Tepoki

Ég átti nokkra náðuga daga í Normandí sem er dásamlegt hérað. Það var gott fyrir höfuðið að komast aðeins niður að sjó. Mig langar dálítið mikið að flytja út í sveit og þá helst einhvers staðar frekar nærri sjó en samt með garð þar sem hægt er að rækta grænmeti. Húsið mitt yrði að vera í þessum stíl ef ég veldi Normandí.

Ég sé mig algerlega í anda búa í svona húsi og ganga um á gúmmískóm alla daga, klippandi trjágreinar, rótandi í moldinni, hugandi að fræjum eða plöntum og auðvitað alltaf með gesti. Eða ekki. Kannski er ég enn og eilíflega borgarbarnið sem ég hef alltaf talið mig vera. Ég veit það ekki.

Rafmagnskonan hafði að sjálfsögðu samband eins og hún hafði lofað, tilboð hennar var ásættanlegt og hún kemur að bora og laga 8. mars. Sonur minn er byrjaður að pilla flísar af veggnum en ég er enn ekki búin að ákveða alveg hvernig framkvæmdirnar verða, ég næ ekki að finna réttu mennina og svo veit ég ekki alveg í hvaða röð þetta þarf allt saman að vera gert. Það þarf að klára að pilla restina af flísum af veggjum og gólfi, það þarf að taka baðkarið og kranann. Laga veggina og gera þá tilbúna til að taka við nýjum flísum. Setja upp nýtt baðkar og krana með alvöru sturtu. Setja upp vaskmubblu en mér skilst að ég þurfi að flísaleggja bakvið hana. Flísaleggja gólfið og svuntu framan á baðkarið. Flísaleggja veggi. Mála rest og fá hillur og snaga og ljós. Þetta er svona um það bil röðin sem ég held að þetta þurfi að vera gert í, en ég veit ekki. Ég veit ekki neitt. Nema að ég hef aldrei verið jafn róleg yfir því að þurfa að fara að standa í framkvæmdum. Ég veit ekki alveg hvað það er, en mér liggur einhvern veginn ekkert á að láta þetta gerast. Ég held að grímunotkun og samkomubann sé að breyta mér í afturgöngu. Nema þetta sé aldur og þroski.

Lifið í friði.

rafmögnuð kona

Milli jóla og nýárs gekk ég í það litla og löðurmannlega verkefni að skipta út vaskmubblunni á baðinu, ásamt vaski og krana. Samkvæmt jútúb myndböndum tæki svona verkefni kannski daginn, en þar sem ég vissi að það gæti orðið snúið að ná gömlu skápunum frá, því þeir vöfðust svo fagurlega utan um pípulagnir sem ég vildi ekki fjarlægja fyrst, ákvað ég að gefa þessu þrjá daga. Sonur minn hefur sýnt viðhaldsvinnu mikinn áhuga og sagst vilja læra, svo hann var opinber handlangari minn. Við böksuðum töluvert lengi við að ná skápunum utan af pípulögnunum og voru aðfarirnar stundum dálítið eins og við værum tannlæknar að bora, eða mér leið alla vega þannig. Skáparnir losnuðu að lokum, en þá var eftir að losa vaskinn sem var vel límdur við flísalagðan vegginn. Þrátt fyrir óhóflega notkun á sérstökum silicon-leysi og að búið væri að fara með kíttispaða meðfram öllu, að ég taldi, fór að lokum svo að með vaskinum kom dágóður hluti af flísum, og með þeim dágóður hluti af veggnum undir.
Ég fékk áfall, slökkti ljósin á baðherberginu og lagðist í smá kör. Svo jafnaði ég mig, fór og skoðaði þetta og pældi aðeins í möguleikunum og ákvað að endingu að þetta væri merki um að ég ætti bara að leyfa mér að fjarlægja flísarnar, laga veggina, fjarlægja baðkarið, fá nýtt og fínt slíkt, nýja bað- og sturtukrana og auðvitað nýjar flísar á veggina.
En alltaf þegar framkvæmdir standa fyrir dyrum fer snjóbolti af stað og með þessum ákvörðunum fattaði ég að nú og akkúrat nú væri tími til kominn að láta taka rafmagnið í gegn hér, en innstungur í svefnherbergjunum eru frá 1960 og öll lýsingamál í þeim eru í slíkum ólestri að það verða aldrei birtar myndir.
Ég fór að leita að rafvirkja og af því leiddi að ég skoðaði rafvirkjanám og pældi í að skella mér og allt í einu datt mér í hug að gúggla rafvirkja í kvenkyni, og sló inn „electricienne paris“. Upp kom vefsíða kvenkyns rafvirkja sem ég hringdi í. Rám rödd hennar og kvik viðbrögð sannfærðu mig um að við ættum vel saman. Og í kvöld kom hún að taka út ástandið hérna og mældi og hummaði og bráðum fæ ég verðtilboð frá henni. Hún er lítil og mjó, með millisítt krullað hár. Ráma röddin á sínum stað undir grímunni. Hún ræddi eingöngu hluti sem skipta máli, útskýrði fyrir okkur alls konar varðandi norm og kröfur og möguleika til að koma sem best frá þessu. Ég er ofursátt. Nú þyrfti ég eiginlega bara að finna kvenkyns flísaleggjara/múrara/pípara. En eins og er hafa þeir iðnaðarmenn sem ég hef náð í annað hvort komið en senda svo ekkert verðtilboð eða bara segjast ætla að koma en koma svo ekki. Ég hef alveg þolað þá höfnun. Það skiptir engu máli þótt við þvoum okkur um hendur í baðkarinu, ég hugsa bara um aðstæður í Tógó í hvert skipti sem ég ætla að fara að vorkenna mér. En ég veit ekki hvert ég fer ef þessi rafmagnskona svíkur mig um tilboð. Það gæti riðið mér að fullu.

Verð ég ekki að enda þennan pistil eins og ég gerði ávallt í gamla daga? Jú, ég held það svei mér þá. Ég held ég bara gæti ekki annað:

Lifið í friði.

Tenglar á þriðjudegi

Það er svo margt sem maður skilur ekki og kannski bara eins gott að maður skilur ekki allt.

Hins vegar er ógnvekjandi þessi hugmynd í Kjarnanum, um að í raun viti enginn neitt.

Hér er hins vegar þessi kona sem virðist vita dálítið mikið og, það sem meira er, hún er ekki feimin við að ræða það opinskátt. Ég myndi ráða þessa konu í stöðu fjármálaráðherra. Eða Seðlabankastjóra. Eðs forsætisráðherra. Ef ég væri the big boss. Eða eitthvað.

Lifið í friði.

Un sachet de thé

Þetta er í raun áramótapistill, en ég get varla farið yfir árið því ég man ekki neitt stundinni lengur. Eina ástæðan fyrir því að ég ákvað að prófa að skrifa eitthvað er sú að ég var að fá ársuppgjör frá WordPress og þar kemur fram sú arma staðreynd að ég hef skrifað átta pistla á árinu. En kannski er það bara allt í lagi, kannski er tími bloggsins liðinn, þó einhverjir hamist við að halda öðru fram.
Ég þarf annars að fara að skrifa niður bækurnar sem ég les og tónleikana sem ég fer á og svona. Ég man þó vel að ég sá Björku í Zenith ásamt allri fjölskyldunni. Það var stórmerkilegt, ég hafði ekki séð hana á sviði síðan ég sá Sykurmolana í Elysée Montmartre fyrsta veturinn minn í París. Björk er alveg rosaleg og þessir tónleikar voru mergjaðir. Gaman líka að hafa krakkana með. Mig langar orðið aldrei til að gera neitt nema þau séu með. Ég sá líka Ólaf Arnalds sem er flottur. Hann er kannski á einhvern hátt afsprengi tilraunastarfsemi Bjarkar, eða mig langar að prófa að halda því fram án þess að ég telji mig hafa nokkurt vit á tónlist, sérstaklega svona samtímatónlist eins og þau semja. Nú í nóvember sá ég svo Emiliönu Torrini sem er líka fær og skemmtileg. Hún hreif salinn með sér, vinur minn er ástfanginn upp fyrir haus af henni. Ég sá líka Eddu Erlendsdóttur spila á píanótónleikum, sem var mikil upplifun. Og ég var svo heppin að fá að fylgja Vox Feminae um alla borg og heyra þær syngja bæði í Saint Germain des Près og Notre Dame. Hvílíkar gyðjur.
Við krakkarnir fórum að sjá Flavio Esposito, gítarkennara Sólrúnar, spila á skemmtilegum tónleikum í pínulitlu leikhúsi og þau sjálf spiluðu og sungu á ótal uppákomum í tónlistarskólanum.

Ég skilaði MA-ritgerð og uppskar svakalega fínt diplómuskjal. Þvert á loforð um að fara aldrei aftur í nám, skráði ég mig í löggildingarprófið sem ég þreyti í febrúar og er svo að skoða árslangt nám í háskólanum í Nanterre fyrir næsta vetur. Nánar um það síðar.

Ég kærði mig inn á kjörskrá í lok nóvember, en ég hefði dottið út 1. des ella. Ég hef sterklega á tilfinningunni að það gætu alveg orðið kosningar aftur á Íslandi, ástandið er valt.

Ég er búin að lesa fullt af skáldsögum en þar sem ég held enga dagbók yfir það sem ég les og get ekki flett upp, sleppi ég því að reyna að gera lista. Ég er líka búin að lesa eitthvað af fræðilegu efni, aðallega sagnfræði eða félagsfræði sem tengist París.

Ég hef ekki staðið mig nógu vel í sukkjöfnun og held ég hafi fitnað. Nei, ég skal segja þetta rétt: Ég hef fitnað. Ég kemst til dæmis ekki í jólakjólinn frá því í fyrra. En þetta stendur nú allt til bóta. Eða ekki. Ég hamast við að berjast gegn útlitsdýrkun og megrunarkjaftæði, en ég vil samt ekki verða of feit sjálf. Það er reyndar í raun ekkert endilega þversagnarkennt. En samt jú, í mínu tilfelli er það dálítið þversagnarkennt því spikið er ekki farið að há mér líkamlega, ég get enn þrammað upp og niður og út og suður og allt sem ég vil. Það háir mér hins vegar andlega að reka stundum augun í mynd mína í spegli og sjá hvernig bumban stendur út í loftið.
Ég prófaði zumba og jóga í fyrsta skipti á árinu. Svona er nú hjarðhegðunareðlið sterkt í manni þótt maður þykist rosa kúl. Ég stefni á að verða duglegri í zumba núna eftir áramót, en það hittist furðulega þannig á að ég gat sjaldan mætt á haustönninni. Ég er ekki viss með jógann, einfaldlega of dýrt og of langt að fara. 

Ég þýddi enga bók á þessu ári og hef í raun fengið lítið af þýðingaverkefnum. Ég hef haft þó nokkuð að gera í túristabransanum og mér finnst það alltaf jafn skemmtileg vinna. Ég er farin að  endurskoða ferðirnar dálítið. Kannski eru þær of langar, ég er samt ekki viss. Þær fara oftast alveg upp í þrjá tíma. Ein hugmyndin er að bjóða tvær versjónir, styttri og lengri útgáfu. En það er alla vega kominn tími á að breyta þeim eitthvað, ég má ekki staðna.

Krakkarnir mínir eru stórkostleg börn. Ég veit ekki hvað ég hef gert til að eiga þau skilið. Þegar ég fór að sækja einkunnir þeirra núna í desember, notuðu kennarar beggja sama orðalagið eftir að hafa hlaðið þau lofi fyrir að vera prúð, skemmtileg, klár og dugleg: „Þú hlýtur að heyra þetta oft.“ Ég var bókstaflega að rifna úr monti í bæði skiptin þegar ég hálf valhoppaði út úr skólabyggingunum. Brosið hefur eflaust náð alveg út að eyrum.
Sólrún er í gagnfræðaskóla, og er í sérstökum tónlistarbekk. Einn eftirmiðdag í viku er hún í tónlistarskólanum þar sem hún lærir tónsmíðar, spuna og tónfræði. Hún mætir svo að auki í gítartíma og er í tveimur gítarhljómsveitum. Á mánudögum og þriðjudögum er hún í skólanum frá 8 til 17:30. Á föstudögum er hún búin á hljómsveitaræfingu klukkan hálfníu og fer á hina hljómsveitaræfinguna á laugardögum. Hún æfir þar að auki sund einu sinni í viku. Ég er stundum krossbit á því hvað hún er geðgóð og kát, þetta er svakalegt prógramm hjá henni.
Kári er enn í grunnskóla og hefur fengið boð um að koma í voða fínan gangfræðaskóla á næsta ári. Hvers vegna er löng saga sem ég segi kannski síðar, ég velkist í vafa með þetta allt saman. Hann er sæmilega duglegur að æfa sig á saxófóninn og æfir að auki aïkido sem honum finnst voða gaman. Skóladagarnir eru líka langir hjá honum, en hann er í fríi á miðvikudögum fyrir utan að mæta í saxófóntímann um morguninn. Mig langar stundum að stöðva allt, fara eitthvað í burtu með þau og leyfa þeim (og okkur) að vera bara til. Það er heilmikið álag á börn hér í Frakklandi. En, eins og ég sagði, þá eru þau fullkomin og virðast amk enn þrífast vel í þessu hörkukerfi.

En jæja, ég ætlaði nú ekki að skrifa einhverja langloku og í raun vona ég að enginn sjái þetta. En ef einhver villist inn: Gleðilegt nýtt ár og þakkir fyrir það gamla!

Munið ævinlega að lifa í friði.

það hlýtur að vera mars

Það er alveg ótrúlega fríkað að fylgjast með Íslandi úr fjarska þessa dagana. Ríkisútvarpið aflimað, lögrelgan skýtur mann til bana og strax er farið að tala um fleiri vopn og ríkisstjórnin sker niður bætur hinna lægst settu, svona til að jafna upp skattaafslátt hinna best settu sem veittur var nánast sama dag og stjórnin tók við völdum. Ekki dugir að skera niður bætur hinna lægst settu á Íslandi, heldur á líka að taka af því fé sem farið hefur í þróunaraðstoð.

Maður er bara gapandi gáttaður. Þar sem íbúðin mín er á hvolfi vegna framkvæmda við „stækkun“ hef ég ekki sett upp einn einasta jólastjaka og ég verð að segja að akkúrat þennan mánudagsmorgun og alveg að koma miður desember líður mér eins og það hljóti að vera mars. Treysta þeir á að fólk bara sitji með jólaglögg og piparkökur og rauli með Bó og Frostrósum og haldi kjafti?

Lifið í friði.

Laugardagur

Ég veit ekki alveg hvernig ég fer að því að gabba sjálfa mig svona, en af því ég þarf ekki að mæta í vinnu í dag fannst mér einhvern veginn eins og ég myndi bara liggja í sófanum með bók og kannski ná að spjalla við einhverja vini sem ég hef dissað undanfarið í síma og svona.

Ég þurfti hins vegar að vakna korter í átta, fara með þrjá snáða í Aïkido, nýta tímann á meðan í að fara á markaðinn og staulast sliguð með matinn í bílinn. Koma drengjunum heim, matnum í skápa og hafa til hádegismat (upphitað af markaðnum). Nú erum við búin að úða í okkur matnum og ég þarf að skutla Sólrúnu í gítar og fara með Kára að kaupa afmælisgjöf, koma honum svo á hljómsveitaræfingu og svo er planið að ég rjúki niður í bæ að sjá íslenska rithöfunda og glæpasögusérfræðing tala um glæpó og Íslendingasögur og svona EF mér tekst að koma krökkunum á einhvern sem getur komið þeim úr tónó, heim að skipta um föt og í afmæli. Og helst líka úr afmæli svo ég þurfi ekki að flýta mér heim.

Dæmigerður næs laugardagur þar sem ég þarf ekki að vinna?

Vinsamlegast athugið að ég er ekki að kvarta, meira bara svona að gera létt grín að sjálfri mér og hversdagnum.

Lifið í friði.

Frakkar eru hræddir við rigninguna

Það verður víst rigning í dag. Ég sem ætlaði að burðast út með hjól krakkanna, pumpa í dekk og smyrja. Hjólin hafa nefnilega ekkert verið tekin út í sumar og það er bara ekki hægt. Í gær var sumar, 23ja stiga hiti og sól. Þá voru krakkarnir lokaðir inni í skólastofu og ég að vinna. Í dag erum við næstum alveg í fríi og þá er rigning. Ég er reyndar jafnvel að spá í að athuga hvort ég geti pumpað Íslendinginn upp í þeim og við bara gefið skít í rigninguna, pumpað í dekkin og smurt keðjurnar og farið í hjólatúr í rigningunni. Kannski er ég sjálf orðin of frönsk, því mér datt þetta ekki í hug fyrr en ég fór að kvarta yfir rigningunni skriflega hér. Þetta er í fjórða eða fimmta skipti á skömmum tíma sem flögrar að mér að ég sé orðin of frönsk. Þarf ég að hafa áhyggjur?

Lifið í friði.

Ég er búin að fá einkunn fyrir mastersritgerð: 9.0. Ég er fullkomlega sátt við þá einkunn. Eiginlega er ég of sátt, mér finnst þau hljóti að hafa verið of góð við mig. Líklega er hún ekki svo góð. Eða hvað? Æ, við skulum ekki dvelja við það. Það er svo margt annað svo mikilvægara í þessum heimi heldur en ein lítil mastersritgerð einnar lítillar konu.

Ég dissa þetta blogg og kenni feisbúkk algerlega um. En stundum er feisbúkk bara ekki málið. Núna til dæmis er klukkan tvö að nóttu og ég ætlaði bara að setja inn lítinn status um hvað það hefði verið gaman og gott að borða góðan mat og skála við góðar vinkonur, en um leið þótti mér einhvern veginn eins og vegið væri að kvöldinu í gær. Af hverju kom enginn status um Leonard Cohen og hvað hann er meiriháttar?

Sem sagt.

Mér datt í hug að gera svona tilraun:

Setja inn status frá í gær, í dag. Setja sem sagt inn í kvöld: OMG LEONARD COHEN ER ENN HJARTABRJÓTUR! Eða þið vitið. Þið sem þekkið mig á feisbúkk vitið hvernig statusinn um tónleika með Leonard Cohen hefði getað litið út. Eða ekki.
Um leið og ég skrifaði eitthvað um að þrátt fyrir aldur væri karlhelvítið enn með allt sem þarf, fattaði ég að vinkona mín sem stóð í ströngu í allan dag við að undirbúa ó, svo velheppnað matarboð kvöldsins, yrði kannski pínu (og það væri alveg réttlætanlegt) svekkt yfir mínum status, hún sjálf rétt búin að taka allt til eftir matarboðið og setja síðustu glösin í uppþvottavélina og sæi svo bara eitthvað um Leonard Cohen?! Ég skil hana svo vel í þessari ímynduðu sitúasjón að ég set tilheyrandi spurningamerki ásamt upphrópunuarmerki, en þetta er hin besta leið til að tjá hneykslan, á eftir þartilgerðum „broskarla“táknum, en sumir broskarlar geta táknað annað en bros, til dæmis alls konar sárindi og sorg.

Sem sagt. Engin tilraun. Það stendur ekkert á feisbúkkveggnum mínum. Það síðasta sem ég setti inn var … eitthvað. Þú verður að fara þangað til að tékka, eins og ég sjálf. Og ef þú ert ekki á feisbúkk lofa ég þér að þú ert ekki að tapa neinu. Þar gerðist ekkert í kvöld. Nema ég lækaði eitt og annað, eins og gengur … þar.

Í kvöld átti ég yndiskvöld með vinkonum mínum. Það er eiginlega þúsund sinnum betra en allt annað. M.a.s. það að klára masterinn. Vinkonur eru bara eitthvað svo mikið … ahhh … (bara svona svo það sé á hreinu eigum við líka vini sem mega alveg vera memm stundum, þessir vinir bara eru ekki í sama landi akkúrat núna)

Lifið i friði.

Skil

Mér finnst bráðnauðsynlegt að tilkynna lesendum mínum (báðum) að ég er að skila af mér Meistararitgerðinni um helgina. Þetta er heljarinnar dútl á lokasprettinum, en ég held ég geti verið nokkuð örugg um að ég fái að útskrifast í vor.

Ég byrjaði í Þýðingafræðináminu árið 2008. Þegar ég innritaði mig í námið, var brjálað að gera hjá mér í ferðabransanum, en ég hafði frétt af þessu námi og ákvað að þetta hlyti að vera eitthvað sem ég ætti að gera. Ég var nefnilega með smá áhyggjur af því að vera í ferðabransanum án þess að hafa til þess nokkra menntun, en ég hef verið bögguð vegna þess, af Íslendingum. Vegna áreitis frá Félagi íslenskra leiðsögumanna tók ég orðið leiðsögn út af vefsíðunni minni. Íslenskir leiðsögumenn með próf í leiðsögn um Ísland þoldu ekki tilhugsunina um litla konu í París að þykjast vera leiðsögumaður. Ég skil að vissu leyti áhyggjur af lögverndun starfsheita en persónulega hef ég fulla trú á því að fólk geti alveg gert hluti mjög vel án þess að fara í gegnum nám. Og mér finnst meira spennandi að leyfa fólki að gera hlutina vel, en að vera að einblína á prófgráður.
En. Semsagt. Einhver sagði mér eitthvað um þýðingafræðin og mér fannst einboðið að skella mér í það nám, svo ég gæti þá alla vega sagst vera með próf þegar ég  tæki að mér þýðingar. Ég var líka með það í huga að kynnast þýðendum á Íslandi, enda finn ég eiginlega best fyrir fjarlægð og einsemd þegar ég er að þýða.

Um haustið 2008 skráði ég mig sem sagt í kúrsa á BA-stigi í íslensku og þrælaði mér í gegnum hljóðfræði, beygingar og orðmyndun og fleira skemmtilegt. Vinum mínum fannst ég snarklikkuð, það væri sko alveg nóg að gera hjá mér þó ég færi ekki að bæta þessu ofan á allt hitt. Börnin voru þá 4 og 6 ára gömul og eins og ég sagði áðan var slatti að gera í ferðabransanum, enda allir í afneitun á að góðærið væri að springa í andlitið á sjálfu sér. Þar til í október. Ég gekk um Mýrina með fjóra Íslendinga þarna rétt í byrjun október. Þau voru í losti yfir verðinu sem vísa setti á bjórkollurnar og eftir að þau komust aftur heim fékk ég enga viðskiptavini í langan, langan tíma. Jú, reyndar kom Hamrahlíðarkórinn síðar í október, en það ferðalag hafði verið skipulagt löngu áður og dagskráin var svo mikil að það hefði verið ömurlegt fyrir þau að hætta við. Ég man hvað það var fríkað að sitja í rútunni og þau öll með nesti, flatkökur og kókómjólk. Ég hafði aldrei fengið viðskiptavini með nesti áður, held ég. Og ég gleymi ekki hvað það var tilfinningaþrungið móment að sjá þau í þjóðbúningum að syngja í Notre Dame. Fulltrúar lands sem var á hausnum, ónýtt. Og þau svo frábær og falleg. Vá, hvað maður var nú bljúgur þá.

Já. Semsagt. Ég hef alltaf sagt að það hafi verið verndarengillinn minn sem leiddi mig til þess að skrá mig í námið. Ég veit ekki hvað hefði orðið um mig þarna í nóvember og desember 2008, ef ég hefði ekki getað legið á kafi í hljóðfræðiverkefnum og fleiru skemmtilegu.

Og þessi örstutta tilkynning er orðin of löng, en nú er ég sem sagt búin. Eða þannig. Þið vitið. Næstum búin. Og í gegnum námið hef ég kannski ekki beint kynnst mörgum samnemendum, þar sem ég var bara með í anda. En þó hef ég komist í samband við nokkra þýðendur, fengið að kynnast frænku minni sem er doktor í íslensku þegar maðurinn hennar kenndi mér einmitt blessaða hljóðfræðina og síðast en ekki síst atti Gauti mér út í að prófa að þýða skáldverk. Og nú eru komnar tvær franskar skáldsögur út í minni þýðingu. Rannsóknin eftir Philippe Claudel þarna 2011 og nú um daginn kom út hin þrælskemmtilega og spennandi bók Í trúnaði eftir Hélène Crémillon. Ég er enn dálítið hissa. Ég hélt í alvöru talað að ég gæti þetta ekki. Þýtt bókmenntir. En mér finnst það meiriháttar gaman og ég vona að ég nái því að fá að þýða amk eina bók á ári héðan í frá.

Í trúnaði

Þegar maður klárar svona verkefni, verða kaflaskil. Nú þarf ég að taka aðeins til hjá mér og finna út úr því hvernig framhaldið verður. Eins og er, bögglast í mér hugmyndin um að halda áfram að vera Parísardaman því það er náttúrulega skemmtilegast af öllu. Þýða eina skáldsögu á ári og verða mér úti um aðeins fleiri nytjaþýðingar, en undanfarið hefur verið ógurlega lítið að gera í þeim. Ég veit samt ekki alveg hvernig ég á að snúa mér í því, allar ábendingar vel þegnar.

Nú ætla ég að halda út í vorið og svei mér ef ég kaupi mér ekki bara ís í dag!

Lifið í friði.

Tau frá Tógó

Tau frá Tógó

Tau frá Tógó er með facebook-síðu, tékkið á henni. Þar fást nú tveir kjólar í þessu sniði sem ég er í, og nokkrir í sniðinu sem Sólrún er í. Þeir heita eftir okkur mæðgum, „Tata Kristín“ og „Sólrún“.