Kveðja

Madame Michaud par Caroline Dubois

Dyggir lesendur ættu að muna eftir Mamí Michaud á jarðhæðinni. Nú er hún farin yfir í sumarlandið. Gluggahlerarnir hafa verið lokaðir síðan hún var lögð inn á spítala fyrir tveimur vikum og þótt ég hafi heimsótt hana reglulega, leit ég alltaf á gluggann í von um að sjá henni bregða fyrir.
Við eigum eftir að sakna þessarar ömmu okkar sem var svo dásamleg manneskja. Hún var góð við börnin mín og öll börn hér í hverfinu, spjallaði við þau eins og jafningja strax frá unga aldri. Hún var hjálpsöm, tók við pökkum og öðru sem þurfti að redda fyrir hvaða íbúa hússins sem var. Hún lét aldrei styggðaryrði falla um nokkurn mann. Hún var sprettharðari en margur jafnaldri minn, ég átti sjálf stundum fullt í fangi með að draga hana uppi þegar ég sá hana á undan mér í götunni. Það var alltaf gaman að tala við hana, stundum bara um daginn og veginn, stundum um eitthvað sem hún hafði séð í sjónvarpinu, um ferðir með eldri borgurum, lífið þegar hún kom til Parísar og fór að vinna í stóru vöruhúsi. Þá bjó hún í Palais Royal hverfinu og kynntist rithöfundinum Colette, í gegnum sameiginlegan áhuga þeirra á köttum.

Frú Michaud hélt fullri getu alveg fram á það síðasta, en þetta veiruástand hefur auðvitað tekið mikið á með tilheyrandi einangrun vegna þess að allt félagslíf eldri borgara hefur legið í dvala. Alveg síðan í maí minntist hún stundum á að komið væri nóg, fór að svara grunnspurningunni „Hvað segir þú gott?“ með neikvæðu svari um að það væri ekkert gott að segja. En alltaf þegar við fórum að spjalla lifnaði yfir henni, ljósið birtist í augunum svo leiftrandi gáfur hennar skinu á ný. Hún þekkti mig, grímuklædda, jafnvel þegar hún var komin í líknandi meðferð. Þakkaði mér aftur og aftur fyrir að nenna að koma til hennar. Ég er þakklát fyrir að hafa getað endurtekið aftur og aftur hvað við elskuðum hana mikið, hafa talið upp nöfn okkar allra, nágrannanna, barna sem fullorðinna og sannfært hana um að við værum öll að hugsa til hennar og söknuðum hennar mikið úr glugganum. Ég er þakklát fyrir að hafa tekið af mér grímuna og haldið utan um hana og haldið í hendur hennar meðan hún svaf og látið hana finna fyrir því að hún var ekki ein.
Hún missti manninn sinn fyrir þó nokkrum árum og svo köttinn sinn síðar. Þá vildi hún ekki taka annan kött, því henni fannst of óhugnanleg tilhugsun að deyja frá honum. Dugði þá ekki að lofa henni að við myndum taka hann að okkur eða sjá til þess að koma honum til nýrrar fjölskyldu. Við komum því alltaf við hjá henni þegar við fórum með Grisemine til dýralæknisins og sem betur fer eru nokkrir útikettir í götunni, sem vissu allir að það var gott að koma upp á gluggasyllu hjá frú Michaud og fá klapp og jafnvel eitthvað góðgæti.
Undanfarnar vikur hafa lokaðir hlerarnir vakið athygli vegfarenda sem hafa staldrað við og spurt frétta af gömlu konunni, fólk sem vissi ekki einu sinni hvað hún hét en þótti samt vænt um hana. Hennar verður sárt saknað af fjölda manns sem þekktu hana mismikið, en öll af góðu einu.

Myndin af Jeannine Michaud var tekin af ljósmyndaranum og nágrannakonu okkar Caroline Dubois í fyrsta útgöngubanninu í mars 2020.

Bækur að teyga eða teygja

Var að ljúka við n-ta lestur á Ástin fiskanna eftir Steinunni Sigurðardóttur. Ein af fáum bókum sem hefur fylgt mér í gegnum ótal flutninga, fram og til baka yfir hafið og allt. Lesin reglulega, stundum þegar ég hef ekkert annað en stundum þegar ég er með fullt af öðru að lesa en sem ég þarf greinilega að hvíla mig frá, eins og er nú.
Ég var með fjórar hálflesnar bækur í gangi, sem er ólíkt mér. Lauk við eina af þeim í gær og byrjaði þá á sögunu af ástinni köldu í staðinn fyrir að ráðast að bunkanum furðulega.

Mér finnst þær allar brilljant góðar og mun lesa þær upp til agna, en ég ræð ekki við að gera það í einum sprett. Sú sem ég lauk í gær var Jón Kalman, Fjarvera þín er myrkur. Ég hélt satt að segja að ég væri löngu búin með hana og ætlaði meira að segja að skila henni um daginn, en hafði víst geymt mér síðasta kaflann og steingleymt því síðan. Eins gott að ég gleymdi að skila!

Hinar eru Kristín Lafransdóttir eftir Sigrid Undset, íslensk þýðing Helgi Hjörvars og Arnheiður Sigurðardóttir, Elskan mín ég dey eftir Kristínu Ómarsdóttur og Myndin af heiminum eftir Pétur Gunnarsson.

Ástin fiskanna er snjáð og inni í henni er blettur sem gæti verið súkkulaði. Hann er neðst í krikanum fyrir miðri bók. Ég sé fyrir mér að ég hafi gripið hana einmanaleg jól hér í Frakklandi, þegar fólkið mitt passaði ekki upp á að senda mér bækur (já, það hefur gerst og er ekki gleymt). Ég hef þá hálflegið í rúminu með þessa bók og súkkulaði mér til hugarhægðar.

Ég vildi óska þess að ég gæti átt fleiri daga eins og þann sem ég gaf mér í gær. Ég ákvað áður en ég fór að sofa að ég myndi hanga og lesa og hekla allan daginn og ekkert annað gera. Ég stóð næstum við það, en hékk því miður dálítið á netinu líka og tók til í baðherbergisskúffunni í leit að naglaklippunum sem virðast tröllum gefnar. Þegar ég vaknaði of snemma í morgun, vegna nýja vetrartímans, lauk ég við bókina og lá svo og lét mig dreyma um bjálkakofa, íslenskt rok og lóusöng.

Ég er alltaf jafn undrandi á þessari sögu. Svo undrandi á því að þau geti verið svona vitlaus en um leið undrandi á að í því felst einmitt öll fegurðin. Mér finnst svo gaman að foreldrum hennar og get að vissu leyti speglað mig bæði í mömmunni og í aðalpersónunni. Ég er einhvern veginn bæði glöð og kát og afkastamikil og nýt þess að nostra við fjölskylduna mína og þrái fátt heitar en að verða amma. En um leið öfunda ég í laumi fólk sem hefur ekkert að gera annað en að dedúa við sjálft sig og láta sér leiðast og sakna svo tímanna þegar ég var ógeðslega blönk og hafði oft ekkert að gera heilu og hálfu vikurnar annað en að lesa og skrifa og hugsa.

Ástæðan fyrir frídeginum í gær var ógnarharkaleg tilfinning um vanmátt og hræðslu sem lagðist yfir mig á laugardaginn vegna þess að ég er að sigla inn í fríviku með risastóran bunka af prófum að fara yfir. Annar bunki sem bíður mín.

Ég harkaði af mér á laugardag og bjó til dúndurmáltíð fyrir vini þrátt fyrir að langa mest af öllu til að senda þeim sms um smitgát. Hversu mörg ætli hafi nýtt sér veiruna til að ljúga sig út úr matarboðum? – skyldi þetta verða rannsakað? Við fengum vini okkar í mat og hlógum og fífluðumst og þegar ég lagðist til svefns ákvað ég frídag og svo yrði ég hress á mánudeginum og myndi bara rústa þessum prófabunka. Vaknaði síðan of snemma og las í bók og nú er ég bara að blogga, með fullan maga af vöfflum og klukkan orðin tíu og prófbunkinn enn þar sem ég faldi hann á laugardag svo ég myndi ekki rífa hann í tætlur.

En nú er ég tilbúin. Tomato-timer verður nýttur og ég mun hafa þetta af! Lifið í friði.

Litlu minningarbrotin

Þegar man hamast, fer hugurinn oft á fullt. Nú hjóla ég í vinnuna og þótt ekki þýði að vera með hugann á of miklu flugi út í buskanum þegar hjólað er í morgunumferðinni í París, næ ég stundum að fara á smá flug á leiðinni heim, enda er það oftast um miðjan dag eða hefur alla vega verið undanfarið því nettengingin í Sorbonne hefur verið óþolandi léleg og betra að vinna heiman frá sér þegar ekki er verið að kenna.

Um daginn fékk ég svona minningaleiftur um forláta skíðahjálma sem pabbi minn kom með frá útlöndum handa okkur systrum, löngu áður en slíkur búnaður fór að þykja eðlilegur. Á hjálminum var einhvers konar skel sem passaði beint á hökuna. Hjálmurinn var sem sagt ekki festur undir hökuna heldur lá þessi skel á hökunni henni til varnar. Mér fannst þetta eitthvað svo stórmerkilegt sem krakka, að það væri líka passað upp á hökuna, ekki bara hlutann sem varðveitir heilann. Og mér fannst alltaf svo mikilvægt að þessi skel væri á nákvæmlega réttum stað, stundum þurfti ég margar tilraunir áður en það gekk upp, því skelin rann til á bandinu.

Hvílíkt sem ég væri til í að handfjatla skíðahjálminn minn aftur. Mér þótti hann með því fegursta og besta sem ég hafði átt í einhvern tíma eftir að ég fékk hann. Ég man alls ekki eftir tilfinningu um að fara hjá mér við að vera allt öðruvísi en aðrir skíðakrakkar. Hef ég bælt það niður eða náði ég bara að finnast ég töff með hjálm? Ég sem var oft svo óþolandi meðvituð og hrædd við að vera öðruvísi. Samt líka alltaf svo mikill besservisser og nett vírd líklega þótt ég væri fríkað flínk í að falla í hópinn.

Þessi hugleiðing varð allt öðruvísi en ég hafði hugsað í upphafi. En það er nú hið besta mál. Lifið í friði.

Föstudagur

Líklega væri sniðugt að kíkja á hvað ég bullaði síðast til að muna hvort ég hafi einhverjar fréttir að flytja, sem þið bíðið í ofvæni eftir að fá. En í staðinn opna ég bara beint nýjan póst. Sem er furðulegt því ég hef í raun ekkert sérstakt að segja, þannig.


Ég hlustaði á Monu Chollet í morgun, það er að koma út ný bók eftir hana. Mona Chollet hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér lengi, lengi. Ég hef þýtt tvær greinar eftir hana, aðra fyrir Smuguna sem svo dó og greinin sú er því ekki lengur til á internetinu. Ég á hana vistaða í tölvunni minni og gæti alveg birt hér á blogginu en ég veit ekki hvort einhver nennir að lesa hana. Hún fjallar um Polanski-málið en vísar í fleiri mál og sögur, sumt mjög franskt en ekki bara. Mér finnst hún góð en ég man ekki eftir því að hafa fengið nokkur viðbrögð við henni.
Síðari greinina, sem fjallar um pjatt eða sundurgerð, þýddi ég svo fyrir Knúz og eina kommentið var spurning um hvers vegna í ósköpunum verið væri að þýða svona efni á íslensku. Mér fannst það sem betur fer frekar fyndið en særandi á sínum tíma, en hef eiginlega bara haldið Monu Chollet fyrir mig og mína frönsku vini síðan. Kannski er hún of klár. Kannski eru þýðingarnar ekki góðar. Ég veit ekki. Ég vildi óska að ég gæti mælt með bókum hennar við ykkur, en alla vega ef einhver frönskumælandi villist hingað inn, má tékka á henni.

Í morgun vaknaði ég með háar hugmyndir um að fara út í garð að púla og tína hindber. En eftir að hafa hlustað á Monu vaknaði í mér eitthvað sofandi dýr og ég henti mér hugsunarlaust út í að bora fyrir og skrúfa upp ljós í svefnherberginu, en ég málaði nefnilega í byrjun mars og ákvað að skipta út ljósunum þá. Ég er megasátt við að hafa fest upp ljósin. Aðeins minna sátt við að þrátt fyrir að hafa getað endurnýtt eitt af götunum fyrir lampana sem áður voru náttlamparnir okkar, er töluverður hæðamunur á nýju lömpunum tveimur. Þessu tók ég aldrei eftir með hina lampana og hef ekki græna glóru um það hvernig þetta gerðist. Ég geri fastlega ráð fyrir að þetta hætti að fara í taugarnar á mér strax í dag og að þetta verði ekki lagað fyrr en í fyrsta lagið þegar aftur verður málað.

Ég vildi óska að ég væri núna á leið út í garð, en nei, ég á stefnumót við bankafulltrúa á eftir. Er reyndar á góðri leið með að gera mig of seina. Kveð því núna. Lifið í friði.

Haust

Enn og aftur er komið haust, skólarnir byrjaðir og lífið að fara í skorðurnar sem sumarið riðlar alltaf til. Reyndar á ég erfitt með að tala um haust hér í París, enda þrjátíu stiga hiti og ég ekki farin að vinna neitt að ráði. Tutla við undirbúning kennslunnar sem byrjar í næstu viku og er reyndar í dag að rifja upp það sem ég þykist vita um Mont Saint Michel, en þangað held ég á morgun með vinkonur frá Íslandi.
Við ætlum að prófa að nýta okkur dagsferðartilboð með lest, förum frá Montparnasse lestarstöðinni klukkan hálfátta í fyrramálið og komum til baka klukkan tíu um kvöldið. Lestin gengur ekki alla leið að eyjunni, en rúta bíður okkar við lestarstöðina í Normandí og flytur okkur til baka í tæka tíð fyrir lestina um kvöldið. Spennt að sjá hvort ég geti mælt með þessum ferðamáta. Allt til að nota bílinn sem minnst!

Ég sé að ég bloggaði síðast um yfirvofandi baðherbergisframkvæmdir og var þá að leita að mönnum í verkið. Ég fékk að lokum konu til að taka þetta að sér og þótt ég hafi greitt stórfé fyrir þetta var ómetanlegt að allt stóðst eins og stafur á bók. Hún kom þegar hún sagðist ætla að koma og lauk á tilsettum tíma. Munur miðað við karlana sem höfðu svikið mig trekk í trekk.

Þetta gerðist rétt áður en ég fór til Íslands í sumarfrí og enn hef ég því ekki sett upp hillur, snaga og ljós, né fundið rétta skápinn fyrir handklæðin. En fallegt er það sem komið er, maður mín. Ég hef aldrei verið með fallegt baðherbergi, held ég. Eða jú, það var reyndar ansi krúttlegt og næs hjá mér á Þórsgötunni forðum, pínulítið baðkar undir stiga. Ég held samt að ég eigi ekki myndir af því.

Ég sé það fyrir mér að eyða löngum stundum í þessu baðkari, en veit ekki hvort ég muni hafa tíma til þess. Kennsla fjóra daga í viku, kóræfingar, pilates, hlaupáskorun og auðvitað að eiga meiri tíma með vinum og fjölskyldu. Jájá, það vantar ekki áramótaheitin hér á þessum bæ. Eins gott að ég er frekar slök gagnvart því að standa við þau!

Lifið í friði.

Tepoki

Ég átti nokkra náðuga daga í Normandí sem er dásamlegt hérað. Það var gott fyrir höfuðið að komast aðeins niður að sjó. Mig langar dálítið mikið að flytja út í sveit og þá helst einhvers staðar frekar nærri sjó en samt með garð þar sem hægt er að rækta grænmeti. Húsið mitt yrði að vera í þessum stíl ef ég veldi Normandí.

Ég sé mig algerlega í anda búa í svona húsi og ganga um á gúmmískóm alla daga, klippandi trjágreinar, rótandi í moldinni, hugandi að fræjum eða plöntum og auðvitað alltaf með gesti. Eða ekki. Kannski er ég enn og eilíflega borgarbarnið sem ég hef alltaf talið mig vera. Ég veit það ekki.

Rafmagnskonan hafði að sjálfsögðu samband eins og hún hafði lofað, tilboð hennar var ásættanlegt og hún kemur að bora og laga 8. mars. Sonur minn er byrjaður að pilla flísar af veggnum en ég er enn ekki búin að ákveða alveg hvernig framkvæmdirnar verða, ég næ ekki að finna réttu mennina og svo veit ég ekki alveg í hvaða röð þetta þarf allt saman að vera gert. Það þarf að klára að pilla restina af flísum af veggjum og gólfi, það þarf að taka baðkarið og kranann. Laga veggina og gera þá tilbúna til að taka við nýjum flísum. Setja upp nýtt baðkar og krana með alvöru sturtu. Setja upp vaskmubblu en mér skilst að ég þurfi að flísaleggja bakvið hana. Flísaleggja gólfið og svuntu framan á baðkarið. Flísaleggja veggi. Mála rest og fá hillur og snaga og ljós. Þetta er svona um það bil röðin sem ég held að þetta þurfi að vera gert í, en ég veit ekki. Ég veit ekki neitt. Nema að ég hef aldrei verið jafn róleg yfir því að þurfa að fara að standa í framkvæmdum. Ég veit ekki alveg hvað það er, en mér liggur einhvern veginn ekkert á að láta þetta gerast. Ég held að grímunotkun og samkomubann sé að breyta mér í afturgöngu. Nema þetta sé aldur og þroski.

Lifið í friði.

rafmögnuð kona

Milli jóla og nýárs gekk ég í það litla og löðurmannlega verkefni að skipta út vaskmubblunni á baðinu, ásamt vaski og krana. Samkvæmt jútúb myndböndum tæki svona verkefni kannski daginn, en þar sem ég vissi að það gæti orðið snúið að ná gömlu skápunum frá, því þeir vöfðust svo fagurlega utan um pípulagnir sem ég vildi ekki fjarlægja fyrst, ákvað ég að gefa þessu þrjá daga. Sonur minn hefur sýnt viðhaldsvinnu mikinn áhuga og sagst vilja læra, svo hann var opinber handlangari minn. Við böksuðum töluvert lengi við að ná skápunum utan af pípulögnunum og voru aðfarirnar stundum dálítið eins og við værum tannlæknar að bora, eða mér leið alla vega þannig. Skáparnir losnuðu að lokum, en þá var eftir að losa vaskinn sem var vel límdur við flísalagðan vegginn. Þrátt fyrir óhóflega notkun á sérstökum silicon-leysi og að búið væri að fara með kíttispaða meðfram öllu, að ég taldi, fór að lokum svo að með vaskinum kom dágóður hluti af flísum, og með þeim dágóður hluti af veggnum undir.
Ég fékk áfall, slökkti ljósin á baðherberginu og lagðist í smá kör. Svo jafnaði ég mig, fór og skoðaði þetta og pældi aðeins í möguleikunum og ákvað að endingu að þetta væri merki um að ég ætti bara að leyfa mér að fjarlægja flísarnar, laga veggina, fjarlægja baðkarið, fá nýtt og fínt slíkt, nýja bað- og sturtukrana og auðvitað nýjar flísar á veggina.
En alltaf þegar framkvæmdir standa fyrir dyrum fer snjóbolti af stað og með þessum ákvörðunum fattaði ég að nú og akkúrat nú væri tími til kominn að láta taka rafmagnið í gegn hér, en innstungur í svefnherbergjunum eru frá 1960 og öll lýsingamál í þeim eru í slíkum ólestri að það verða aldrei birtar myndir.
Ég fór að leita að rafvirkja og af því leiddi að ég skoðaði rafvirkjanám og pældi í að skella mér og allt í einu datt mér í hug að gúggla rafvirkja í kvenkyni, og sló inn „electricienne paris“. Upp kom vefsíða kvenkyns rafvirkja sem ég hringdi í. Rám rödd hennar og kvik viðbrögð sannfærðu mig um að við ættum vel saman. Og í kvöld kom hún að taka út ástandið hérna og mældi og hummaði og bráðum fæ ég verðtilboð frá henni. Hún er lítil og mjó, með millisítt krullað hár. Ráma röddin á sínum stað undir grímunni. Hún ræddi eingöngu hluti sem skipta máli, útskýrði fyrir okkur alls konar varðandi norm og kröfur og möguleika til að koma sem best frá þessu. Ég er ofursátt. Nú þyrfti ég eiginlega bara að finna kvenkyns flísaleggjara/múrara/pípara. En eins og er hafa þeir iðnaðarmenn sem ég hef náð í annað hvort komið en senda svo ekkert verðtilboð eða bara segjast ætla að koma en koma svo ekki. Ég hef alveg þolað þá höfnun. Það skiptir engu máli þótt við þvoum okkur um hendur í baðkarinu, ég hugsa bara um aðstæður í Tógó í hvert skipti sem ég ætla að fara að vorkenna mér. En ég veit ekki hvert ég fer ef þessi rafmagnskona svíkur mig um tilboð. Það gæti riðið mér að fullu.

Verð ég ekki að enda þennan pistil eins og ég gerði ávallt í gamla daga? Jú, ég held það svei mér þá. Ég held ég bara gæti ekki annað:

Lifið í friði.

Tenglar á þriðjudegi

Það er svo margt sem maður skilur ekki og kannski bara eins gott að maður skilur ekki allt.

Hins vegar er ógnvekjandi þessi hugmynd í Kjarnanum, um að í raun viti enginn neitt.

Hér er hins vegar þessi kona sem virðist vita dálítið mikið og, það sem meira er, hún er ekki feimin við að ræða það opinskátt. Ég myndi ráða þessa konu í stöðu fjármálaráðherra. Eða Seðlabankastjóra. Eðs forsætisráðherra. Ef ég væri the big boss. Eða eitthvað.

Lifið í friði.

Un sachet de thé

Þetta er í raun áramótapistill, en ég get varla farið yfir árið því ég man ekki neitt stundinni lengur. Eina ástæðan fyrir því að ég ákvað að prófa að skrifa eitthvað er sú að ég var að fá ársuppgjör frá WordPress og þar kemur fram sú arma staðreynd að ég hef skrifað átta pistla á árinu. En kannski er það bara allt í lagi, kannski er tími bloggsins liðinn, þó einhverjir hamist við að halda öðru fram.
Ég þarf annars að fara að skrifa niður bækurnar sem ég les og tónleikana sem ég fer á og svona. Ég man þó vel að ég sá Björku í Zenith ásamt allri fjölskyldunni. Það var stórmerkilegt, ég hafði ekki séð hana á sviði síðan ég sá Sykurmolana í Elysée Montmartre fyrsta veturinn minn í París. Björk er alveg rosaleg og þessir tónleikar voru mergjaðir. Gaman líka að hafa krakkana með. Mig langar orðið aldrei til að gera neitt nema þau séu með. Ég sá líka Ólaf Arnalds sem er flottur. Hann er kannski á einhvern hátt afsprengi tilraunastarfsemi Bjarkar, eða mig langar að prófa að halda því fram án þess að ég telji mig hafa nokkurt vit á tónlist, sérstaklega svona samtímatónlist eins og þau semja. Nú í nóvember sá ég svo Emiliönu Torrini sem er líka fær og skemmtileg. Hún hreif salinn með sér, vinur minn er ástfanginn upp fyrir haus af henni. Ég sá líka Eddu Erlendsdóttur spila á píanótónleikum, sem var mikil upplifun. Og ég var svo heppin að fá að fylgja Vox Feminae um alla borg og heyra þær syngja bæði í Saint Germain des Près og Notre Dame. Hvílíkar gyðjur.
Við krakkarnir fórum að sjá Flavio Esposito, gítarkennara Sólrúnar, spila á skemmtilegum tónleikum í pínulitlu leikhúsi og þau sjálf spiluðu og sungu á ótal uppákomum í tónlistarskólanum.

Ég skilaði MA-ritgerð og uppskar svakalega fínt diplómuskjal. Þvert á loforð um að fara aldrei aftur í nám, skráði ég mig í löggildingarprófið sem ég þreyti í febrúar og er svo að skoða árslangt nám í háskólanum í Nanterre fyrir næsta vetur. Nánar um það síðar.

Ég kærði mig inn á kjörskrá í lok nóvember, en ég hefði dottið út 1. des ella. Ég hef sterklega á tilfinningunni að það gætu alveg orðið kosningar aftur á Íslandi, ástandið er valt.

Ég er búin að lesa fullt af skáldsögum en þar sem ég held enga dagbók yfir það sem ég les og get ekki flett upp, sleppi ég því að reyna að gera lista. Ég er líka búin að lesa eitthvað af fræðilegu efni, aðallega sagnfræði eða félagsfræði sem tengist París.

Ég hef ekki staðið mig nógu vel í sukkjöfnun og held ég hafi fitnað. Nei, ég skal segja þetta rétt: Ég hef fitnað. Ég kemst til dæmis ekki í jólakjólinn frá því í fyrra. En þetta stendur nú allt til bóta. Eða ekki. Ég hamast við að berjast gegn útlitsdýrkun og megrunarkjaftæði, en ég vil samt ekki verða of feit sjálf. Það er reyndar í raun ekkert endilega þversagnarkennt. En samt jú, í mínu tilfelli er það dálítið þversagnarkennt því spikið er ekki farið að há mér líkamlega, ég get enn þrammað upp og niður og út og suður og allt sem ég vil. Það háir mér hins vegar andlega að reka stundum augun í mynd mína í spegli og sjá hvernig bumban stendur út í loftið.
Ég prófaði zumba og jóga í fyrsta skipti á árinu. Svona er nú hjarðhegðunareðlið sterkt í manni þótt maður þykist rosa kúl. Ég stefni á að verða duglegri í zumba núna eftir áramót, en það hittist furðulega þannig á að ég gat sjaldan mætt á haustönninni. Ég er ekki viss með jógann, einfaldlega of dýrt og of langt að fara. 

Ég þýddi enga bók á þessu ári og hef í raun fengið lítið af þýðingaverkefnum. Ég hef haft þó nokkuð að gera í túristabransanum og mér finnst það alltaf jafn skemmtileg vinna. Ég er farin að  endurskoða ferðirnar dálítið. Kannski eru þær of langar, ég er samt ekki viss. Þær fara oftast alveg upp í þrjá tíma. Ein hugmyndin er að bjóða tvær versjónir, styttri og lengri útgáfu. En það er alla vega kominn tími á að breyta þeim eitthvað, ég má ekki staðna.

Krakkarnir mínir eru stórkostleg börn. Ég veit ekki hvað ég hef gert til að eiga þau skilið. Þegar ég fór að sækja einkunnir þeirra núna í desember, notuðu kennarar beggja sama orðalagið eftir að hafa hlaðið þau lofi fyrir að vera prúð, skemmtileg, klár og dugleg: „Þú hlýtur að heyra þetta oft.“ Ég var bókstaflega að rifna úr monti í bæði skiptin þegar ég hálf valhoppaði út úr skólabyggingunum. Brosið hefur eflaust náð alveg út að eyrum.
Sólrún er í gagnfræðaskóla, og er í sérstökum tónlistarbekk. Einn eftirmiðdag í viku er hún í tónlistarskólanum þar sem hún lærir tónsmíðar, spuna og tónfræði. Hún mætir svo að auki í gítartíma og er í tveimur gítarhljómsveitum. Á mánudögum og þriðjudögum er hún í skólanum frá 8 til 17:30. Á föstudögum er hún búin á hljómsveitaræfingu klukkan hálfníu og fer á hina hljómsveitaræfinguna á laugardögum. Hún æfir þar að auki sund einu sinni í viku. Ég er stundum krossbit á því hvað hún er geðgóð og kát, þetta er svakalegt prógramm hjá henni.
Kári er enn í grunnskóla og hefur fengið boð um að koma í voða fínan gangfræðaskóla á næsta ári. Hvers vegna er löng saga sem ég segi kannski síðar, ég velkist í vafa með þetta allt saman. Hann er sæmilega duglegur að æfa sig á saxófóninn og æfir að auki aïkido sem honum finnst voða gaman. Skóladagarnir eru líka langir hjá honum, en hann er í fríi á miðvikudögum fyrir utan að mæta í saxófóntímann um morguninn. Mig langar stundum að stöðva allt, fara eitthvað í burtu með þau og leyfa þeim (og okkur) að vera bara til. Það er heilmikið álag á börn hér í Frakklandi. En, eins og ég sagði, þá eru þau fullkomin og virðast amk enn þrífast vel í þessu hörkukerfi.

En jæja, ég ætlaði nú ekki að skrifa einhverja langloku og í raun vona ég að enginn sjái þetta. En ef einhver villist inn: Gleðilegt nýtt ár og þakkir fyrir það gamla!

Munið ævinlega að lifa í friði.

það hlýtur að vera mars

Það er alveg ótrúlega fríkað að fylgjast með Íslandi úr fjarska þessa dagana. Ríkisútvarpið aflimað, lögrelgan skýtur mann til bana og strax er farið að tala um fleiri vopn og ríkisstjórnin sker niður bætur hinna lægst settu, svona til að jafna upp skattaafslátt hinna best settu sem veittur var nánast sama dag og stjórnin tók við völdum. Ekki dugir að skera niður bætur hinna lægst settu á Íslandi, heldur á líka að taka af því fé sem farið hefur í þróunaraðstoð.

Maður er bara gapandi gáttaður. Þar sem íbúðin mín er á hvolfi vegna framkvæmda við „stækkun“ hef ég ekki sett upp einn einasta jólastjaka og ég verð að segja að akkúrat þennan mánudagsmorgun og alveg að koma miður desember líður mér eins og það hljóti að vera mars. Treysta þeir á að fólk bara sitji með jólaglögg og piparkökur og rauli með Bó og Frostrósum og haldi kjafti?

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha