afsökunarbeiðni og heróp

Mér þykir mjög miður að fólk telji mig hrokafulla gagnvart lagerstarfsmönnum, ræstitæknum og kassadömum. Það var alls ekki ætlunin.
Ég nefndi bara heiðarleg (það sem ég kallaði venjuleg í morgun) störf sem fólk stundar og fær oftast frekar lág laun fyrir og hefur oftast lítið að gera með stjórnun fyrirtækisins. Punkturinn hjá mér var að fólk sem er dæmt sekt, ætti frekar að nýtast þjóðfélaginu í staðinn fyrir að vera sett til hliðar um tíma á kostnað okkar hinna og getur svo bara mætt aftur bísperrt og hreinsað. Og þá byrjað aftur að gera nákvæmlega sömu hlutina aftur, ef þeim sýnist svo.
Ég vil sjá þessa menn svipta öllum réttindum til að stjórna fyrirtækjum og sýsla með peninga og eignir, eins og Eva stakk upp á í morgun. Til lífstíðar. Hvort þeir fái vinnu á lager er svo annað mál, ég vil vitanlega að fólk sem hefur hreinan skjöld en hangir nú heima hjá sér atvinnulaust gangi fyrir í þau störf sem verða í boði. Ég bið ykkur innilega afsökunar á því að hafa ekki tekið nógu skýrt fram að mér finnst öll heiðarleg og vel unnin vinna vera virðuleg. Í alvörunni. Og ég myndi þúsund sinnum frekar taka sjálf að mér uppfyllingu í hillur í matvörubúð, en að sitja og hringja í fólk á síðkvöldum til að sannfæra það um að færa sparifé sitt í áhættusjóði. Ég bara nenni svo sjaldan að skrifa það augljósa, það hefur svo sem komið mér í koll áður.
Ég vona að þetta dugi til að sannfæra þá sem sárnaði yfir mér í morgun.

Og þá að þessu með að sumir geta unnið og aðrir ekki og allt það helvítis vesen:

Ég leyfi mér að láta sig dreyma um að taka breytingar þjóðfélagskerfi enn lengra. Ég veit að það er til nógu andsk… mikill peningur í heiminum til að allir geti unnið styttri vinnuviku, allir geti haft í sig og á og að ef ekki sé næg vinna handa öllum, geti það fólk sem situr heima samt lifað mannsæmandi lífi og þá bara notið þess að spila bingó, prjóna, ganga á fjöll eða hanga yfir sjónvarpinu ef því sýnist svo, án þess að því sé látið líða eins og afætur sem nenni ekki í vinnu sem ekki er til. Um þetta fjallar bók sem ég er að lesa þessa dagana, milli annarra verkefna. Bók sem ég stefni á að þýða næsta vetur, sem meistaraverkefnið í Þýðingafræðinni. Þá mun ég vonandi kasta inn köflum úr þessu ágæta riti hingað inn reglulega og þið getið pælt í því að kannski er ekkert svo vitlaust að bara taka í alvörunni til við að stokka upp í þjóðfélaginu. ÞAÐ ER EITTHVAÐ MIKIÐ AÐ NÚNA, erum við ekki öll sammála um það? Það er eitthvað mikið að í þjóðfélagi sem hampar gaurum og gellum fyrir það eitt að vera smart í tauinu og með flotta hárgreiðslu, en lítur niður á fólkið sem saumar fötin og skúrar hárgreiðslustofuna, þvær bílana, kemur með vörurnar… (æ, ég sagði það áðan, mér finnst svoooo leiðinlegt að skrifa sjálfsagða frasa, sorrí). En það er eitthvað að. Og við getum breytt því. Þú. Og ég.

Lifið í friði.

11 Responses to “afsökunarbeiðni og heróp”


  1. 1 Árni 7 Maí, 2010 kl. 1:40 e.h.

    Miklu betra!

  2. 3 Bæjarstjórinn. 7 Maí, 2010 kl. 1:49 e.h.

    æi , það má orðið ekki segja neitt hérna.

  3. 4 Quo Vadis 7 Maí, 2010 kl. 3:55 e.h.

    Etv. má ekki segja „neitt“ hérna en ég geri það samt.
    Sumir menn geta ekki stundað „heiðarlega“ vinnu og eru ekki hæfir til þess.

  4. 5 Guðlaug Hestnes 7 Maí, 2010 kl. 4:36 e.h.

    Svona er fólkið misjafnt, ég las ekki neitt ljótt úr skrifum þínum.

  5. 6 parisardaman 7 Maí, 2010 kl. 5:33 e.h.

    Quo Vadis, ég er mjög ánægð með fólk sem lætur hlutina flakka. Og er mjög ánægð með að þau sem lásu mig fordómafulla skyldu benda mér á að þannig kæmi það út. Ég er líka alveg viss um að þinn punktur er sannur, það þarf t.d. líklega að leitast við að lækna siðblinduna, sem er einhvers konar hegðunarröskun eða jafnvel geðsjúkdómur, skilst mér. Og það er ekki á það bætandi fyrir láglaunafólk að þurfa að sitja uppi með stórgölluð eintök af fólki á kaffistofunni og í liðinu. Nógu erfitt samt.
    Líklega er ágæt þessi lausn sem ein auka-móðir mín kom víst með fram í dag, við lesturinn: senda þá til að tína rusl á hálendinu!

  6. 7 Jónína Óskarsdóttir 7 Maí, 2010 kl. 7:40 e.h.

    Það verður spennandi að fylgjast með þýðingunni á bókinni. Hljómar vel sem innlegg í breytt samfélag.

  7. 8 Guðný 7 Maí, 2010 kl. 10:08 e.h.

    Ég heyrði einu sinni stungið uppá þeirri hugmynd að dómur fyrir gróf umferðarlagarot gæti verið að hjálpa til á bráðamóttöku eða endurhæfingardeildum þar sem fólk gæti kynnst því hvaða afleiðingar verk þeirra gætu haft. Bankamenn gætu þá hjálpað t.d: fjölskylduhjálpinni, Rauða krossinum, atvinnuleysistryggingasjóð… Þeir fengju þá tækifæri til að sjá afleiðingar gerða sinna. Svo gætu þeir t.d. hjálpað fólki við að reikna út hvernig á að borga reikningana og versla hollan mat og föt á börnin á verkamannalaunum. Það yrði nú aldeilis ný áskorun fyrir þá og örugglega flóknari útreikningar en þeir hafa fengist við hingað til.

  8. 9 Sigurbjörn 8 Maí, 2010 kl. 6:27 f.h.

    Nei, nú „stekk“ ég upp á nef mér!

  9. 10 baun 9 Maí, 2010 kl. 9:42 e.h.

    Jahérna, maður má ekki bregða sér af bæ. Parísardaman bara búin að móðga lagermenn allra landa, ein og óstudd.

    Verð að viðurkenna að ég sá ekkert ljótt eða misjafnt út úr skrifum Kristínar, enda er ég andleg kassadama.

  10. 11 Parísardaman 10 Maí, 2010 kl. 6:22 f.h.

    Jámm, Guðný, ég er ekki viss um að ég myndi treysta þeim í útreikninga… Sigurbjörn, passaðu þig bara að lenda ekki á nefinu þegar þú dettur niður þaðan aftur, döh. Baun, já heldurðu að það sé… svona getur verið varhugavert að vera að þenja sig á opinberum vettvangi:)


Færðu inn athugasemd




Nýlegar athugasemdir

hildigunnur um Ósýnileiki
showerhead Percolato… um
parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó