fangelsun er úrelt fyrirbrigði

Þegar ég sé fréttir af mönnum sem verið er að hneppa í gærsluvarðhald, finn ég hvorki fyrir gleði né létti. Hjartað í mér herpist allt saman og mér líður illa. Eins og alltaf þegar ég horfi upp á þetta undarlega yfirvald og hvernig það virkar. [Undantekningin er þegar ljóst er að þessar aðgerðir vernda mig og mína, til dæmis þegar skrímsli eins og Fritzl eru teknir úr umferð, þá finn ég fyrir létti.]
Það gagnast nákvæmlega engum að þessir bankagaurar fari bak við lás og slá. Eins og bent hefur verið á er dýrt að hafa mann í fangelsi. Fangelsun er eldgömul og úreld „lausn“ í meðferð siðbrotamanna og bófa.
Menn eins og þessir sem færðir voru til yfirheyrslu í gær (og þetta á við um alla grunaða ræningja) ættu betur heima í „venjulegri“ vinnu, án nokkurra möguleika til að klífa valdastiga, án þess að geta haft nokkuð með stjórnun fyrirtækisins/stofnunarinnar að gera. Þeir eiga að vera settir í lága stöðu og vitanlega ekki vera með neina lykla að nokkrum mögulegum peningaskáp/kassa. Þannig væru þeir lagerstarfsmenn ef þeir ynnu í matvöruverslun, ekki taldir hæfir á kassa. Þeir væru gangastúlkur eða ræstitæknar á spítala, ekki hæfir í húsvarðarstarfið með stóru lyklakippuna.

Líklega er, að vissu leyti, miðað við það sem á undan er gengið og miðað við hvað rannsóknin hefur tekið langan tíma og með það í huga að þegar eru hafin réttarhöld gegn nokkrum ógurlegum mótmælendum meðan allir gerendur í bankaráninu stóra hafa gengið lausir og liðugir og lifað í velllystingum, eðlilegt að fólk missi sig og klappi fyrir löggimann að sækja bófana.
En það er samt eitthvað sjúkt við þetta kerfi. Það mun ekki breyta nokkrum sköpuðum hlut fyrir þessa menn, né okkur hin, að þeir sitji af sér einhvern dóm í fangelsi. Sjáið bara þá sem aftur hafa borgað sig alla leið inn á Alþingi, eftir að dómar hafa fallið og sekt sönnuð.

Lifið í friði.

15 Responses to “fangelsun er úrelt fyrirbrigði”


  1. 1 Steini 7 Maí, 2010 kl. 7:29 f.h.

    Það þarf nú töluvert meiri hæfileika til að vera lagerstarfsmaður en kassadama. Þetta er dálítið yfirlætislegur pistill sem gerir lítið úr mörgum starfsstéttum.

  2. 2 Árni 7 Maí, 2010 kl. 8:21 f.h.

    Sem lagerstarfsmaður þá mótmæli ég harðlega. Svona drullusokkur myndi valda slysi á fyrsta degi.

  3. 3 Jón G. 7 Maí, 2010 kl. 8:34 f.h.

    Er ekki hálf ankannalegt að mæla með atvinnu sem refsingu – nú á tímum atvinnuleysis?

  4. 4 steina 7 Maí, 2010 kl. 8:57 f.h.

    já vægast sagt hrokafullt, greinilega að kassadama , ræstitæknir og lagerstarfsmaður er af höfundi talin frekar lítilfjörleg

  5. 5 ella 7 Maí, 2010 kl. 9:18 f.h.

    Það er nú líka vel hægt að líta svo á að átt sé við að allt séu þetta störf sem þarf að vinna þó að ekki stafi jafn miklum ljóma af þeim öllum. Mér sýnist ekki sagt að neitt sé lágt við þessi störf nema launin og það hlýtur að stafa af „ábyrgðarleysi“ þeirra eða hvað? Það var jú öll hin dásamlega ábyrgð sem réttlætti laun þessara manna. Sem sýnast víst í fæstum tilvikum duga þeim.

  6. 6 Árni 7 Maí, 2010 kl. 9:32 f.h.

    Ella, þú hlýtur að vera að spauga. Ábyrgðarleysi? Mér þætti gaman að sjá þig vinna á 5 tonna lyftara í einhverju kæruleysi og fíflagangi. Það tæki þig ansi stuttan tíma að verða mannsbani þannig.

  7. 7 parisardaman 7 Maí, 2010 kl. 9:56 f.h.

    Halló, rólegan oftúlkunaræsing. Hún Ella setur ábyrgðarleysi inn í gæsalappir, til að sýna að hún er ekki sammála þeirra skilgreiningu á ábyrgð.
    Ég hef sjálf unnið við ræstingar og sem gangastúlka á spítala. Ég hef afgreitt í sjoppum og á vídeóleigum, verið þjónustustúlka og gert margt fleira. Ég hef aldrei verið á launum við eitthvað fræðilegt, utan þess að kenna einn vetur stundakennslu í menntaskóla. Ég ber fulla virðingu fyrir öllu vinnandi fólki, allir sem þekkja mig vita að ég lít ekki niður á nokkurn mann sem kemur fram við náungann á heiðarlegan hátt. Í alvöru, hvernig í ósköpunum getið þið lesið fyrirlitningu út úr þessu? Það var síður en svo ætlunin að móðga einhvern og ég bið innilega forláts ef þetta kemur einhvern veginn bjagað út.

  8. 8 ella 7 Maí, 2010 kl. 9:56 f.h.

    Kæri Árni, ég hef unnið á lyftara og mun seint gera lítið úr því starfi. Geri ekki lítið úr neinu starfi yfirleitt held ég. Gæsalappirnar sem ég setti ábyrgðarleysið í átti að vísa í skoðun mína á því hversu fáránleg misnotkun á hugtakinu ábyrgð hefur verið þegar menn réttlæta launamun.

  9. 9 ella 7 Maí, 2010 kl. 9:57 f.h.

    Nú vorum við aldeilis samtaka 🙂

  10. 10 parisardaman 7 Maí, 2010 kl. 9:59 f.h.

    Ég hef því miður ekki tíma til að svara öðrum ágætum kommentum, t.d. varðandi vinnu fyrir glæpona í bullandi atvinnuleysi (sem er einmitt mjög góður punktur, og sem ég viðurkenni að ég staldraði aðeins við, en gaf mér ekki tíma til að fara út í, í morgun). En ég hef ekki tíma núna, vegna þess að ég fékk skyndilega launað skyndiverkefni í morgun! Samgleðjist mér, kæru lesendur, ég er orðin hundleið á þessu hrunástandi og vinnutapi mínu í sambandi við það.

  11. 11 Eva 7 Maí, 2010 kl. 10:36 f.h.

    Eins og talað út úr mínu hjarta systir. Ég sé að við höfum verið að birta greinar um einmitt sama efni á svipuðum tíma í morgun 🙂

  12. 12 einar 7 Maí, 2010 kl. 11:12 f.h.

    Er ekki hægt að koma upp keðjugengi að amerískri fyrirmynd?

  13. 13 parisardaman 7 Maí, 2010 kl. 9:46 e.h.

    Eva, kemur skemmtilega á óvart, Einar, keðjugengi… jámmm, ef þú ert sá sem ég held að þú sért, og ef þú ert að meina það sem ég held að þú sért að meina, þá er ég bara stúmm…

  14. 14 Þór Eysteinsson 9 Maí, 2010 kl. 2:10 f.h.

    Íslendingar hafa mjög undarleg viðhorf til fangelsa sem stofnanna í lýðræðisþjófélagi. Þau eru því miður nauðsynleg, og nei þau eru ekki eins slæm (síst af öllu í norrænu velferðarþjóðfélagi) og fólk virðist halda. Á Íslandi hefur aldrei ríkt nein refsigleði, frekar væri rétt að tala um linkind. Megintilgangur fangelsa er ekki hefnd, heldur að senda skilaboð út um hvað sé ásættanleg hegðun og hvað ekki, að vernda þá sem verða fyrir afbrotamönnum og minnka líkur á að sömu afbrotamenn geti haldið áfram iðju sinni, þannig að við hin sem erum löghlýðin fáum frið – í a.m.k. smá tíma. Löng fangelsisvist þar með hefur þann kost að við hin fáum þá lengri tíma til að vera í friði fyrir afbrotamönnunum, en á móti kemur sá möguleiki að þeir væru til í að bæta ráð sitt eftir stutta vist. Til að meta það atriði eru hafðar skilorðsnefndir eða ráð sem fara yfir hvert tilfelli; það eru því miður ekki örugg vísindi. Til viðbótar er talið að fangelsi hafi fælingarmátt, og dragi úr líkum á afbrotum, eða geti boðið upp á endurhæfingu afbrotamanna, en hvort tveggja hefur í sér verulegar takmarkanir. Sumt fólk mun alltaf fremja afbrot og þau jafnvel mjög hættuleg og slæm, og mun aldrei læra neitt af endurhæfingu, hvernig svo sem fangelsismálum er fyrirkomið. Vill Parísardaman, sem er greinilega kúltiveruð og vönduð manneskja að því mér sýnist af hennar ágæta bloggi, taka þá áhættu að gefa þeim hópi fólks lausan tauminn og fjarlægja fangelsi fyrir það og aðra afbrotamenn sem fælingu?

  15. 15 Parísardaman 13 Maí, 2010 kl. 7:59 f.h.

    Tja, ég veit ekki hvort ég er sérlega kúltíveruð. Og ég viðurkenni að fangelsi hafa fælingarmátt fyrir mig. Ég hefði t.d. kannski sparkað í ákveðinn aðila einn dimman desembermorgun 2008, ef ekki hefðu verið allar löggurnar…
    En ég trúi því samt að það sé þess virði að íhuga önnur úrræði fyrir glæpamenn sem ekki eru okkur góðborgurum líkamlega hættulegir. Að hægt sé að kenna fólki að hugsa, að hægt sé að fá fólk til að endurskoða lífssýn sína. Já, ég er draumóramaður og skammast mín ekkert fyrir það.


Færðu inn athugasemd




Nýlegar athugasemdir

hildigunnur um Ósýnileiki
showerhead Percolato… um
parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó