tepoki til glöggvunar eigin tímastjórnunaráætlunarplans

Það er óþægilegt að finna stressið aukast dag frá degi. Manni finnst maður vera að deyja úr stressi einn daginn, en finnur svo þann næsta að það hefur aukist um helming og samt hangir maður á lífi.

Ég hef þessa viku til að vera dugleg(ri) að halda áfram að lesa alls konar bækur. Næstu helgi verður félagslífið dálítið stíft, kannski neyðist ég til að grisja það aðeins, fer eftir því hvernig mér gengur í vikunni.

Svo er próf í merkingarfræðinni mánudaginn 30. nóv og þriðjudaginn 1. des held ég til Périgueux þar sem ég verð með fyrirlestur um Mýrina/La cité des jarres. Ég veit ekki enn hvað ég ætla að segja nákvæmlega, er þó búin að kortleggja söguna ágætlega og skortir ekki hugmyndir. Ég hef bara fimmtán mínútur, þetta ætti ekki að verða of mikið mál, en ég þarf samt að reikna með einhverjum klukkutímum í þetta í vikunni. Þó ég tími þeim ekki. Í raun hef ég meiri áhyggjur af því í hverju ég á að vera, það er alltaf jafnflókið. Ég frétti að sendiráðsstarfsmenn hefðu fengið voða fínt boðskort, með nafninu mínu á. Það hrellir mig töluvert.
Ég verð í Périgueux til laugardagsins 5. des, kem heim og rétt næ að mæta á jólaballið.

Svo hef ég aðra viku til að halda áfram að þræla mér í gegnum það að skrifa eina örstutta ritgerð um doðrant og aðra tíu blaðsíðna ritgerð um eitthvað sem tengist konum má miðöldum. Reyndar þarf ég að skreppa í eitt stykki skjalaþýðingapróf á fimmtudeginum uppi í Sendiráði og neyðist líklega til að eyða svo sem eins og einum degi í að fara yfir glósur og gamlar þýðingar á skjölum, en það verður vonandi á hótelinu í Périgueux.
Ég er farin að hallast að því að miðaldaritgerðin muni fjalla um klæðaburð kvenna: ríkar vs. fátækar og kvenlegar vs. karlmannlegar (Jóhanna af Örk o.fl. fóru í karlmannsföt), en ég næ samt ekki alveg að negla þetta niður í hausnum á mér og hef ekkert rætt þetta við kennarann, aðallega vegna þess að ég er alveg hrottalega feimin við að tala um svona hluti með fullt af fólki í kringum mig, en er föst í merkingafræðitímum þegar hún er með viðtalstíma.
Ég hef ekki hugmynd um það hvernig málvísindakennarinn ætlar að láta okkur sanna að við eigum einingarnar skildar, hann er enn að klóra sér í hausnum, en ég er eiginlega búin að ákveða að hætta í þeim tímum, ég er ekki að læra neitt nýtt, bara á nýju tungumáli og þar sem ljóst er að franskan er ekki aðaltungumálið í málvísindum í dag (svo til allt efni sem bent er á, er á ensku) sé ég ekki til hvers ég á að vera að sóa tíma mínum í þetta.

Ég held að ég ætli að ná að tækla þetta, reyndar veit ég ekki alveg með merkingarfræðina, það kemur í ljós í dag. Hitt ætla ég að hossast í gegnum, á blekkingunni ef ekki vill betur. Fake it till you make it verður kannski bara krosssaumsverkefni jólanna?

En fyrsta verkefni dagsins í dag: að hlunkast hringinn minn góða.

Lifið í friði.

8 Responses to “tepoki til glöggvunar eigin tímastjórnunaráætlunarplans”


 1. 1 einar jónsson 22 Nóv, 2009 kl. 11:14 f.h.

  Ég sem hélt að franska væri alheimstungumálið, í málvísindum sem á öðrum sviðum.

 2. 2 parisardaman 22 Nóv, 2009 kl. 11:36 f.h.

  Ég líka. Þetta var mikið áfall fyrir mig. Ég sem er hundléleg í ensku. Reyndar er svona vísindamál nokkurn veginn það sama á frönsku og ensku, bara einhver atviksorð og slíkt sem er breytilegt, fræðiheitin nánast alltaf þau sömu.

 3. 3 ella 22 Nóv, 2009 kl. 12:38 e.h.

  Var klæðnaður lögbundinn þarna á miðöldum eins og var hér? Það kann þó að vera að það hafi verið eftir miðaldirnar, ég er ekki viss. Þá var fólki bannað að klæðast upp fyrir sína stétt.

 4. 4 baun 22 Nóv, 2009 kl. 1:13 e.h.

  Anda inn, anda út…þetta blessast allt, hef tröllatrú á þér:)
  Eða ætti það að vera tröllskessutrú?

 5. 5 parisardaman 22 Nóv, 2009 kl. 2:26 e.h.

  Það var nú einmitt verið að minna á það í íslenskum fjölmiðlum í vikunni, að enn eru í gildi lög sem banna konum að ganga í buxum í París, svo, já, það var lögbundið að einhverju leyti á einhverjum tímapunkti, hvort sem farið var eftir lögunum eða ekki.
  Ég skal alveg vera tröllskessa og þú mátt hafa tröllskessutrú á mér, takk!

 6. 6 Guðlaug Hestnes 22 Nóv, 2009 kl. 5:27 e.h.

  Mér varð nú bara um og ó við lesturinn, og óska þér góðs gengis. Tek annars undir með Baun.

 7. 7 parisardaman 23 Nóv, 2009 kl. 6:46 f.h.

  Takk takk. Ég hlýt að tækla þetta. Einhvern veginn.

 8. 8 Gigi 29 Nóv, 2009 kl. 11:09 f.h.

  Áhugaverðar þessar hugsanir um tískuna, mér finnst þú ættir að skrifa um það. Takk fyrir fína pistla.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: