka Baun, ekki langt síðan hún varð fyrir svona hegðun á Íslandinu góða.
Ég sem sagt rauk að konunni og sá að hún var byrjuð að blána. Ég get svarið það, í smá stund hélt ég að hún væri dáin. Ég strauk á henni handlegginn og fann að hún var heit og sá þá einhvern veginn að hún var ekki dáin, ekki stíf, ekki eitthvað. Þetta er í annað skipti á minni stuttu og afskaplega venjulegu ævi sem ég hef þurft að koma við manneskju án þess að vera viss hvort hún væri á lífi. Það er ekki gaman. Ég hef aðeins einu sinni séð lík, það var í kistulagningu. En nokkrum sinnum séð deyjandi fólk í sjúkrarúmi, ein af þeim manneskjum ofsótti mig í draumum lengi eftir dauða sinn.

Þegar ég var að borga á kassanum sá ég ungu konuna ganga og ræða við sjúkraliðið, mikill léttir. Það er ótrúlegt hvað svona lítil atvik geta slegið mann út af laginu. Lífið hangir á bláþræði og þess vegna erum við skyldug til að vera alltaf glöð og góð. Með góð á ég alls ekki við þæg. Það er tvennt ólíkt.

Lifið í friði.

raunsæ

Í gær las ég fullt af slagorðum og skemmtilegheitum um mótmæli á frönsku:

Verum raunsæ, krefjumst hins ómögulega! hef ég t.d. minnst á fyrr en þetta kemur úr ’68-uppreisninni og hef ég heyrt það notað af þeim sem berjast fyrir rétti allra til að hafa þak yfir höfuðið og sá í gær enn fleiri hafa nýtt sér þetta, enda þrælfín setning.

En í dag, í staðinn fyrir að sitja og stúdera mótmælagöngur, lög um slíkt á Íslandi og í Frakklandi og rétt þeirra sem vilja mótmæla eins og mig langaði, er ég búin að vera að taka til í barnaherberginu í allan dag.
Raða öllu upp á nýtt, hengja upp myndir, henda dóti, taka til í fataskápum og skúffum og nú er allt glansandi og fínt og uppraðað. Íbúar herbergisins koma svo heim á miðnætti í nótt og spái ég því að lítil ummerki um erfiði dagsins sjáist eftir klukkan tíu í fyrramálið.
En það er samt þess virði. Ég fann t.d. púslin sem vantaði í púsluspilin og það eitt og sér er nú hressandi fyrir mitt viðkvæma sálartetur. Pabbi minn ól mig upp í því að fara vel með hluti og mamma mín er mikil tiltektarkona, ég er meira eins og pabbi en stundum næ ég smá mömmutöktum og fæ af mér að henda og gefa frá mér dót.

Ég á bæði eftir að fara í gegnum stafla af kortum og myndum sem eiga að fara í albúm og annað slíkt og, það sem verra er, í gegnum risastafla af fötum sem þarf að flokka í það sem má gefa, það sem á að skila og þá hvert og það sem ég ætla að halda. Þetta átti að gerast meðan börnin væru í burtu. Það er nú of seint. Mig verkjar af tilhlökkun að knúsa þau og kjassa. Ég er öll flækt í naflastrengnum. Best að skella sér í ilmandi bað áður en ég fer út að kaupa jógúrt og annað svona matarkyns eitthvað. Ekki meira af veitingahúsum og lebenlífi í bili.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha