þögn

Hér ríkir hálfgerð þögn, enda er ég á kafi í lokaspretti stærsta þýðingaverkefnis sem ég hef unnið. Ég skila því í kvöld. Skilafresturinn sem samið var um (þó ég hafi reyndar engan samning í höndum, bara tölvupósta, við erum líklega báðar jafnkærulausar með svona formlegheit, ég og útgefandinn), var lok maí. Ég bað fyrst um lok júní, en samþykkti þetta þó mér þætti það ansi djarft. Og þetta hefur verið erfitt, eins og mig grunaði. Ég hef líklega ekki unnið jafnmikið síðan í törninni við útgáfu símaskrárinnar í denn. En þetta er bráðskemmtilegt og ég er orðin þokkalega jákvæð núna eftir miklar sveiflur undanfarna daga. Ég er samt með stóran hnút í maganum og kvíði alveg hrikalega að fá handritið til baka frá prófarkarlesaranum. En þetta er sjálfskipuð pína, ég gæti alveg verið enn að vinna á skrifstofu símaskrár, nú eða á vídeóleigunni sem mér fannst mjög skemmtileg vinna. Það var líka álag, en á annan hátt en þetta. Í fyrsta skipti er ég að skila af mér einhverju sem er á einhvern furðulegan hátt mín sköpun, þó hún sé reyndar sköpun annars manns líka. Það verður kannski talað um mig í einni setningu í gagnrýninni, annað hvort verður þýðingin sögð „lipur“, eða „stirðbusaleg“. Ég óttast hrottalega að sjá „stirðbusaleg“ þó ég viti líka að ef stíllinn er furðulegur er það vegna þess að hann er það í frönskunni líka.
Ég lifi sem sagt spennandi tíma núna, sem sá sem hoppar út í djúpu laugina lifir. Og þess vegna má alls ekki halda að ég sé að kvarta, ég held ég verði að fá að vera sú sem hoppar stundum út í djúpu laugina. Því þannig er ég bara.
Ég sé næstu daga í hillingum. Verð á fullu á morgun að undirbúa helgina, vinn allan fimmtudaginn með ferðalanga, alls konar skemmtilegheit í gangi í sambandi við það, verð að vera ofurskipulögð. Því um leið og ég kveð hópinn rýk ég upp í bílinn minn og sting af í sveitina „mína“ sem ég hef ekki heimsótt í rúmt ár, sem er hneisa. Í sveitinni verður vonandi engin nettenging, var það alla vega ekki síðast þegar ég vissi, nema svona hrikalega hæg pung-tenging sem ég nenni ómögulega að nota. Veðurspáin er 29 gráður og sól með hættu á skúrum annað slagið. Ég verð með skáldsögur að lesa og skemmtilega krakka að leika við, svo ekki verður meira fjör hér en undanfarið. Og kannski bara verður gerð pása þar til einhvern tímann síðar, mér er hvort eð er farið að líða dálítið eins og ég sé rjúpa að rembast við staurinn með þetta bloggstúss, næstum alein í heiminum.

Lifið í friði.

9 Responses to “þögn”


 1. 1 hildigunnur 31 Maí, 2011 kl. 9:05 f.h.

  hei, nokkrar aðrar rjúpur að rembast er betra en ein!

  Til hamingju með verklok (í bili) og túristagigg og ekki síst sveitina – hafiðaðgott í væntanlega langþráðu fríi með köflóttum skúrum.

 2. 2 parisardaman 31 Maí, 2011 kl. 12:52 e.h.

  Þú ert ein af rjúpunum, já. En mér er farið að finnast þetta ansi þunnur hópur … frekar eitthvað … já … (En ég held samt að ég geti ekkert hætt, ég er allt of mikill besservisser og netfíkill;))

 3. 3 Harpa Jónsdóttir 31 Maí, 2011 kl. 2:45 e.h.

  Já, það er dálítið farið að þynnast í blogghópnum. En til hamingju með skilin!

 4. 4 baun 1 Jún, 2011 kl. 12:15 f.h.

  Ertu að segja að við bloggrisaeðlurnar séum þunnar? Aldeilis.

  Gott þú ert búin með þýðinguna mín kæra, og samglest þér yfir sveitasælunni. Njóttu lífsins:)

 5. 5 ella 1 Jún, 2011 kl. 12:39 f.h.

  Ég er svo aldeilis hreint rasandi og gáttuð yfir því að vera talin þunn!! Mér einmitt hálf brá í sundi í dag að sjá alveg sérlega þykka manneskju í spegli. Held að hann hljóti að vera eitthvað gallaður. Höldum samt endilega ótrauðar áfram :).

 6. 6 Kristín í París 1 Jún, 2011 kl. 8:33 f.h.

  Þið eruð ekkert þunnar! Er einhver oftúlkun í gangi? Ég held áfram, fíknin er sterk:) Og ég vona að þið allar haldið áfram líka, plííís.

 7. 7 Guðlaug Hestnes 2 Jún, 2011 kl. 1:50 e.h.

  Sko, þó ég þekki ykkur ekkert sem kvittið hér að ofan les ég alltaf það sem þið skrifið svo ekki taka það af mér. Til hamingju með verklokin og njóttu þín í sveitinni.

 8. 9 hildigunnur 11 Jún, 2011 kl. 11:01 f.h.

  jamm ég er ekki hætt þó það sé orðið lengra á milli en áður…


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: